Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 18/2009

Höfnun umsóknar um niðurfellingu aðflutningsgjalda af gjöf

30.10.2009

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 15. maí 2009, sem barst lögfræðideild Tollstjóra þann 15. október 2009, hefur A, sent inn beiðni um að felld verði niður aðflutningsgjöld af sendingu nr. M BRU 16 02 9 DE HAM C012. Niðurfellingu gjalda var hafnað þann 18. september 2009. Litið er á erindið sem kæru skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Kærandi krefst þess að aðflutningsgjöld vegna sendingarinnar verði felld niður.

II. Málsmeðferð

Þann 16. febrúar 2009 kom til landsins sending til kæranda sem inniheldur hokkíbúnað. Um er að ræða gjöf frá B. Með aðflutningsskýrslu, sem tollmiðlari lagði inn fyrir kæranda vegna sendingarinnar, var lögð inn beiðni um niðurfellingu á aðflutningsgjöldum. Þann 25. febrúar 2009 var sett inn í tollakerfi athugasemd til kæranda sem innflytjanda þess efnis að tollfríðindayfirlýsing eigi ekki við þar sem varan er upprunnin í Ú, svo að greiða beri A-toll ásamt virðisaukaskatti og að ekki er til staðar heimild til niðurfellingar aðflutningsgjalda. Með bréfi, dags. 15. maí 2009 fór kærandi fram á niðurfellingu gjalda af sendingunni. Þann 18. september var tekin ákvörðun um höfnun niðurfellingu aðflutningsgjalda. Litið er á beiðni kæranda um niðurfellingu aðflutningsgjalda sem kæru.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur skilyrði til niðurfellingar aðflutningsgjalda af sendingunni vera uppfyllt, þar sem fyrir liggi staðfesting frá B að um gjöf sé að ræða og ljóst sé að búnaðurinn sé ekki ætlaður til endursölu.

IV. Niðurstöður

Í 3. gr. tollalaga nr. 88/2005 er kveðið á um almenna tollskyldu, þ.e. að hver sá sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum þessara laga er tollskyldur, sbr. þó 4. gr., og skal greiða toll af hinni innfluttu vöru, nema annað sé tekið fram í tollskrá.

Í 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur fram að gjafir, sem sendar eru til landsins eru tollfrjálsar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Til að tollfrelsi gjafar liggi fyrir þarf að vera um að ræða gjafir sem aðilar búsettir erlendis senda hingað til lands eða hafa með sér frá útlöndum af sérstöku tilefni, þó ekki í atvinnuskyni, enda sé verðmæti gjafarinnar ekki meira en 10.000 kr.; gjafir til mannúðar- og líknarstarfsemi, enda sé um að ræða vöru sem nýtt er beint til viðkomandi starfsemi, svo og gjafir sem sendar eru hingað frá útlöndum og góðgerðarstofnanir eða aðrir slíkir aðilar eiga að annast dreifingu á til bágstaddra eða gjafir sem ríki, sveitarfélögum eða stofnunum á vegum hins opinbera eru gefnar erlendis frá í vináttuskyni eða á grundvelli menningartengsla við erlend ríki. Kveðið er á um nánari skilyrði endurgreiðslu í reglugerð nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi, sbr. reglugerðarheimild í 2. mgr. 6. gr. tollalaga.

Í 32. gr. reglugerðarinnar kemur fram að með gjöfum af sérstöku tilefni skv. a-lið 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga sé átt við gjafir milli einstaklinga. Skilyrði fyrir niðurfellingu skv. a-lið 8. tölul. liggja því ekki fyrir, þar sem um er að ræða gjafir frá íþróttasambandi til íþróttasambands. Þá telst A ekki til mannúðar- og líknarstarfsemi skv. b-lið 8. tölul. A er heldur ekki opinber stofnun skv. c-lið 8. tölul.

Því er ljóst að ekki er heimild til niðurfellingar aðflutningsgjalda af vörum í sendingu nr. M BRU 16 02 9 DE HAM C012. Ákvörðun Tollstjóra um höfnun á niðurfellingu aðflutningsgjalda, dags. 18. september 2009, er staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um höfnun á niðurfellingu aðflutningsgjalda af sendingu nr. M BRU 16 02 9 DE HAM C012, dags. 18.9.2009, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum