Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1036/2003

10.6.2003

Endurgreiðsla virðisaukaskatts til opinberra aðila - þóknun fasteignasala

10. júní 2003
G-Ákv. 03-1036

Ríkisskattstjóra hefur borist fyrirspurn um það hvort þjónusta fasteignasala teljist endurgreiðsluhæf sérfræðiþjónusta á grundvelli 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila.

Í ákvæði 5. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 er tiltekið að endurgreiða skuli ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra virðisaukaskatt sem þau greiða við kaup á þjónustu "verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda, tölvunarfræðinga og annarra sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu og lokið hafa háskólanámi eða sambærilegu langskólanámi eða starfa sannanlega á sviði fyrrgreindra aðila og veita sambærilega þjónustu."

Ákvæði 5. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 hefur, eins og orðalag þess gefur til kynna, ekki að geyma tæmandi talningu á þeirri sérfræðiþjónustu sem undir það fellur. Hvorki löggjafinn né reglugerðargjafinn hafa talið unnt að telja upp með tæmandi hætti þær stéttir sérfræðinga sem undir ákvæðið falla. Helsta viðmiðið í því sambandi er fólgið í orðalagi ákvæðisins sjálfs, þ.e. að um verði að vera að ræða þjónustu háskólamenntaðra sérfræðinga sem hafa sambærilega menntun og þeir sem taldir eru upp í ákvæðinu í dæmaskyni og sem almennt þjóna atvinnulífinu. 

Um löggildingu fasteignasala er fjallað í lögum nr. 54/1997, um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu. Til að geta öðlast löggildingu sem fasteignasali þarf að uppfylla þau skilyrði sem sett eru í 2. gr. laganna. Hvað menntun varðar er sett það skilyrði að viðkomandi hafi staðist próf fyrir fasteignasala. Undanþegnir prófinu eru hæstaréttar- og hérðasdómslögmenn.

Um námskeið og próf fyrir fasteignasala er í gildi reglugerð nr. 612/2001. Í I. kafla reglugerðarinnar er fjallað um námskeið sem dómsmálaráðherra er heimilt að halda til undirbúnings fyrir þá sem þreyta vilja fasteignasölupróf. Námskeiðið skiptist í þrjá hluta og miðað er við að kennsla í hverjum hluta standi yfir í að hámarki 5 mánuði. Þeim sem þreyta vilja fasteignasölupróf er eigi skylt að sækja námskeiðið. Um próf, lágmarkseinkunn, starfsþjálfun o.fl. er fjallað í III. kafla reglugerðarinnar.

Þeir sérfræðingar sem taldir eru upp í dæmaskyni í ákvæði 5. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 hafa að lágmarki 3 ára háskólamenntun.  Fasteignasölupróf það sem fasteignasölum er skylt að standast til að geta öðlast löggildingu sem fasteignasalar verður ekki talið sambærilegt menntun þeirra sérfræðinga sem falla undir ákvæði 5. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990. Þjónusta fasteignasala er því eigi endurgreiðsluhæf á grundvelli 5. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990. Á það eins við þótt fasteignasali hafi öðlast löggildingu á grundvelli réttinda til málflutnings en ekki á grundvelli fasteignasöluprófs. Það er ekki almennt skilyrði löggildingar að viðkomandi sé löglærður og menntun málflutningsmanna breytir ekki eðli starfa þeirra við fasteignasölu.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum