Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 4/2006

Synjun að hluta á niðurfellingu aðflutningsgjalda vegna brúðkaupsgjafar

16.8.2006

I

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið bréf Þ, dags. 25. júlí sl., þar sem óskað var eftir endurskoðun á ákvörðun embættisins frá 24. júlí sl. um synjun að hluta á niðurfellingu aðflutningsgjalda vegna flatskjás ásamt fylgihlutum sem voru flutt inn með sendingu E REY 10 07 6 NL RTM W030 frá Hollandi.

Embættið lítur svo á að umrætt bréf feli í sér kæru, sbr. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, á ákvörðun embættisins dags. 24. júlí sl.

II

Málavextir eru þeir að þann 10. júlí sl. flutti S til landsins búslóð sína ásamt umræddum flatskjá og fylgihlutum, sem var brúðkaupsgjöf til Þ og eiginkonu hans sem gengu í hjónaband í desember árið 2005. Þann 24. júlí sl. var Þ tilkynnt sú ákvörðun embættisins að hafna niðurfellingu gjalda að hluta þar sem skilyrði tollalaga og reglugerðaákvæða þar um voru ekki uppfyllt. Ástæða fyrir synjuninni var tvíþætt, annars vegar sú að embættið taldi að of langur tími hafi liðið á milli þess sem brúðkaupið fór fram og þar til sendingin kom til landsins og hins vegar að verðmæti gjafarinnar er töluvert hærra en þau viðmið sem lög og reglugerðir gera ráð fyrir varðandi undanþágu aðflutningsgjalda vegna gjafa. Samkvæmt gögnum málsins kostaði umræddur flatskjár, ásamt fylgihlutum, EUR 1.841,98. Með bréfi, dags. 25. júlí 2006, barst embættinu kæra ásamt upplýsingum um það hver væri ástæða þess að svo langur tími hafi liðið frá brúðkaupi og þar til brúðkaupsgjöfin var send til landsins. Í kærunni kom fram að óskað væri eftir því að ákvörðun tollstjóra yrði breytt í ljósi nýrra upplýsinga.

III

Í 6. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum er fjallað um tollfrjálsar vörur. Samkvæmt a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, skulu gjafir sem aðilar búsettir erlendis senda hingað til lands eða hafa með sér frá útlöndum að sérstöku tilefni vera tollfrjálsar, þó ekki í atvinnuskyni, enda sé verðmæti gjafarinnar ekki meira en 10.000 kr. Sé verðmæti gjafar meira en 10.000 kr. skal gjöf þó einungis tollskyld að því marki sem hún er umfram þá fjárhæð að verðmæti. Í seinni málslið ákvæðisins kemur jafnframt fram að brúðkaupsgjafir skulu vera tollfrjálsar þótt þær séu meira en 10.000 kr. að verðmæti, enda sé að mati tollstjóra um eðlilega og hæfilega gjöf að ræða. Í 4. gr. reglugerðar nr. 797/2000, um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum, er nánar fjallað um undanþágu aðflutningsgjalda vegna gjafa.

Í áðurnefndu ákvæði tollalaga er kveðið á um að brúðkaupsgjafir skuli vera tollfrjálsar þó svo að verðmæti þeirra sé meira en 10.000 krónur, enda sé að mati tollstjóra um eðlilega og hæfilega gjöf að ræða. Í ákvæðinu er ekki kveðið á um tímamörk, þ.e. hversu langur tími megi líða frá því að brúðkaup fari fram þar til brúðkaupsgjöf er send til landsins. Þá kemur ekki fram hvert verðmæti gjafarinnar megi að hámarki vera. Þrátt fyrir að lagaheimildin sé tiltölulega opin að þessu leyti þá er ljóst að hún er háð mati tollstjóra, m.a. á því hvort að nægjanlega sé sýnt fram á að tengsl séu á milli brúðkaups og innflutnings brúðkaupsgjafa og því hvað geti talist eðlilegt og hæfilegt verðmæti gjafa í þessu sambandi. Hingað til hefur tollstjóri ekki tekið afstöðu til þess hvert verðmæti brúðkaupsgjafa megi að hámarki vera svo þær falli undir undanþáguákvæði tollalaga og reglugerðar nr. 797/2000. Ljóst er að embætti tollstjóra getur ekki mismunað aðilum máls eftir efnahag hvers og eins til þess að ákvarða hvað teljist vera eðlilegt og hæfilegt verðmæti brúðkaupsgjafa í hverju tilfelli fyrir sig, heldur verður matið að vera almennt. Við mat sem þetta verður að líta til þeirra reglna sem gilda á sviði tollamála og varða undanþáguheimildir. Óljóst er hvaða sjónarmið liggja að baki undanþáguheimildinni í tollalögum vegna brúðkaupsgjafa, en má ætla að ættingjar og vinir brúðhjóna sem gifta sig hér á landi geti sent hingað til lands brúðkaupsgjafir sem brúðhjón geti síðar fengið tollafgreiddar án þess að þurfa að greiða aðflutningsgjöld.

Í b-lið 2. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 skal varningur, þ.m.t. áfengi og tóbak, sem ferðamenn og farmenn hafa með sér hingað til lands eða kaupa í tollfrjálsri verslun hér á landi umfram það sem greinir í a-lið, að tilteknu hámarki sem ráðherra ákveður í reglugerð, vera undanþeginn aðflutningsgjöldum. Í reglugerð nr. 526/2000 um tollmeðferð vara sem ferðamenn og farmenn hafa með sér við komu til landsins, hefur þessi regla verið útfærð nánar. Í 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar er ferðamönnum sem búsettir eru hér á landi, heimilt að hafa með sér við komu til landsins án greiðslu aðflutningsgjalda fatnað og ferðabúnað sem þeir hafa haft með sér héðan til útlanda og auk þess varning fenginn erlendis í ferðinni, um borð í flutningsfari eða í tollfrjálsri verslun hér á landi –auk áfengis og tóbaks, sbr. 3. mgr. 5. gr., fyrir allt að 46.000 kr. að smásöluverði á innkaupsstað. Andvirði hvers hlutar má þó ekki nema hærri fjárhæð en 23.000 kr.

IV

Við mat á því hversu hátt verðmæti brúðkaupsgjafa megi vera að hámarki til þess að fá aðflutningsgjöld felld niður í samræmi við ákvæði tollalaga telur embættið eðlilegt að hafa hliðsjón af ákvæðum 2. gr. reglugerðar nr. 526/2000. Með vísan til þess og með hliðsjón af framansögðu er það mat embættisins að hæfilegt verðmæti brúðkaupsgjafa skv. a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sbr. 1. tl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 797/2000, sé að hámarki ISK 23.000.

Hvað tímamörk varðar er það mat embættisins að sá tími sem leið frá brúðkaupi þar til brúðkaupsgjöf var send til landsins sé heldur langur, eða u.þ.b. sjö mánuðir Hins vegar er hvorki í lögum né reglugerðum kveðið á um tímamark í þessu sambandi. Embættið telur, með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, að það sé ekki of langt um liðið frá brúðkaupi og þar til sendingin kom til landsins til þess að krafa um undanþágu aðflutningsgjalda vegna framangreindrar sendingar verði tekin til greina.

Úrskurðarorð:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að fella skuli niður aðflutningsgjöld að hluta vegna brúðkaupsgjafar þ.e. að hámarki ISK 23.000. Aðflutningsgjöld skulu greidd af því verðmæti sem er umfram þá fjárhæð.

Úrskurður þessi er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 101 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi úrskurðar, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum.

Reykjavík, 16. ágúst 2006.

.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum