Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 941/2000

28.4.2000

Vsk - heilbrigðisþjónusta - óhefðbundnar lækningar – rolfing

28. apríl 2000
G-Ákv. 00-941

Vísað er til bréfs yðar dags. 8. september 1999 þar sem þér leitið álits ríkisskattstjóra á svo kölluðu rolfing m.t.t. virðisaukaskatts. Í bréfinu kemur fram að þér séuð fyrsti Íslendingurinn útskrifaður sem "certified Rolfer" í bandvefsmeðferðinni rolfing frá The Rolf Institute, Boulder CO. Inntökuskilyrði í skólann séu m.a. "College degree" eða sambærileg menntun, haldgóð reynsla í nuddi og nuddaðferðum og að standast inntökupróf í skólann í líffæra og lífeðlisfræði með lágmarkseinkunn 7 af 10 gefnum. Einnig kemur fram að áður hafið þér m.a. útskrifast sem svæðanuddari, nuddfræðingur og pólunarfræðingur, auk þess að hafa sótt mörg námskeið í tengdum greinum m.a. í krufningu. Í bréfinu er að finna nánari lýsingu á rolfing meðferð og svo segir m.a.:

"Þó Rolfing aðferðin hafi algjöra sérstöðu þá á hún helst samleið með störfum sjúkraþjálfara, sjúkranuddara og kírópraktora hér á landi því þessar aðferðir byggja allar á einhvers konar "physical manipulation" þó hver með sínu sniði. Hinar 3 greinarnar eru allar undanþegnar virðisaukaskatti og því er það eðlilegt og sanngjarnt að Rolfing verði það líka. Það mætti e.t.v. skilgreina þann þátt Rolfing sem snýr að hreyfikennslu og líkamsbeitingu sem iðjuþjálfun eða kennslu. Eða skilgreina heildarmeðferðina sem líkamsrækt, en ekkert af þessu er virðisaukaskattsskylt. Þess má geta að svissneska heilbrigðiskerfið niðurgreiðir Rolfing meðferð líkt og Tryggingastofnun greiðir niður sjúkraþjálfun á Íslandi. Einnig greiðir fjöldi bandarískra heilsutryggingafélaga Rolfing meðferð fyrir skjólstæðinga sína."

Með bréfinu fylgdu ýmsar upplýsingar um rolfing nám og meðferð, auk prófskírteina. Að auki bárust eftirfarandi gögn frá yður 18. nóvember 1999: Grein um rolfing í Heilsuhringnum og upplýsingar um danskan virðisaukaskatt m.t.t. óhefðbundinna lækninga (nyhedsbrev - momsfritagelse for alternative behandlere).

Til svar við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Skv. 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er þjónusta sjúkrahúsa, fæðingarstofnana, heilsuhæla og annarra hliðstæðra stofnana, svo og lækningar, tannlækningar og önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta, undanþegin virðisaukaskatti.

Við afmörkun á hugtakinu "önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta" í framangreindum skilningi er í skattframkvæmd miðað við að starfsemi þurfi að uppfylla tvö skilyrði;  1) að um sé að ræða þjónustu sem fellur undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál og 2) að þjónustan felist í meðferð á líkama sjúklings til lækninga, hjúkrunar eða sambærilegrar meðferðar. Jafnframt hefur í skattframkvæmd verið litið svo á að starfsemi sálfræðinga sem hafa leyfi til að kalla sig sérfræðinga skv. reglugerð nr. 158/1990, um sérfræðileyfi sálfræðinga, og starfa á heilbrigðissviði sé undanþegin skv. umræddum 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. (sbr. og 2. tölul. sömu málsgreinar starfi þeir á sviði félagslegrar þjónustu). Í vafatilvikum hefur ríkisskattstjóri leitað álits heilbrigðisyfirvalda á því hvort viðkomandi starfsemi falli undir viðurkennda heilbrigðisþjónustu að mati heilbrigðisyfirvalda.

Með bréfi dags. 13. desember 1999 leitaði embættið umsagnar heilbrigðisráðuneytisins um rolfing meðferð. Ráðuneytið vísaði erindinu til landlæknis sem sendi svar sitt með bréfi dags. 23. mars sl. Í bréfi landlæknis segir m.a. að þér hafið sótt um löggildingu sem heilbrigðisstarfsmaður samkvæmt lögum um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, nr. 24/1985, en lögin taki til starfsheita og starfsréttinda þeirra heilbrigðisstétta sem sérlög gildi ekki um. Ástæða þess að umsóknin hefur ekki verið afgreidd sé einkum sú að í smíðum sé nýtt frumvarp um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta. Jafnframt kemur fram að Landlæknisembættinu sé nokkur vandi á höndum að meta fagið Rolfing, lítið hafi verið fjallað um meðferðina í læknisfræði og heilbrigðisvísindum og hún sé ekki mjög útbreidd. Ennfremur segir m.a.:

"Um er að ræða meðhöndlun í þess orðs fyllstu merkingu á mjúkvefjum í stoðkerfi ásamt hreyfikennslu. Um er að ræða djúpa og hæga þrýstimeðferð, sem losar um hertan bandavef og bandvefsfell, en þetta ásamt kennslu í hreyfingum miðar að því að hafa líkamann svo beiting hans breytist til betri vegar. Rolfing telst til svokallaðra óhefðbundinna lækninga. Heilbrigðisyfirvöld fyrirhuga að setja nánari reglur um óhefðbundnar lækningar á næstu mánuðum. Viðhorf í hinum vestræna heimi eru að breytast og mildast gagnvart óhefðbundnum lækningum, ekki síst í Löndum EES. Að því er séð verður virðist Rolfing byggjast á hefðbundinni líffærafræði. Að því leyti má segja að hún gæti flokkast með öðrum meðferðarformum, sem hafa fengið löggildingu, svo sem sjúkranuddi og hnykkmeðferð, sem hvorutveggja eru sérhæfðar heilbrigðisstéttir."

Loks segir að landlæknisembættið telji rétt að láta yður ekki gjalda þess að dregist hafi að setja reglur um óhefðbundar lækningar og að tafist hafi af fyrrgreindum sökum að afgreiða umsókn yðar um löggildingu á starfsheiti. Þá er því velt upp hvort unnt sé að veita yður tímabundna undanþágu frá virðisaukaskatti þar til rolfing meðferð hafi fengið frekari afgreiðslu í samræmi við það sem áður er getið.

Umsögn heilbrigðisyfirvalda um rolfing meðferð er ekki afdráttarlaus en þó virðist af henni mega ráða að rolfing meðferð megi fullkomlega jafna við löggilt meðferðarform, sbr. t.d. starfsemi sjúkranuddara og hnykkjara (kiropraktora). Í ljósi umsagnarinnar lítur ríkisskattstjóri svo á að rolfing meðferð teljist til eiginlegrar heilbrigðisþjónustu í skilningi 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 og að hún teljist því undanþegin virðisaukaskatti.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum