Fréttir og tilkynningar


Birting álagningar einstaklinga 2023

23.5.2023

Niðurstöður álagningar einstaklinga 2023, vegna tekna 2022, hafa verið birtar á þjónustuvef Skattsins. Inneignir verða greiddar út 1. júní og launagreiðendur fá upplýsingar um skuldir til að draga af launum.

Við álagningu eru gerðir upp ofgreiddir og vangreiddir skattar vegna fyrra árs auk þess sem lögð eru á gjöld s.s. útvarpsgjald og gjald í framkvæmdasjóð aldraðra.

Opna þjónustuvef til að skoða niðurstöður álagningar

Leiðbeiningar

Útbúnar hafa verið stuttar leiðbeiningar um hvernig lesa megi úr álagningunni á íslensku, ensku og pólsku, og sem bæklingar á íslensku og ensku.

Forsendur fyrir álagningu gjalda sem lögð eru á árið 2023

Inneignir verða greiddar út 1. júní

Inneignir eru lagðar inn á þann bankareikning sem skráður er hjá innheimtumönnum. Ef engar upplýsingar um skráðan bankareikning liggja fyrir er hægt að skrá nýjan eða breyta fyrri skráningu á þjónustuvef Skattsins.

Skuldir

Skuld eftir álagningu er skipt niður á sjö gjalddaga. Innheimta skulda fer í gegnum launagreiðendur. Þeim er send krafa um að draga skuld frá launum hvers mánaðar.

Ég vil skipta greiðslunni á lengra tímabil

Þau sem það vilja geta samið um að gera nýja greiðsluáætlun og skipta greiðslunni á lengra tímabil. Greiðsluáætlanir eru gerðar á mínum síðum á Ísland.is.

Greiðsluáætlun er gerð til að lækka mánaðarlega greiðslubyrði en á móti kemur hærri vaxtakostnaður.

Nánar um greiðsluáætlanir

Ferlið er aðgengilegt bæði á íslensku og ensku.

Innheimta hjá sjálfstætt starfandi og fólki ekki í vinnu

Þau sem ekki eru í vinnu eða starfa sjálfstætt fá sendan greiðsluseðil vegna innheimtu skatta eftir álagningu.

Þjónusta

Nánari upplýsingar um niðurstöðu álagningar má fá með því að senda fyrirspurn eða hringja.

Sími 442 1414 vegna upplýsinga um álagningu.
Sími 442 1000 vegna almennra fyrirspurna og innheimtu.

Spurt og svarað

Rafræn skilríki og veflyklar

Niðurstöður álagningar eru aðgengilegar á þjónustuvef og þarf að nota rafræn skilríki eða veflykil til innskráningar. Mögulegt er að panta veflykil og fá hann sendan í heimabanka. Mælt er með notkun rafrænna skilríkja sem öruggari innskráningu.

Upplýsingar um rafræn skilríki

Niðurstaða álagningar er ekki rétt, hvernig sendi ég inn leiðréttingu?

Niðurstöðu álagningar má kæra með því að senda inn beiðni um leiðréttingu.  Eftir innskráningu á þjónustuvef skal velja "Framtal" og "Beiðni um leiðréttingu". Þar er hægt að gera grein fyrir þeim efnisatriðum sem þarf að breyta á framtalinu sem liggur til grundvallar og senda viðbótargögn máli þínu til stuðnings.

Opna þjónustuvef

Ég á eftir að skila framtali – hvað geri ég?

Framtal þeirra sem eiga eftir að skila er enn aðgengilegt á þjónustuvef. Þau sem eiga eftir að skila þurfa að skrá sig inn á þjónustuvef með rafrænum skilríkjum eða veflykli og skila framtalinu. Framtalið verður þá tekið fyrir sem kæra og fær framteljandi sent bréf þegar niðurstaða liggur fyrir.

Opna þjónustuvef

Hvers vegna skulda ég?

Því er ekki auðvelt að svara. Flest þurfa að greiða útvarpsgjald og gjald í framkvæmdasjóð aldraðra. Ef þú skuldar umfram það eru hér nokkrar ástæður sem vert er að skoða hvort eigi við um þig.

  • Persónuafsláttur ofnýttur eða skattur greiddur í röngu skattþrepi, t.d. vegna greiðslna frá fleiri en einum launagreiðanda
  • Tilfallandi verktakagreiðslur
  • Styrkur sem ekki hefur verið færður frádráttur á móti.

Nánari upplýsingar um persónuafslátt

Nánari upplýsingar um skattþrep fyrir tekjuárið 2022

Ég skulda, er hægt að semja um greiðsluna?

Já, hægt er að gera greiðsluáætlun og lækka mánaðarlega greiðslubyrði.

Hægt er að ganga frá greiðsluáætlunum í sjálfsafgreiðslu á island.is að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Umsókn um greiðsluáætlun

Inn á hvaða bankareikning fer inneignin?

Inneignir eru lagðar inn á þann bankareikning sem er skráður. Hafi upplýsingar um bankareikning ekki verið veittar er einfalt að setja þær inn á þjónustuvef Skattsins www.skattur.is.

Kærufrestur er til 31. ágúst 2023

Vanti upplýsingar á skattframtal þitt sem þú telur að hafi áhrif á niðurstöður álagningar getur þú kært álagninguna. Mögulegt er að kæra í gegnum þjónustuvef með því að gera grein fyrir því sem þarf að skoða og hlaða inn viðbótargögnum málinu til stuðnings. 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum