Fréttir og tilkynningar


Vettvangseftirlit RSK sumarið 2019

18.6.2019

Í sumar verður vettvangseftirliti ríkisskattstjóra hagað með hefðbundnum hætti á landsvísu. Ríkisskattstjóri hefur iðulega haft hliðsjón af ábendingum frá aðilum vinnumarkaðarins um áherslur í skatteftirliti.

Verða m.a. farnar sérstakar eftirlitsferðir í sumar, þar sem lögð verður áhersla á starfsemi tengda ferðaþjónustu, þ.m.t. starfsemi erlendra ferðaþjónustuaðila á Íslandi. Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök atvinnulífsins hafa vakið athygli á mikilvægi þessa m.t.t. jafnrar og eðlilegrar samkeppnisaðstöðu þeirra aðila sem starfa í ferðaþjónustugreinum.

Að minnsta kosti tveir hópar munu sinna vettvangseftirliti í sumar, og kanna starfssemi í öllum landsfjórðungum. Hver eftirlitsferð stendur að jafnaði yfir í viku, en það fer eftir aðstæðum hverju sinni.

Nú þegar hefur verið farið um Akureyri og nærsveitir, Seyðisfjörð og Jökulsárlón.

Eftirlitsferðir eru samkvæmt framansögðu fyrirhugaðar um Vesturland, Vestfirði, Norðurland, Austurland og Suðurland ásamt Vestmannaeyjum. Ferðir þessar dreifast á mánuðina júní, júlí og ágúst. Skipulag ferða ræðst af forgangsröðun hverju sinni.

Ríkisskattstjóri mun í samvinnu við umferðarlögregluna eiga aðild að umferðareftirliti, þar sem bifreiðar tengdar ferðaþjónustu eru sérstaklega skoðaðar s.s. á ferðamannastöðum á Suðurlandi. Sambærilegt eftirlit verður á Vesturlandi og annars staðar í nágrenni Reykjavíkur.

Í ljósi ofanritaðs vill ríkisskattstjóri ásamt Samtökum ferðaþjónustunnar og Samtökum atvinnulífsins hvetja fyrirtæki sem starfa á sviði ferðaþjónustu á Íslandi, erlend sem innlend, að fara í öllu að lögum og reglum sem gilda almennt um starfsumhverfi fyrirtækja hér á landi. 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum