Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1002/2002

31.1.2002

Sveitaheimsóknir skólabarna - virðisaukaskattur - aðföng til skóla

31. janúar 2002
G-Ákv. 02-1002

Ríkisskattstjóri hefur móttekið bréf yðar, dags. 13. nóvember 2001, þar sem farið er fram á að bréf ríkisskattstjóra nr. 862/1998 verði fellt úr gildi og staðfest verði að ekki beri að innheimta virðisaukaskatt af sveitaheimsóknum grunn- og leikskólabarna.

Í bréfi yðar kemur fram að um 15 ára skeið hafa bændur í nágrenni Reykjavíkur og Akureyrar uppfyllt þörf menntakerfisins fyrir útikennslu til þess að fræða nemendur leik- og grunnskóla um samspil manns og náttúru í landbúnaði. Einnig kemur fram að þennan hluta menntunarinnar sem flokkast undir útikennslu og náttúruskoðun í sveit hafa skólarnir þurft að sækja til bænda (sveitaheimsóknabænda) sem hafa rukkað lágmarksgjald fyrir eða kr. 200 á barn síðastliðið vor. Þessi upphæð dugar ekki fyrir kostnaði og hafa B því greitt sveitaheimsóknabændum framlag með hverju grunnskólabarni á aldrinum 6-10 ára og var það framlag kr. 90 síðastliðið vor. Þessar vettvangsheimsóknir í sveitina hafa reynst skólunum erfiður útgjaldaliður þar sem kostnaður við rútuferðir bætist ofan á.

Í bréfi yðar er vitnað í aðalnámskrá grunnskóla - náttúrufræði, þar sem segir að í aðalnámskrá sé

"litið svo á að útikennsla, það að flytja kennslu að einhverju leyti út fyrir veggi skólans, auðgi og styrki allt nám ásamt því að vera holl bæði líkama og sál. Útikennsla er sérstaklega nauðsynleg í náttúrufræðinámi þar sem úti í samfélagi, umhverfi og náttúru er sá raunveruleiki sem börnin eru að læra um og þurfa að þekkja, skilja og skynja. Það er því mikilvægt að skólar samþætti útikennslu í skólanámsskrá sína með það m.a. að markmiði að kynna nemendum nánasta umhverfi sitt og efla vitund þeirra og virðingu fyrir því." Einnig er í bréfi yðar vísað í aðalnámskrá leikskóla, þar sem segir: "Leikskólakennara ber að fara í náttúruskoðunarferðir með börnunum. Börn eru næm og taka vel eftir hinu smáa í umhverfinu, þann áhuga ber að nýta. Fjölbreytileiki náttúrunnar er óendanleg uppspretta nýrra hugmynda, leikja, viðfangsefna og athugana."

Í tilefni af skrifum yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, nær skattskylda til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er beinlínis undanþegin skattskyldu samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laganna. Samkvæmt 3. tl. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt er rekstur skóla og menntastofnana, svo og öku-, flug- og danskennsla, undanþegin virðisaukaskatti. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur eftirfarandi m.a. fram um þetta:

 "Til reksturs skóla og menntastofnana ... telst öll venjuleg skóla- og háskólakennsla, fagleg menntun, endurmenntun og önnur kennslu- og menntastarfsemi. ... Við mat á því hvort nám telst skattfrjálst er eðlilegt að höfð sé hliðsjón af því hvort boðið er upp á það í hinu almenna skólakerfi eða ekki. Hafi námsgreinin t.d. unnið sér fastan sess í hinu almenna skólakerfi ber samkvæmt framansögðu að líta svo á að skóla- eða námskeiðsgjöld séu skattfrjáls. Ekki nægir þó í þessu sambandi að boðið sé upp á námsgreinina eða námsbrautina í einstökum skólum heldur verður námið að hafa unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu."

 Með hliðsjón af tilvitnuðum orðum í greinargerð er við túlkun á því hvað teljist til undanþeginnar kennslu- og menntastarfsemi, í skilningi ákvæðis 3. tl. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, fyrst og fremst litið til þess hvort námsgrein hafi unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu. Við túlkun ákvæðisins hefur ríkisskattstjóri einnig miðað við að nám sem felur í sér faglega menntun eða endurmenntun sé undanþegið virðisaukaskatti, en með faglegri menntun eða endurmenntun er átt við kennslustarfsemi sem miðar að því að afla, viðhalda eða auka þekkingu nemenda eingöngu vegna atvinnu þeirra, jafnvel þótt námsgreinin hafi ekki unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu. Í öðrum tilvikum er starfsemi sem ekki hefur unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu skattskyld, s.s. námskeið sem í eðli sínu eru tómstundafræðsla. Öku-, flug- og danskennsla er þó sérstaklega undanþegin, eins og fyrr segir. Þá ber að geta þess að fræðsla og kynning sem felur í sér auglýsingar eða ráðgjöf er ávallt skattskyld.

Námsgreinin náttúrufræði hefur unnið sér fastan og almennan sess í hinu almenna skólakerfi og ljóst er af tilvitnuðum aðalnámsskrám að kynning nemenda á nánasta umhverfi þeirra er einn liður í þeirri námsgrein, auk þess að vera liður í starfi leikskóla. Kennsla í náttúrufræði, með tilheyrandi útivist, er því undanþegin virðisaukaskatti úr hendi skólanna sjálfra. Hins vegar nær sú undanþága ekki til aðfanga til skólastarfseminnar sbr. 4. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, nema að því leyti sem aðföngin falla undir nefnt undanþáguákvæði laganna. Það er álit ríkisskattstjóra að í þeirri starfsemi bænda, fyrir milligöngu B, að selja grunn- og leikskólum þá þjónustu að kynna börnum íslensku húsdýrin í sínu eðlilega umhverfi og störf fólks til sveita felist ekki kennsla í skilningi ákvæðisins heldur teljist hún vera aðföng til reksturs skóla í skilningi laganna. Niðurstaða ríkisskattstjóra í bréfi nr. 862/1998 er því enn í fullu gildi.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum