Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1019/2002

3.10.2002

Breytingar á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum - eyðublöð

3. október 2002
G-Ákv. 02-1019

Í bréfi þessu eru raktar þær breytingar sem gerðar hafa verið á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum á sviði virðisaukaskatts, vörugjalds og skilagjalds frá 2. nóvember 2001, þ.e. frá síðasta yfirlitsbréfi ríkisskattstjóra, G-ákv 985/01. Einnig eru kynntar í bréfi þessu breytingar á nokkrum eyðublöðum.

1. Virðisaukaskattur

Lagabreytingar
Nr. 34/2002         Um færslur fjárhæða á virðisaukaskattsskýrslur - fjárhæðir í íslenskum krónum.
Nr. 51/2002         Lög um brottfall laga nr. 54/1974, um Þjóðhagsstofnun, með síðari breytingu, o.fl.
Nr. 64/2002         Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Sjá orðsendingu nr. 3/2002.

Reglugerðarbreytingar

Nr. 949/2001 Breytingar á reglugerð nr. 526/2000, um tollmeðferð vara sem ferðamenn og farmenn hafa með sér við komu til landsins. Breytingar varða tóbaksgjald og tilvitnun til ákvæða laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki.
Nr.   13/2002 Breytingar á reglugerð nr. 526/2000, um tollmeðferð vara sem ferðamenn og farmenn hafa með sér við komu til landsins. Breytingar á fjárhæðum og magni og nýtt ákvæði bætist við.
Nr. 423/2002 Breytingar á reglugerð nr. 294/1997, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til aðila búsettra erlendis. Breytingar varða meðferð endurgreiðsluávísana, fellt er á brott skilyrðið um afhendingu varnings í innsigluðum umbúðum og fjárhæðir í töflu C í fylgiskjali hafa breyst.
Nr. 480/2002 Breytingar á reglugerð nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá. Breytingar til samræmis við þá breytingu sem gerð var á 3. mgr. 35. gr. laga nr. 50/1988, með lögum nr. 64/2002, þar sem skattyfirvöldum er falið, í stað tollayfirvalda áður, að annast framkvæmd skattákvarðana vegna kaupa á þjónustu frá útlöndum.
Nr. 546/2002 Breytingar á reglugerð nr. 554/1993, um virðisaukaskattsskylda sölu á vörum til manneldis o.fl. Breytingar varða endurgreiðslutímabil og tímamörk endurgreiðslu. Þá er orðalagi breytt í samræmi við þá breytingu sem gerð var á 8. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988 með lögum nr. 64/2002.
Nr. 554/2002 Breyting á reglugerð nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila. Breyting varðar tímamörk endurgreiðslu.
Nr. 555/2002 Breyting á reglugerð nr. 540/2001, um tímabundna endurgreiðslu 2/3 hluta virðisaukaskatts vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða. Breyting varðar tímamörk endurgreiðslu.
Nr. 556/2002 Breyting á reglugerð nr. 541/2001, um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna sölu hópferðabifreiða. Breyting varðar tímamörk endurgreiðslu.
Nr. 557/2002 Breyting á reglugerð nr. 470/1991, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til sendimanna erlendra ríkja. Breyting varðar tímamörk endurgreiðslu.
Nr. 558/2002 Breyting á reglugerð nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja. Breyting varðar tímamörk endurgreiðslu.
Nr. 559/2002 Breyting á reglugerð nr. 294/1997, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til aðila búsettra erlendis. Breyting varðar tímamörk endurgreiðslu.
Nr. 560/2002 Breyting á reglugerð nr. 484/1992, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af sölu á heitu vatni og rafmagni til hitunar húsa og laugarvatns. Breyting varðar tímamörk endurgreiðslu.
Nr. 561/2002 Breytingar á reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Breytingarnar fela annars vegar í sér efnisbreytingar varðandi endurgreiðslutímabil og tímamörk endurgreiðslu og hins vegar orðalagsbreytingar til styrkingar gildandi skattframkvæmd. Einnig nýtt ákvæði til bráðabirgða.

Grunnfjárhæðir
Sjá ákvarðandi bréf nr. 996/01 og 1006/02 vegna ársins 2002.

Eyðublöð
A) Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu manna við íbúðarhúsnæði
Í tilefni af breytingum sem gerðar hafa verið á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með lögum nr. 64/2002, og reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, með reglugerð nr. 561/2002, hefur ríkisskattstjóri gefið út fjögur ný eyðublöð. Í stað eyðublaða RSK 10.17 (Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað við nýbyggingu, endurbætur og viðhald á íbúðarhúsnæði til sölu eða leigu) og RSK 10.18 (Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað við nýbyggingu, endurbætur og viðhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota) hafa eftirfarandi eyðublöð verið tekin í notkun:

1. RSK 10.16 (Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna sölu á verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum)
Endurgreiðslubeiðni þessi tekur til þeirra sem flytja inn verksmiðjuframleidd íbúðarhús eða framleiða íbúðarhús í verksmiðju hér á landi. Skilyrði endurgreiðslu er að hús sé afhent uppsett til kaupanda á grunni sem hann leggur til. Ekki er endurgreiddur virðisaukaskattur af söluverði húshluta eða húsa sem afhent eru óuppsett. Hvert endurgreiðslutímabil er tveir mánuðir; janúar og febrúar, mars og apríl, o.s.frv., en þó almanaksárið vegna þeirra byggingaraðila sem gera upp virðisaukaskatt samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti.

2. RSK 10.17 (Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts til byggingaraðila vegna vinnu á byggingarstað við nýbyggingu, endurbætur eða viðhald á íbúðarhúsnæði)
Þessi endurgreiðslubeiðni tekur til byggingaraðila íbúðarhúsnæðis í skilningi reglugerðar nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi. Með byggingaraðila er átt við aðila sem stundar byggingarstarfsemi á eigin kostnað, þ.e. hefur með höndum byggingarframkvæmdir á eigin lóð eða leigulóð, hvort sem aðili hyggst selja fasteignina, leigja hana eða nota sjálfur. Samkvæmt reglugerð nr. 449/1990 geta byggingaraðilar sótt um endurgreiðslu 60% þess virðisaukaskatts sem þeir greiða af eigin vinnu og vinnu starfsmanna sinna samkvæmt reglugerð nr. 576/1989, ef vinnan varðar byggingu, endurbætur eða viðhald á íbúðarhúsnæði í þeirra eigu. Hið sama er að segja um aðkeypta verktakavinnu. Á eyðublaðinu er gerður greinarmunur á framkvæmdum við íbúðarhúsnæði til sölu eða leigu annars vegar og framkvæmdum við íbúðarhúsnæði til eigin nota hins vegar. Hvert endurgreiðslutímabil er tveir mánuðir; janúar og febrúar, mars og apríl, o.s.frv., en þó almanaksárið vegna þeirra byggingaraðila sem gera upp virðisaukaskatt samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995. Endurgreiðsla vegna aðkeyptrar vinnu verktaka við viðhald og endurbætur á íbúðarhúsnæði til sölu eða leigu er þó ekki bundin ofangreindum endurgreiðslutímabilum heldur ber skattstjóra að afgreiða slíka beiðni ekki síðar en 14 dögum frá því hún berst.

3. RSK 10.18 (Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna aðkeyptrar vinnu verktaka við endurbætur eða viðhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota)
Beiðnin varðar aðkeypta vinnu verktaka við endurbætur og viðhald á íbúðarhúsnæði. Hún tekur hins vegar ekki til einstaklinga og annarra aðila sem eru í byggingarstarfsemi á eigin kostnað til sölu eða leigu í skilningi reglugerðar nr. 576/1989, sbr. eyðublað RSK 10.17. Þess skal sérstaklega getið að umsókn um endurgreiðslu er ekki lengur bundin við sérstök endurgreiðslutímabil heldur ber skattstjóra að afgreiða slíka beiðni ekki síðar en 14 dögum frá því hún berst.

4. RSK 10.19 (Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna aðkeyptrar vinnu verktaka við nýbyggingu á íbúðarhúsnæði til eigin nota)
Endurgreiðslubeiðni þessi varðar aðkeypta vinnu verktaka á byggingarstað við nýbyggingu á íbúðarhúsnæði. Hún tekur ekki til einstaklinga og annarra aðila sem eru í byggingarstarfsemi á eigin kostnað til leigu eða sölu í skilningi reglugerðar nr. 576/1989, sbr. eyðublað RSK 10.17. Hvert endurgreiðslutímabil er tveir mánuðir; janúar og febrúar, mars og apríl, o.s.frv.

Þess skal getið að öll eyðublöðin er að finna á vef ríkisskattstjóra rsk.is. Ekki eru til prentuð eintök af fyrstnefnda eyðublaðinu, RSK 10.16, en hin þrjú hafa öll verið prentuð og send skattstjórum. Einnig skal þess getið að fjallað er um framangreindar breytingar í orðsendingu ríkisskattstjóra nr. 3/2002.

B) Kaup á þjónustu frá útlöndum
Skýrslan, RSK 10.24, (Skýrsla um virðisaukaskattsskyld kaup þjónustu frá útlöndum) hefur verið lagfærð vegna framangreindra breytinga á 3. mgr. 35. gr. laga nr. 50/1988, með lögum nr. 64/2002. Eftir þá breytingu er skattstjórum falið að annast framkvæmd skattákvarðana vegna kaupa á þjónustu frá útlöndum. Skýrslan hefur verið prentuð og send skattstjórum.

2. Vörugjald

Lagabreytingar
Auglýsing nr. 126/2001, um breyting á viðauka I við tollalög nr. 55/1987, með síðari breytingum, hefur áhrif á tollskrárnúmer í A, B og C hlutum viðauka I við lög nr. 97/1987, um vörugjald.

3. Skilagjald

Lagabreytingar
Nr. 138/2001       Breyting á lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur. Breyting varðar ráðstöfun tekjuafgangs til Náttúruverndarsjóðs.

Reglugerðarbreytingar
Nr. 448/2002       Breytingar á reglugerð nr. 368/2000, um söfnun, endurvinnslu og skilagjald á einnota umbúðir fyrir drykkjarvörur. Breytingar á fjárhæðum.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum