Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 938/2000

17.3.2000

VSK - skatterindi - valdframsal - úrskurðarvald skattstjóra í endurupptökumálum - 2. mgr. 39. gr. vskl. sbr. 3. mgr. 101. gr. tskl.

17. mars 2000
G-Ákv. 00-938

Með vísan til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 425/1998 taldi ríkisskattstjóri rétt að framselja með formlegum hætti til skattstjóra úrskurðarvald í vissum endurupptökumálum vegna virðisaukaskatts, sbr. álit ríkisskattstjóra dags. 15. janúar 1999, tilvísun 901/99.  Áður var í reynd um óformlegt, opið og ótakmarkað framsal að ræða, þ.e. varðandi virðisaukaskatt, þótt miðað væri við að skattstjórar afgreiddu að meginstefnu til aðeins skatterindi vegna virðisaukaskatts þess rekstrarárs sem ekki lá fyrir álagning tekjuskatts.

Með áliti ríkisskattstjóra, tilvísun 901/99, var skattstjórum formlega falið að afgreiða beiðnir (leiðréttingarskýrslur (hvort heldur sem er á formi 10.10 eða 10.26)) um endurupptökur virðisaukaskatts þess rekstrarárs sem ekki liggur fyrir álagning tekjuskatts.  Skattstjórum bar því að framsenda til ríkisskattstjóra allar aðrar endurupptökubeiðnir vegna virðisaukaskatts en að framan greinir nema ríkisskattstjóri hefði falið skattstjóra sérstaklega að afgreiða viðkomandi beiðni, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. 

Áréttað skal að þrátt fyrir að skattstjórum hafi verið falið að afgreiða beiðnir um endurupptöku þess rekstrarárs sem ekki lá fyrir álagning á tekjuskatti þá var ekki ætlunin að breyta þeirri framkvæmd að skattstjórar afgreiði leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts (RSK 10.26) sem er meðfylgjandi skattframtali, eða berst í tengslum við það, jafnvel þótt skattframtalið sé afgreitt á undan leiðréttingarskýrslunni.

Að gefnu tilefni þykir nauðsynlegt að endurskoða ofangreinda framkvæmd.

Með vísan til 1. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er skattstjórum, hverjum í sínu umdæmi, jafnframt falið að afgreiða beiðnir (leiðréttingarskýrslur (í formi 10.10 eða 10.26)) um virðisaukaskatt þess efnis að ákvörðun skattstjóra um álagningu verði breytt og byggt á skýrslu í stað áætlunar skattstjóra, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988 og 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981.

Við afgreiðslu ofangreindra beiðna þarf að gæta þess að skattframtal vegna viðkomandi rekstrarárs sé skoðað. Samkvæmt 91. gr. laga nr. 75/1981, ber gjaldanda að skila skattframtali og ef það hefur ekki borist er rétt að synja beiðninni. 

Mikilvægt er að flett sé upp í launamiðakerfinu og skoðað hvort og hvaða verktakagreiðslur eru uppgefnar á gjaldanda á viðkomandi rekstrarári. Einnig getur verið þörf á að kalla eftir frekari gögnum t.d. samanburðarskýrslu virðisaukaskatts (RSK 10.25), hreyfingalistum vegna út- og innskatts og nákvæmari skýringum á málavöxtum öllum og eðli rekstrar gjaldanda.

Loks er skattstjórum falið að afgreiða leiðréttingarskýrslur vegna virðisaukaskatts þótt skatturinn hafi ekki verið áætlaður ef skattframtal hefur ekki borist.  Ef það hefur ekki borist er rétt að synja beiðninni.

Tekið skal fram að skattstjóra ber hér eftir að framsenda til ríkisskattstjóra allar aðrar endurupptökubeiðnir vegna virðisaukaskatts en að framan greinir nema ríkisskattstjóri hafi falið skattstjóra sérstaklega að afgreiða viðkomandi beiðni, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981. Einnig skal tekið fram að leita má eftir formlegu framsali frá ríkisskattstjóra í einstöku máli þyki hentugra að afgreiða málið á skattstofu. Sem dæmi má nefna að mál getur verið þannig vaxið að skilað er leiðréttingarskýrslum vegna nokkurra rekstrarára en skattstjóri hefur einungis heimild til að afgreiða hluta málsins með vísan til ofangreindra framsalsreglna. Skattstjóri gæti t.d. í sambærilegum málum leitað eftir formlegu framsali frá ríkisskattstjóra.

Að lokum skal áréttað að ákvörðun ríkisskattstjóra/skattstjóra um að synja beiðni um endurupptöku skattákvörðunar er ekki kæranleg til yfirskattanefndar. Á það skal hins vegar bent að almennt er ákvörðun stjórnvalds, sem fengið hefur vald framselt frá öðru stjórnvaldi, kæranleg til þess stjórnvalds er valdið framseldi skv. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Meðfylgjandi er fylgiskjal b.t. vsk-eininga, þar sem tilgreint er hvaða mál skattstjórum ber að afgreiða og hvaða mál af umræddum toga ber að framsenda ríkisskattstjóra.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum