Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 975/2001

15.6.2001

Virðisaukaskattur - sojamjólk

15. júní 2001
G-Ákv. 01-975

Ríkisskattstjóri móttók þann 27. febrúar 2001 erindi yðar þar sem farið er fram á að virðisaukaskattur á sojamjólk (Provamil), sem skráð er í tollflokk 2202-9091, verði lækkaður.

Í tilefni af beiðni yðar skal tekið fram að meginreglan í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt er sú að innheimta ber 24,5% virðisaukaskatt af allri vöru og þjónustu, nema lögin kveði á um annað. Í 8. tölul. 1. mgr. 14. gr. sömu laga segir að sala á matvörum og öðrum  vörum til manneldis  samkvæmt nánari afmörkun í reglugerð skuli bera 14% virðisaukaskatt. Í 2. gr. reglugerðar nr. 554/1993, um virðisaukaskattsskylda sölu á vörum til manneldis o.fl. eru talin upp tollskrárnúmer á þeirri matvöru sem ber 14% virðisaukaskatt. Almennt er sojamjólk í drykkjarumbúðum flokkuð í tollflokk 2202-9091 og ber 24,5% virðisaukaskatt sbr. 2. gr. rg. nr. 544/1993. Ef hins vegar er um að ræða drykkjarvöru sem sérstaklega er tilreidd fyrir börn og sjúka þá fellur sú vara í tollflokk 2202-9021 og ber 14% virðisaukaskatt sbr. 2. gr. rg. nr.554/1993.

Það er ekki á valdsviði ríkisskattstjóra að heimila lækkun á virðisaukaskatti af einstökum vörum. Til að af lækkun geti orðið þarf breytingu á reglugerð nr. 554/1993. Að lokum þykir rétt að benda yður á ákvæði 142. gr. tollalaga nr. 55/1987, sem geymir ákvæði um bindandi upplýsingar um tollflokkun vöru.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum