Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 17/2015

Álögð aðflutningsgjöld á kjól

21.12.2015

Reifun

Kærandi keypti kjól á ferðalagi erlendis en þurfti að fá hann í annarri stærð sendan úr öðru útibúi verslunarinnar. Var kjóllinn sendur með pósti á hótelherbergi kæranda er barst eftir að kærandi hélt aftur til Íslands. Var kjóllinn því sendur með pósti á heimilisfang kæranda. Tollmiðlari lýsti í aðflutningsskýrslu sendingunni sem farangri sem viðskila hafði orðið eiganda. Stuttu síðar var kæranda tilkynnt að skýrslan væri röng og að greiða skyldi af sendingunni. Kærandi óskaði þess að Tollstjóri endurskoðaði þá ákvörðun. Bar kærandi því við að hún hefði greitt fyrir kjólinn ytra sem með því varð hennar eign.

Niðurstaða: Tollstjóri vísaði til þeirrar meginreglu að greiða skyldi aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar væru til landsins. Frá þeirri meginreglu væri þó sú undantekning að ferðamönnum búsettum hérlendis væri heimilt að hafa meðferðis varning að verðmæti 88.000 kr. Skilyrði fyrir undanþágu þeirri er að innflytjandi hafi vöruna í eigin vörslu við komu til landsins. Frá þeirri reglu er undantekning í 11. gr. reglugerðar 630/2008 fyrir farangur sem viðskila hefur orðið ferðamanni. Til þess að farangur geti fallið undir þá undanþágu verður hann að hafa orðið viðskila við eiganda sinn. Viðkomandi verður því að hafa haft farangurinn í sinni vörslu en síðar tapað honum eða týnt með öðrum hætti, s.s. þegar ferðataska verður eftir á flugvelli. Kærandi hafði umræddan kjól aldrei í sinni vörslu heldur var hann pantaður og sendur á hótelherbergi kæranda og síðar til landsins. Ekki er því hægt að fella hann undir umrædda undanþágu. Með vísan til þess staðfesti Tollstjóri álagningu aðflutningsgjalda á sendingu kæranda.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi dags. 30. nóvember sl., sem barst Tollstjóra þann 3. desember, hefur A kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 23. nóvember sl., um álagningu aðflutningsgjalda á kjól. Kærandi óskar þess að Tollstjóri endurskoði ofangreinda ákvörðun.

II. Málsmeðferð

Kæranda barst þann 5. nóvember 2015 með sendingarnúmerinu X kjóll sem hún hafði keypt á ferðalagi erlendis stuttu áður. Þegar sendingin barst var kæranda tilkynnt af flutningsaðila sendingarinnar, B, að greiða þyrfti af sendingunni tiltekin aðflutningsgjöld. Þann 20. nóvember 2015 sendi C Tollstjóra aðflutningsskýrslu fyrir hönd kæranda þar sem sendingunni var lýst sem farangri sem viðskila hafi orðið við ferðamann og aðflutningsgjöld því felld niður. Þann 23. nóvember tilkynntu starfsmenn Tollstjóra kæranda að málinu væri ekki lokið, ekki hafi verið rétt að fella gjöldin niður og að því skyldi leggja aðflutningsgjöld á sendinguna. Hefur sú ákvörðun Tollstjóra nú verið kærð.

III. Meginröksemdir kæranda

Forsaga málsins er að sögn kæranda sú að hún var á ferðalagi með dóttur sinni erlendis og vildi kaupa kjól. Kjóllinn var ekki til í réttri stærð og var þá komið til móts við hana með því að senda kjól í réttri stærð á hótelherbergi hennar úr annarri verslun í sömu verslunarkeðju. Átti kjóllinn að berast kæranda næsta dag á hótelherbergið. Sendingin kom ekki á tilsettum tíma og þurfti kærandi að fara af landi brott án kjólsins. Þegar kjóllinn barst sendi starfsmaður hótelsins kjólinn á heimilisfang kæranda á Íslandi. Tollmeðferð sú sem kjóllinn fékk í kjölfarið kom kæranda á óvart enda hafði hún greitt fyrir kjólinn erlendis sem við það hafi orðið hennar eign. Kærandi kveðst hafa verslað hóflega ytra og leggur fram kvittanir fyrir kaupum þeim sem hún gerði.

IV. Niðurstöður

Almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Meginreglan er því sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins. Allar undantekningar frá almennri toll- og skattskyldu ber að túlka þröngt og verða því ríkar kröfur gerðar um að skilyrðum þeirra sé fullnægt. Undanþágu frá almennri tollskyldu er m.a. að finna í b-lið 2. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sbr. og 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Þar kemur fram að ferðamönnum búsettum hérlendis sé heimilt að hafa meðferðis hingað til lands eða kaupa í tollfrjálsri verslun hér á landi, umfram almennan farangur og ferðabúnað, varning að verðmæti allt að 88.000 kr., miðað við smásöluverð á innkaupsstað. Þær vörur sem ferðamenn hafa meðferðis við komu til landsins eru þannig tollfrjálsar innan áðurgreindra marka og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í 7. gr. reglugerðar nr. 630/2008 er fjallað um almenn skilyrði fyrir þeim tollfríðindum sem mælt er fyrir um í 1.- 6. gr. reglugerðarinnar. Skilyrðin eru þau að innflytjandi hafi vöruna í eigin vörslu við komu til landsins og geti þá framvísað henni til tollskoðunar og að varan sé flutt inn til persónulegra nota viðkomandi, fjölskyldu hans eða til smágjafar. Meginreglan er því sú að einstaklingur getur einungis notið tollfríðinda skv. b-lið 2. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga hafi hann haft vöruna meðferðis við komu til landsins.

Undantekningu frá meginreglunni er að finna í 11. gr. reglugerðar 630/2008 þar sem fjallað er um farangur sem verður viðskila við eiganda. Ljóst er að tilgangurinn með nefndu ákvæði er að tryggja að farangur sem týnist eða verður með öðrum hætti viðskila við eiganda á ferð erlendis, fáist sendur til landsins tollfrjáls, líkt og hefði hann komið til landsins í vörslum eiganda. Um er að ræða undanþágu frá meginreglunni um toll og skattskyldu sem ber að túlka þröngt samkvæmt viðurkenndum lögskýringareglum. Til þess að farangur geti fallið undir þetta undanþáguákvæði verður hann að hafa orðið viðskila við eiganda sinn. Viðkomandi verður því að hafa haft farangurinn í sinni vörslu en síðar tapað honum eða týnt með einhverjum hætti, s.s. þegar flugfélag gerir mistök og sendir ferðatösku með rangri flugvél. Kærandi hafði umræddan kjól aldrei í sinni vörslu heldur var hann pantaður og sendur á hótelherbergi hennar og síðar til landsins. Ekki er því hægt að fella hann undir umrædda undanþágu. Með vísan til ofangreinds staðfestir embætti Tollstjóra álagningu aðflutningsgjalda á sendingu kæranda.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um álagningu aðflutningsgjalda á kjól sem barst með ofangreindri sendingu er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 55/2008 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum