Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 15/2009

Innheimta eftirgefins vörugjald af leigubifreið

9.10.2009

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 15. september 2009, hefur G kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra um innheimtu eftirgefins vörugjalds af leigubifreið með fastanúmer X.

Kærandi krefst þess að fallið verði frá innheimtu eftirgefins vörugjalds.

II. Málsmeðferð

Í júní 2006 fékk G eftirgefið vörugjald af leigubifreiðinni X og undirritaði þann 29. júní 2006 yfirlýsingu sem felur í sér skuldbindingu til endurgreiðslu eftirgefins vörugjalds, hafi skilyrði um lágmarkstekjur, nýtingu bifreiðar o.s.frv. ekki verið uppfyllt. Með bréfi dags. 8. júlí 2009 fór embætti tollstjóra þess á leit að staðfestu endurriti af skattskýrslum næstu tveggja heilla almanaksára eftir að eftirgjöf var veitt yrði skilað inn og veitti til þess 15 daga frest. Þann 25. ágúst var tekin ákvörðun um innheimtu eftirgefins vörugjalds að upphæð 438.293,00 kr., byggð á því að eftirriti skattskýrslna hafi ekki verið skilað inn. Kærandi skilaði gögnum til embættisins þann 25. ágúst 2009 ásamt bréfi dagsettu þann sama dag. Ákvörðun embættisins stóð þá þegar og hafði verið sett í póst. Ákvörðun um höfnun var endurupptekin þann 16. september sl., eftir að gögnum hafði verið skilað inn, og ákvörðun um innheimtu vörugjalds tekin, byggð á þeim rökum að tekjur voru ekki nægjanlegar.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur skilyrði fyrir lágmarkstekjum vera uppfyllt, þar sem reiknuð laun á skattframtali 2009 fyrir tekjuárið 2008 séu 1.440.000,00 kr. og við þau bætist rekstrarhagnaður samkvæmt rekstrarreikningum að upphæð 442.968,00 kr. Tekjuskattsskyldar tekjur hans af rekstri bifreiðarinnar X hafi því verið 1.882.968,00 kr. tekjuárið 2008 og þar með yfir lágmarkstekjumörkum. Það sé hins vegar annað mál að framsetning teknanna til skatts sé að hluta til ekki skattlögð vegna heimilda skattalaga um nýtingu yfirfæranlegra tapa. Kærandi heldur því fram að frestur til skila gagna til embættis tollstjóra hafi verið framlengdur vegna sumarleyfa og annarra tafa.

IV. Niðurstöður

Í 1. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. er kveðið á um að greiða skuli í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum sem skráningarskyld eru skv. umferðarlögum nr. 50/1987. Í 3. gr. laganna er kveðið á um prósentutölu vörugjalds af ökutækjum, sem lagt skal á miðað við sprengirými aflvélar, mælt í rúmsentímetrum, 30% á ökutæki með 2.000 rúmsentímetra sprengirými eða minna og 45% á ökutæki með meira en 2.000 rúmsentímetra sprengirými. Hins vegar skal samkvæmt 4. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna vörugjald af leigubifreiðum þó lagt á þannig að á ökutæki með sprengirými allt að 2.000 rúmsentímetrum leggist 10% vörugjald, en á ökutæki með yfir 2.000 rúmsentímetra sprengirými leggist 13% vörugjald. Um er að ræða undanþágu frá skattskyldu sem bundin er ákveðnum skilyrðum. Kveðið er á um frekari skilyrði fyrir eftirgjöf vörugjalds af ökutækjum í reglugerð nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum í samræmi við heimild í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993.

Í 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000 er kveðið á um frekari skilyrði fyrir eftirgjöf vörugjalds af leigubifreiðum. Samkvæmt þeim ákvæðum 3. tölul. 2. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar, sem í gildi voru þegar eftirgjöf vörugjaldsins var veitt í júní 2006, er lækkun vörugjalds háð því skilyrði að rétthafi hafi í tekjur að lágmarki 70% af reiknuðu endurgjaldi í staðgreiðslu eins og það er ákvarðað af ráðherra árlega, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, annað tveggja næstu heilla almanaksára eftir að eftirgjöf var veitt, sbr. einnig texta yfirlýsingar sem undirrituð var þann 29. júní 2006. Fyrir tekjuárin 2007 og 2008 skulu lágmarkstekjur að upphæð 1.864.000,00 kr. taldar fram í reiknað endurgjald af leigubifreiðaakstri skv. fyrirmælum frá fjármálaráðuneytinu. Rekstrartengdur hagnaður telst hins vegar ekki hluti þessara tekna. Á báðum skattframtölum er í reit 2.4 gefið upp reiknað endurgjald að upphæð 1.440.000,00 kr., og eru framtaldar tekjur í reiknað endurgjald bæði fyrir tekjuárið 2007 og fyrir tekjuárið 2008 því 424.000,00 kr. undir því lágmarki sem farið er fram á til að skilyrði um lágmarkstekjur af akstri leigubifreiðar geti talist uppfyllt.

Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000 gilda ákvæði 20. gr. reglugerðarinnar um greiðslu fulls vörugjalds og lögveð, ef brotið er gegn skilyrðum fyrir lækkun vörugjalds. Í 20. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að brjóti aðili, sem nýtur lækkunar vörugjalds gegn skilyrðum sem sett eru um nýtingu ökutækis o.fl. skuli hann greiða ógreitt vörugjald, þ.e. mismun á fjárhæð vörugjalds sem greitt var og þeirri fjárhæð sem borið hefði að greiða ef ekki hefði komið til lækkunar eða niðurfellingar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um innheimtu eftirgefins vörugjalds, dags. 16. september 2009 er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum