Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 846/1998

26.3.1998

Notkun virðisaukaskattsbifreiða - akstur milli heimilis og vinnustaðar

26. mars 1998
G-Ákv. 98-846

Vísað er til bréfs yðar, dags. 4. febrúar 1998, þar sem þér óskið eftir áliti ríkisskattstjóra á því, hvernig fara beri með umsókn búnaðarsambanda um endurgreiðslu á virðisaukaskatti af kaupverði bifreiða sem notaðar eru af frjótæknum og öðrum þjónustuaðilum þeirra, en þessar bifreiðar eru geymdar við heimili viðkomandi starfsmanna.

Samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, er það skilyrði þess að telja megi til innskatts virðisaukaskatt vegna öflunar eða leigu sendi- eða vörubifreiða, að bifreið sé eingöngu notuð vegna sölu skattaðila á skattskyldum vörum og þjónustu. Þar segir einnig að ökutæki sé ekki talið notað eingöngu vegna sölu á skattskyldum vörum og þjónustu ef það er notað af eiganda eða starfsmanni til aksturs á milli heimilis og vinnustaðar. Þetta á einnig við ef bifreið er geymd við heimili starfsmanns.

Ríkisskattstjóri telur heimili frjótækna ekki geta talist starfsstöðvar eða útibú á vegum búnaðarsambanda þó að umræddir starfsmenn komi ekki við á aðalstarfsstöð í byrjun eða við lok vinnudags. Ljóst er því að um er að ræða akstur bifreiðanna milli heimilis starfsmanna og vinnustaðar og telst slík notkun til einkanota. Því er óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af kaupverði umræddra bifreiða. Á það skal hins vegar bent að heimilt er að nota bifreið á venjulegum númerum (virðisaukaskattur af kaupverði ekki innskattaður) í virðisaukaskattsskyldum rekstri auk einkanota og er því heimilt að telja virðisaukaskatt af þeim rekstrarkostnaði er varðar hinn skattskylda rekstur til innskatts, sbr. 4. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum