Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 853/1998

7.5.1998

Pökkun og flutningur búslóða (door to door services) – virðisaukaskattur

7. maí 1998
G-Ákv. 98-853

Vísað er til bréfs yðar, dags. 27. janúar 1998, til fjármálaráðuneytisins, sem framsendi ríkisskattstjóra það 19. febrúar sl. Í bréfinu er spurt hvort innheimta eigi og standa skil á virðisaukaskatti af pökkun og flutningi búslóða milli landa.

Í bréfi yðar segir m.a.:

"Við rekum fyrirtæki sem sérhæft hefur sig í flutningum á búslóðum milli landa fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Uppistaðan í okkar veltu er hinsvegar flutningar á búslóðum fyrir Varnarliðið og starfsmenn þess, en auk þess vinnum við nokkuð fyrir ráðuneyti, innlend og erlend fyrirtæki og einstaklinga.

Við bjóðum upp á flutninga á búslóðum frá húsi til húss, (Door to Door services). Þar erum við annað hvort sendandi búslóðarinnar eða móttakandi, sem fer að sjálfsögðu eftir því hvort búslóðin er að koma til landsins eða fara héðan. Varðandi Varnarliðið og starfsmenn þess liggur málið ljóst fyrir."

Samkvæmt framansögðu og því sem fram kemur í bréfi yðar til ríkisskattstjóra dags. 10. september 1997 (svar tilv. Alm. 69/97) er starfsemi yðar fólgin í að pakka og flytja búslóðir milli landa ásamt því að ganga frá farmskjölum, taka upp úr kössum, fjarlægja gáma og rusl og í einhverjum tilvikum er þjónustan fólgin í því að koma búslóð fyrir.

Til svars bréfi yðar skal tekið fram að sala á vöruflutningum milli landa og vöruflutningum innan lands þegar flutt er beint til eða frá landinu teljast ekki til skattskyldrar veltu. Skilyrði fyrir því að innanlands flutningur sé undanþeginn á grundvelli ákvæðisins er að hann sé hluti af heildarflutningnum, þ.e. að um flutninginn hafi verið gerður einn flutningssamningur. Ef um er að ræða einn flutningssamning sem tekur bæði til millilandaflutningsins og innanlandsflutningsins þá er heildarsalan undanþegin skattskyldri veltu. Allur sá kostnaður sem er í nauðsynlegum og órofa tengslum við millilandaflutninginn fellur einnig hér undir enda sé sá kostnaður hluti af flutningsgjaldinu. Aftur á móti er þjónusta sem fólgin er í pökkun á búslóð og því að taka upp úr kössum á áfangastað ekki hluti af millilandaflutningnum enda er sú þjónusta veitt áður en flutningur hefst eða eftir að honum lýkur. Því er sú þjónusta sem síðast var nefnd ekki undanþegin skattskyldri veltu og ber því að halda henni aðgreindri frá millilandaflutningnum og að innheimta og skila virðisaukaskatti af henni, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.  

Jafnframt skal tekið fram að ekki er heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt af pökkun búslóða fyrir einstaklinga eða aðra óskattskylda aðila samkvæmt reglugerð nr. 288/1995, þar sem reglugerðin tekur einungis til erlendra fyrirtækja sem reka starfsemi sem væri skráningarskyld samkvæmt virðisaukaskattslögum ef hún væri rekin hér á landi. Auk þess skal tekið fram að reglugerð nr. 294/1997, um endurgreiðslu á virðisaukaskatti til aðila búsettra erlendis, tekur ekki til þjónustu heldur einungis til vöru sem kaupendur hafa með sér af landi brott.

Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum