Stjórnsýslureglur

Hér eru upplýsingar um ýmis atriði sem skipta máli við málsmeðferð tollatengdra mála hjá embættinu.

Leiðbeiningarskylda

Í stjórnsýslulögum kemur fram að stjórnvaldi ber að veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi mál sem eru á starfssviði þess. Þetta gildir m.a. um tollyfirvöld. Þá segir í tollalögum að tollyfirvöldum sé skylt að veita almennar upplýsingar og leiðbeiningar um tollflokkun vöru, ákvörðun tollverðs, gjaldtöku, útfyllingu á tollskýrslu, kæruleiðir og hvað eina sem lýtur að tollafgreiðslu. Í þessum lagaákvæðum felst víðtækur réttur þeirra, sem eiga samskipti við tollinn, til að fá hjá tollyfirvöldum nauðsynlega aðstoð og upplýsingar eða leiðbeiningar.

Upplýsingaréttur

Aðili máls á rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varða. Fari aðili fram á að fá afrit eða ljósrit af málsskjölum skal orðið við þeirri beiðni nema skjölin séu þess eðlis eða fjöldi þeirra svo mikill að það sé verulegum vandkvæðum bundið. Ákveðnar takmarkanir eru þó á upplýsingarétti aðila.

Málshraði

Almenna reglan er sú að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Dragist afgreiðsla máls óhæfilega er heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, eftir atvikum til tollstjóraembættisins sjálfs, yfirskattanefndar eða fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Útreikningur frests

Sé kveðið á um frest telst sá dagur, sem fresturinn er talinn frá, ekki með í frestinum.  Ef lokadagur frests er almennur frídagur lengist fresturinn til næsta opnunardags þar á eftir. Að öðru leyti ber að telja frídaga með sem eru innan frestsins þegar fresturinn er reiknaður. Dæmi: Sé veittur 15 daga frestur frá 1. ágúst, skal byrja að telja frestinn daginn eftir, eða 2. ágúst. Er frestur því liðinn við lokun 16. ágúst.

Rannsóknarreglan

Tollyfirvöld skulu sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.

Jafnræðisreglan

Við úrlausn mála skulu tollyfirvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Óheimilt er að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum.

Meðalhófsreglan

Tollyfirvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

Andmælaréttur

Aðili máls skal eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Eigi aðili máls rétt á að tjá sig um efni þess skal tollyfirvald, svo fljótt sem því verður við komið, vekja athygli aðila á því að mál hans sé til meðferðar, nema ljóst sé að hann hafi fengið vitneskju um það fyrir fram.

Frestun máls

Stjórnvaldi er heimilt að setja málsaðila ákveðinn frest til þess að kynna sér gögn máls og tjá sig um það. Að öðrum kosti getur aðili á hvaða stigi málsmeðferðar sem er krafist þess að afgreiðslu málsins sé frestað uns honum hefur gefist tími til þess að kynna sér gögn og gera grein fyrir afstöðu sinni. Máli skal þó ekki frestað ef það hefur í för með sér að farið sé fram úr lögmæltum fresti til afgreiðslu málsins.

Rökstuðningur

Aðili máls getur krafist þess að tollyfirvald rökstyðji ákvörðun sína skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt, nema umsókn aðila hafi verið tekin til greina að öllu leyti. Beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun skal bera fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt ákvörðunin og skal stjórnvald svara henni innan 14 daga frá því að hún barst.

Breyting og leiðrétting á ákvörðun

Tollyfirvald getur breytt ákvörðun sinni þar til hún hefur verið tilkynnt aðila máls. Eftir að aðila hefur verið tilkynnt um ákvörðun er stjórnvaldi heimilt að leiðrétta bersýnilegar villur í henni, enda tilkynni stjórnvaldið aðila um leiðréttinguna án tafar og láti þeim sem fengið hefur endurrit af ákvörðuninni nýtt endurrit í té.

Endurupptaka máls

Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt aðila máls, á hann rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun, eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Afturköllun ákvörðunar

Tollyfirvald getur afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem tilkynnt hefur verið aðila máls, þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila, eða ákvörðun er ógildanleg.

Kæruheimildir

Kærur til Tollstjóra

Þegar um er að ræða ágreining um tollmeðferð sendingar, t.d. gjaldskyldu vöru, tollflokkun, tollverð eða fjárhæð aðflutningsgjalda, getur aðili óskað eftir að fá skriflegan úrskurð Tollstjóra í deilumálinu. Um tollstjóraúrskurði gilda eftirfarandi meginreglur:

  • Aðili skal fara fram á úrskurð með skriflegri, rökstuddri kæru og henni eiga að fylgja nauðsynleg gögn.
  • Ef ágreiningur er um tollafgreidda vörusendingu, er kærufrestur 60 dagar frá tollafgreiðsludegi.
  • Tollstjóra ber að meginstefnu til að úrskurða í kærumáli innan 30 daga frá því gagnaöflun er lokið.
  • Úrskurður Tollstjóra á að vera rökstuddur.
  • Úrskurður Tollstjóra er bindandi fyrir viðkomandi aðila og tollyfirvöld.
  • Kæra má úrskurð Tollstjóra til yfirskattanefndar eða fjármálaráðherra eftir atvikum.

Kærur til yfirskattanefndar

Yfirskattanefnd getur úrskurðað í tilteknum ágreiningsmálum sem skotið er til hennar og varða starfssvið tollyfirvalda. Nefndin skal vera hlutlaus í störfum sínum. Eftirtöldum ákvörðunum tollyfirvalda má skjóta til yfirskattanefndar:

  • Úrskurði Tollstjóra í ágreiningsmáli sem ekki verður skotið til ráðherra.
  • Ákvörðun Tollstjóra um bindandi tollflokkun.
  • Endurákvörðun Tollstjóra á gjöldum.

Um málsmeðferð hjá yfirskattanefnd gilda eftirfarandi meginreglur:

  • Kæruaðild eiga viðkomandi aðili og Tollstjóri.
  • Kærufrestur er 60 dagar talið frá póstlagningu úrskurðar eða ákvörðunar.
  • Kærur eiga að vera skriflegar og rökstuddar og þeim eiga að fylgja nauðsynleg gögn. 
  • Úrskurður yfirskattanefndar er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi.
  • Nefndin skal hafa úrskurðað innan 30 daga frá því að gagnaöflun er lokið.
  • Úrskurður yfirskattanefndar er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi. Málskot til almennra dómstóla um úrlausnarefni sem farið hefur fyrir nefndina frestar ekki eða breytir niðurstöðu hennar fyrr en dómur er genginn.

Kærur til ráðherra

Heimilt er að skjóta úrskurðum Tollstjóra, öðrum en þeim sem sæta kæru til yfirskattanefndar, til ráðherra.

Um málsmeðferðina gilda eftirfarandi meginreglur:

  • Kærufrestur er 60 dagar frá uppkvaðningu úrskurðar. 
  • Kærur skulu vera skriflegar og rökstuddar og þeim eiga að fylgja nauðsynleg gögn.
  • Ráðherra skal úrskurða um kæru innan 30 daga frá því að hún barst honum.
  • Úrskurður ráðherra er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi.

Kærufrestur

Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Réttaráhrif kærðrar ákvörðunar

Meginreglan er sú að stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Æðra stjórnvaldi er þó heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæla með því.

Þagnarskylda

Tollstarfsmönnum er bannað, að viðlagðri ábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi, að skýra óviðkomandi aðilum frá því sem þeir komast að í starfi sínu um verslunarhagi einstakra manna og fyrirtækja, þar með talin hvers konar vitneskja sem ráða má af samritum af sölu- og vörureikningum sem tollyfirvöld halda eftir.

Bindandi upplýsingar um tollflokkun

Mikilvægt er fyrir borgarana að geta fengið bindandi yfirlýsingu tollyfirvalds um tollflokkun vöru, t.d. vegna tollskýrslu eða athugunar á gjaldskyldu, sem tengist tollflokkun. Tollalög gera ráð fyrir að unnt sé að fá hjá Tollstjóra skriflega yfirlýsingu um tollflokkun tiltekinnar vöru; eins konar bindandi ákvörðun eða forúrskurð um tollflokkun. Um þá gilda eftirfarandi meginreglur: ·

  • Allir sem hafa hag af því að fá bindandi upplýsingar um tollflokkun eiga rétt á slíkum forúrskurði.
  • Fyrirvari er gerður varðandi fáein tilvik: Tollstjóra er ekki skylt að verða við beiðni ef hún lýtur að vöru í tollafgreiddri sendingu eða sendingu sem hefur verið flutt til landsins; sama gildir ef beiðni reynist tilefnislaus. 
  • Beiðni á að vera skrifleg og fást hjá tollstjórum sérstök eyðublöð til þeirra nota. Með eyðublaðinu skulu fylgja öll gögn sem nauðsynleg eru til að upplýsa um tollflokk vöru.
  • Ef nauðsyn ber til að mati Tollstjóra getur hann sett skilyrði um að sýnishorn af vöru sé lagt fram áður en hann tekur ákvörðun um tollflokkun.
  • Svarfrestur Tollstjóra er 30 dagar. Í svari Tollstjóra eiga að koma fram meginrök fyrir niðurstöðu.
  • Forúrskurður er bindandi fyrir viðkomandi aðila sem um hann sækir og tollyfirvöld. Forúrskurðir hafa einnig fordæmisgildi í sambærilegum málum.
  • Forúrskurði má skjóta til yfirskattanefndar.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum