Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 849/1998

2.4.1998

Viðhald og endurbætur veitingahúss.

2. apríl 1998
G-Ákv. 98-849

Vísað er til bréfs yðar, móttekið þann 18. mars 1998, þar sem óskað er eftir svari við ýmsum álitaefnum varðandi virðisaukaskatt af kostnaði við viðhald og endurbætur á húsnæði sem breyta á frá verslunarrekstri í rekstur veitingahúss.  Samkvæmt bréfi yðar tók umbjóðandi yðar húsnæðið á leigu undir veitingastarfsemi og helstu breytingar sem gera þarf á húsnæðinu vegna breyttra nota eru eftirfarandi:

  1. Húsnæðið málað.
  2. Ný salernis- og hreinlætisaðstaða að kröfu heilbrigðiseftirlits.
  3. Bar og barhillur vegna vínsölu.
  4. Eldhús veitingahússins eldvarið með gipsplötum að kröfu brunamálastofnunar.
  5. Ný ljósagrind og ljósabúnaður.
  6. Hlaðinn múrveggur (varanlegur).
  7. Akstur vegna aðfanga.
  8. Blásari og síur vegna eldhúss að kröfu heilbrigðiseftirlits.
  9. Gardínur.

Í bréfi yðar farið þér þess á leit við ríkisskattstjóra að hann svari því hvort eitthvað af ofangreindum aðföngum falli undir II. kafla reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt og hvort umbjóðanda yðar sé heimilt að færa til innskatts virðisaukaskatt af kostnaði við ofangreind aðföng.

Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, telst húsnæði, sem leigt er út, ekki notað fyrir skattskyldan rekstur nema leigusali hafi skráð sig frjálsri skráningu skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.  Af því leiðir að leigutaki sem leigir húsnæði undir atvinnurekstur, án þess að leigusali hafi skráð sig frjálsri skráningu, getur ekki fært sem innskatt virðisaukaskatt af kostnaði við viðhald, viðgerðir eða endurbætur á leiguhúsnæðinu.  Af þessu má draga þá niðurstöðu að  umbjóðandi yðar geti nýtt virðisaukaskattinn af kostnaði við gardínur í leiguhúsnæðinu.  Atriðin sem falla undir lið 1, 2, 4, 5, 6 og 8 eru hins vegar þess eðlis að ekki er heimilt að telja virðisaukaskatt af þeim til innskatts.

Í lið 3 er spurt um bar og barhillur vegna vínsölu.  Til svars við því hvort hægt sé að telja virðisaukaskattinn af slíkum aðföngum til innskatts skal á það bent að það er háð því hvort um sé að ræða lausar innréttingar sem verða ekki eign leigusala eða hvort um er að ræða innréttingar sem verða hluti af fasteigninni, þ.e. varanlega við fasteignina skeyttar.  Ef um lausar innréttingar er að ræða þá er heimilt að telja virðisaukaskattinn af kostnaði við öflun þeirra til innskatts, annars ekki.

Hvað kostnað vegna aksturs vegna aðfanga varðar (liður 7) þá er umbjóðanda yðar heimilt að telja virðisaukaskattinn af þeim rekstrarkostnaði til innskatts, enda gildir um þann akstur meginreglan sem fram kemur í 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.  Í því ákvæði segir að aðili, sem skráður hefur verið skv. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, megi telja til innskatts þann virðisaukaskatt sem frá og með skráningardegi fellur á kaup hans á skattskyldum vörum og þjónustu til nota í rekstrinum, enda byggist innskattskrafa hans gagnvart ríkissjóði á skjölum og bókhaldi sem fullnægjandi er samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum