Rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara í Grindavík

Fyrirtæki og sjálfstætt starfandi einstaklingar í Grindavík geta sótt um sérstakan rekstrarstuðning vegna tekjufalls sem rekja má til náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

Stuðningurinn tekur til almanaksmánaðanna nóvember 2023 til og með júní 2024.

Sótt er um fyrir hvern liðinn almanaksmánuð sérstaklega.

Umsóknarfrestur er til og með 30. september 2024.

Fjárhæð rekstrarstuðnings

Rekstrarstuðningur vegna hvers almanaksmánaðar ákvarðast af því hvor eftirtalinna fjárhæða er lægri:

  1. Rekstrarkostnaður umsækjanda þann almanaksmánuð sem umsókn varðar.
  2. Margfeldi eftirfarandi stærða (margfalda saman stafliði a. * b. * c.):
  1. 600 þúsund kr.
  2. Fjöldi stöðugilda hjá umsækjanda í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar, að hámarki tíu stöðugildi.
  3. Tekjufall skv. 2. tölul. 4. gr. (%)

Dæmi um útreikning

Rekstrarkostnaður í umsóknarmánuði er kr. 2.000.000

Fjöldi stöðugilda í umsóknarmánuði er 5,75

Tekjufall er 45%

Saman reiknast það 600.000 kr. x 5,75 x 45% = 1.552.500

Sem er lægra en viðmið skv. tölulið eitt.

Ákvarðaður styrkur getur því orðið kr. 1.552.500

Rekstrarstuðningur telst til skattskyldra tekna samkvæmt lögum um tekjuskatt.

Skilyrði fyrir rekstrarstuðningi:

  • Umsækjandi stundaði atvinnurekstur og var með tekjuaflandi starfsstöð í Grindavík 10. nóvember 2023.
  • Umsækjandi ber ótakmarkaða skattskyldu hér á landi.
  • Tekjur í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar voru a.m.k. 40% lægri en í sama almanaksmánuði ári áður og tekjufallið má rekja til náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.
  • Umsækjandi var í skilum með opinber gjöld, skýrslur og ársreikninga og bú ekki tekið til gjaldþrotaskipta (nánar að neðan)

Annað viðmiðunartímabil

Nýr rekstur

Upp geta komið tilfelli að starfsemi hefur ekki náð 12 mánuðum og ekki hægt að miða tekjufall við tekjur sama mánaðar ári áður. Skal þá miðað við meðaltekjur á jafn mörgum dögum og eru í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar frá því hann hóf starfsemi til og með 9. nóvember 2023.

Sérstakar aðstæður

Við sérstakar aðstæður má nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans en framangreind viðmiðunartímabil. Að jafnaði skal þá miðað við tekjur í sama almanaksmánuði tveimur árum áður.

Stöðugildi hvers mánaðar

Hér er um að ræða starfshlutfall þeirra starfsmanna sem ráðningarsamband er við og tekið er mið af hjá atvinnurekanda og í úrræðum Vinnumálastofnunar. Í þessu felst að til stöðugilda telst starfshlutfall starfandi starfsmanna hjá umsækjanda og starfshlutfall starfsmanna sem ekki geta gegnt störfum sínum en umsækjandi annast launagreiðslur til með stuðningi Vinnumálastofnunar.

Einnig má tiltaka starfshlutfall sem tekið er mið af vegna þeirra starfsmanna sem fá laun ekki greidd beint frá sínum vinnuveitanda vegna rekstrarörðugleika heldur fá greiðslur frá Vinnumálastofnun.

Jafnframt má tiltaka þá starfsmenn sem hefur verið sagt formlega upp í þá mánuði sem þeir fá greiðslur í uppsagnarfresti. Tekið er mið af því starfshlutfalli sem þeir voru í hjá umsækjanda.

Sjálfstætt starfandi einstaklingar með opinn rekstur tilgreina það starfshlutfall sem reiknuð laun þeirra tóku mið af í umsóknarmánuði. Einnig má tiltaka starfshlutfall sem tekið er mið af vegna greiðslna frá Vinnumálastofnun ef það á við.

Sem dæmi má nefna sjálfstætt starfandi einstakling sem var í 100% starfshlutfalli. Vegna náttúruhamfara í Grindavík lækkar raunverulegt starfshlutfall hans í atvinnurekstrinum í 25% en til viðbótar þiggur hann greiðslur m.v. 75% starfshlutfall frá Vinnumálastofnun. Samtals gerir þetta 100% starfshlutfall.

Starfshlutfall sem tekið er mið af breytist þó ef viðkomandi ræður sig í launavinnu að hluta eða öllu leyti.

Skilyrði að umsækjandi hafi staðið í skilum

Til viðbótar við formskilyrði þarf umsækjandi að hafa verið í skilum með opinber gjöld, skýrslur og ársreikninga.

  • Umsækjandi er ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir 10. nóvember 2023.
  • Álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðustu þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar.
  • Að auki skal umsækjandi hafa staðið skil á ársreikningum samkvæmt lögum um ársreikninga og upplýst um raunverulega eigendur samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda.
  • Bú skattaðila hefur ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta. Jafnframt skal hann ekki hafa verið tekinn til slita, nema ef slitin eru liður í samruna, skiptingu eða breytingu á rekstrarformi hans, og fyrirhugað er að lögaðili sem við tekur haldi rekstri sem umsókn varðar áfram.

Umsókn

Umsókn um rekstrarstuðning skal beint til Skattsins fyrir hvern almanaksmánuð og eigi síðar en 30. september 2024. Sótt er um með útfyllingu á eyðublaðinu RSK 25.01 á vef Skattsins sem er á PDF formi. 

Umsókn má senda á netfangið grindavik@skatturinn.is.

Opna umsókn RSK 25.01

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum