Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 7/2015

Tollflokkun á göngubretti fyrir þolprófsmælingar

6.7.2015

Reifun

Kærð var ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun á göngubretti fyrir þolprófsmælingar að gerðinni T2100 treadmill. Kærandi óskaði leiðréttingar við tollafgreiðsluna án þess þó að tiltaka nákvæmlega í hvaða tollskrárnúmer hann teldi að flokka bæri vöruna. Taldi kærandi að um væri að ræða göngubretti sem væri fylgihlutur við rafhjartarita. Meginröksemdir kæranda eru að göngubrettið hafi verið rangt tollflokkað með tilliti til gerðar þess og notkunarmöguleika. Ekki sé um hefðbundið göngu- eða hlaupabretti að ræða, engir skjáir eða borð séu á umræddu göngubretti og það sé aðeins hægt að nota með því að tengja það tölvu með flóknum búnaði til að fylgjast með hjartariti, blóðþrýstingi o.fl. hjá hjartasjúklingum eða fólki í áhættuhóp við áreynslu.

Niðurstaða:Tollstjóri féllst á kröfu kæranda og taldi umrætt göngubretti ekki ætlað til almennrar líkamsræktar eins og þau hlaupabretti sem að öllu jöfnu flokkast í vörulið 9506. Ljóst væri að ekki er hægt að nota umrædda vöru sjálfstætt. Vöruna er einungis hægt að nota í sambandi við hjartarita og telst því fylgihlutur þeirrar vöru. Í athugasemd 2 b við kafla 90 í tollskránni segir að fylgihlutir sem eingöngu eða aðallega eru nothæfir til tiltekinnar vélar skuli flokkast með þeim tegundum véla. Rafhjartaritari flokkast í tollskrárnúmer 9018.1100 og því skyldi varan flokkast í sama númer, sem fylgihlut við rafhjartarita, samkvæmt túlkunarreglu 1 og 6 og athugasemd 2 b við kafla 90 í tollskránni.

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti, dags. 4. júní 2015, hefur X kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 18. mars 2015, um tollflokkun á göngubretti fyrir þolprófsmælingar að gerðinni T2100 treadmill. Kærandi krefst þess að ákvörðun Tollstjóra um að tækið verði flokkað sem hlaupabretti í tollskrárnúmer 9506.9100 verði endurskoðuð og tækið verði flokkað sem fylgihlutur við rafhjartarita.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Þann 3. febrúar 2015 flutti kærandi inn til landsins göngubretti að gerðinni T2100 treadmill frá Írlandi með sendingu með sendingarnúmeri D 810 03 02 5 IE DUB P445. Varan hlaut EDI-afgreiðslu þann 11. febrúar og var flokkað í tollskrárnúmer 9506.9100. Kærandi óskaði leiðréttingar við tollafgreiðsluna án þess þó að tiltaka nákvæmlega í hvaða tollskrárnúmer hann teldi að flokka bæri vöruna. Taldi kærandi að um væri að ræða göngubretti sem væri fylgihlutur við rafhjartarita. Með ákvörðun Tollstjóra, dags. 18. mars 2015, var leiðréttingu hafnað. Með tölvupósti, dags. 4. júní 2015, var ákvörðun Tollstjóra um að hafna leiðréttingu á tollflokkun kærð en kæru fylgdu frekari tækniupplýsingar um vöruna. Tollstjóri ákvað að taka kæruna til meðferðar þrátt fyrir að kærufrestur hafi verið liðinn enda virðist sem kærandi hafi ekki fengið fullnægjandi kæruleiðbeiningar innan þess tíma.

III. Meginröksemdir kæranda

Meginröksemdir kæranda eru að göngubrettið hafi verið rangt tollflokkað með tilliti til gerðar þess og notkunarmöguleika. Í tölvupósti til embættisins, dags. 1. júní 2015, vísar kærandi í nánari tækniupplýsingar um vöruna og að þar megi sjá að ekki sé um hefðbundið hlaupabretti að ræða. Engir skjáir eða borð séu á umræddu göngubretti og það sé aðeins hægt að nota með því að tengja það tölvu með flóknum búnaði til að fylgjast með hjartariti, blóðþrýstingi o.fl. hjá hjartasjúklingum eða fólki í áhættuhóp við áreynslu.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu snýst um tollflokkun göngubretti að gerðinni T2100 treadmill. Um er að ræða göngubretti sem ber flest ytri einkenni hefðbundins göngu- eða hlaupabrettis. Umrætt göngubretti er hins vegar ekki ætlað til almennrar líkamsræktar eins og þau hlaupabretti sem að öllu jöfnu flokkast í vörulið 9506. Samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafa verið fram á kærustigi og þeim upplýsingum sem kærandi hefur gefið er ljóst að ekki er hægt að nota umrædda vöru sjálfstætt. Vöruna er einungis hægt að nota í sambandi við hjartarita og telst því fylgihlutur þeirrar vöru. Í athugasemd 2 b við kafla 90 í tollskránni segir að fylgihlutir sem eingöngu eða aðallega eru nothæfir til tiltekinnar vélar skuli flokkast með þeim tegundum véla. Rafhjartaritari flokkast í tollskrárnúmer 9018.1100.

Með vísan í ofangreint er niðurstaða embættis Tollstjóra sú að fallast beri á kröfu kæranda um að tollflokkun umræddrar vöru skuli endurskoðuð. Skal hún flokkuð í tollskrárnúmer 9018.1100, sem fylgihlut við rafhjartarita, samkvæmt túlkunarreglu 1 og 6 og athugasemd 2 b við kafla 90 í tollskránni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um tollflokkun á göngubretti fyrir þolprófsmælingar að gerðinni T2100 treadmill, dags. 26. mars 2015, er felld úr gildi.

Umrædd vara skal flokkuð í tollskrárnúmer 9018.1100, sem fylgihlut við rafhjartarita.

Virðingarfyllst,

f.h. Tollstjóra

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum