Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 890/1998

25.11.1998

Sala sýningarréttar – söluverð miðað við miðasölu

25. nóvember 1998
G-Ákv. 98-890

Að gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri taka fram að sala á sýningarrétti telst ávallt til skattskyldrar veltu kvikmyndaframleiðenda án tillits til þess með hvaða hætti söluverð er ákvarðað.

Ríkisskattstjóri hefur orðið þess áskynja að í einhverjum tilvikum sé meðferð kvikmyndaframleiðenda á sölu sýningarréttar ekki með réttum hætti. Til frekari skýringar  virðist sala sýningarréttar á íslenskum kvikmyndum í einhverjum tilvikum ekki vera talin til skattskyldrar veltu. Verðlagning sýningarréttar á íslenskum kvikmyndum er þá oft bundin við tekjur af miðasölu. Vegna þessa virðist vera sá misskilningur uppi að þar sem verð er miðað við selda aðgangsmiða og kvikmyndin er íslensk þá sé hér um að ræða veltu sem sé undanþegin virðisaukaskatti skv. 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem undanþiggur virðisaukaskatti aðgang að íslenskum kvikmyndum. Undanþáguákvæði 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna á einungis við kvikmyndahús, þ.e. þann aðila sem selur aðgang að kvikmyndum.

Séu rekstraraðilar kvikmyndahúsa jafnframt framleiðendur íslenskra kvikmynda ber þeim hins vegar að fara eftir ákvæðum um eigin úttekt við ákvörðun á skattverði, sbr. 8. og 9. gr. virðisaukaskattslaga. 

Ljóst er að kvikmyndagerð í atvinnuskyni er virðisaukaskattsskyld starfsemi samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laganna. Þetta þýðir m.a. að innheimta ber virðisaukaskatt af sölu sýningaréttar á kvikmynd. Í þessu sambandi skiptir ekki máli með hvaða hætti verð sýningaréttarins er ákveðið, þ.m.t. þegar verðlagning sýningaréttar er miðað við selda aðgöngumiða.

Að lokum skal tekið fram að rekstraraðilar geta átt von á því að skattyfirvöld kanni frekar framkvæmd á þessu sviði á næstunni.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum