Persónuafsláttur

Reiknivél staðgreiðslu

Almennt

Allir sem náð hafa 16 ára aldri á tekjuárinu og eru heimilisfastir á landinu eiga rétt á persónuafslætti. Sama gildir um þá sem hafa rétt til að halda hér á landi skattalegu heimili þrátt fyrir dvöl erlendis vegna náms eða veikinda. Hjá þeim sem ná 16 ára aldri á tekjuárinu reiknast fullur persónuafsláttur fyrir allt árið.

Í samræmi við breytingar á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, voru skattkort lögð af frá og með árinu 2016

Persónuafsláttur er 54.628 kr. á mánuði á árinu 2020

Persónuafsláttur fyrri ára

 

Árið  Persónuafsláttur á mánuði
2019  56.447 kr. 
2018 53.895 kr.  
2017 52.907 kr. 
2016  51.920 kr.
2015  50.902 kr.
2014  50.498 kr.
2013  48.485 kr.
2012  46.523 kr.
2011  44.205 kr.
2010  44.205 kr.
2009  42.205 kr.

Hvernig skal nýta persónuafslátt

Skjáskot úr kynningarmyndbandi um persónuafslátt

Launamaður upplýsir launagreiðanda sinn um hvort nota eigi persónuafslátt við útreikning staðgreiðslu og þá hversu hátt hlutfall. Auk þess þarf launamaður að tilgreina í hvaða skattþrepi reikna á skatt hans af, ef ekki í því lægra. Ef launamaður á uppsafnaðan persónuafslátt eða vill nýta persónuafslátt maka upplýsir hann launagreiðanda um það. Launamaður getur fengið upplýsingar um nýttan persónuafslátt á þjónustusíðu RSK, http://www.skattur.is/. Sé þess óskað getur launamaður sótt þangað yfirlit yfir nýttan persónuafslátt á tekjuárinu til að framvísa hjá launagreiðanda.

Skattkort lögð af frá og með árinu 2016

Jafnvel þó notkun skattkorta verði hætt kallar það ekki á neinar breytingar fyrir launagreiðendur á notkun persónuafsláttar launamanna sinna. Nýtingin verður áfram með sama hætti og á síðasta launatímabili 2015, nema launamaður óski sérstaklega eftir breytingum þar á.

Á hinn bóginn verður að taka upp nýtt verklag þegar starfsmaður vill breyta nýtingu persónuafsláttar og þegar nýr starfsmaður kemur til  starfa. Hann þarf ekki að framvísa skattkorti með upplýsingum um nýtingu persónuafsláttar eins og áður hefur verið. Þess í stað upplýsir launamaður launagreiðanda um hvort nýta eigi persónuafslátt við útreikning staðgreiðslu og þá hversu hátt hlutfall. Eigi launamaður uppsafnaðan persónuafslátt eða vill nýta persónuafslátt maka upplýsir hann launagreiðanda um það. Auk þess þarf launamaður að tilgreina í hvaða skattþrepi reikna á skatt hans af, ef ekki í því lægsta. Mikilvægt er að launagreiðandi afmarki vel upphaf og lok á nýtingu persónuafsláttar og brýnt að vekja máls á mögulegri skörun í tíma á launagreiðslum og nýtingu persónuafsláttar hjá fyrri launagreiðanda.

Að halda utan um upplýsingar um persónuafslátt

Vilji launagreiðandi halda utan um upplýsingar um notkun persónuafsláttar sem hann fær frá launamönnum sínum getur launagreiðandi komið upp hverju því verklagi sem best hentar á hverjum vinnustað svo hægt sé að staðfesta að farið sé að óskum launamanns.

Hvað á að gera við gömlu skattkortin?

Eftir þessa breytingu missa gömlu skattkortin sitt fyrra gildi og hafa enga merkingu fyrir launagreiðendur aðra en staðfestingu á með hvaða hætti þeir launamenn sem hjá honum starfa hafi óskað eftir að persónuafsláttur þeirra verði nýttur. Heimilt er að farga skattkortum þeirra sem starfa hjá launagreiðanda eftir að viðeigandi ráðstafanir hafa verið gerðar sem og skattkortum þeirra sem starfa ekki lengur hjá launagreiðanda.

Skipting á launatímabil

Persónuafslætti á staðgreiðsluári er skipt jafnt niður á alla mánuði ársins. Launatímabil geta verið styttri en einn mánuður, þ.e. 1/2 mánuður, 14 dagar, vika eða styttri ef því er að skipta. Ekkert launatímabil getur þó verið lengra en einn mánuður.

Launagreiðandi skal nota persónuafslátt launamanns við útreikning staðgreiðslu hans, hafi þess verið óskað. Launagreiðanda er heimilt að taka tillit til persónuafsláttar, sem samkvæmt upplýsingum frá launamanni, hefur ekki verið nýttur það sem af er tekjuárinu.

Fjárhæð persónuafsláttar 2020 er samtals 655.538 kr. Við ákvörðun staðgreiðslu opinberra gjalda skal því draga persónuafslátt frá reiknuðum skatti sem hér segir:

Ef launatímabil er einn mánuður        54.628 kr.
Ef launatímabil er hálfur mánuður      27.314 kr.
Ef launatímabil er fjórtán dagar          25.075 kr.
Ef launatímabil er ein vika                  12.538 kr.

Ef launatímabil er annað en að framan greinir skal ákvarða persónuafslátt launatímabils þannig:

 Kr. 655.538  x  dagafjöldi launatímabilsins
       366

Nýr launamaður

Þegar hefja á greiðslur til nýs launamanns þarf hann að upplýsa launagreiðanda sinn um hvort nýta eigi persónuafslátt við útreikning staðgreiðslu og þá hversu hátt hlutfall. Eigi launamaður uppsafnaðan persónuafslátt eða vill nýta persónuafslátt maka upplýsir hann launagreiðanda einnig um það.

Skjáskot úr kynningarmyndbandi um persónuafslátt

Persónuafsláttur maka

Launamanni er heimilt að nýta ónýttan persónuafslátt maka að hluta eða öllu leyti ef skilyrðum fyrir samsköttun eru uppfyllt.
Nánari upplýsingar um skilyrði fyrir samsköttun.

 

Ábyrgð á réttri nýtingu persónuafsláttar

Launamaður og launagreiðandi bera, skv.  reglugerð 535/2016, um persónuafslátt, sameiginlega ábyrgð á ráðstöfun persónuafsláttar. Komi til ofnýtingar hans er það launamannsins að greiða mismuninn. Ríkisskattstjóri vinnur markvisst að því að stöðva ofnýtingu um leið og hún kemur fram í staðgreiðsluskilum og geta launamenn átt von á því að þurfa að leiðrétta ofnýttan persónuafslátt innan staðgreiðsluársins.  Sé það ekki gert getur launamaður þurft að greiða mismuninn auk álags í álagningu árið á eftir þegar tekjuárið er gert upp með skattframtali.

Uppsafnaður persónuafsláttur

Launagreiðanda er heimilt að taka tillit til persónuafsláttar sem, samkvæmt upplýsingum frá launamanni, hefur ekki verið nýttur það sem af er árinu. Upplýsingar um nýttan persónuafslátt innan ársins getur launamaður fundið á þjónustusíðu RSK, www.skattur.is og framvísað yfirliti þess efnis til launagreiðanda sé þess óskað. Eigi launamaður uppsafnaðan persónuafslátt í lok árs færist hann ekki yfir á nýtt staðgreiðsluár. Sérstakar reglur gilda um uppsöfnun persónuafsláttar fyrir erlendis búsetta, sbr. kafla um flutning til/frá landinu.

Til að ákvarða þá fjárhæð sem launamaður á af uppsöfnuðum persónuafslætti þarf að margfalda persónuafslátt hvers mánaðar með fjölda mánaða sem liðinn er af árinu.  Frá þeirri fjárhæð skal draga þann persónuafslátt sem nýttur hefur verið á árinu til þessa og fæst þá fjárhæð uppsafnaðs persónuafsláttar.
Sérstakar reglur gilda um uppsöfnun persónuafsláttar fyrir erlendis búsetta, sbr. kafla um flutning til/frá landinu.  

 

Flutningur til/frá landinu

Flytjist menn til eða frá landinu á tekjuárinu eða starfa aðeins tímabundið á Íslandi reiknast persónuafsláttur aðeins fyrir þann tíma sem þeir voru hér heimilisfastir. Við útreikning á persónuafslætti er miðað við dagafjölda á dvalartímanum. Athygli er vakin á að erlendir ríkisborgarar frá ríkjum utan EES þurfa að vera með gilt dvalar- og atvinnuleyfi.

Persónuafsláttur manna með rekstur

Sá sem hefur með höndum sjálfstæðan atvinnurekstur og reiknar sér endurgjald vegna starfseminnar þarf sjálfur að halda utan um fjárhæð persónuafsláttar til að nýta við ákvörðun á staðgreiðslu. Ef um reiknað endurgjald maka er að ræða gilda sömu reglur um persónuafslátt hans og um persónuafslátt launamanna sem starfa við reksturinn.

Persónuafsláttur við andlát

Hjá þeim sem látast á árinu og láta ekki eftir sig maka reiknast persónuafsláttur til dánardags.

Nýting persónuafsláttar látins maka

Eftir andlát annars hjóna eða annars sambúðaraðila (þegar um er að ræða sambúðarfólk sem uppfyllt hefur skilyrði fyrir samsköttun), er eftirlifandi maka heimilt að nýta persónuafslátt hins látna í níu mánuði, talið frá og með andlátsmánuði. Falli maki frá í maí eða síðar á árinu, færist réttur til nýtingar á hluta persónuafsláttar hans yfir áramót. Reglur um millifærslu persónuafsláttar á þessu níu mánaða tímabili eru þær sömu og gilda um millifærslu.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum