Tilkynningar til hugbúnaðarhúsa


Tilkynningar til hugbúnaðarhúsa

Innleiðing nýrrar tegundar tollskýrslu á Íslandi – staða innleiðingar

24.9.2021

Til stóð að hætta móttöku eldri innflutningsskýrslu (E1) með EDI samskiptum þann 1. október 2021 og taka eingöngu við SAD skýrslum (E2) frá sama tíma.

Uppfærslu og innleiðingu á kerfum innflytjenda er ekki lokið og mun því verða tekið við báðum tegundum af skýrslum lengur en til stóð. Tilkynnt verður um nýja dagsetningu fljótlega.

  • Nýtt tollakerfi skattsins getur nú þegar tekið á móti og afgreitt flestar tegundir af tollskýrslum á SAD formi.
  • Framleiðendur og seljendur hugbúnaðar sem sendir tollskýrslur rafrænt til skattsins með EDI skeytum munu uppfæra hugbúnað sem þeir þjónusta og selja í samráði við viðskiptavini sína.
  • Í þeim fáu tilfellum sem tollskýrslu er skilað á pappír skal skila þeim á SAD formi (E2). Leiðréttingum á eldri E1 skýrslum skal þó skila á pappír eins og áður og á E1 eyðublaði.
  • Notendur veftollafgreiðslukerfis Skattsins senda nú þegar SAD skýrslur og þurfa því ekkert að gera.

Hægt er að sækja pdf útgáfu af eyðublöðunum á slóðinni: https://www.skatturinn.is/atvinnurekstur/tollamal/eydublod_tollgaeslustjora/

Nánari upplýsingar:

Á undanförnum árum hefur verið unnið að smíði og innleiðingu nýs tollakerfis. Kerfið er nú þegar í rekstri en innleiðing þess er gerð í áföngum. Hlutar eldra tollakerfis verða reknir samhliða þar til innleiðingu þeirra í nýtt kerfi verður að fullu lokið.

Nýja skýrslan er sama form tollskýrslu og notað er á EES svæðinu og víðar og nefnist SAD eða Single Administrative Document.

  • Árið 2019 var nýtt veftollafgreiðslukerfi fyrir smærri innflytjendur opnað en allar innflutnings tollskýrslur úr því eru á þessu nýja SAD formi.
  • Nýtt tollalínukerfi sem veitir inn- og útflytjendum aðgang að gögnum sínum í tollkerfum Skattsins var jafnframt gangsett á árinu 2019.
  • Árið 2020 var í gangi tilraunaverkefni með einu hugbúnaðarhúsi og einum tollmiðlara sem sendir nú allar innflutningsskýrslur á SAD formi með EDI samskiptum. Síðan hafa bæst við fleiri tollmiðlarar.
  • Á árinu 2021 var tekið við fyrstu SAD skýrslunni beint úr viðskiptakerfi innflytjanda og sendir sá aðili nú allar skýrslur á því formi. Síðan hafa bæst við fleiri innflytjendur.
  • Flest hugbúnaðarhús hafa lokið eða eru langt komin í uppfærslu á sínum kerfum.
  • Stefnt er að því að innleiðingu SAD skýrslu með EDI samskiptum ljúki á þessu ári. Fyrst innflutningur og síðan útflutningur.

Uppfærð kerfi hafa ýmsa kosti m.a.:

  • Leiðrétting skýrslu (Afgreiðsla 2) verður rafræn.
  • Bráðabirgðaafgreiðslur verða rafrænar.
  • Hægt er að senda fylgiskjöl rafrænt. Skjölin vistast sem viðhengi viðkomandi tollskýrslu.

Sjá einnig:

Upplýsingar og leiðbeiningar um SAD tollskýrslu.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum