Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 13/2009

Aðflutningsgjöld af leigu vegna tímabundins innflutnings

2.11.2009

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 28. júlí 2009, hefur A fyrir hönd B, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 þá ákvörðun Tollstjóra frá 30. júlí 2008 að greiða beri aðflutningsgjöld af leigu, vegna sendinga nr. S HVA 16 06 8 DE CUX W054 og S HEG 24 06 8 SE VAG W083 sem fluttar voru til landsins 17. og 24. júní 2008 og síðan endursendar þann 21. júlí 2008. Kærandi krefst þess að greiða ekki aðflutningsgjöld af leigu viðkomandi sendinga.

II. Málsmeðferð

A. flutti inn þann 17. og 24. júní 2008, fyrir hönd B, sýningartjald og stúkusæti til bráðabirgða, vegna C. Samkvæmt aðflutningsskýrslu voru sýningartjöldin að brúttóþyngd 9.250 kg. og verðmæti þeirra 11.543 evrur en stúkusætin að brúttóþyngd 13.000 kg. og að verðmæti 845.210 sænskra króna. Vörurnar voru endursendar þann 21. júlí 2008 og uppgjör sent inn til Tollstjóra þann 30. ágúst 2008. Kæranda barst þá athugasemd frá Tollstjóra þess efnis að það bæri að greiða aðflutningsgjöld af leigu í samræmi við 6. tl. 7. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 28. gr. reglugerðar 630/2008.

Kærandi sendi tölvupóst dags. 1. júlí sl. þess efnis að athugasemd embættisins um að greiða beri aðflutningsgjöld af leigu, vegna tímabundins innflutnings, eigi ekki við í þessu tilviki. Hann bendir á að breytingar hafi verið gerðar á sínum tíma með reglugerð 630/2008 og að í 28. gr. hennar sé aðeins talað um að greiða beri af leigu eða áætlaðri leigu af stærri tækjum, ökutækjum til fólksflutninga, vöruflutninga eða sérstakra nota, vélum og tæki til bygginga og þess háttar. Í tölvupósti kæranda kemur fram ósk um að embættið endurskoði mál hans. Embættið sendi kæranda afrit af viðkomandi lagagreinum og benti honum á að lesa þær saman í heild sinni og áréttar að embættið telur að greiða beri leigugjald vegna viðkomandi sendinga. Kærandi svarar embættinu með tölvupósti samdægurs og bendir á að alltaf sé talað um tæki í lagatextanum en í íslenskri orðabók þýði tæki verkfæri, smíðatól, áhald, vél og vélar sem t.d. framkvæma/gera eitthvað og geti kærandi ekki fallist á að sýningartjöld og sæti/bekkir sé tímabundinn innflutningur á tækjum. Í tölvupósti frá kæranda dags. 2 júlí sl. telur kærandi að það mál sem um ræðir sé skýrt í reglugerðinni og að þar væri minnst á tæki og svo stór tæki. Embættið benti kæranda tvívegis á rétt hans til að kæra ákvörðun embættisins 2. júlí sl. með tölvupósti.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur að það beri ekki að greiða aðflutningsgjöld af umræddri leigu við endursendingu varanna. Kærandi vitnar til 6. tl. 7. gr. tollalaga og 28. gr. reglugerðar 630/2008. Kærandi bendir á að þar sé talað um stærri tæki og að í íslenskri orðabók sé orðið „tæki“ skilgreint sem verkfæri, smíðatól, áhald, vél og vélar sem framkvæma/gera eitthvað. Kærandi áréttar að hér sé um að ræða tjald og færanlega bekki/sæti og að athugasemd embættisins eigi ekki við rök að styðjast. Krefst hann að afgreiða beri sendingarnar án þess að aðflutningsgjöld séu greidd vegna tímabundins innflutnings.

IV. Niðurstöður

Samkvæmt 5. gr. tollalaga nr. 88/2005 er meginreglan sú að greiða skal toll, eins og mælt er fyrir í tollskrá í viðauka I með tollalögum, af þeim vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins. Samkvæmt ákvæðinu er meginreglan sú að greiða skal toll af öllum vörum. Undanþágur frá meginreglum tollalaga um greiðslu aðflutningsgjalda á almennt að skýra þröngt í samræmi við viðurkennd lögskýringarsjónarmið. Það er það mat Tollstjóra að skilyrði undanþágu verði tvímælalaust að vera uppfyllt og veigamiklar ástæður að liggja til grundvallar undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda vegna leigu, sérstaklega þegar veitt er undanþága á greiðslu verðmætra vara, eins og hér um ræðir.

Í málinu sem hér um ræðir voru flutt inn sýningartjöld og stúkusæti sem ætluð voru til notkunar á C og að notkun lokinni voru vörunar endursendar og kærandi krafinn um aðflutningsgjöld vegna leigu. Kærandi telur að það beri ekki að greiða aðflutningsgjöld af leigu umræddrar sendingar og vill fella sendinguna undir undanþáguákvæði tollalaga. Í 7. gr. tollalaga koma fram undanþágur frá greiðslu tolls og eru þar talin upp þau tilvik þar sem tollur skal lækkaður, felldur niður eða endurgreiddur að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Undanþága til greiðslu tolls nær meðal annars til tækja og annars búnaðar sem fluttur er tímabundið hingað til lands vegna fundahalda, ráðstefna eða hátíðahalda sbr. e. lið 2. tl. 1. mgr. 7. gr. tollalaga. Jafnframt er tiltekið að ráðherra geti í reglugerð afmarkað nánar þær vörur sem ákvæðið tekur til. Í 27. gr. reglugerðar 630/2008 eru þær vörur afmarkaðar sem ákvæðið tekur til og skilyrðin vegna greiðslu aðflutningsgjalda af leigu eða áætlaðri leigu nánar útfærð. Kærandi flutti inn umræddar vörur vegna íþróttamóts en undanþágan nær einungis til fundahalda, ráðstefnu eða hátíðarhalda. Jafnframt eru þær vörur sem kærandi flutti inn vegna mótsins ekki meðal þeirra vara sem taldar eru upp í 27. gr. fyrrnefndrar reglugerðar. Þar er talað um margskonar vörur vegna sýninga s.s. viðskipta- eða iðnsýninga, til dæmis vörur sem ætlaðar eru til að tryggja öryggi þátttakenda, prentaðs efnis, dúka, borðbúnaðar, vara sem eru að óverulegu verðmæti og svo framvegis. Jafnframt er talað um margskonar búnað sem fluttur er inn vegna athafna erlendra gesta til að mynda tónleika, vísindarannsókna, kvikmyndagerðar, björgunar, verktaka og svo framvegis.

Þær vörur sem fluttar voru inn vegna C eru bæði verðmætar og vega þungt en eins og áður hefur komið fram þá vógu sýningartjöldin að brúttóþyngd 9.250 kg. og verðmæti þeirra var 11.543 evrur en stúkusætin voru að brúttóþyngd 13.000 kg. og að verðmæti 845.210 sænskra króna.

Í 6. tl. 7. gr. tollalaga kemur fram að tollur skal lækkaður, felldur niður eða endurgreiddur af stærri tækjum, þ.m.t. ökutækjum til fólks- og/eða vöruflutninga eða sérstakra nota, sem flutt eru til landsins tímabundið, þó ekki lengur en í 12 mánuði, enda séu skilyrði 4. tölul. ekki uppfyllt. Aðflutningsgjöld skulu reiknuð af leiguverði fyrir tæki í stað tollverðs. Ákvæðið er útfært í 28. gr. reglugerðar 630/2008 þar sem fram kemur að heimilt er að flytja inn tímabundið stærri tæki, m.a. ökutæki til fólks- og/eða vöruflutninga eða sérstakra nota, s.s. vélar og tæki til byggingarstarfsemi eða jarðvegsflutninga, gegn greiðslu aðflutninsgjalda af leigu fyrir tækin. Vörur sem eru umfangsmiklar og verðmætar falla undir 6. tl. 7. gr. tollalaga og 28. gr. reglugerðar 630/2008 og er það í samræmi við þá framkvæmd embættisins að innheimta aðflutningsgjöld af leigu stærri tækja, vara og búnaðar af margs konar tagi. Þær vörur sem hér um ræðir eru bæði umfangsmiklar og verðmætar og falla því undir 6. tl. 7. gr. tollalaga.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun Tollstjóra frá 30. júlí 2008 að greiða beri aðflutningsgjöld af leigu vegna sendinga S HVA 16 06 8 DE CUX W054 og S HEG 24 06 8 SE VAG W083 er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum