Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 4/2009

Kæra vegna synjunar á umsókn um endurgreiðslu virðisaukaskatts

24.1.2009

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi dags. 21. janúar 2009 hefur B , kært fyrir hönd A skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra frá 7. janúar 2009 um að synja endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í fyrrgreindri ákvörðun synjaði embættið umsókn kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af öryggisböndum og þýðingu, textavinnslu, talsetningu og útgáfu á geisladisknum „R“, sem A var fært að gjöf. Í kærubréfi er þess krafist að fallist verði á endurgreiðslu virðisaukaskatts af fyrrgreindum gjöfum.

II. Málsmeðferð

Með umsókn dags. 17. desember 2008 sótti kærandi um endurgreiðslu virðisaukaskatts af öryggisböndum og þýðingu, textavinnslu, talsetningu og útgáfu á geisladisknum „R“, sem A var fært að gjöf. Umsókn um niðurfellingu hafnaði embætti Tollstjóra með bréfi dags. 7. janúar 2009, með vísan til þess að umsóknin uppfyllti ekki skilyrði 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Ákvörðunin var kærð með bréfi dags. 21. janúar 2009.

III. Meginröksemdir kæranda

Beiðni A um endurgreiðslu grundvallaðist á því að um væri að ræða búnað sem notaður er á umönnunar- og meðferðastofnunum, dvalar- og vistheimilum og sambýlum fyrir fatlaða. Um er að ræða endurskinsbönd sem ætluð eru sem öryggistæki í sundi fyrir flogaveika. Í greinagerð kæranda kemur fram að flogaveikir einstaklingar eiga það á hættu að fá flog hvenær sem er og eru í sérstakri hættu þegar þeir synda. Böndin eru ætluð til þess að vekja athygli á þessum einstaklingum bæði fyrir sundlaugarverði og einnig fyrir aðra sundlaugargesti sem eiga þá auðveldara með að koma auga á þá einstaklinga sem hætt eru komnir. Böndunum ásamt plakati og bæklingi sem vekur athygli á málinu hefur þegar verið dreift til flestra sundstaða á landinu.

Einnig óskaði A eftir endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna þýðingarvinnu og talsetningar á mynddiskum sem ætlaðir eru sem fræðsluefni fyrir skóla, sjúkra-, umönnunar og meðferðarstofnanir, dvalar- og vistheimili og sambýli fyrir fatlaða. Mynddiskunum er ætlað að kenna einstaklingum sem vinna á þessum stofnunum að þekkja mismunandi tegundir floga og að starfsfólk bregðist rétt við þeim aðstæðum sem upp geta komið þegar um flogaveika einstaklinga er að ræða. Bæði endurskinsböndin og útgáfa og vinna mynddiskanna var styrkt af góðgerðafélögum, samkvæmt framlögðum gögnum og upplýsingum frá A. Kærandi óskaði eftir því að Tollstjóri féllist á endurgreiðslu virðisaukaskatts af ofangreindum gjöfum.

IV. Niðurstöður

Umræddar gjafir sem A óskar eftir endurgreiðslu á eru keyptar hér á landi en ekki var um innflutning að ræða og því fellur ósk um endurgreiðslu á virðisaukaskatti af vörunum undir 6. mgr. 42. gr. laga, nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þar segir að endurgreiða skuli virðisaukaskatt af tækjum og búnaði sem mannúðar- og líknarstofnanir fá að gjöf eða kaupa fyrir styrkfé, enda sé um að ræða vöru sem nýtt er beint til viðkomandi starfsemi. Endurgreiðsluheimild þessi er bundin sömu skilyrðum og gilda um gjafir til mannúðar- og líknarstarfsemi, af vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins, og koma fram í b. lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 33. gr. reglugerðar, nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi. Í b. lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga segir að gjafir til mannúðar- og líknarstarfsemi séu tollfrjálsar, enda sé um að ræða vöru sem er nýtt beint til viðkomandi starfsemi. Samkvæmt 33. gr. reglugerðar um tollfríðindi nr. 630/2008 verður gjafþegi að vera sjúkra-, umönnunar- og meðferðarstofnun, dvalar-, vistheimili eða sambýli fyrir fatlaða, björgunarsveit, Rauði krossinn eða aðili sem hefur með höndum sambærilega starfsemi.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, skal greiða virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum. Meginreglan er því sú að greiða skal virðisaukaskatt af vörum. Undanþágur frá meginreglum skattalaga um gjaldskyldu á almennt að skýra þröngt. Því er það mat embættis Tollstjóra, með vísan til fordæma fjármálaráðuneytisins, að skilyrði undanþágu virðisaukaskatts verði tvímælalaust að vera uppfyllt. A er landssamtök áhugamanna um flogaveiki og starfar aðallega í þeim tilgangi að annast fræðslu á flogaveiki og málefnum fólks með flogaveiki og bæta félagslega aðstöðu og auka lífsgæði fólks með flogaveiki. A fellur ekki undir skilyrði ofangreindra laga- og reglugerðarákvæða og af þeirri ástæðu er ekki heimilt að veita þeim endurgreiðslu virðisaukaskatts af ofangreindri gjöf.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun Tollstjóra dags. 7. janúar 2009, þar sem að umsókn A um endurgreiðslu virðisaukaskatts af ofangreindum gjöfum var hafnað, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum