Fréttir og tilkynningar


Framhald viðspyrnustyrkja

19.4.2022

Móttaka á umsóknum um viðspyrnustyrki hófst 13. apríl sl., sbr. lög nr. 16/2022. Annars vegar geta þeir sem ekki sóttu um fyrir tímabilið ágúst-nóvember 2021 innan fyrri frests nú sótt um þessa mánuði og hins vegar er um að ræða framhald viðspyrnustyrkja fyrir desember 2021 til og með mars 2022. Umsóknir þurfa að berast eigi síðar en 30. júní 2022.

Viðspyrnustyrkir eru ætlaðir þeim rekstraraðilum sem orðið hafa fyrir a.m.k. 40% tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru á þeim tímabilum sem um ræðir.

Sótt er um á þjónustuvef Skattsins, www.skattur.is fyrir einn mánuð í senn og þarf tekjufallið að nema a.m.k. 40% í hverjum almanaksmánuði fyrir sig á tímabilinu ágúst-nóvember 2021 annars vegar og hins vegar á tímabilinu desember 2021 til og með mars 2022 að uppfylltum ýmsum öðrum skilyrðum. Ekki eru alveg sömu skilyrði eftir því hvort sótt er um fyrri tímabil eða framhaldstímabil, m.a.:

  • Tímabilið ágúst-nóvember 2021; starfsemi þarf að hafa hafist fyrir 1. október 2020 og rekstraraðili má ekki hafa verið í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019.
  • Tímabilið desember 2021 til mars 2022; starfsemi þarf að hafa hafist fyrir 1. desember 2021 og rekstraraðili má ekki hafa verið í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga 1. ágúst 2021.

Um viðspyrnustyrki gilda lög nr. 160/2020 með breytingum samkvæmt lögum nr. 37/2021 og 16/2022.

Ljúka þarf umsókn fyrir hvern mánuð áður en hafist er handa um að sækja um fyrir næsta mánuð. Þannig þarf t.d. að fullklára umsókn fyrir desember 2021 með rafrænni undirskrift áður en sótt er um fyrir janúar 2022, og svo koll af kolli. Ef umsækjandi um viðspyrnustyrk er félag (lögaðili) skráir prókúruhafi sig inn á sína þjónustusíðu og fer þannig inn á svæði félagsins. Sjálfstætt starfandi einstaklingur fer inn í umsóknina í gegnum sína eigin þjónustusíðu.

Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér ítarlegar leiðbeiningar á vefsíðu Skattsins.

Skoða leiðbeiningar

Umsóknir um viðspyrnustyrk þurfa að berast eigi síðar en 30. júní 2022.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum