Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1085/2012

1.3.2012

Dómur Hæstaréttar nr. 282/2011 og 4. gr. laga 183/2011, um breyting á lögum nr 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

1. mars 2012 G-Ákv. 1085/12


I.

Með dómi Hæstaréttar Íslands sem kveðinn var upp þann 20. október 2011 í máli nr. 282/2011 var komist að þeirri niðurstöðu að fjármögnunarleigusamningur sá er ágreiningur snerist um hefði í raun og veru verið lánasamningur vegna kaupa viðkomandi samningsandlags en ekki leigusamningur.

Enda þótt í greindum dómi sé ekki fjallað um eignarhald á þeim undirliggjandi eignum sem um ræðir í málinu né komi fram með beinum hætti að fjármögnunarleigufyrirtækin séu ekki eigendur að þeim liggur fyrir að dómurinn felur það í sér að um lán hafi verið að ræða en ekki leigu. Þessi niðurstaða Hæstaréttar hefur áhrif á framkvæmd laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem líta verður svo á að lántaki (kaupandi) hefði átt að telja samningsandlag til eignar í stað lánveitanda (seljanda) og að lánveitandi hefði ekki átt að innheimta og skila í ríkissjóð virðisaukaskatti af „leigugreiðslum“ heldur við afhendingu samningsandlags þar sem viðskiptavinur þess, lántaki, hefði í raun verið að endurgreiða lán en slíkar greiðslur teljast ekki til skattskyldrar veltu, sbr. 10. tölulið 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.

Jafnframt komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að gengistrygging umrædds samnings hafi verið ólögmæt og að lánafyrirtækinu bæri samkvæmt því að framkvæma endurútreikning á „leigugreiðslum” í samræmi við forsendur dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010.

Ljóst er að samkvæmt framangreindum dómi Hæstaréttar verður um að ræða endurútreikninga og virðist niðurstaða þess endurreiknings eftir atvikum geta myndað inneign samningsaðila eða skuld. Verður því ekki hjá því komist að gera leiðréttingar á tekjum og gjöldum í skattframtölum samningsaðila, bæði lánveitanda og lántaka.

Að því er varðar áhrif dóms þessa á virðisaukaskattsskil samningsaðila ber að fara að ákvæði til bráðabirgða með lögum nr. 50/1988 sem sett var með lögum nr. 183/2011, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Efni sínu samkvæmt gildir ákvæðið við þær aðstæður að niðurstaða sé komin milli aðila um endurreikning í kjölfar umrædds dóms. Ákvæði 1. tölul. 1. mgr. gildir þegar viðskiptavinur fjármálafyrirtækis færði virðisaukaskatt að fullu til innskatts samkvæmt útgefnum reikningum.

Samkvæmt 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins er gert ráð fyrir þeim möguleika að samningar geti tekist á milli samningsaðila, þ.e. leigusala og leigutaka, um áframhaldandi samningssamband um leigu undir réttum formerkjum. Við slíkar aðstæður mun endurreikningur væntanlega einungis helgast af þeim breytingum sem verða þegar ekki er lengur tekið mið af gengisbreytingum við ákvörðun á leigufjárhæð, eins og vikið verður að síðar í bréfi þessu. Þannig er gert ráð fyrir í bráðabirgðaákvæðinu að það sé beggja samningsaðila að leysa úr ágreiningi sem upp kann að koma við framkvæmd endurreiknings skv. framangreindu. Bréf ríkisskattstjóra er m.a. byggt á því að gengið hafi verið frá endurreikningi milli samningsaðila enda er gert ráð fyrir því að bráðabirgðaákvæðið verði virkt við þær aðstæður. Séu aðstæður með einhverjum þeim hætti að niðurstaða sé ekki komin fram um endurreikning verður að skoða hvert tilvik sérstaklega.

Ríkisskattstjóri telur að framkvæma eigi þær leiðréttingar sem nauðsynlegar eru með þeim hætti sem greinir í bréfi þessu þar sem í kafla II er fjallað með beinum hætti um áhrif breytinganna á skattframtöl og í kafla III – V er fjallað um virðisaukaskattshlið málsins.


II.

Í þeim tilvikum þar sem fjármögnunarleigusamningur telst í raun vera lánasamningur í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. greindan dóm frá 20. október 2011 og eignayfirfærsla samningsandlagsins hefur jafnframt átt sér stað milli aðila kallar það á leiðréttingar á tekjum og gjöldum í skattframtölum bæði lánveitanda (seljanda) og lántaka (kaupanda).

Það er álit ríkisskattstjóra að gera skuli leiðréttingar í skattframtali fyrir það tekjuár sem endanleg niðurstaða liggur fyrir um endurreikninginn. Fyrr en á því tímamarki verður ekki ljóst hvort um er að ræða kröfu fjármögnunarleigufyrirtækis á hendur viðskiptavini sínum, eða öfugt, og þannig um óvissar tekjur og útgjöld að ræða í skilningi 59. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, hjá hvorum samningsaðila fyrir sig.

Gera skal leiðréttingar á tekjum og gjöldum í skattframtali fyrir það tekjuár þegar endanleg niðurstaða liggur fyrir um hvernig fara ber með samninginn eins og fram er komið. Ekki skal því taka upp skattframtalsskil fyrri ára, enda var fram að þeim tíma um óvissar tekjur og gjöld að ræða.

Niðurstaða umrædds dóms leiðir til þess að lánveitanda (fjármögnunarleigufyrirtæki) ber að gera leiðréttingar í skattframtali sínu á þann hátt að bakfæra tekjufærslur vegna fjármögnunarleigugreiðslna fyrri ára en færa þess í stað til tekna vexti af afborgunum af lánum. Þá ber lánveitanda að færa til tekna söluverð samningsandlagsins og bakfæra áður fengnar fyrningar. Eftir atvikum skal með sama hætti bakfæra gengismun sem áður hafði verið tekjufærður. Þá ber lánveitanda að fella niður eignfærslu rekstrarfjármunar sem samningur var um en færa til eignar eftirstöðvar af höfuðstól lánsins í samræmi við endurreikning þess.

Á sama hátt ber rekstraraðila sem gerði fjármögnunarleigusamning, sem síðar taldist vera lánasamningur, að bakfæra gjaldfærðar fjármögnunarleigugreiðslur en þess í stað gjaldfæra vexti af afborgunum. Jafnframt skal hann eignfæra rekstrarfjármuninn en færa til gjalda í einu lagi fyrningar af honum þannig að heildarfjárhæð þeirra og þar með talið bókfært verð endurspegli sömu stöðu og orðið hefði ef rekstrarfjármunurinn hefði í hans rekstri verið fyrndur frá upphafi samningstímans.

Ríkisskattstjóri telur þó að fallast megi á í hagræðingarskyni að leiðréttingar í skattframtölum samningsaðila verði gerðar á þann hátt að einungis verði tekið mið af niðurstöðufjárhæð samkvæmt endurgerðum reikningi. Þannig myndu báðir samningsaðilar miða færslur í skattframtölum sínum við endanlega niðurstöðu úr endurreikningi og færa eftir atvikum til tekna, gjalda, eigna og skulda, í stað þess að leiða sérstaklega fram bókfært verð að teknu tilliti til fyrninga. Ef heildarniðurstaða endurreiknings myndar skuld hjá lántaka myndar sú fjárhæð þannig stofnverð viðkomandi eignar og færist í skattframtal sem slík, auk þess að færast sem skuld við lánveitanda. Af þessu nýja stofnverði væri síðan heimilt að fyrna viðkomandi eign eftir almennum reglum þar um. Ef heildarniðurstaða er á hinn bóginn sú að lántaki eigi inni kemur sú fjárhæð til tekna í skattframtali og viðkomandi eign er færð í eignaskrá við þessar aðstæður á stofnverði 0 kr. og því heimilast engar frekari fyrningar. Komi til sölu eignarinnar síðar miðast útreikningur á söluhagnaði eða sölutapi við þannig ákvarðað nýtt stofnverð, hvort heldur það hefur verið 0 eða hærri fjárhæð.

Verði á hinn bóginn staðið þannig að málum að samningar takist milli fyrrum leigusala og leigutaka að þeir haldi áfram samningssambandi sínu um leigu undir réttum formerkjum, þá mun endurreikningur væntanlega einungis helgast af þeim breytingum sem verða þegar ekki er lengur tekið mið af gengisbreytingum við ákvörðun á leigufjárhæð. Virðist mega ganga út frá því að þá geti verið um að ræða inneign leigutaka, eða eftir atvikum skuld við leigusala vegna vangreiðslu leigugreiðslna, og að sá mismunur verði gerður upp með endurgreiðslu leigusala eða með nýrri greiðslu leigutaka eða að miðað verði við nýja fjárhæð í grunnleigugreiðslu. Hvernig sem því uppgjöri kann að verða farið á milli samningsaðila verður að gera viðeigandi tekju- og gjaldfærslur í skattframtölum þeirra þegar endurreikningur liggur fyrir og eftir atvikum í gegnum leigugreiðslur á síðari stigum ef niðurstaðan er sú að þær breytist án annarra leiðréttinga.


III.

Samkvæmt 3. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, ber þeim sem innheimta virðisaukaskatt af undanþegnum viðskiptum að standa skil á skattinum í ríkissjóð en verði leiðréttingu við komið gagnvart kaupanda fellur skilaskyldan niður. Slíkri leiðréttingu verður þó ekki við komið eftir lok viðkomandi uppgjörstímabils nema fyrir milligöngu ríkissjóð, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 319/2001.

Ljóst er að niðurstaða Hæstaréttar Íslands frá 20. október 2011 hefði almennt haft í för með sér að ráðast hefði þurft í leiðréttingar, að því marki sem unnt hefði verið að koma þeim við. Þær hefðu orðið mjög umfangsmiklar og tímafrekar án þess þó að þær hefðu raunverulega fjárhagslega þýðingu, hvorki fyrir virðisaukaskattsskylda aðila né ríkissjóð. Til þess að bregðast við því og þar sem ákvæði hliðstætt 59. gr. laga nr. 90/2003 er ekki í lögum nr. 50/1988 var þann 17. desember 2011 samþykkt á Alþingi að bæta svohljóðandi bráðabirgðaákvæði við lög nr. 50/1988, sbr. lög nr. 183/2011, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum:

„Þrátt fyrir ákvæði laga þessara skal um leiðréttingu virðisaukaskatts, sem innheimtur var á grundvelli samninga sem fjallað er um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 282/2011 og dómum eða úrskurðum með sambærilegri niðurstöðu um réttaráhrif lánssamninga sem kveðnir eru upp eftir 20. október 2011, fara sem hér segir:

  1. Í þeim tilvikum sem viðskiptavinur fjármálafyrirtækis færði virðisaukaskatt af viðskiptum sem þessum til innskatts að fullu samkvæmt ákvæðum 16. gr. skal ekki fara fram leiðrétting á sölureikningum sem fjármálafyrirtæki hefur þegar gefið út, sem og virðisaukaskattsskilum fjármálafyrirtækis og viðskiptavinar vegna þessara viðskipta umfram það sem almennar leiðréttingarheimildir 26. gr. gera kröfu um.
  2. Í þeim tilvikum sem viðskiptavinur fjármálafyrirtækis hafði ekki heimild til að færa virðisaukaskatt af viðskiptunum til innskatts, eða hafði einungis heimild til að færa hluta af honum til innskatts, skulu fjármálafyrirtæki og viðskiptavinur sem hafði hlutfallslegan innskattsrétt leiðrétta virðisaukaskattsskilin í einu lagi, þ.e. mismun þegar greidds virðisaukaskatts og þess virðisaukaskatts sem borið hefði að innheimta við sölu. Leiðréttingu á virðisaukaskattsskilum skal miða við uppgjörstímabilið þegar endurútreikningur fjármálafyrirtækis gagnvart viðskiptavini liggur fyrir og skal jafnframt viðeigandi leiðrétting gerð á skattframtali viðkomandi árs. Komi upp ágreiningur um útreikning skal leiðrétting fara fram á því uppgjörstímabili þegar úr honum er leyst. Við leiðréttingu samkvæmt þessum tölulið skal ekki beita álagi og dráttarvöxtum samkvæmt lögum þessum. Þá skal endurgreiðsla úr ríkissjóði vegna leiðréttingarinnar ekki bera vexti.

Verði gerðar breytingar á inntaki samningssambands fjármálafyrirtækis og viðskiptavinar þess í kjölfar dómsniðurstöðu fer um virðisaukaskattsframkvæmd vegna breyttra samninga eftir almennum reglum laga þessara.

Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessa ákvæðis.“

Framangreint bráðabirgðaákvæði kveður skýrt á um að hvorki þurfi að leiðrétta virðisaukaskattsskil viðskiptavinarins (lántakans) né fjármögnunarleigufyrirtækisins í þeim tilvikum sem lántakinn hefur fært virðisaukaskattinn til innskatts í samræmi við 16. gr. laga nr. 50/1988. Þá kemur einnig fram í ákvæðinu að hafi virðisaukaskatturinn ekki verið færður til innskatts skuli leiðrétting á virðisaukaskattsskilunum fara fram í einu lagi á því uppgjörstímabili þegar endurútreikningur lánafyrirtækis liggur fyrir.

Endurútreikningur samkvæmt niðurstöðu réttarins tekur til gengistryggingar samninganna og hefur því að jafnaði ekki áhrif á stöðu þeirra virðisaukaskattsskila, sem þegar hafa átt sér stað hvorki hjá lántaka né lánafyrirtæki, enda hefur hann verið talinn til útskatts hjá lánafyrirtæki og til innskatts hjá lántaka og jafnast þannig út. Jafnframt því felst það í niðurstöðu Hæstaréttar að ekki ber að reikna virðisaukaskatt á vexti og verðbætur skv. samningunum. Bráðabirgðaákvæðið kveður þannig á um óbreytta stöðu á virðisaukaskattsskilum vegna meiri hluta þeirra samninga sem endurreikna þarf vegna niðurfellingar á gengistryggingu þeirra en eru að öllu leyti í fullum skilum. Í bráðabirgðaákvæðinu felst því sú krafa að þær leiðréttingar á virðisaukaskatti sem óhjákvæmilegar eru í framhaldi af framangreindum dómi Hæstaréttar Íslands verði framkvæmdar á hagkvæman og skilvirkan hátt og er bréf ríkisskattstjóra m.a. byggt á því.


IV.

Eins og að framan greinir komst Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu í dómi sínum að fjármögnunarleigusamningur sá er ágreiningur snerist um hefði í raun og veru verið lánasamningur vegna kaupa viðkomandi samningsandlags en ekki leigusamningur. Í þeim tilvikum sem viðskiptavinur fjármálafyrirtækis færði virðisaukaskatt af viðskiptum sem þessum til innskatts að fullu samkvæmt ákvæðum 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, ber skv. framangreindu bráðabirgðaákvæði ekki að leiðrétta (kreditfæra) áður útgefna reikninga sem fjármálafyrirtæki hafa gefið út eða virðisaukaskattsskil fjármálafyrirtækis og viðskiptavinar vegna þessara viðskipta umfram það sem almennar leiðréttingarheimildir 26. gr. laganna gera kröfu um.

Í samræmi við framangreint er það álit ríkisskattstjóra að þegar endurreikningur liggur fyrir beri lánveitanda (seljanda) í þeim tilvikum þar sem lántaka (kaupanda) hafa ekki verið gerðir reikningar sem samsvara heildarandvirði samningsandlagsins að gefa út reikning fyrir mismuninum auk virðisaukaskatts af þeirri fjárhæð miðað við það skatthlutfall sem í gildi var þegar samningur var gerður, þ.e. af stofnverði samningsandlags auk virðisaukaskatts en að frádregnum áður útgefnum reikningum og virðisaukaskatti skv. þeim. Er með þeim hætti innheimtur mismunur á þegar greiddum virðisaukaskatti og þeim virðisaukaskatti sem hefði borið að innheimta við afhendingu eða sölu samningsandlags á því tímabili þegar endurútreikningur liggur fyrir. Komi aftur á móti í ljós að lántaka (kaupanda) hafi verið gerðir reikningar að hærri fjárhæð en sem nemur upphaflegu verði samningsandlagsins skal skv. greindu bráðabirgðaákvæði ekki gefa út kreditreikning vegna hennar heldur leiðrétta færslur á grundvelli uppgjörs milli aðila, þ.e. að leiðrétta annars vegar áður gjaldfærðan kostnað lántaka (kaupanda) og hins vegar áður tekjufærða þjónustu lánveitanda (seljanda). Hafi lántaki (kaupandi) talið virðisaukaskatt skv. áður útgefnum reikningum að fullu til innskatts ber í slíkum tilvikum ekki að gera leiðréttingar á virðisaukaskattsskilum samningsaðila skv. bráðabirgðaákvæðinu enda ætti hann að hafa fengið þann virðisaukaskatt endurgreiddan sem innskatt. Hafi lántaki (kaupandi) sem nýtur frádráttarréttar skv. 16. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt ekki talið virðisaukaskatt skv. áður útgefnum reikningum lánveitanda (seljanda) til innskatts yrði honum heimilt við þessar aðstæður að gera það á því tímabili sem endurútreikningur fer fram. Þessi aðferð er enda í samræmi við bráðabirgðaákvæðið og til hagræðis fyrir báða samningsaðila. Náist ekki samkomulag um greiðslur milli aðila á framangreindum grunni telur ríkisskattstjóri að lánveitanda (seljanda) yrði heimil bakfærsla þess virðisaukaskatts sem umfram er af upphaflegu samningsverði enda liggi fyrir afdráttarlaus yfirlýsing þess efnis frá endurskoðanda eða bókara lántaka (kaupanda) að hann hafi ekki verið talinn til innskatts.

Í þeim tilvikum þar sem lántaki (kaupandi) naut ekki frádráttarréttar skv. 16. gr. laga nr. 50/1988, eða frádráttarréttar að hluta, og niðurstaðan verður sú að kaup hafi átt sér stað, skal á sama hátt leiðrétta virðisaukaskattsskilin í einu lagi, þ.e. mismun þegar greidds virðisaukaskatts og þess virðisaukaskatts sem almennt hefði borið að innheimta við kaup og sölu við afhendingu. Kjósi aðilar, þ.e. lánafyrirtækið og lántaki sem ekki er virðisaukaskattsskyldur, aftur á móti að breyta inntaki samningssambands síns þannig að um raunverulegan fjármögnunarleigusamning verði að ræða fer um slíkt skv. 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins. Er þá ekki gert ráð fyrir uppgjöri skv. 2. tölulið 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisins heldur er heimilt á grundvelli slíks samkomulags að gefa út kreditreikning dagsettan á því tímabili sem slíkt samkomulag liggur fyrir ásamt endurútreikningi. Sé hvorugu þessara tilvika fyrir að fara endurgreiðir lánveitandi (seljandi) fyrrum lántaka það sem ofgreitt var og bakfærir jafnframt ofreiknaðan virðisaukaskatt af viðskiptunum í samræmi við ákvæði 2. tölul. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisins.

Framangreint gildir jafnt þótt aðilaskipti hafi orðið á samningum, þ.e. að endurreikningur deilist á báða lántakendur (kaupendur) m.v. samningstíma hjá hvorum um sig.

Leiðréttingu á virðisaukaskattsskilum samkvæmt framangreindu og 2. tölulið 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisins skal miða við uppgjörstímabilið þegar endurútreikningur fjármálafyrirtækis gagnvart viðskiptavini liggur fyrir. Jafnframt skal viðeigandi leiðrétting gerð á skattframtali fyrir viðkomandi ár.


V.

Ríkisskattstjóri telur að skýra þurfi sérstaklega hvernig með skuli fara þegar lántaki í virðisaukaskattskyldri starfsemi hefur ekki staðið í skilum með afborganir, þ.m.t. virðisaukaskatt, til lánafyrirtækis sem og þegar lántaki hefur með höndum viðskipti sem undanþegin eru virðisaukaskatti og nýtur því ekki innskattsfrádráttar. Þegar svo háttar til að lántaki hefur ekki staðið í skilum með greiðslur en lánafyrirtækið greitt til ríkissjóðs þann virðisaukaskatt sem lántaki var krafinn um jafnframt „leigugreiðslunni” þarf að líta til mismunandi aðstæðna lántakans, þ.m.t. til þess hvort bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og skiptum er ekki lokið.

Eins og fram hefur komið felst í bráðabirgðaákvæðinu sú krafa að þær leiðréttingar á virðisaukaskatti sem óhjákvæmilegar eru í framhaldi af framangreindum dómi Hæstaréttar Íslands verði framkvæmdar á hagkvæman og skilvirkan hátt. Það er í samræmi við það meginmarkmið 1. töluliðar 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisins að kveða á um að ekki skuli fara fram leiðréttingar á virðisaukaskattsskilum vegna þeirra reikninga, sem þegar hafa verið gefnir út. Af því leiðir að þegar reikningsfærður virðisaukaskattur skal standa óbreyttur, hvort heldur hann hefur verið greiddur að hluta eða öllu leyti af lántaka og sama á við um skil lánafyrirtækis á virðisaukaskatti til ríkissjóðs, enda hafi virðisaukaskattsuppgjöri beggja aðila verið hagað í samræmi við útgefna reikninga. Í ljósi þessa, m.a. í þeim tilvikum sem lántaki í virðisaukaskattsskyldum rekstri er í vanskilum en hefur ekki verið tekinn til gjaldþrotaskipta verður að telja að lánafyrirtækið hafi heimild til að draga frá í uppgjöri vegna gengismunar þær kröfur sem eru útistandandi og þar með einnig þann hluta sem taldist með í virðisaukaskattsskilum fjármögnunarfyrirtækis til ríkissjóðs á þeim tíma sem lántaki var í vanskilum. Með öðrum orðum verður að telja að heimilt sé að skuldajafna niðurstöðu endurútreiknings upp í vangoldinn virðisaukaskatt. Lántaka sem ekki hefði nýtt sér innskattsrétt skv. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, vegna viðskiptanna yrði heimilt við þessar aðstæður að gera það, sbr. framangreint í kafla IV, á því tímabili sem endurútreikningur fer fram og þá miðað við alla áður útgefna reikninga. Eins og fram er komið í kafla IV telur ríkisskattstjóri að ef ekki næst niðurstaða milli samningsaðila um uppgjör viðskiptanna þá sé lánveitanda heimilt á grundvelli afdráttarlausrar yfirlýsingar endurskoðanda eða bókara lántaka um að innskattur hafi ekki verið færður, að bakfæra útskatt ef virðisaukaskattur samkvæmt útgefnum reikningum er umfram fjárhæð virðisaukaskatts af upphaflegri samningsfjárhæð.

Hið sama gildir um lántaka í virðisaukaskattsskyldum rekstri sem tekinn hefur verið til gjaldþrotaskipta en skiptum er ólokið. Það sem eftir stendur og telst sannanlega töpuð krafa er lánafyrirtæki heimilt að draga frá í uppgjöri á skattskyldri veltu á því uppgjörstímabili sem það liggur fyrir, sbr. 2. tölul. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988.

Í þeim tilvikum þar sem lántaki sem ekki nýtur innskattsréttar og er í vanskilum en hefur ekki verið tekinn til gjaldþrotaskipta kemur tvennt til: Annars vegar þarf að leiðrétta virðisaukaskattsskil eftir stöðu samningssambands aðila, sbr. kafla IV, og hins vegar að framkvæma endurreikning vegna gengistryggingar. Við þetta uppgjör verður að telja að lánafyrirtækinu beri að draga frá í uppgjöri vegna gengismunar þær kröfur sem eru útistandandi og þar með talinn þann virðisaukaskatt sé litið svo á að um kaup hafi verið að ræða sem ekki hefur verið greiddur vegna samningsandlagsins, þ.e. að skuldajafna niðurstöðu endurútreiknings upp í þann vangoldna virðisaukaskatt sem staðið hefur verið skil á í ríkissjóð. Á hinn bóginn sé staðan sú að leigutaka beri ekki að standa skil á virðisaukaskatti skal lánafyrirtæki endurgreiða þann virðisaukaskatt sem oftekinn hefur verið og jafnframt leiðrétta virðisaukaskattskylda veltu til samræmis við þann virðisaukaskatt sem staðið hefur verið skil á.

Um lántaka sem ekki nýtur innskattsréttar og sem tekinn hefur verið til gjaldþrotaskipta en skiptum er ólokið, gildir hið sama og fram hefur komið. Lánveitanda yrði heimilt að nýta heimildarákvæði 2. tölul. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988 vegna þess sem út af stendur og telst sannanlega töpuð krafa á því tímabili þegar það liggur fyrir.


VI.

Með bréfum, dags. 30. september 2011 og 31. október sama ár, sendu Samtök fjármálafyrirtækja ríkisskattstjóra fyrirspurnir um áhrif dóms héraðsdóms og síðar dóms Hæstaréttar Íslands á virðisaukaskatts- og tekjuskattsskil fjármögnunarleigufyrirtækja. Fyrr í þessu bréfi hefur ríkisskattstjóri sett fram túlkun á því bráðabirgðaákvæði sem samþykkt var á Alþingi þann 17. desember sl. og telur ríkisskattstjóra að þar komi fram svör við þeim álitaefnum sem sett eru fram í áður greindum bréfum. Verði um að ræða sértæk tilvik sem ekki falla að því sem almennt gildir samkvæmt framansögðu verður að taka á því hverju fyrir sig.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum