2011

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 378/2011

23.11.2011

Úrskurður nr. 378/2011

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2011, miðvikudaginn 23. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 23/2011; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Sverrir Örn Björnsson og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 27. janúar 2011, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2005, 2006, 2007 og 2008.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Vanræksla á tilkynningu um virðisaukaskattsskylda starfsemi. Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum.  Vanframtalin skattskyld velta og útskattur. Mögulegur innskattur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að tilkynna skattstjóranum í Reykjanesumdæmi um virðisaukaskattsskylda starfsemi sína, sem fólst í sölu á þjónustu til aðila sem störfuðu við fólksflutninga, og vanrækt að standa skattstjóranum í Reykjanesumdæmi skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi sinnar til, vegna uppgjörstímabilanna janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2005, janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2006, janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2007 og janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2008. Með framangreindri háttsemi sinni vanframtaldi A skattskylda veltu sína um samtals kr. 19.501.951 og vanframtaldi útskatt um samtals kr. 4.777.978. Mögulegur innskattur nemur samtals kr. 188.675.

Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur svo sem hér greinir:

 

Rekstrarár

Uppgjörs-tímabil Vantalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur Mögulegur innskattur
2005 jan. – feb. 0 0 1.683
2005 mars – apr. 0 0 0
2005 maí – jún. 0 0 2.891
2005 júl. – ágú. 0 0 3.708
2005 sept. – okt. 269.880 66.120 3.723
2005 nóv. – des. 595.965 146.012 1.696
Samtals kr.   865.845 212.132 13.701
2006 jan. – feb. 1.109.479 271.821 4.539
2006 mar. – apr. 1.267.003 310.416 7.545
2006 maí – jún. 1.396.820 342.222 12.009
2006 júl. – ágú. 1.132.916 277.564 9.171
2006 sept. – okt. 1.068.997 261.904 7.009
2006 nóv. – des. 452.370 110.831 2.980
Samtals kr.   6.427.585 1.574.758 43.253
2007 jan. – feb. 722.218 176.944 11.445
2007 mar. – apr. 1.148.112 281.288 9.852
2007 maí – jún. 1.311.086 321.216 7.359
2007 júl. – ágú. 1.024.981 251.120 34.543
2007 sept. – okt. 1.414.057 346.444 14.108
2007 nóv. – des. 806.475 197.586 0
Samtals kr.   6.426.929 1.574.598 77.307
2008 jan. – feb. 787.598 192.962 0
2008 mar. – apr. 874.313 214.207 0
2008 maí – jún. 1.482.972 363.328 3.260
2008 júl. – ágú. 823.454 201.746 19.415
2008 sept. – okt. 1.003.214 245.788 15.504
2008 nóv. – des. 810.041 198.459 16.235
Samtals kr.   5.781.592 1.416.490 54.414
Samtals öll árin kr.   19.501.951 4.777.978 188.675

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. 

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Við endurákvörðun á virðisaukaskatti vegna umræddra uppgjörstímabila rekstrarárin 2005, 2006, 2007 og 2008 hefur A verið gert að sæta álagi á vangreiddan virðisaukaskatt á grundvelli 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals kr. 457.929.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint. “

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 27. janúar 2011, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 2. febrúar 2011, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 27. janúar 2011, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem byggir á því að gjaldandi hafi vanrækt að tilkynna um virðisaukaskattsskylda starfsemi og vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti árin 2005, 2006, 2007 og 2008 svo sem nánar er rakið í kröfubréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda vegna rekstraráranna 2005, 2006, 2007 og 2008, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 10. mars 2010. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 6. febrúar 2009 og beindist aðallega að virðisaukaskattsskilum gjaldanda vegna sjálfstæðrar starfsemi gjaldanda í tengslum við ferðaþjónustu á rannsóknartímabilinu. Vegna rannsóknarinnar var skýrsla tekin af gjaldanda, A, hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins þann 16. nóvember 2009 og var rannsóknin byggð á upplýsingum sem þar komu fram og á bókhaldsgögnum gjaldanda. Með bréfi, dags. 17. febrúar 2010, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, sem dagsett var sama dag, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Að fengnu svarbréfi frá gjaldanda, dags. 2. mars 2010, tók skattrannsóknarstjóri saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 10. mars 2010, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar þar sem fram kom að athugasemdir gjaldanda þættu ekki gefa tilefni til breytinga á niðurstöðum rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 10. mars 2010, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og skattsskilum A vegna rekstraráranna 2005 til og með 2008 eru:

Ekki hafa verið staðin skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna rekstraráranna 2005 til og með 2008. 

2  Bókhald hefur ekki verið fært.

Um virðisaukaskattsskylda starfsemi er að ræða.

4  Skattskyld velta er vanframtalin.

5  Útskattur er vanframtalinn.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta gjaldanda væri vantalin um 865.845 kr. rekstrarárið 2005, 6.427.585 kr. rekstrarárið 2006, 6.426.929 kr. rekstrarárið 2007 og 5.781.592 kr. rekstrarárið 2008, eða samtals 19.501.951 kr., og útskattur um 212.132 kr. fyrsta árið, 1.574.758 kr. annað árið, 1.574.598 kr. þriðja árið og 1.416.490 kr. fjórða árið, eða samtals 4.777.978 kr. Þá næmi mögulegur innskattur 13.701 kr. rekstrarárið 2005, 43.253 kr. rekstrarárið 2006, 77.307 kr. rekstrarárið 2007 og 54.414 kr. rekstrarárið 2008, eða samtals 188.675 kr.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 11. mars 2010. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af bréfi til gjaldanda, dags. 26. apríl 2010, sem gjaldandi svaraði ekki, endurákvarðaði ríkisskattstjóri með úrskurði, dags. 18. maí 2010, virðisaukaskatt gjaldanda árin 2005, 2006, 2007 og 2008. Voru niðurstöður ríkisskattstjóra um virðisaukaskatt gjaldanda í samræmi við ályktanir skattrannsóknarstjóra ríkisins. Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 3/2011, sem kveðinn var upp 2. febrúar 2011, var máli gjaldanda vísað frá yfirskattanefnd á þeim grundvelli að kæra hans hafi borist að liðnum lögmæltum kærufresti.

3. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 10. mars 2010, kemur fram að gjaldandi, A, hafi ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabila á árunum 2005 til og með 2008. Er í þessu sambandi rakinn sá framburður gjaldanda við skýrslutöku 16. nóvember 2009 að hann hafi alltaf staðið í þeirri trú að hann væri ekki í þannig rekstri að hann þyrfti að gera grein fyrir virðisaukaskatti, enda hefði hann ekki rukkað inn virðisaukaskatt, ekki „tekið innskatt eða útskatt“ og ekki haft virðisaukaskattsnúmer. Þá kemur fram í skýrslunni að bókhald hafi ekki verið fært. Aðspurður um tekjuskráningu og innheimtu tekna kvaðst gjaldandi við skýrslutöku hafa gefið út sölureikninga á eigin kennitölu og hafi greiðslur reikninga ávallt verið með innlögn á bankareikning.

Rakið er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að samkvæmt 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sé útseld vinna og þjónusta við fólksflutninga undanþegin virðisaukaskatti. Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. fyrrgreindra laga nái undanþágur 3. mgr. 2. gr. aðeins til sölu eða afhendingar vinnu og þjónustu, en ekki til virðisaukaskatts af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi. Telji skattrannsóknarstjóri starfsemi gjaldanda ekki vera fólksflutninga samkvæmt fyrrgreindu ákvæði þar sem gjaldandi hafi selt þjónustu sína til aðila sem hafi fólksflutninga að starfsemi sinni en ekki beint til farþega. Líti skattrannsóknarstjóri ríkisins því svo á að starfsemi gjaldanda sé virðisaukaskattsskyld samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 og hafi gjaldanda því borið að innheimta virðisaukaskatt í starfsemi sinni.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknar á skattskyldri veltu og útskatti gjaldanda. Rakið er að við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra þann 16. nóvember 2009 hafi sölureikningar, útgefnir á árunum 2005 til 2008, að fjárhæð samtals 24.279.836 kr., verið lagðir fyrir gjaldanda og hafi gjaldandi staðfest að hafa gefið þá út og fengið þá alla greidda. Tók gjaldandi það fram að sölureikningarnir hefðu ekki verið gefnir út með virðisaukaskatti. Í skýrslunni er rakið að innsláttarvilla á reikningi nr. 4, dags. 28. september 2007, hafi verið leiðrétt og því hækki heildarfjárhæð sölureikninga um 80 kr. og verði 24.279.916 kr. Er það niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins að skattskyld velta gjaldanda hafi verið vanframtalin um 865.845 kr. rekstrarárið 2005, 6.427.585 kr. rekstrarárið 2006, 6.426.929 kr. rekstrarárið 2007 og 5.781.592 kr. rekstrarárið 2008, eða samtals 19.501.951 kr., og útskattur um 212.132 kr. fyrsta árið, 1.574.758 kr. annað árið, 1.574.598 kr. þriðja árið og 1.416.490 kr. fjórða árið, eða samtals 4.777.978 kr.

Í kafla um rannsókn á innskatti kemur fram að kostnaðargögn vegna rekstraráranna 2005 til 2008 hafi verið lögð fyrir gjaldanda við skýrslutöku þann 16. nóvember 2009. Kannaðist gjaldandi við þá reikninga sem bornir voru undir hann við skýrslutökuna, en ítrekaði að hann teldi sig ekki vera í virðisaukaskattsskyldri starfsemi. Var það niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra að mögulegur innskattur væri 13.701 kr. rekstrarárið 2005, 43.253 kr. rekstrarárið 2006, 77.307 kr. rekstrarárið 2007 og 54.414 kr. rekstrarárið 2008, eða samtals 188.675 kr.

4. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er sem fyrr segir byggð á því að gjaldandi hafi vanrækt að tilkynna skattstjóra um virðisaukaskattsskylda starfsemi sína og vanrækt að standa skil virðisaukaskattsskýrslum vegna sjálfstæðrar starfsemi sinnar. Með því hafi gjaldandi vanframtalið skattskylda veltu sína um samtals 19.501.951 kr. og útskatt um 4.777.978 kr. Þá hafi mögulegur innskattur gjaldanda numið 188.675 kr. Gjaldandi hefur sem fyrr segir ekki gert athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en við skýrslutöku af gjaldanda kom fram sú afstaða hans að hann hafi talið starfsemina vera undanþegna virðisaukaskatti.

Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins þann 16. nóvember 2009 kom fram af hálfu gjaldanda að hann hefði verið „freelance“ bílstjóri og ekið með ferðamenn í Econoline bifreið. Kvaðst gjaldandi hafa farið á námskeið hjá Vegagerðinni og vera með hópferðaleyfisréttindi. Aðspurður um hvers vegna engin bifreið væri skráð á gjaldanda kvaðst gjaldandi hafa orðið gjaldþrota og því hefði hann ekki getað verið með bifreiðina skráða á sig. Bifreiðin hefði verið skráð á X ehf. „vegna skulda sem hvíldu á honum í því félagi“, svo sem bókað er í samantekt úr skýrslutökunni, sbr. fskj. nr. 1.1-1.5 með rannsóknarskýrslu. Meðfylgjandi andmælabréfi umboðsmanns gjaldanda, dags. 2. mars 2010, við frumskýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, var yfirlýsing frá fyrirsvarsmanni X ehf., þar sem því er lýst yfir að bifreiðin Z hafi alltaf verið í eigu gjaldanda, A, en bifreiðin hafi verið skráð á félagið vegna skuldar gjaldanda. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er ekki nánari grein gerð fyrir starfsemi gjaldanda en rakið er að framan. Er því slegið föstu í skýrslunni að starfsemi gjaldanda teljist ekki fólksflutningar í skilningi 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 þar sem gjaldandi hafi ekki selt þjónustu sína beint til farþega heldur til ferðaþjónustuaðila. Gjaldanda hafi því borið að innheimta virðisaukaskatt í starfsemi sinni, enda væri um að ræða sölu til aðila í undanþeginni starfsemi á aðföngum til rekstrarins sem ekki væru undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.

Ekki verður annað ráðið af framburði gjaldanda við skýrslutöku og gögnum málsins að öðru leyti en að starfsemi gjaldanda á umræddu tímabili hafi falist í því að aka með ferðamenn á sérútbúinni bifreið sem skráð var í eigu X ehf. Þrátt fyrir þá skráningu er ljóst að gjaldandi telur sig hafa átt bifreiðina og staðið straum af rekstri hennar. Fær þetta stuðning af yfirlýsingu fyrirsvarsmanns X ehf. sem fylgdi andmælabréfi umboðsmanns gjaldanda til skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 2. mars 2010. Tekið skal fram að meðal fylgiskjala með skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er yfirlit um gögn vegna bifreiðakostnaðar, sem gjaldandi afhenti, sem þó voru ekki talin grundvöllur innskatts, m.a. sökum þess að gjaldandi væri ekki skráður fyrir bifreið. Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er ekki byggt á því að gjaldandi hafi sinnt bifreiðastjórn fyrir X ehf., enda er óumdeilt að hann seldi þjónustu sína til ýmissa fyrirtækja í ferðaþjónustu, m.a. Y ehf., Þ ehf. og Æ ehf.

Miðað við að gjaldandi hafi stundað fólksflutninga á eigin kostnað, eins og gögn málsins benda samkvæmt framansögðu frekast til, verður ekki annað séð en að undanþáguákvæði 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 geti tekið til starfsemi gjaldanda, svo sem hann hefur haldið fram. Að svo vöxnu verður ekki talið að skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi sýnt fram á skyldu gjaldanda til að standa skil á virðisaukaskatti af seldri þjónustu. Því verður gjaldanda ekki gerð sekt í máli þessu.

Úrskurðarorð:

Gjaldanda, A, verður ekki gerð sekt í máli þessu.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum