Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 980/2001

20.7.2001

Virðisaukaskattur - tjónabætur.

20. júlí 2001
G-Ákv. 01-980

Þann 30. mars 2000 móttók ríkisskattstjóri bréf A dagsett 25. janúar 2000 þar sem fram er sett svohljóðandi fyrirspurn:

"Tryggingarfélagið B hefur farið fram á við undirritaðan að reikningar þeir sem berast frá A og eru vegna tjóna sem þeirra skjólstæðingar valda verði sendir félaginu án virðisaukaskatts.

Nokkuð algengt er að bifreiðar valda tjóni á ljósastaurum og hafa tryggingarfélögum verið sendir reikningar yfir efni og vinnu með virðisaukaskatti.

Eftir því sem ég kemst næst túlkar tryggingafélagið málið þannig að A séu með virðisaukaskattsskylda starfsemi og fái því innskattinn til baka af því efni sem keypt er inn.  Það sé því ekki réttmætt að krefja tryggingarfélagið um verð vörunnar með virðisaukaskatti.

Vinsamlegast svarið því hvort beiðni tryggingarfélagsins sé réttmæt og samræmist virðisaukaskattslögum."

Til svars fyrirspurninni skal eftirfarandi tekið fram.

Sú afstaða tryggingarfélagsins sem fram kemur í fyrirspurninni helgast væntanlega af því að bótaréttur tjónþola takmarkist við það fjárhagslega tjón sem hann hefur orðið fyrir og vátrygging tekur til.  Að því leyti, sem tjónþoli á rétt til að fá virðisaukaskatt af kostnaði við að bæta tjónið greiddan úr ríkissjóði í formi innskatts, er virðisaukaskatturinn ekki hluti hins fjárhagslega tjóns. Innskattsréttur er almennt bundinn við virðisaukaskatt af aðföngum sem eingöngu varða sölu virðisaukaskattsskylds aðila á vörum og skattskyldri þjónustu, sbr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (VSK-lög).  Svar við því álitaefni sem hér er til umfjöllunar ræðst því m.a. af því hvort þeir ljósastaurar sem um er rætt eru notaðir í virðisaukaskattsskyldri starfsemi fyrirspyrjanda.  Jafnframt skiptir máli á hvaða grunni virðisaukaskattsskylda hans byggist svo og hvort hann á rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts á grundvelli heimildar í 3. mgr. 42. gr. VSK-laga.

Í 3. gr. VSK-laga er kveðið á um virðisaukaskattsskyldu, þ.e. hverjir skuli innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð. Virðisaukaskattsskylda hvílir á opinberum orku- og veitufyrirtækjum að því leyti sem þau selja skattskyldar vörur og þjónustu, svo og af úttekt til eigin nota, sbr. 3. tölul. 1. mgr. greinarinnar.  Þá eru sveitarfélög, stofnanir þeirra og fyrirtæki virðisaukaskattsskyld að því leyti sem þau selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 4. tl. sömu málsgreinar.  Ennfremur hvílir samkvæmt 2. mgr. 3. gr. skylda á sveitarfélögum og stofnunum þeirra til að greiða í ríkissjóð virðisaukaskatt af vörum, sem þau framleiða, og þjónustu, sem þau inna af hendi, til eigin nota, að svo miklu leyti sem starfsemin er rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki.  Hinn síðast nefndi grunnur skattskyldu nær þó ekki til þjónustu sem endurgreiðsluréttur skv. 3. mgr. 42. gr. VSK-laga tekur til.

Starfsemi fyrirspyrjanda er ekki lýst í fyrirspurnarbréfi, en af þeim upplýsingum sem ríkisskattstjóri býr yfir má ráða að starfsemi hans sé margþætt.  Sumir þættir starfseminnar eru undanþegnir virðisaukaskatti en aðrir skattskyldir, þó ekki allir á sama grunni samanber tilgreininguna í málsgreininni hér að framan.  Á hitaveitu og rafveitu hvílir víðtæk virðisaukaskattsskylda eftir almennum reglum.  Vatnsveita er hins vegar undanþegin virðisaukaskatti nema að því leyti sem hún selur vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki.  Þá má af fyrirspurn ráða að fyrirspyrjandi reki götulýsingu og annist viðhald ljósastaura í því sambandi.  Götulýsingin sjálf er ekki þáttur í virðisaukaskattsskyldri starfsemi og því ekki til staðar innskattsréttur vegna aðfanga til hennar. Eigin úttekt orku til lýsingarinnar ber hins vegar virðisaukaskatt.  Þá ber fyrirspyrjanda að reikna virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð af þjónustu til eigin nota við viðhald mannvirkja til lýsingarinnar, þ.m.t. ljósastaura, enda ná endurgreiðslur samkvæmt 3. mgr. 42. gr. VSK-laga ekki til slíkrar þjónustu.  Skattverð af því viðhaldi miðast við kostnaðarverð þess hluta heildarkostnaðarins sem ekki hefur verið greiddur virðisaukaskattur af við kaup á aðföngum. 

Miðað við framangreindar forsendur verður ekki annað ráðið en að fyrirspyrjandi beri virðisaukaskatt af viðhaldi ljósastaura, jafnt af efniskaupum sem eigin þjónustu.  Virðisaukaskattur myndar því hluta viðgerðarkostnaðar fyrirspyrjanda og er sem slíkur hluti fjárhagslegs tjóns hans.  Verður því ekki séð að viðhorf Tryggingarfélagsins, eins og því er lýst í fyrirspurn, eigi við rök að styðjast.

Beðist er velvirðingar á þeim óhæfilega drætti sem orðið hefur á að svari.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum