Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1005/2002

27.3.2002

Virðisaukaskattur - bifreið - tjón af völdum viðgerðaraðila - sölureikningar. 

27. mars 2002
G-Ákv. 02-1005

Ríkisskattstjóri hefur móttekið bréf yðar, dags. 23. júní 2000. Í bréfi yðar er farið fram á að ríkisskattstjóri staðfesti ákveðið verklag og túlkun.

Í bréfi yðar segir m.a. eftirfarandi:

"Nú hefur bílaverkstæði, skráður aðili, gert mistök í viðgerð á ökutæki og valdið skemmdum á því. Verkstæðið hefur ökutækið í vörslu sinni og ber því að greiða fyrir skaðann eða bæta tjónið með viðgerð. Verkstæðið hefur frjálsa ábyrgðartryggingu hjá vátryggingarfélagi sem bætir sannanlegan kostnað sem það verður fyrir vegna mistaka starfsmanna þess.

Samkvæmt minnisatriðum Ríkisskattstjóra um VSK og vátryggingar frá 17.01.1990 sjá meðfylgjandi ljósrit segir í kafla II............ Valdi skráður aðili tjóni á hlut sem hann hefur í vörslu sinni til viðgerðar getur hann þó talið virðisaukaskatt af kostnaði við viðgerð á hlutnum til innskatts...............

Heildarkostnaður vegna tjónsins er vinna við að koma hlutnum í lag ásamt tilheyrandi efni og áhöldum, þ.m.t. virðisaukaskatti. Þessu til staðfestingar er skrifaður reikningur. Við uppgjör tjónsins við viðgerðarverkstæðið dregur vátryggingarfélagið svo frá innskattinn. Byggist það á þeirri meginreglu skaðabóta-og vátryggingaréttar að vátryggður eigi að fá fjártjón sitt bætt, en ekki að hagnast á tjóni. Jafnframt ber vátryggðum að takmarka tjónið að svo miklu leyti sem lög og reglur leyfa, þ.m.t. skattareglur.

A hf., rétt eins og önnur vátryggingarfélög, hefur farið eftir þessum fyrirmælum Ríkisskattstjóra og mun félagið halda því áfram nema skýr fyrirmæli komi frá embætti yðar um annað."

Í tilefni af skrifum yðar vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram:

Þegar virðisaukaskattsskyldur aðili veldur tjóni í tengslum við virðisaukaskattskylda starfsemi sína og ræðst sjálfur í það verk að bæta tjónið með því að gera við hinn skemmda hlut, getur hann talið til innskatts virðisaukaskatt af kostnaði vegna aðfanga til viðgerðarinnar. Gildir það jafnt um kaup á vörum til viðgerðarinnar og kaup á þjónustu frá öðrum virðisaukaskattsskyldum aðilum. Þar sem viðgerðaraðili (tjónvaldur) er að bæta tjón sem hann olli og ekkert gagngjald kemur fyrir af hendi tjónþola, þá er hvorki um að ræða sölu eða afhendingu á skattskyldri þjónustu í skilningi 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, né virðisaukaskattsskylda veltu skv. 1. mgr. 11. gr. sömu laga. Á viðgerðaraðila (tjónvaldi) hvílir því ekki skylda til útgáfu sölureiknings. Þá ber honum hvorki að telja til virðisaukaskattsskyldrar veltu vinnuframlag við viðgerðina né verðmæti úttekinna varahluta til hennar.

Það fellur utan verksviðs ríkisskattstjóra að leggja mat á það með hvaða hætti vátryggingartaki sýnir fram á rétt sinn til bóta.

Beðist er velvirðingar á þeim óhæfilega drætti sem hefur orðið á að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum