Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 3/2009

Álagning aðflutningsgjalda á póstsendingu sem greitt var fyrir með gjafabréfi

23.1.2009

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur 

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 14. janúar 2009, hefur A kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 álagningu aðflutningsgjalda á póstsendingu nr. P 150 20 12 8 IS B35 3315. Um var að ræða póstsendingu frá fyrirtækinu c sem kærandi er skráður fyrir sem innflytjandi.

Kærandi krefst þess að aðflutningsgjöld vegna sendingarinnar verði ákvörðuð á grundvelli kaupverðs skv. reikningi að frátalinni upphæð sem greidd var með gjafabréfi eða „gift certificate“.

II. Málsmeðferð

Þann 22. desember 2008 sótti og tollafgreiddi kærandi ofangreinda póstsendingu á póstmiðstöð Íslandspósts að Stórhöfða. Um var að ræða Xbox 360 leikjatölvu, tölvuleiki, auka fjarstýringu og HDMI snúru. Aðflutningsgjöld voru ákvörðuð og lögð á í samræmi við vörureikning sem fylgdi sendingunni að upphæð 246,36 evrur. Við afgreiðslu fór starfsmaður póstmiðstöðvar fór fram á greiðslu aðflutningsgjalda af sendingunni.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að um hafi verið að ræða gjöf frá bróður hans, G. G sé í skóla í D og búi þar en hafi þó reyndar lögheimili á Íslandi og hafi notað íslenskt kreditkort við pöntunina.

Kærandi telur þá upphæð sem lögð var til grundvallar við álagningu aðflutningsgjalda of háa og að gjöld hefðu átt að reiknast af 139,02 evrum, þar sem að hluti verðsins, eða 107,34 evrur, hafi verið greiddar með gjafabréfi, þ.e. „gift certificate“. Kærandi segir að starfsmaður Íslandspósts hafi fært þau rök fyrir að hærri upphæð var lögð til grundvallar aðflutningsgjalda að á nótunni sem fylgdi sendingunni standi „gift certificate“ en í reikningnum standi að þetta sé „promotion applied“. Kærandi óskar eftir því að tollar og gjöld af sendingunni verði endurreiknuð með tilliti til þess að heildarkostnaður hafi verið 121,77 bresk pund eða 139,02 evrur. Að auki fer hann fram á að gjöld verði reiknuð eins og um gjöf væri að ræða, þar sem um hafi verið að ræða jóla- og afmælisgjöf.

IV. Niðurstöður

Í 3. gr. tollalaga nr. 88/2005 með síðari breytingum er kveðið á um almenna tollskyldu, þ.e. að hver sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum þessara laga er tollskyldur og skal greiða toll af hinni innfluttu vöru, nema annað sé tekið fram í tollskrá. Meginreglan er því sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins. Skv. 1. mgr. 14. gr. tollalaga er tollverð innfluttra vara viðskiptaverðið, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vörurnar við sölu þeirra til útflutnings til landsins. Því ber að fara eftir viðskiptareikningi þegar aðflutningsgjöld sendingar eru ákvörðuð. Á reikningi frá fyrirtækinu c sem fylgdi sendingunni kemur fram að heildarverð vörunnar sem pöntuð var sé 246,36 evrur með sendingarkostnaði inniföldum. Þar kemur einnig fram að notað hafi verið gjafabréf eða „gift certificate“ að upphæð 107,34 evrur. Sú staðreynd að gjafabréf hafi verið notað breytir engu um að heildarverð sendingarinnar, að inniföldum sendingarkostnaði, var 246,36 evrur. Viðskiptaverð sendingarinnar, sem liggur til grundvallar útreikningi og álagningar aðflutningsgjalda, er heildarverð hennar, óháð því hvernig greiðslu var háttað. Því var heildarupphæð vörureiknings með réttu lögð til grundvallar upphæðar og álagningar aðflutningsgjalda, þar sem engin heimild er í lögum til að gera greinarmun á því hvernig verð vöru var greitt.

Í a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 er kveðið á um undanþágu frá almennri tollskyldu, þegar um gjafir er að ræða. Til að þessi undanþáguheimild hafi gildi þarf að uppfylla þau skilyrði sem kveðið er á um í áðurnefndum greinum. Meðal annars skal vera um að ræða tækifærisgjafir sem aðilar búsettir erlendis senda til landsins eða hafa með sér frá útlöndum af sérstöku tilefni, enda sé verðmæti gjafarinnar ekki meira en 10.000,00 kr. Samkvæmt skilyrðum þessara lagaákvæða þarf því að vera um gjöf að ræða sem aðili, sem sannanlega er búsettur erlendis sendir til landsins. Við eftirgrennslan hjá Þjóðskrá kom í ljós að bróðir innflytjanda, G, sem er skráður kaupandi ofangreindrar sendingar, er með lögheimili skráð á Íslandi. Ekkert er á skrá um að hann hafi aðsetur erlendis. Þar að auki er hann skráður með íslenskt heimilisfang á vörureikningi þeim sem fylgdi sendingunni sem hér um ræðir. Því er ekkert sem sýnir fram á að kaupandi vörunnar, sem lét senda hana til innflytjanda af fyrirtækinu c sé búsettur erlendis. Þvert á móti er hann sannanlega skráður með lögheimili á Íslandi. Þar af leiðandi uppfyllast hér ekki skilyrði til undanþágu frá almennri tollskyldu skv. -lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um álagningu aðflutningsgjalda af sendingu nr. P 150 20 12 8 IS B35 3315 er staðfest.

Kæruréttur

 

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum