Jafnréttisstefna ríkisskattstjóra

Meginstefna

Ríkisskattstjóri metur hvern starfsmann á hans eigin forsendum og hefur að leiðarljósi að gætt sé fyllsta jafnréttis. Í því felst m.a. að kynbundin mismunun er andstæð þeim markmiðum að jafnræði skuli vera í hvívetna milli starfsmanna. Verði slíkt uppvíst skal rétta hlut þess sem ójafnræðis hefur sætt.

Markmið

Markmið jafnréttisstefnu ríkisskattstjóra er að viðhalda jafnri stöðu starfsmanna hjá embættinu og jöfnum tækifærum þeirra á sem flestum sviðum, óháð kynferði.

Leiðir að markmiðum

  • Gæta skal jafnréttis við ráðningar í störf og tilfærslur í starfi.
  • Gera skal starfsmönnum kleift að samræma vinnu og einkalíf.
  • Greiða skal sömu laun fyrir jafnt metin eða sömu störf.
  • Starfsmenn skulu hafa jafnan aðgang að starfsmenntun og -þjálfun.
  • Einelti og kynferðisleg áreitni er ekki liðin.

Ráðningar

Við nýráðningar eru störf í boði jafnt konum sem körlum og er litið til kynjahlutfalla í sambærilegum störfum, eða eftir atvikum í viðkomandi starfseiningu, reynist tveir umsækjendur jafnhæfir. Standi val á milli tveggja jafnhæfra einstaklinga sem sækja um auglýsta stöðu gengur sá að öðru jöfnu fyrir við ráðningu sem er af því kyni sem er í minnihluta í slíkum störfum á vinnustaðnum eða í viðkomandi starfseiningu.

Árlega er gerð úttekt á því hvernig kynjaskipting nýráðninga hefur verið undangengna 12 mánuði.

Samræming vinnu og einkalífs

Samskipti hjá ríkisskattstjóra byggjast á trausti milli starfsmanna og vinnustaðarins og eru starfsmenn upplýstir og meðvitaðir um það. Séu aðstæður starfsmanns óvenjulegar á einhvern hátt getur hann leitað til yfirmanns síns eða starfsmannastjóra sem leita leiða til að mæta þörfum viðkomandi.

Leitast er við að taka tillit til einstaklingsbundinna aðstæðna starfsmanna eftir því sem unnt er. Starfsmenn eiga kost á sveigjanlegum vinnutíma til að auðvelda samræmingu starfs og einkalífs. Leitast er við að koma til móts við óskir starfsmanna um tímabundið hlutastarf vegna endurkomu úr barnseignar- eða veikindaleyfi og einnig sem leið til að draga úr vinnu í aðdraganda starfsloka og lífeyristöku.

Ef eðli starfs leyfir og viðveru á vinnustað vegna símsvörunar eða móttöku viðskiptavina er ekki krafist getur starfsmaður í samráði við yfirmann unnið hluta starfs síns að heiman. Þessi sveigjanleiki hefur um langt skeið staðið öllum starfsmönnum til boða og ekki eru fyrirhugaðar breytingar þar á. Ábyrgð á framkvæmd liggur hjá öllum stjórnendum með mannaforráð en starfsmenn bera sjálfir ábyrgð á að vel sé farið með frjálsræðið.

Öllum starfsmönnum gefst kostur á að leggja mat á samræmingu vinnu og einkalífs í árlegri, hlutlausri könnun SFR á Stofnun ársins og eru niðurstöður hennar nýttar til mats á þessum þætti.

Launakjör

Laun og önnur starfskjör, starfsaðstæður eða hlunnindi skulu vera jöfn fyrir sambærileg eða ámóta verðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun séu ákveðin á sama hátt fyrir alla starfsmenn. Ákvarðanir sem hafa áhrif á launakjör skulu byggjast á málefnalegum forsendum og jafnréttis gætt. Viðmið sem sett eru til grundvallar launaákvörðunum skulu ekki fela í sér kynjamismunun.

Komi mismunur í ljós í reglulegu, árlegu eftirliti eða á öðrum tímapunkti skal tafarlaust rétta hlut þess sem hallaði á. Ábyrgð á framkvæmd og eftirfylgni er hjá ríkisskattstjóra og starfsmannastjóra.

Starfsþróun

Allir starfsmenn hafa jafna möguleika til að sækja námskeið, endurmenntun og til að taka þátt í starfsþjálfun.

Allir starfsmenn fá árlegan fræðslustyrk til sí- og endurmenntunar að eigin vali. Meti yfirmaður það svo að námskeiðið nýtist í starfi er heimilt að sækja það á vinnutíma.

Sú fræðsla sem stjórnandi metur að starfsmenn, óháð kyni, þurfi á að halda starfs síns vegna er þeim að kostnaðarlausu og á vinnutíma.

Samskipti á vinnustað

Þjónusta við almenning, viðskiptalífið og hið opinbera kallar á fjölbreyttar lausnir sem best verður mætt með því að hjá ríkisskattstjóra starfi fólk á öllum aldri með mismunandi bakgrunn, reynslu og menntun. Ætlast er til að allir starfsmenn umgangist hver annan af virðingu og kurteisi og stuðli þannig að vinsamlegu og jákvæðu andrúmslofti í samfélagi vinnustaðarins. Ef ágreiningur verður milli starfsmanna skal leitast við að leysa hann með uppbyggilegum hætti.

Einelti og kynferðisleg áreitni er hegðun sem er ekki liðin. Verklagsreglur vegna eineltismála hafa verið útbúnar og eru öllum starfsmönnum aðgengilegar á innri vef.

Ábyrgð og aðgerðir

Ríkisskattstjóri hefur um árabil unnið með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi. Starfsmannastjóri vinnur að því að jafnréttisstefnu sé framfylgt og leggur mat á hvort markmiðum hennar sé náð. Hann gerir árlega úttektir á stöðu jafnréttismála og lagfærir út frá því ef þörf reynist á.

Ábyrgð á framgangi jafnréttismála er hjá ríkisskattstjóra, starfsmannastjóra og sviðsstjórum nema annað sé tekið fram í einstökum greinum stefnu þessarar.

Starfsmannastjóri endurskoðar jafnréttisstefnu þessa á þriggja ára fresti og mun leggja tillögu að endurskoðaðri jafnréttisstefnu fyrir ríkisskattstjóra eigi síðar en í desember 2016.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum