Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 934/2000

7.2.2000

Vsk - skógrækt - nytjaskógrækt

7. febrúar 2000
G-Ákv. 00-934

Hinn 4. febrúar sl. var haldinn fundur um skógræktarmálefni, m.a. í ljósi nýlegra laga um landshlutabundin skógræktarverkefni (nr. 56/1999). Á fundinum fór fulltrúi ríkisskattstjóra yfir helstu reglur um virðisaukaskatt m.t.t. skógræktar og þá einkum nytjaskógræktar. Fundinn sátu stjórnarmenn landshlutabundinna skógræktarverkefna, svo og H og S.

Gögn um virðisaukaskatt m.t.t. skógræktar og nytjaskógræktar

Hjálagt fylgja yður til kynningar, hr./fr. skattstjóri, þau gögn sem notuð voru og dreift við flutning framangreinds erindis um virðisaukaskatt. Um er að ræða eftirfarandi efni:

  • Ljósrit af glærum sem notaðar voru við flutning erindisins, en þarna er fjallað um eftirfarandi atriði:

              -Nokkur meginatriði um virðisaukaskatt

              -Helstu skráningartegundir (almenn, fyrirfram, gegn tryggingu, afturvirk)

              -Gildandi reglur um skógrækt m.t.t. virðisaukaskatts

              -Form trygginga

              -Skattaleg skilgreining á nytjaskógrækt

              -Skjólbelti

              -Landbótaskógur

              -Fullnægjandi trygging

              -Virðisaukaskattskvöð á landinu                    

              -Tilgangur kvaðar

              -Gengið að kvöð

              -Niðurfall kvaðar

              -Skráningarumsókn

  • Yfirlit yfir söguleg atriði, þ.e.a.s. framgang mála á árunum 1990-1997. Þarna eru m.a. listuð upp fyrri bréf ríkisskattstjóra um efnið.
  • Bréf ríkisskattstjóra nr. 821/97 þar sem, m.t.t. þess tíma sem liðið getur á milli þess að aðili fær samþykki til nytjaskógræktar þar til fullgerður, undirritaður og staðfestur samningur getur legið fyrir, er fallist er á að kvöð vegna nytjaskógræktar sé í formi eyðublaðs RSK 10.30 9706.
  • Eyðublað RSK 10.30 9706.
  • Leiðrétt orðsending vegna virðisaukaskatts nr. 4/1997 til aðila í nytjaskógrækt, þ.e.a.s. uppfærð orðsending miðað við núverandi aðstæður.

Skráning nytjaskógræktar

Á fundinum kom fram að m.t.t. þess tíma sem það tekur jafnan að ganga formlega frá þinglýstum samningi um nytjaskógrækt þá sé það ekki raunhæft að trygging vegna skráningar viðkomandi skógarbónda á virðisaukaskattsskrá, þ.e.a.s. virðisaukaskattskvöðin á landinu, verði inni í samningsforminu eins og áætlað var að yrði, sbr. eldri bréf ríkisskattstjóra um efnið. Eyðublað RSK 10.30 9706 verður því áfram í notkun.

Gögn sem þurfa að vera fyrir hendi svo hægt sé að skrá skógarbónda vegna nytjaskógræktar eru því eftirfarandi:

  • Umsókn, þ.e. tilkynning um virðisaukaskattsskylda starfsemi (RSK 10.22).
  • Staðfesting viðkomandi opinbers aðila á því að fyrir hendi sé munnlegur samningur um nytjaskógrækt.
  • Þinglýst kvöð á hinu samningsbundna landi í formi eyðublaðs RSK 10.30 9706.

Gert er ráð fyrir því að skógarbóndi sendi skattstjóra afrit þinglýsts samnings um nytjaskógrækt þegar hann liggur fyrir. Rétt er að minna á að nytjaskógrækt skráist í alveg sérstöku atvinnugreinarnúmeri (02.01.1 - sjá bréf ríkisskattstjóra 816/97). Einnig skal tekið fram að hæpið er að unnt sé að skrá aðra skógrækt en nytjaskógrækt, sjá umfjöllun í hjálögðum gögnum.

Viðbótarskógar

Að undanförnu hafa embætti ríkisskattstjóra borist nokkrar fyrirspurnir um svokallaða Viðbótarskóga hjá Skógrækt ríkisins. Af því tilefni skal eftirfarandi tekið fram:

Í úthlutunarreglum kemur m.a. fram að tilgangur Viðbótarskóga sé að styrkja aðila sem vilja og geta verið nokkuð stórtækir í skógrækt en hafa ekki átt kost á að nýta sér þá skógræktarstyrki sem í boði hafa verið hingað til. Hér sé einkum átt við bændur eða aðra landeigendur utan marka nytjaskógræktarsvæða og skógræktarfélög eða önnur félagasamtök sem ekki eru þátttakendur í Landgræðsluskógum. Styrkurinn er í formi skógarplantna og styrkþegi leggur fram jafn margar skógarplöntur á móti. Styrkþegi skuldbindur sig til að halda viðkomandi landi friðuðu fyrir beit á meðan skógurinn er að vaxa, eða í a.m.k. 25 ár.

Ljóst er að Viðbótarskógar falla ekki undir skilgreiningu nytjaskógræktar og ekki verður séð að fyrirhugað sé að hafa virðisaukaskattsskyldar tekjur og hagnað af þessari starfsemi.

Að svo stöddu virðist því ekki hægt að skrá slíka starfsemi. Sjá þau sjónarmið sem fram koma í hjálögðum gögnum (einkum á glærum undir liðunum "Önnur skógrækt en nytjaskógrækt" og "Landbótaskógar"). Einnig má benda á úrskurð yfirskattanefndar nr. 993/1996, en það athugist að hann féll í tíð eldri réttar, þ.e. þegar skráning gegn tryggingu var ekki til.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum