Skil atvinnumanna á skattframtölum viðskiptamanna 2019


Reykjavík, 11. febrúar 2019

I. Almennt

Ríkisskattstjóri hefur á grundvelli samstarfssamnings við Félag löggiltra endurskoðenda, FLE, og viðræðna við Félag bókhaldsstofa, FBO, ákveðið með vísan til framanritaðs að fagaðilar, þ.m.t. endurskoðendur og bókarar, fái samkvæmt bréfi þessu heimildir til rýmri framtalsskila. Eru þær sérstöku heimildir þannig umfram almenna framtalsfresti, sbr. auglýsingu ríkisskattstjóra, dags. 31. janúar 2019, nr. 115/2019, sem birt var í B-deild stjórnartíðinda 31. janúar sl. Hafa af þessu tilefni verið settar viðmiðanir og skilyrði, svo sem síðar greinir í bréfi þessu í köflum II. - V.

Notkun frestlista var hætt á framtalsárinu 2017 og í þeirra stað voru teknir upp skilalistar. Í því hugtaki felst að fagaðili sendir ríkisskattstjóra lista yfir sem jöfnust skil þeirra lögaðila sem hann hefur tekið að sér að skila skattframtali fyrir í ár, sbr. kafla III. Ekki er gerð krafa um skilalista fyrir einstaklinga. Skilalistum skal skila á slóðinni rsk.is/skil.

II. Sérstök skilyrði

Framlenging á almennum skilafresti tekur til þeirra endurskoðenda og bókara sem fallast á að fara að þeim skilmálum sem settir eru í bréfi þessu. Framlenging á skilafresti 2019 miðast alfarið við rafræn skil á skattframtölum og viðkomandi fylgiblöðum framtalsins, þar með talið ársreikningi eftir því sem við á, sbr. það er að neðan greinir.

Athygli er vakin á því að almenn skylda til að skila ársreikningi með skattframtali tekur þó ekki til þeirra örfélaga, sem nýta sér heimild til að skila efnahags- og rekstraryfirliti til Ársreikningaskrár skv. 1. gr. reglugerðar nr. 974/2016, um framsetningu og innihald ársreikninga örfélaga byggt á skattframtölum („Hnappurinn“).

Einnig er vakin athygli á mikilvægi þess að staðið sé skil á ársreikningum til Ársreikningaskrár með rafrænum hætti, samhliða skilum á ársreikningi með skattframtali og innan lögboðins skilafrests.

III. Um skil á skattframtölum 2019

  1. Framtölum einstaklinga utan atvinnurekstrar skal skilað með jöfnum hætti innan framtalstímabilsins 1. mars til 14. apríl og framtölum einstaklinga með atvinnurekstur með sama hætti til 23. apríl.
  2. Skattframtölum stærri lögaðila skal skilað fyrir 31. maí og með jafnri dreifingu. Til stórra lögaðila teljast þeir sem eru með veltu yfir 600 milljónum kr. og eignir yfir 300 milljónum kr.
  3. Skattframtölum minni lögaðila, þ.e. undir framangreindum stærðarmörkum, skal framvegis skilað með jafnri dreifingu frá upphafi framtalstímabils 1. febrúar til 10. september, sem er lokaskiladagur í ár og er sá skiladagur endanlegur. Áréttað skal að hámark skila í júlímánuði takmarkast þó við 20% og hið sama á við um skil í ágústmánuði, þ.e. 20%. Þá skal tekið fram sérstaklega að skil í september mega ekki fara fram úr 10%.

Endurskoðendur og bókarar skulu hafa útfyllt skilalista á heimasíðu ríkisskattstjóra (rsk.is/skil) fyrir 28. febrúar n.k. vegna þeirra lögaðila undir stærðarmörkum, sbr. 3. tölul., sem þeir annast skil fyrir. Á skilalista komi m.a. fram kennitala félags, netfang og fyrirhugaður skilamánuður hvers einstaks lögaðila.

IV. Almenn skilyrði

Almennt skal gæta eftirfarandi atriða við skil á skattframtölum, ársreikningum og öðrum framtalsgögnum:

    Framtöl einstaklinga:

  • Réttilega útfyllt eyðublað RSK 4.11, sem uppfyllir jafnframt öll skilyrði III. kafla laga um bókhald, telst fullnægjandi sem ársreikningur með framtali einstaklings í rekstri. Sé eðli starfseminnar hins vegar þannig að sundurliðun á tekjum, gjöldum, eignum og skuldum samkvæmt RSK 4.11 gefi ekki skýra mynd af henni, skal sérstakur ársreikningur ásamt skýringum og sundurliðunum fylgja framtali ásamt RSK 4.11, eða eftir atvikum RSK 1.04, sbr. 7. gr. augl. nr. 115/2019.
  • Framtali lögaðila; RSK 1.04, sem annað hvort hefur ekki heimild eða nýtir sér ekki heimild til að nota „Hnappinn“, skal fylgja undirritaður ósamandreginn ársreikningur ásamt skýringum og sundurliðunum. Aðrir lögaðilar, sem heimild hafa og nýta sér „Hnappinn“, þurfa ekki samhliða framtalsskilum að senda með sérstakan ársreikning. Fjárhæðir á RSK 1.04 skulu grundvallast á ársreikningi hvers einstaks lögaðila vegna rekstrar hans, óháð því hvort framteljandi hefur stöðu móður- eða dótturfélags innan fyrirtækjasamstæðu. Í þeim tilfellum, þegar ríkisskattstjóri hefur heimilað samsköttun, skv. 55. gr. laga nr. 90/2003, skal að auki fylgja samstæðureikningur.
  • Ef framteljandi gerir út skip eða bát, sem stundar fiskveiðar, skal gera grein fyrir aflaverð­mæti og aflamagni pr. fisktegund og heildarkostnaði við útgerð viðkomandi skips eða báts á sérstöku yfirliti, RSK 4.29, í framtalsskilunum.
  • Þeir lögaðilar sem eiga í viðskiptum við tengda aðila (e. transfer pricing) og falla undir ákvæði um skjölunarskyldu skv. 5. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, skulu staðfesta skjölunar­­skylduna og skila með framtalinu forminu RSK 4.28.
  • Ef framteljandi á eignarhlut eða er ráðandi aðili í félagi (CFC) í lágskattaríki, skal gera grein fyrir slíkum eignarhlut og tekjum af honum á sérstakri skýrslu, RSK 4.25, í framtals­skil­unum.
  • Ársreikningi og öðrum nauðsynlegum fylgiskjölum skal skila rafrænt á sama tíma og skattframtali.
  • Ef rafrænum ársreikningum er skilað ber að gera það annað hvort samhliða sendingu skattframtals úr framtalsforriti eða á þjónustuvefnum skattur.is. Á það jafnt við um ársreikninga lögaðila sem og ársreikninga einstaklinga í atvinnurekstri.

V. Eftirfylgni

Almenn ákvæði X. - XIV. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, gilda þegar almennum framtalsfresti er lokið. Sama á við þegar skilafrestur rennur út, þ.e. að framteljandi sætir áætlun sé skilað utan framangreindra lokafresta.

Ríkisskattstjóri mun senda framteljendum ábendingar þegar skilafrestur er að renna út og afrit slíkra tölvupósta fer einnig til viðkomandi endurskoðenda og bókara. Jafnframt mun endurskoðendum og bókurum, eftir því sem ástæða er til, verða gerð grein fyrir stöðu og frávikum skila í einstökum tilvikum.

Athygli er vakin á því að meginforsendan fyrir því að einstökum fagaðilum eða skrifstofum fagaðila verði veittur framlengdur skilafrestur umfram auglýstan almennan skilafrest 31. maí er að útfylltur verði skilalisti á heimasíðu ríkisskattstjóra. Hefur frestur til að útfylla skilalista verið ákveðinn 28. febrúar n.k. vegna lögaðila undir fyrrgreindum stærðarmörkum. Á skilalista komi fram nafn þess lögaðila sem sótt er um aukinn skilafrest fyrir, kennitala, netfang og ætlaður skilamánuður hvers þess lögaðila, sem ætlað er að annast skil fyrir.

Ríkisskattstjóri ítrekar þann fyrirvara að komi í ljós að einstakir endurskoðendur eða bókarar útfylli ekki skilalista eða fylgi ekki framangreindum skilmálum, m.a. um jöfn skil með viðunandi hætti, þá verði framvegis ekki unnt að veita viðkomandi fagaðila framlengdan skilafrest. Á þetta kann að reyna þegar í ár vegna skila fyrra árs og getur haft áhrif á heimild til skila á næsta ári (2020), einkum þegar skil reynast óveruleg fyrir 1. júlí eða fara framúr 50% eftir 1. júlí 2019.

 

Virðingarfyllst
f. h. ríkisskattstjóra

Ingvar J Rögnvaldsson Karl Ó Magnússon
Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum