Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 13/2015

Aðflutningsgjöld af pallhýsi

12.10.2015

Reifun

A flutti inn pallbifreið og pallhýsi og var hýsið fest á bílinn við innflutning. Tollstjóri tollafgreiddi vörurnar tvær sem eina heild, en kærandi var ósáttur við það fyrirkomulag, enda hafi sér reikningar fylgt hvorri vöru auk þess sem kærandi ætlaði sér einungis að leigja út pallhýsið yfir sumartímann og selja það svo.

Niðurstaða: Um er að ræða vöru sem samanstendur af tveimur þáttum, pallbifreið og pallhýsi. Í sitt hvoru lagi flokkast vörurnar í 8703 og 8707, en vara samsett úr þessum tveimur vörum flokkast hins vegar sem húsbíll í vörulið 8703. Vísaði Tollstjóri til tveggja þýskra úrskurða um samskonar vöru auk þess að vísa til úrskurðar Tollstjórans í Reykjavík nr. 26/2004 sem einnig varðaði samskonar vöru. Tollstjóri tók fram að ekki væri hægt að líta til áforma kæranda um að selja pallhýsið að loknu sumri við tollafgreiðslu þess. Varan hafi komið til landsins samsett á einu farmbréfi og myndað eina heild. Ekki var mögulegt að taka tillit til áætlana kæranda um að skipta vörunni upp eftir innflutning, heldur þurfti, eðli málsins samkvæmt, að flokka vöruna eins og henni var framvísað við innflutning, þ,e, sem einni vöru.

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með erindi, dags. 23. júní 2015, sem barst embætti Tollstjóra þann 25. júní sl., hefur B, fyrir hönd A ehf. kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra dags. 4. júní 2015, um að tollflokka pallhýsi kæranda og pallbíll saman sem húsbíl. Kærandi óskar eftir því að fyrri tollafgreiðsla Tollstjóra verði leiðrétt og gjöld endurákvörðuð.

II. Málsmeðferð

Þann 12. maí 2015 flutti kærandi inn pallbifreið og pallhýsi frá Þýskalandi með sendingarnúmerinu X. Kærandi vildi tollflokka vörurnar í sitthvort tollskrárnúmerið, en Tollstjóri taldi rétt að tollflokka vörurnar saman í tollskrárnúmer 8703.3240. Tollstjóra barst í kjölfarið kæra dagsett 23. júní 2015 frá kæranda. Þann 24. júlí sl. sendi Tollstjóri kæranda bréf þar sem tilkynnt var um tafir á afgreiðslu málsins.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi flutti inn Land Rover pallbifreið sem keypt hafði verið af bílasala í Frankfurt og Tischer pallhýsi, sem keypt var af framleiðanda þess, en kærandi er umboðs- og þjónustuaðili slíkra pallhýsa á Íslandi. Eftir að hafa ráðfært sig við hérlendan flutningsaðila, sá kærandi sér hag í því að festa pallhýsið á bifreiðina til flutninga, en til þessa hafði kærandi flutt pallhýsin inn í gámum. Kærandi tekur fram að sér reikningar hafi fylgt hvoru fyrir sig og hafi kærandi ætlað að tolla vörurnar í sitthvoru lagi, en starfsmaður Tollstjóra hafi tekið þá ákvörðun að tollafgreiða vörurnar saman sem bifreið. Af þessum sökum hafi pallhýsið lent í mun hærri tollflokki en gert er ráð fyrir í lögum, en pallhýsi séu hugsuð til þess að vera á palli bifreiða og tollflokkuð miðað við það. Kærandi ætlaði sér að leigja bifreiðina út til ferðamanna, ýmist með pallhýsi eða án, en pallhýsið sjálft átti að selja að sumri loknu og er ásett verð á slíkum pallhýsum hjá kæranda miðað við tollskrá. Kærandi telur liggja ljóst fyrir að ógerningur verði að selja pallhýsið með þeim háu vörugjöldum sem nú hafa verið lögð á það.

Kærandi telur tollflokkun pallhýsisins ranga. Pallhýsi séu ætluð til ferðalaga og festast á pall pallbifreiða og séu íverustaður þegar bifreiðinni er lagt á áningarstað, rétt eins og önnur hýsi s.s. hjólhýsi og fellihýsi sem festast á dráttarkrók en eru til sömu nota og eru því í sama tollflokki. Kærandi telur ólíklegt að bíll og hjólhýsi yrði með sama hætti tollflokkað saman sem bifreið, þó að það væri tengt saman við tollskoðun. Telur kærandi ákvörðun Tollstjóra því óskiljanlega. Kærandi bendir á að enginn vafi sé á því hvaða afgreiðslu vörurnar tvær fengju ef bifreið og pallhýsi hefði verið flutt inn í sitthvoru lagi, þó svo að ljóst þætti að pallhýsið yrði fest á bifreiðina að skoðun lokinni.

Kærandi telur að um geðþóttaákvörðun sé að ræða sem ekki standist tollalög. Kærandi telur pallhýsið ranglega hafa verið tollflokkað saman með pallbílnum og honum þar af leiðandi gert að greiða mun hærri gjöld af pallhýsinu.

IV. Niðurstöður

Um er að ræða vöru sem samanstendur af tveimur þáttum, pallbifreið af gerðinni Land Rover Defender, 130 E Crew cab, árgerð 2015 og pallhýsi (e. Camper) af gerðinni Tischer, undirgerð Trail 260 RS. Í sitt hvoru lagi flokkast vörurnar í vöruliði 8703 annars vegar og í vörulið 8707 hins vegar. Vara samsett úr þessum tveimur vörum flokkast hins vegar sem húsbíll í vörulið 8703 en húsbílar eru nefndir í skýringabókum Alþjóðatollastofnunarinnar undir vörulið 8703. Til eru úrskurðir frá Evrópusambandinu um samskonar vöru og eru tveir slíkir meðfylgjandi úrskurði þessum þar sem niðurstaðan er sambærileg og í máli þessu. Úrskurðirnir eru á þýsku en óski kærandi þess getur embættið lauslega þýtt þá. Jafnframt er bent á úrskurð Tollstjóra nr. 26/2004 þar sem sambærileg vara var flokkuð sem húsbíll í vörulið 8703 og er sá úrskurður einnig hjálagður. Þrátt fyrir að kærandi ætli sér aðeins að leigja pallbifreiðina ásamt pallhýsinu um skamma stund, og selja svo pallhýsið, er ekki hægt að líta til þess við afgreiðslu málsins. Varan kom til landsins samsett á einu farmbréfi og myndar eina heild. Ekki er mögulegt að taka tillit til áætlana innflytjanda um að skipta vörunni upp eftir innflutning heldur þarf, eðli málsins samkvæmt, að flokka vöruna eins og henni var framvísað við innflutninginn, þ.e. sem einni vöru.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um höfnun á tollfrelsi búslóðar kæranda, er felld úr gildi.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga og 5. gr. laga nr. 30/1992 um yfirskattanefnd.

Hjálagt:

1. Úrskurður DE1222/10-1

2. Úrskurður DE759/10-1

3. Úrskurður tollstjórans í Reykjavík nr. 26/2004


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum