2016

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 15/2016

10.2.2016

Úrskurður nr. 15/2016

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2016, miðvikudaginn 10. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 186/2015; beiðni A, kt. [...], dags. 9. september 2015, um endurupptöku á úrskurðum yfirskattanefndar nr. 318/2014 og 76/2015. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur 

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 9. september 2015, hefur umboðsmaður kærenda farið fram á að úrskurðir yfirskattanefndar nr. 318/2014, sem kveðinn var upp 31. desember 2014 í máli kæranda vegna álagningar opinberra gjalda hennar gjaldárin 2006, 2007, 2008, 2009 og 2010, og nr. 76/2015, sem kveðinn var upp 18. mars 2015 vegna kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins um að kæranda yrði gerð skattsekt vegna meintra brota á skattalögum, verði enduruppteknir að því er tekur til ákvörðunar málskostnaðar til handa kæranda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Með greindum úrskurði yfirskattanefndar nr. 318/2014 voru felldar úr gildi þær ákvarðanir ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði hans, dags. 21. ágúst 2013, að hækka framtaldar arðgreiðslur frá erlendu félagi, X, í skattframtölum kæranda um 11.897.876 kr. gjaldárið 2006, 8.580.011 kr. gjaldárið 2007, 7.950.572 kr. gjaldárið 2008, 1.903.082 kr. gjaldárið 2009 og um 4.258.506 kr. gjaldárið 2010. Endurákvörðun ríkisskattstjóra fór fram í kjölfar rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum kæranda vegna tekjuáranna 2005, 2006, 2007, 2008 og 2009 sem lauk með skýrslu embættisins, dags. 22. febrúar 2012. Voru ákvarðanir ríkisskattstjóra fyrst og fremst byggðar á upplýsingum í ársreikningum hins erlenda félags vegna rekstraráranna 2002 til og með 2008 sem skattrannsóknarstjóri ríkisins hafði aflað frá Lúxemborg í tengslum við rannsókn sína. Bæði skattrannsóknarstjóri ríkisins og ríkisskattstjóri drógu þá ályktun af upplýsingum í ársreikningunum að kærandi hefði sem eini eigandi X fengið hærri fjárhæðir í sinn hlut frá hinu erlenda félagi þau ár sem um ræðir heldur en tilgreindar voru í skattframtölum hennar eða sem næmi samtals 34.590.047 kr. Með úrskurði sínum nr. 318/2014 felldi yfirskattanefnd endurákvörðun ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum kæranda gjaldárin 2006, 2007, 2008 og 2009 úr gildi á þeim grundvelli að lagafyrirmæla um boðun fyrirhugaðra breytinga í 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 hefði ekki verið gætt áður en ríkisskattstjóri hratt umræddum breytingum í framkvæmd. Þá var endurákvörðun ríkisskattstjóra vegna gjaldársins 2010 felld úr gildi á þeim forsendum að ekki þætti hafa verið sýnt fram á það af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og ríkisskattstjóra að arðgreiðslur frá X væru vanframtaldar í skattframtali kæranda árið 2010. Þá hefði ekki hafa verið lagður viðhlítandi grundvöllur að ákvörðun arðstekna vegna úthlutunar við slit hins erlenda félags á árinu 2009 umfram það sem tilgreint væri af hálfu kæranda í skattframtali hennar árið 2010, enda yrði naumast talið að ákvörðun ríkisskattstjóra hefði í reynd verið byggð á slíkum forsendum. Tekið var fram í úrskurðinum að með honum væri ekki tekin efnisleg afstaða til ágreiningsefna málsins umfram það sem leiddi af umfjöllun í forsendum úrskurðarins. 

Í málinu var þess krafist af hálfu kæranda, sbr. kæru til yfirskattanefndar, dags. 18. nóvember 2013, að henni yrði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum, og tekið fram að yfirlit yfir málskostnað yrði lagt fyrir yfirskattanefnd þegar kostnaður yrði allur fram kominn. Um þann þátt málsins segir svo í úrskurði yfirskattanefndar nr. 318/2014: 

„Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Í málinu liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um kostnað kæranda af málinu, en ætla verður þó að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Með vísan til þess og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákvarðaður 100.000 kr.“

Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 76/2015 var tekin til afgreiðslu krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 24. október 2013, um að yfirskattanefnd tæki mál kæranda til sektarmeðferðar vegna meintra brota á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, vegna tekjuáranna 2005, 2006, 2007, 2008 og 2009. Var krafa skattrannsóknarstjóra byggð á því að kærandi hefði staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngum skattframtölum vegna tekjuáranna  2005 til og með 2009 með því að vanframtelja tekjur fengnar frá fyrrgreindu erlendu félagi í hennar eigu um 11.897.876 kr. gjaldárið 2006, um 8.580.011 kr. gjaldárið 2007, um 7.950.572 kr. gjaldárið 2008, um 1.903.082 kr. gjaldárið 2009 og um 4.258.506 kr. gjaldárið 2010. Af hálfu kæranda var kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins mótmælt með bréfi umboðsmanns hennar, dags. 31. janúar 2014. Með greindum úrskurði yfirskattanefndar var sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins vísað frá yfirskattanefnd. Í úrskurðinum var gerð grein fyrir annmörkum á framsetningu kröfugerðar skattrannsóknarstjóra. Þá var vísað til þess að endurákvörðun ríkisskattstjóra, sem byggð hefði verið á skýrslu skattrannsóknarstjóra sem lægi til grundvallar sektarkröfu, hefði að því er varðaði gjaldárin 2006, 2007, 2008 og 2009 verið felld úr gildi með úrskurði yfirskattanefndar nr. 318/2014 á þeim grundvelli að andmælaréttar hafði ekki verið gætt. Þá hefði endurákvörðun ríkisskattstjóra hvað varðaði gjaldárið 2010 verið felld úr gildi með því að ekki hefði verið sýnt fram á að arðgreiðslur hefðu verið vantaldar í skattframtali kæranda það ár. Samkvæmt þessu hefði efnislegur ágreiningur málsins ekki verið leiddur til lykta um annað en það sem fram kæmi í úrskurði yfirskattanefndar nr. 318/2014 varðandi gjaldárið 2010. Varð niðurstaðan samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar nr. 76/2015 sem fyrr segir sú að vísa sektarkröfu skattrannsóknarstjóra frá yfirskattanefnd. 

Af hálfu kæranda var þess krafist með bréfi umboðsmanns hennar til yfirskattanefndar, dags. 31. janúar 2014, að málskostnaður kæranda yrði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Með tölvupósti til yfirskattanefndar 3. febrúar 2014 lagði umboðsmaður kæranda fram tímaskýrslur og afrit reiknings frá lögmannsstofu tilnefnds verjanda kæranda við meðferð máls hennar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Tilgreindi umboðsmaður kæranda að kostnaðar kæranda vegna endurákvörðunar ríkisskattstjóra og sektarkröfu skattrannsóknarstjóra væri samtals 1.252.804 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti vegna vinnu umboðsmanns og tilnefnds verjanda kæranda við málið. Um þennan þátt málsins segir svo í úrskurði yfirskattanefndar nr. 76/2015: 

„Umboðsmaður gjaldanda hefur gert kröfu um að gjaldanda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Með hliðsjón af framlögðum gögnum um kostnað gjaldanda af málinu og með vísan til lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, þykir málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði hæfilega ákveðinn 150.000 kr.“

III.

Í beiðni umboðsmanns kæranda um endurupptöku er tekið fram að svo virðist sem upplýsingar um kostnað kæranda af málarekstri sínum fyrir skattyfirvöldum hafi ekki ratað í viðeigandi málsskjöl þannig að yfirskattanefnd hafi ekki lagt þær til grundvallar ákvörðun um málskostnað í málunum. Sé um þetta vísað til gagna sem hafi fylgt áður sendum tölvupósti umboðsmannsins. Sé farið fram á að umræddir úrskurðir yfirskattanefndar verði enduruppteknir með það fyrir augum að úrskurðaður málskostnaður verði í takt við annars vegar venjur í skattamálum og hins vegar í samræmi við sjónarmið um að sakaður maður eigi að vera skaðlaus af kostnaði sínum ef hann reynist saklaus af sakaráburði, eins og háttað hafi til hjá kæranda. Virðist kostnaður að fjárhæð u.þ.b. 950.000 kr. enn óbættur. Þar til viðbótar komi kostnaður vegna vinnu við að gaumgæfa útreikninga í málum kæranda, sem reynst hafi vitlausir, en lagt sé í mat yfirskattanefndar að ákveða hvernig með skuli fara vegna þeirrar vinnu. 

IV. 

Með 2. mgr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er breytti 2. mgr. 8. gr. þeirra laga, var lögfest að yfirskattanefnd gæti úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði. Ákvæði þetta er svohljóðandi:

„Nú fellur úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, og getur yfirskattanefnd þá úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi hann haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur.“

Eins og fram er komið varðar endurupptökubeiðni kæranda tvo úrskurði yfirskattanefndar sem kveðnir voru upp 31. desember 2014 og 18. mars 2015. Það leiddi af niðurstöðu í báðum málunum að viðurkennt var að kæranda bæri réttur til greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. skilyrði fyrir ákvörðun málskostnaðar í framangreindu lagaákvæði, en krafa um greiðslu málskostnaðar lá fyrir bæði í kæru til yfirskattanefndar, dags. 18. nóvember 2013, vegna úrskurðar ríkisskattstjóra frá 21. ágúst 2013, og í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 31. janúar 2014, sem sent var yfirskattanefnd vegna fyrirliggjandi sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Með tölvupósti til yfirskattanefndar 3. febrúar 2014 lagði umboðsmaður kæranda fram yfirlit um 28,75 vinnustundir vegna máls kæranda á tímabilinu 28. febrúar 2012 til 31. janúar 2014 og gerði grein fyrir einingarverði sem nam ýmist 15.500 kr. eða 22.000 kr. Samkvæmt því reiknaðist heildarfjárhæð 603.250 kr., en þar mun virðisaukaskattur ekki vera innifalinn. Jafnframt fylgdi tölvupóstinum reikningur vegna vinnu skipaðs verjanda kæranda vegna máls hennar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Er reikningsfjárhæð að meðtöldum virðisaukaskatti þar tilgreind 495.725 kr.

Eins og fram kemur í úrskurði yfirskattanefndar nr. 76/2015 var höfð hliðsjón af umræddu málskostnaðaryfirliti umboðsmanns kæranda við ákvörðun málskostnaðar samkvæmt þeim úrskurði. Á hinn bóginn láðist að taka tillit til yfirlitsins við ákvörðun málskostnaðar samkvæmt úrskurði nr. 318/2014. Var ranglega tekið fram í umfjöllun um málskostnaðarkröfu að ekki lægju fyrir neinar upplýsingar um kostnað kæranda af málinu. Samkvæmt þessu byggir endurupptökubeiðni hvað síðarnefndan úrskurð varðar á gögnum sem ekki var litið til við meðferð þess máls hjá yfirskattanefnd. Að þessu virtu er fallist á að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar hvað varðar ákvörðun málskostnaðar vegna kæru til yfirskattanefndar, dags. 18. nóvember 2013. Beiðni kæranda er á hinn bóginn hafnað að því leyti sem hún lýtur að ákvörðun málskostnaðar samkvæmt úrskurði nr. 76/2015.

Gögn með endurupptökubeiðni kæranda, sbr. einnig tölvupóst frá 3. febrúar 2014, eru sem fyrr segir tvíþætt, þ.e. annars vegar yfirlit um vinnu umboðsmanns kæranda vegna máls kæranda á tímabilinu 28. febrúar 2012 til 31. janúar 2014 og hins vegar reikningur vegna skipaðs verjanda kæranda við rannsókn máls hennar hjá embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins. Fyrrnefnt gagn varðar þannig vinnu umboðsmanns kæranda allt frá því að rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum kæranda lauk hinn 22. febrúar 2012 til þess tíma að lögð var fram vörn til yfirskattanefndar vegna kröfu skattrannsóknarstjóra um ákvörðun skattsektar á hendur kæranda. Telja verður að það leiði af ákvæðum um málskostnað í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992 að til kostnaðar vegna meðferðar kærumáls teljist fyrst og fremst kostnaður við rekstur málsins fyrir yfirskattanefnd, þ.e. vegna ritunar kæru til nefndarinnar og/eða greinargerðar fyrir kæruatriðum, samningar andsvara vegna kröfugerðar ríkisskattstjóra og vegna málflutnings fyrir nefndinni, ef til kemur. Vísast einnig um þetta til núgildandi starfsreglna yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar, sem birtar eru á vef nefndarinnar og komu til framkvæmda 1. janúar 2015, en starfsreglur þessar fela í meginatriðum í sér orðan þeirra viðmiðana sem stuðst hefur verið við um árabil hjá yfirskattanefnd á þessu sviði. Í starfsreglunum er tekið fram að jafnframt skuli taka tillit til kostnaðar vegna meðferðar máls hjá ríkisskattstjóra, sem verði tilefni kæru til yfirskattanefndar, svo sem vegna ritunar andmælabréfs, að því leyti sem þar komi fram skýringar eða röksemdir sem þýðingu hafi og ekki séu reifaðar í kæru. Tekið er fram til skýringar að það felist í þessari viðmiðunarreglu að ekki sé ákvarðaður málskostnaður vegna endurtekinnar vinnu við útlistun kæruefnis á tveimur stigum málsmeðferðar. Ekki hafa verið lagðir fram reikningar vegna vinnu umboðsmanns kæranda vegna kæru til yfirskattanefndar eða annarrar vinnu sem gerð er grein fyrir í yfirlitinu. Hvað síðarnefnt gagn varðar skal tekið fram að með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 18. október 2011, var B, tilnefnd verjandi kæranda við rannsókn embættisins. Byggði sú tilnefning á ákvæðum 30. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 7. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Mælt er fyrir um greiðslur vegna þóknunar skipaðs verjanda í 38. gr. laga nr. 88/2008. Kostnaður kæranda vegna starfa skipaðs verjanda getur þegar af þessari ástæðu ekki komið til álita við ákvörðun málskostnaðar samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992. Við ákvörðun málskostnaðar vegna kæru til yfirskattanefndar þykir mega hafa hliðsjón af yfirliti umboðsmanns kæranda, en taka verður jafnframt tillit til þess að reikningar liggja ekki fyrir.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið og að öðru leyti með vísan til lagaskilyrða fyrir greiðslu slíks kostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kæranda samkvæmt úrskurði nr. 318/2014 hæfilega ákvarðaður 280.000 kr. í stað 100.000 kr. Málskostnaðarfjárhæð hækkar því um 180.000 kr. frá fyrri ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Fallist er á endurupptöku úrskurður yfirskattanefndar nr. 318/2014 að því er tekur til málskostnaðar. Ákvarðast málskostnaður samtals 280.000 kr. Málskostnaður hækkar því um 180.000 kr. frá fyrri ákvörðun. 

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum