Tekjufallsstyrkir

Tekjufallsstyrkir eru til að styðja við rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Um þá gilda lög 118/2020 um tekjufallsstyrki . Markmið þeirra er að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum.

Þeir einstaklingar og lögaðilar sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sem hófst fyrir 1. apríl 2020 og hafa orðið fyrir a.m.k. 40% tekjufalli, sem rekja má til heimsfaraldurs kórónuveiru, eiga rétt á tekjufallsstyrk úr ríkissjóði að uppfylltum ýmsum skilyrðum.

Stofnanir, byggðasamlög og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkis eða sveitarfélaga geta ekki sótt um tekjufallsstyrk.

Umsókn um tekjufallsstyrk er ekki tilbúin. Auglýst verður sérstaklega þegar unnt verður að taka á móti umsóknum, sem þurfa að berast eigi síðar en 1. maí 2021.

Informatiion in English 
Informacje w języku polskim

Frumskilyrði

1. Umsækjandi þarf að bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi

Með ótakmarkaðri skattskyldu er átt við að viðkomandi einstaklingur eða lögaðili sé skyldugur að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum hér á landi, hvar sem þeirra er aflað. Nánari upplýsingar um ótakmarkaða skattskyldu er hægt að finna á vefsíðu Skattsins, vegna einstaklinga og vegna lögaðila.

Þetta skilyrði þýðir að óskattskyldir aðilar, eins og t.d. íþróttafélög, líknarfélög o.fl. eiga ekki rétt á tekjufallsstyrk.

2. Atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi

Þeir einir geta sótt um tekjufallsstyrk sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Með því er átt við starfsemi aðila sem greiðir laun samkvæmt staðgreiðslulögum, og er skráður á launagreiðendaskrá, svo og á virðisaukaskattsskrá þegar það á við. Í undantekningartilvikum er heimilt að miða við rekstraruppgjör samkvæmt skattframtali 2020. Nánari upplýsingar um launagreiðendaskrá og virðisaukaskattsskrá er hægt að nálgast á vef Skattsins.

Nánari skilyrði fyrir tekjufallsstyrk

Rekstraraðili sem uppfyllir öll eftirtalin skilyrði á rétt á tekjufallsstyrk úr ríkissjóði samkvæmt umsókn þar um.

40% tekjufall rakið til kórónuveirufaraldurs

Skilyrði er að tekjur rekstraraðila á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 hafi verið a.m.k. 40% lægri en meðaltal rekstrartekna á 7 mánuðum á rekstrarárinu 2019 og að tekjufallið megi rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar.

Hafi umsækjandi fengið greiddan lokunarstyrk, vegna lokunar á tímabilinu apríl til október 2020, er heimilt að draga hann frá rekstrartekjum áður en tekjufall er reiknað, að því marki sem hann hefur verið tekjufærður.

Hafi umsækjandi fengið greiddan stuðning vegna launakostnaðar á uppsagnarfresti, á tímabilinu apríl til október 2020, dregst sú fjárhæð frá rekstrarkostnaði til útreiknings á tekjufallsstyrk.

Fengnar atvinnuleysisbætur, á tímabilinu apríl til október 2020, dragast einnig frá rekstrarkostnaði.

Hafi starfsemi umsækjanda hafist eftir 1. apríl 2019 skal bera tekjur saman við fyrstu sjö heilu mánuðina sem hann starfaði. Hafi hann starfað skemur en sjö mánuði í mars 2020 skal umreikna tekjurnar í 214 daga viðmiðunartekjur. 


Ekki í vanskilum með opinber gjöld og gögnum skilað

Skilyrði er að rekstraraðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019. Það telst til vanskila í þessu sambandi ef gjöld og skattar sem greiða átti á árinu 2019 voru ógreidd í lok árs þótt gerð hafi verið greiðsluáætlun eða samningur um greiðslu eftir þann tíma.

Þá verður rekstraraðili að hafa staðið skil á skattframtali og öðrum skýrslum og gögnum á tilskildum tíma síðastliðin þrjú ár áður en umsókn um tekjufallsstyrk barst eða síðan starfsemi hófst, sem og ársreikningum eftir því sem við á og upplýst um raunverulega eigendur félags. Álagðir skattar og gjöld mega því ekki hafa byggt á áætlunum, þ.m.t. staðgreiðsla og virðisaukaskattur á árinu 2020.

Þessi skilyrði þýða að umsækjandi skuli hafa skilað öllu sem bar að skila lögum samkvæmt síðustu þrjú ár fyrir umsóknardag. Það þýðir m.a. að lögaðilar og einstaklingar í rekstri skuli hafa skilað skattframtali 2018, 2019 og 2020, nema reksturinn hafi staðið skemur.

Ekki gjaldþrotaskipti eða slit

Skilyrði er að rekstraraðili hafi ekki verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.

Fjárhæð tekjufallsstyrks

Fjárhæð tekjufallsstyrks skal vera jafnhá rekstrarkostnaði umsækjanda á tímabilinu 1. apríl til 31.október 2020, þó aldrei hærri en reiknað tekjufall. Með rekstrarkostnaði telst reiknað endurgjald þess/þeirra sem standa fyrir rekstrinum.

Í stað þess að telja reiknað endurgjald fyrir apríl til október 2020 til rekstrarkostnaðar er heimilt að nota 7/12 af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt skattframtali 2020, vegna rekstrar á árinu 2019.  

Hámark tekjufallsstyrks:

Ef tekjufallið er á bilinu 40-70% er hámarkið 400.000 kr. fyrir hvert stöðugildi á mánuði, þó aldrei hærra en 2 milljónir kr. á mánuði.

Ef tekjufallið er á bilinu 70-100% er hámarkið 500.000 kr. fyrir hvert stöðugildi á mánuði, þó aldrei hærra en 2,5 milljónir kr. á mánuði.

Fenginn lokunarstyrkur dregst frá tekjufallsstyrk.

Tekjufallsstyrkur telst til skattskyldra tekna hjá rekstraraðila.

Launamaður

Launamaður er sá sem fær laun fyrir starf sem hann innir af hendi á ábyrgð launagreiðanda eða maður sem skal reikna sér endurgjald vegna vinnu við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, þ.m.t. starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum eða á vegum lögaðila eins og t.d. einkahlutafélaga. Maki rekstraraðila eða barn hans teljast einnig launamenn í þessu sambandi ef þau inna af hendi starf við atvinnureksturinn eða starfsemina.

Rekstrarkostnaður

Við ákvörðun á tekjufallsstyrk er tekið mið af rekstrarkostnaði á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020. Þó er heimilt frávik varðandi reiknað endurgjald eins og lýst er hér að framan í kaflanum Fjárhæð tekjufallsstyrks.

Rekstrarkostnaður í þessu sambandi er samkvæmt almennri skilgreiningu um hvað telst til slíks kostnaðar en þó ekki fyrningar eða niðurfærsla eigna.

Samkvæmt tekjuskattslögum er rekstrarkostnaður: þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla tekna, tryggja þær og halda þeim við, þar á meðal iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda starfsmanna í lífeyrissjóði sem starfa á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, vexti af skuldum, afföll, gengistöp, niðurfærslu og fyrningu eigna, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum þessum, og það sem varið er til tryggingar og viðhalds á eignum þeim sem arð bera í rekstrinum.

Til rekstrarkostnaðar telst enn fremur það endurgjald sem manni ber að reikna sér fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu sem telja ber til tekna skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. Eigi skiptir máli hvort endurgjaldið hefur verið greitt. Hafi það verið greitt skiptir heldur ekki máli hvort það hefur verið greitt í reiðufé, fært á einkareikning, greitt í fríðu eða í hlunnindum eða með vinnuskiptum.

Nánari upplýsingar um rekstrarkostnað (gjöld) rekstraraðila er hægt að sjá í leiðbeiningum með rekstrarframtali á vef Skattsins (bls. 16-21).

Önnur atriði

Nýir í rekstri

Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum um tekjufallsstyrki getur rekstraraðili sem hóf störf á tímabilinu 1. apríl til 31. ágúst 2020 fengið tekjufallsstyrk fyrir mánuðina september og október 2020. Um tekjufall, rekstrarkostnað og útreikning á styrknum gilda sömu reglur og um almenna tekjufallsstyrki.

Ef sótt er um tekjufallsstyrk samkvæmt ofangreindu bráðabirgðaákvæði þarf að senda skriflegt erindi til Skattsins. Ekki er hægt að nota hina rafrænu umsókn í þeim tilvikum. 

Tengdir aðilar

Heildarfjárhæð tekjufallsstyrks til tengdra rekstraraðila getur að hámarki numið 120 milljónum kr., að meðtöldum lokunarstyrkjum og stuðningi samkvæmt lögum um ferðagjöf, nr. 54/2020 .

Birting upplýsinga

Skatturinn skal birta opinberlega upplýsingar um hvaða lögaðilum hefur verið ákvarðaður tekjufallsstyrkur. Birta skal upplýsingar um alla styrkþegar og fjárhæð styrkja nemi þeir jafnvirði 100 þúsund evra eða meira.

Umsókn

Umsókn um tekjufallsstyrk er rafræn í gegnum skattur.is. Ef umsækjandi er félag (lögaðili) skráir prókúruhafi sig inn á sína þjónustusíðu og fer þannig inn á svæði félagsins. Sjálfstætt starfandi einstaklingur fer inn í umsóknina í gegnum sína eigin þjónustusíðu.

Umsókn um tekjufallsstyrk er ekki tilbúin. Auglýst verður sérstaklega þegar unnt verður að taka á móti umsóknum, sem þurfa að berast eigi síðar en 1. maí 2021.

Skatturinn skal afgreiða umsókn eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að fullnægjandi umsókn berst.

Rekstraraðili skal staðfesta við umsókn að hann uppfylli skilyrði fyrir tekjufallsstyrk, að upplýsingar sem hann skilar og liggja til grundvallar ákvörðun fjárhæðar, þ.e. um rekstrarkostnað, tekjur og fjölda launamanna, séu réttar og að honum sé kunnugt um að það geti varðað álagi, sektum eða fangelsi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.

Við afgreiðslu umsóknar og endurskoðun ákvörðunar um umsókn getur Skatturinn farið fram á að rekstraraðili sýni með rökstuðningi og gögnum fram á rétt sinn til tekjufallsstyrks.

Endurákvörðun tekjufallsstyrks

Gert er ráð fyrir því að Skatturinn endurákvarði tekjufallsstyrk komi í ljósi að rekstraraðili átti ekki rétt á styrknum eða átti rétt á hærri eða lægri styrk en hann fékk greiddan. Um þetta gilda, auk þess sem fram kemur í lögunum um tekjufallsstyrk, ákvæði tekjuskattslaga eftir því sem við á.

Ofgreiðsla

Komi í ljós að aðili hafi fengið tekjufallsstyrk umfram það sem hann átti rétt á ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var með vöxtum frá greiðsludegi. Dráttarvextir leggjast á kröfu um endurgreiðslu ef hún er ekki innt af hendi innan mánaðar frá dagsetningu endurákvörðunar Skattsins.

Álag og refsingar

Hafi rekstraraðili veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rekstrarkostnað eða upplýsingagjöf hans hefur að öðru leyti verið svo áfátt að áhrif hafi haft við ákvörðun um tekjufallsstyrk skal Skatturinn gera honum að greiða 50% álag á kröfu um endurgreiðslu. Fella skal álagið niður ef aðili færir rök fyrir því að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann veitti réttar upplýsingar eða kæmi leiðréttingu á framfæri við Skattinn.

Telji Skatturinn að háttsemi rekstraraðila geti varðað sektum eða fangelsi skal ekki gera honum að greiða álag heldur kæra málið til lögreglu.

Leiðbeiningar með umsókn

Umsókn um tekjufallsstyrk er ekki tilbúin. Leiðbeiningar um útfyllingu verða birtar hér um leið og umsóknarformið er tilbúið og unnt verður að taka á móti umsóknum. Frestur til að sækja um tekjufallsstyrk er til 1. maí 2021.

Kæruréttur

Unnt er að kæra niðurstöðu Skattsins um tekjufallsstyrk til yfirskattanefndar. Um kærufrest og málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum laga um yfirskattanefnd.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Lög 118/2020 um tekjufallsstyrki

Lög 30/1992 um yfirskattanefnd

Ótakmörkuð skattskylda einstaklinga

Ótakmörkuð skattskylda lögaðila

Upplýsingar um launagreiðendaskrá

Upplýsingar um virðisaukaskattsskrá

Leiðbeiningar

Leiðbeiningar með rekstrarframtali rekstraraðila


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum