Leiðbeiningar um virðisaukaskatt af starfsemi starfsmannamötuneyta opinberra aðila

Sala á tilreiddum mat er virðisaukaskattsskyld samkvæmt meginreglu 1. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og ber salan 11% virðisaukaskatt samkvæmt 8. tölulið 2. mgr. 14. gr. sömu laga. Sala opinberra aðila á tilreiddum mat er í samkeppni við slíka sölu á almennum markaði og því virðisaukaskattsskyld.

Framangreint gildir þótt rekstur t.d. ríkisrekinna mötuneyta fyrir starfsmenn sé aldrei í hagnaðartilgangi því samkvæmt kjarasamningum ber ríkinu sem launagreiðanda að greiða kostnað við rekstur starfsmannamötuneytis en starfsmönnum ber einungis að greiða efnisverð matarins. Skattskylda opinberra aðila vegna reksturs starfsmannamötuneyta verður því ekki byggð á 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988 heldur á 5. málsl. 2. mgr. 3. gr. þeirra þar sem kveðið er á um að ríki, sveitarfélög, stofnanir þeirra og fyrirtæki skuli greiða virðisaukaskatt af framleiðsluverði á mat sem tilreiddur er í mötuneytum þeirra og seldur er starfsmönnum eða öðrum á verði undir framleiðsluverði. Einnig skal í þessu sambandi vísað til ákvæða 4. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila. laga nr. 50/1988.

Í leiðbeiningum þessum er gerð grein fyrir þeim reglum sem gilda um virðisaukaskatt af starfsemi mötuneyta þessara aðila. Reglurnar eru mismunandi eftir því hvort fæði sé (1) afhent án endurgjalds, (2) selt eða (3) að hluta selt og að hluta afhent án endurgjalds. Í lokin er stutt umfjöllun um skólamötuneyti.

Leiðbeiningar þessar, sem koma í stað eldri leiðbeininga sama efnis frá desember 1995, eru settar fram á grundvelli 1. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 5. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988 og 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 248/1990.

Skilgreining á mötuneyti og starfsemi þess

Með hugtakinu „mötuneyti“ í leiðbeiningum þessum er átt við:

  • afmarkað svæði innan opinberra stofnana eða fyrirtækja í eigu opinberra aðila sem er sérstaklega ætlað til framreiðslu og neyslu fæðis, jafnt heitra sem kaldra máltíða eða hressingar,
  • mötuneyti er ætlað fyrir starfsmenn stofnunar, gesti þeirra og starfsmenn annarra stofnana sem aðgang hafa að mötuneytinu,
  • launaður starfskraftur annast matreiðslu og/eða framreiðslu fæðis,
  • húsakynni og aðstaða skulu vera í samræmi við kröfur viðkomandi heilbrigðisyfirvalda.

Afhending fæðis án endurgjalds

Ef starfsemi mötuneytis felst eingöngu í afhendingu fæðis án endurgjalds er starfsemin ekki virðisaukaskattsskyld. Í þessu tilviki er viðkomandi stofnun eða fyrirtæki í eigu opinbers aðila undanþegin skyldu til greiðslu virðisaukaskatts af andvirði afhents fæðis og skiptir þá ekki máli hvort stofnunin eða fyrirtækið séu virðisaukaskattsskyld að öðru leyti eða ekki.

Stofnun eða fyrirtæki í eigu opinbers aðila sem afhendir fæði án endurgjalds hefur því samkvæmt meginreglu 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988 ekki rétt til að telja til innskatts þann virðisaukaskatt sem þessir aðilar greiða við kaup á aðföngum til reksturs kaffistofu eða mötuneytis. Þannig er t.a.m. óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna:

  • þess hluta byggingar sem nýttur er undir kaffistofu eða mötuneyti
  • innréttinga í mötuneyti eða kaffistofu
  • húsgagna í matsal
  • tækja í eldhúsi og annarra áhalda sem notuð eru vegna kaffistofu eða mötuneytis
  • hvers konar fæðiskaupa eða kaupa hráefnis vegna kaffistofu eða mötuneytis.

Rétt þykir í þessu sambandi að benda á að afhending fæðis án endurgjalds til starfsmanna stofnunar eða fyrirtækis í eigu opinbers aðila telst til hlunninda samkvæmt tekjuskattslögum nr. 90/2003. Samkvæmt auglýsingu nr. 1141/2018, um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2019, er skattmat í staðgreiðslu á árinu 2019 fyrir morgunverð 348 kr., hádegis- eða kvöldverð 521 kr. en 1.390 kr. fyrir fullt fæði fullorðins. Ef um er að ræða börn yngri en 12 ára er heimilt að lækka framangreindar fjárhæðir um fjórðung. Sé fæði selt á verði sem er undir skattmati telst mismunurinn til hlunninda.


Sala fæðis

Starfræksla mötuneyta opinberra aðila eða fyrirtækja þeirra er virðisaukaskattsskyld ef fæði er selt og launaður starfskraftur þeirra annast matreiðslu og/eða framreiðslu fæðis. Engu skiptir þótt endurgjald sé undir framleiðslukostnaði eða hvort önnur starfsemi aðila er innan eða utan skattskyldusviðs laga nr. 50/1988, sbr. framangreint ákvæði 5. málsl. 2. mgr. 3. gr. þeirra. Í ákvæðinu er ekki einungis kveðið á um skattskyldu af rekstri mötuneytanna heldur einnig um að skattverð í þeim tilvikum sé framleiðsluverð á mat, þ.e. mat sem tilreiddur er í mötuneytunum og er seldur starfsmönnum og öðrum á verði undir framleiðsluverði.

Opinberir aðilar eru þó undanþegnir skattskyldu vegna mötuneytis ef framleiðsluverðið er innan veltumarka 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988 á hverju tólf mánaða tímabili (nú: 2.000.000 kr.). Jafnframt verður að telja að opinber aðili sé undanþegin skattskyldu vegna mötuneytis ef launaður starfskraftur stofnunar annast ekki matreiðslu og/eða framreiðslu heldur kaupir fulleldaðan mat og launaðir starfsmenn seljanda annast að öllu leyti framreiðslu hans, uppþvott og þrif eftir hverja máltíð. Í því tilviki verður ekki talið að um samkeppnisröskun sé að ræða þar sem launaþátturinn er hinn eiginlegi virðisauki í starfsemi þessara mötuneyta.

Útskattur 

Eins og fram hefur komið er sala á matvörum og öðrum vörum til manneldis, eins og skilgreind eru í viðauka við lög nr. 50/1988, skattskyld í lægra skatthlutfalli virðisaukaskatts, sbr. ákvæði 8. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna. Ákvæðið tekur einnig til veitingaþjónustu, þ.e. sölu og framreiðslu á mat, og í samræmi við það og ákvæði 5. málsl. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988 ber opinberum aðilum sem selja tilreiddan mat að skila í ríkissjóð virðisaukaskatti af framleiðsluverði fæðis sem selt er í mötuneytum þeirra í lægra skatthlutfalli virðisaukaskatts, nú 11%.

Í þessu sambandi skal við útreikning virðisaukaskatts, útskatts, telja til framleiðsluverðs eftirfarandi kostnaðarliði:

  1. Hráefniskaup og kaup á matvöru til endursölu.
  2. Greidd laun starfsmanna í mötuneyti, þ.e. þeirra sem annast innkaup, matreiðslu, framreiðslu, sölu, uppþvott og þrif áhalda og eldunaraðstöðu eftir hverja máltíð. Þennan launakostnað skal margfalda með hækkunarstuðlinum 1,3 vegna launatengdra gjalda og annars sameiginlegs kostnaðar, sbr. auglýsingu ríkisskattstjóra um skattverð nr. 17/1996. Venjuleg ræsting og hreingerning, þ.e. þau störf sem ræstingafólk tekur almennt að sér en þ.m.t. eru þrif á gólfi og borðum, falla utan skattverðs í þessu sambandi enda njóta opinberir aðilar endurgreiðslna á virðisaukaskatti af ræstingu samkvæmt 2. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990.
  3. Greidd þóknun til verktaka vegna t.d. matreiðslu og tilfallandi framreiðslu.
  4. Orkukaup.
  5. Hreinlætisvörur.

Við útreikning á framleiðslukostnaði ber að draga frá virðisaukaskatt, innskatt, sem greiddur hefur verið við kaup á aðföngum áður en virðisaukaskattur í lægra skatthlutfallinu er reiknaður út. Í eftirfarandi dæmi er sýndur útreikningur virðisaukaskatts (útskatts) fyrir tiltekið uppgjörstímabil:

Dæmi 1

Framleiðsluverð  
Vinnulaun vegna matreiðslu o.fl. 1.500.000 kr.
 Hráefniskaup o.fl., m/VSK (11%)500.000 kr.
 Orka, m/VSK (24%)50.000 kr.
Hreinlætisvörur, m/VSK (24%) 20.000 kr.
Aðkeypt þjónusta, t.d. við framreiðslu (11%)30.000 kr.
 
Útreikningur    
Vinnulaun vegna matreiðslu o.fl.1.500.000 x 1,3= 1.950.000 kr.
Hráefni o.fl. án VSK. 90,09% x 500.000= 450.450 kr.
Orka án VSK 80,65% x 50.000=40.325 kr.
Hreinlætisvörur, án VSK80,65% x 20.000=16.130 kr.
Aðkeypt þjónusta, t.d. við framreiðslu90,09% x 30.000=27.027 kr.
Framleiðslukostnaður, skattverð, án VSK  =2.483.932 kr.
    
Útskattur verður:2.483.932 x 11% =273.233 kr.

Innskattur vegna rekstraraðfanga 

Til innskatts í mötuneytum opinberra aðila má telja virðisaukaskatt af hráefni, orku, aðkeyptri þjónustu við t.d. matreiðslu og tilfallandi framreiðslu og af hreinlætisvörum til nota við uppþvott og þrif eftir hverja máltíð. 

Ekki er heimilaður innskattsfrádráttur vegna:

  • þess hluta byggingar sem nýttur er undir kaffistofu eða mötuneyti
  • innréttinga í mötuneyti eða kaffistofu, þ.m.t. af múr- og naglföstum innréttingum
  • húsgagna í matsal
  • tækja og áhalda í eldhúsi eða matsal sem notuð eru vegna kaffistofu eða mötuneytis
  • ræstinga í þeim tilvikum þar sem opinberir aðilar njóta endurgreiðslna á virðisaukaskatti skv. 2. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990.

Í eftirfarandi dæmi er sýndur útreikningur innskatts af framleiðsluverði fyrir tiltekið uppgjörstímabil. Miðað er við framleiðsluverð skv. dæmi 1:

Dæmi 2

Útreikningur innskatts    
Hráefnisverð500.000 x 9,91%=49.550 kr.
Orka50.000 x 19,35% =9.675 kr.
Hreinlætisvörur20.000 x 19,35%=3.870 kr.
Aðkeypt þjónusta, t.d. við framreiðslu30.000 x 9,91% =2.973 kr.
Innskattur verður:  =66.068 kr.

Skil á virðisaukaskatti vegna starfsemi mötuneytis opinbers aðila fyrir tiltekið uppgjörstímabil skv. dæmum 1 og 2 verða því sem hér segir: 

Dæmi 3

Útreikningur skila  
Reiknaður útskattur skv. dæmi 1 273.233 kr.
Frádreginn innskattur skv. dæmi 266.068 kr.
Skil: 207.165 kr.
 

Blönduð afhending fæðis – mötuneyti sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana

Afhending fæðis gegn endurgjaldi til starfsmanna sjúkrahúsa, vist- og dvalarheimila o.fl. hliðstæðra stofnana er virðisaukaskattsskyld skv. þeim reglum sem raktar eru í 4. kafla. Afhending fæðis til sjúklinga, vistmanna o.s.frv. á sjúkrahúsum, vist- og dvalarheimilum o.fl. hliðstæðum stofnunum felur á hinn bóginn ekki í sér skyldu til greiðslu virðisaukaskatts þar sem að áliti ríkisskattstjóra er um að ræða svo nauðsynlegan og órjúfanlegan þátt í þjónustu þessara stofnana að samkeppnisaðstæður þykja í slíkum tilvikum ekki vera með þeim hætti að um skattskylda eigin þjónustu sé að ræða. Afhending fæðis úr mötuneytum sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana til sjúklinga og/eða vistmanna er því talin undanþegin á grundvelli 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.

Þegar mötuneyti er sameiginlegt fyrir starfsmenn og sjúklinga eða vistmenn skal gera virðisaukaskatt upp með eftirfarandi hætti:

  1. Framleiðsluverð fæðis, jafnt starfsmanna (þ.m.t. gesta þeirra) sem sjúklinga/vistmanna er reiknað með sama hætti og fram kemur í kafla 4.2. Þ.m.t. skal reikna launakostnað vegna innkaupa, matreiðslu, framreiðslu, sölu og þrifa eftir hverja máltíð. Greidd laun skal margfalda með hækkunarstuðlinum 1,3 vegna launatengdra gjalda og annars sameiginlegs kostnaðar.
  2. Frá heildarframleiðsluverði skal draga framleiðsluverð fæðis sem afhent er sjúklingum eða vistmönnum og skal í því sambandi miða við fjölda afhentra máltíða á hverju uppgjörstímabili. Af þeirri fjárhæð skal reikna virðisaukaskatt, útskatt. Þannig reiknast virðisaukaskattur af sama hlutfalli heildarframleiðslukostnaðar og hlutfall afhentra máltíða til starfsmanna og gesta þeirra er af heildarfjölda afhentra máltíða á hverju uppgjörstímabili.
  3. Reikna skal innskatt í sama hlutfalli og hlutfall fjölda afhentra máltíða til  starfsmanna er af heildarfjölda afhentra máltíða á uppgjörstímabilinu.

Í eftirfarandi dæmi er sýndur útreikningur útskatts og innskatts af framleiðsluverði fyrir tiltekið uppgjörstímabil. Er annars vegar miðað við sama framleiðsluverð og í dæmum 1 og 2 hér að framan og hins vegar að hlutfall af fjölda afhentra máltíða til starfsmanna og gesta þeirra sé 20% af heildarfjölda afhentra máltíða á tilteknu uppgjörstímabili:

Dæmi 4

    
Framleiðslukostnaður án virðisaukaskatts, sbr. dæmi 1  =2.483.932 kr. 
Hlutfall afhentra máltíða til starfsmanna af heildarfjölda afhentra máltíða2.483.932 x 20%=496.786 kr. 
    
 Útskattur verður:496.786 x 11%=54.646 kr. 
 Frádreginn innskattur, 66.068 kr. sbr dæmi 266.068 x 20%=13.214 kr. 
 Skil: =41.432 kr. 

Skólamötuneyti

Skólamötuneyti (fæðissala til skólanemenda) er undanþegin skattskyldu, sbr. 4. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988. Í því felst að ekki ber að innheimta virðisaukaskatt af sölu fæðis til skólanemenda, enda eigi salan sér stað innan vébanda skólans og sem liður í starfi hans. Undanþágan tekur hins vegar ekki til aðfanga til rekstrarins og veitir þannig mötuneytinu hvorki heimild til að kaupa hráefni og önnur aðföng án greiðslu virðisaukaskatts, né veitir hún mötuneytinu rétt á að fá virðisaukaskatt af aðföngum endurgreiddan úr ríkissjóði.

Framangreind undanþága tekur þannig ekki til fæðissölu virðisaukaskattsskylds aðila til skólamötuneytis né til annarra virðisaukaskattsskyldra aðfanga sem skólamötuneyti kaupir til rekstrarins. Sé skólamötuneyti aftur á móti rekið af sjálfstæðum aðila utan skólans, þ.e. selji hann fæði beint til nemenda á grundvelli samnings við skólann, er sú starfsemi á sama hátt undanþegin samkvæmt ákvæðinu. Sé sá aðili jafnframt í skattskyldri starfsemi skal hann í bókhaldi sínu aðgreina hin undanþegnu viðskipti frá hinum skattskyldu, þ.e. rekstri skólamötuneytis, bæði hvað varðar tekjur og gjöld, sbr. nánar í 23. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.

Undanþágan tekur ekki til starfsmannamötuneyta skóla, sbr. 4. kafla. Sé sameiginlegt mötuneyti fyrir starfsmenn og nemendur skal fara með útreikning virðisaukaskatts með sama hætti og lýst var í 5. kafla. Þá tekur undanþágan ekki til verslunarreksturs í hagnaðarskyni innan skóla, t.d. sjoppureksturs, og það eins þótt skólanemendur séu einu viðskiptavinir verslunar. 


Reykjavík, 20. febrúar 2019

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar

Virðisaukaskattsskylda - 1. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Skatthlutfall- 14. gr laga nr. 50/1988

Skattskylda opinberra aðila vegna starfsmannamötuneyta - 5. málsl. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 248/1990

Innskattur - 1. mgr. og 1. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Innskattur - 1. tölul. 2. gr. reglugerðar 192/1993, um innskatt

Tekjuskattsskylda vegna hlunninda – 7. gr. laga nr.90/2003, um tekjuskatt, sbr. skattmat vegna tekna manna

Fjárhæðarmörk virðisaukaskatts - 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Skattverð opinberra aðila o.fl. – Auglýsing ríkisskattstjóra nr. 17/1996, um reglur um skattverð aðila sem hafa með höndum starfsemi samkvæmt reglugerðum nr. 562/1989, 564/1989 og 248/1990

Undanþága vegna heilbrigðisþjónustu – 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Undanþága vegna sölu fæðis í skólamötuneytum - 4. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Aðgreining í bókhaldi - 23. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum