Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 6/2020

Ákvörðun um tollverð búslóðar frá Bandaríkjunum og búslóðarfríðindi

11.5.2020

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um tollverð að fjárhæð kr. X vegna flutnings búslóðar frá Bandaríkjunum. Kærandi óskaði eftir að tollverð sendingar yrði endurskoðað. 

Innflytjandi uppfyllti ekki skilyrði um lágmarks búsetutíma erlendis og var því hafnað um tollfrelsi búslóðar og honum gert að greiða aðflutningsgjöld af sendingunni. 

Aðflutningsskýrslu var síðar skilað inn þar sem verðmæti varanna var tiltekið í samræmi við þær upplýsingar sem fengnar voru á innihaldslista sem innflytjandi fyllti sjálfur út og fylgdi með tollskýrslu innflytjanda. Var það verðmat samþykkt af hálfu Tollgæslustjóra. Þar sem eðlilegt tollverð lá fyrir, voru aðflutningsgjöld með réttu álögð miðað við uppgefið verðmæti varanna. 

Niðurstaða 

Staðfest var ákvörðun embættisins um höfnun á tollafgreiðslu sendingar E sem búslóð, ásamt ákvörðun Tollgæslustjóra um tollverð umræddrar sendingar.


Í dag var hjá embætti Tollgæslustjóra kveðinn upp svofelldur 

Ú R S K U R Ð U R 


Kæruefni: Ákvörðun um tollverð búslóðar frá Bandaríkjunum og búslóðarfríðindi 

I. Kæra 

Með tölvupósti, dags. 11. maí 2020, hefur A, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollgæslustjóra, dags. 21. apríl 2020, er varðar tollverð sendingar að fjárhæð kr. X vegna flutnings af búslóð frá Bandaríkjunum. Kærandi óskar eftir því að Tollgæslustjóri endurskoði upphæð tollverðs á sendinguna. 

II. Málsmeðferð 

Þann 20. apríl 2020 kom til landsins sending með sendingarnúmerið E sem innihélt búslóð. Kærandi sem er skráður innflytjandi sendingarinnar óskaði eftir því að sendingin yrði tollafgreidd sem búslóð og nyti þeirra fríðinda sem felast í innflutningi búslóða. Lagði kærandi inn aðflutningsskýrslu 20. apríl 2020 í samræmi við það. Sama dag var aðflutningsskýrslu kæranda hafnað, með þeirri athugasemd að innflytjandi uppfyllti ekki almenn skilyrði fyrir tollfrelsi og því þyrfti innflytjandi að greiða aðflutningsgjöld af sendingunni. Lögð var inn ný aðflutningsskýrsla 20. apríl 2020 og voru aðflutningsgjöld lögð á sendinguna í samræmi við þau gögn. Sendingin var afgreidd 21. apríl 2020 án athugasemda. Ákvörðun Tollstjóra um álagningu aðflutningsgjalda var kærð með tölvupósti dags. 11. maí 2020. 

Með kærunni fylgdi ljósmyndir af innanstokksmunum sem kærandi kvað hafa verið í sendingunni. 

III. Meginröksemdir kæranda 

Meginröksemdir kæranda eru að erfitt sé að meta verðmæti gamalla hluta en einu nýlegu hlutirnir séu 1 árs gömul kaffivél, 3-4 ára gömul hrærivél og hálfs árs gömul hækkun á klósettsetu fyrir fatlaðan einstakling og sé verðmæti þessara hluta lægri en reiknaður tollur. Kærandi kvaðst ekki hafa haft mikinn tíma til að pakka vegna Covid ástandsins og því ekki haft tíma til að merkja hvern kassa. Kærandi kvaðst hafa frá árinu 2008 dvalið á Flórída yfir veturinn 2 í allt að 6 mánuði en þó alltaf verið með lögheimili á Íslandi. Kærandi telur að um löglega búslóð sé að ræða og nú séu hún og maðurinn hennar flutt alfarið til Íslands. Kærandi óskar eftir að embætti Tollgæslustjóra endurskoði ákvörðun sína dags. 21. apríl 2020. 

IV. Niðurstöður 

Kæruefni úrskurðarins er álagning aðflutningsgjalda á sendingu E. Kærandi hefur óskað eftir að Tollgæslustjóri endurskoði upphæð tolls á ofangreinda sendingu. Á fyrri stigum málsins óskaði innflytjandi eftir því að sendingin nyti tollfrelsis sem búslóðarsending. 

Almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur vöru til landsins til endursölu,afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Af vörum, sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins, skal greiða toll eins og mælt er fyrir í tollskrá, sbr. 5. gr. tollalaga nr. 88/2005. Meginreglan er því sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins. Allar undantekningar frá almennri toll- og skattskyldu ber að túlka þröngt og verða því ríkar kröfur gerðar um að skilyrðum þeirra sé fullnægt. 

Í 4. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, er að finna undantekningu frá ofangreindri meginreglu. Samkvæmt ákvæðinu er búslóð manna sem flytjast búferlum hingað til lands tollfrjáls, enda hafi viðkomandi haft búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár áður en hann fluttist til landsins. Ákvæðið er nánar útfært í reglugerð nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi. Í 1. tl. 1. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar segir að tollfrelsi búslóða sé háð því almenna skilyrði að innflytjandi hafi haft fasta búsetu erlendis a.m.k. samfellt í eitt næstliðið ár fyrir búferlaflutning til landsins. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá flutti kærandi úr landi þann 15. mars 2007 og svo aftur til landsins þann 30. júní 2008 og hefur verið með skráð lögheimili á Íslandi frá þeim tíma. Ljóst er að kærandi uppfyllir ekki þau skilyrði um lágmarks búsetutíma erlendis sem kveðið er á um í 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sbr. 1. tl. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi nr. 630/2008. 

Tollverð innfluttra vara er viðskiptaverðið, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vörurnar við sölu þeirra til útflutnings til landsins, sbr. 14. gr. tollalaga nr. 88/2005. Um tollverðsákvörðun er kveðið á um í 15. gr. tollalaga. Í ákvæðinu er listað upp það sem bæta á við það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir hinar innfluttu vörur, auk þess hvað skuli vera innifalið í tollverði. Tollverðsákvörðun er svo nánar útfærð í reglugerð um vörslu og tollmeðferð vöru nr. 1100/2006. Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 er aðalgrundvöllur tollverðs viðskiptaverð vöru. Verði tollverð ekki ákvarðað á grundvelli viðskiptaverðs, skal það ákvarðað skv. ákvæðum 57.-62. gr. reglugerðarinnar. Á innihaldslista vegna flutnings búslóðar, einu af fylgiskjölum sendingar E, voru tilgreindur eftirtaldir liðir: borðbúnaður X dollarar, hljómtæki X dollarar, ýmis önnur tæki X dollarar, styttur X dollarar, bækur X dollarar, hljómplötur, diskar og snældur X dollarar, málverk og myndir X dollarar, mottur X dollarar, golfpoki með kylfum X dollarar, verkfæri X dollarar, handavinna og efni X3 dollarar og hækkun á klósettsetu fyrir fatlaðan einstakling X dollara, samtals tryggingarverðmæti var því X dollarar. 

Aðflutningsskýrslu var síðar skilað inn þar sem verðmæti varanna var tiltekið í samræmi við þær upplýsingar sem fengnar voru á innihaldslista sem innflytjandi fyllti sjálfur út og fylgdi með tollskýrslu innflytjanda. Var það verðmat samþykkt af hálfu Tollgæslustjóra. Þar sem eðlilegt tollverð lá fyrir, voru aðflutningsgjöld með réttu álögð miðað við uppgefið verðmæti varanna. 

Tollgæslustjóri telur ekki ástæðu til að véfengja uppgefið verðmæti sendingar innflytjanda sem innflytjandi lagði sjálfur fram við tollafgreiðslu hennar. Með vísun til umfjöllunar hér að ofan staðfestir Tollgæslustjóri ákvörðun embættisins dags. 21. apríl 2020, um tollverð sendingar E. 

ÚRSKURÐARORР

Embætti Tollgæslustjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollgæslustjóra um höfnun á tollafgreiðslu sendingar E sem búslóð, ásamt ákvörðun Tollgæslustjóra um tollverð umræddrar sendingar, er staðfest. 

Kæruréttur 

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá dagsetningu ákvörðunar þessarar, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. 

Virðingarfyllst, 

f.h. Tollgæslustjóra

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum