2011

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 416/2011

28.12.2011

Úrskurður nr. 416/2011

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2011, miðvikudaginn 28. desember, er tekið fyrir mál nr. 336/2010; beiðni A, kt. [...], dags. 29. nóvember 2010, um endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 111/2010. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Sverrir Örn Björnsson og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 29. nóvember 2010, hefur umboðsmaður gjaldanda farið þess á leit við yfirskattanefnd að nefndin endurupptaki úrskurð sinn nr. 111/2010, sem kveðinn var upp 14. apríl 2010, vegna kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda vegna meintra brota á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Með nefndum úrskurði var gjaldanda gert að sæta sekt að fjárhæð 6.600.000 kr. samkvæmt greindum lögum vegna vanrækslu á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts í rekstri einkahlutafélagsins X. Í bréfi umboðsmanns gjaldanda, dags. 29. nóvember 2010, sbr. einnig bréf umboðsmannsins, dags. 16. febrúar 2011, er þess krafist að yfirskattanefnd taki mál gjaldanda til nýrrar meðferðar og breyti fyrri úrskurði sínum á þann veg að gjaldanda verði ekki gert að sæta sekt eða að áður ákvörðuð sektarfjárhæð verði lækkuð. Jafnframt er gerð krafa um að gjaldanda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Tildrög málsins eru þau að skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf 8. apríl 2008 rannsókn á skattskilum X ehf. er beindist að skilum á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti félagsins árin 2006 og 2007. Vegna rannsóknarinnar var hinn 14. apríl 2008 tekin skýrsla af gjaldanda, A. Með bréfum, dags. 30. apríl 2008, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda og skiptastjóra þrotabús X ehf. skýrslu um rannsóknina sem þá lá fyrir, dags. 30. apríl 2008, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar. Athugasemdir voru gerðar af hálfu gjaldanda með bréfi, dags. 19. maí 2008, þar sem gerð var grein fyrir rekstrarerfiðleikum X ehf., aðallega vegna gengishækkunar krónu gagnvart pundi, en samningur félagsins við verkkaupa hefði verið í pundum. Þá var fjallað um greiðslur félagsins og gjaldanda til innheimtumanns undanfarin ár og kom m.a. fram að gjaldandi hefði persónulega greitt á bilinu átta til tíu milljónir króna í álag, dráttarvexti og kostnað vegna skattskulda frá árinu 1998. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 21. maí 2008, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar þar sem fjallað var um framkomin andmæli og tekið fram að þau þættu ekki gefa tilefni til breytinga á skýrslunni.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 11. febrúar 2009, gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins m.a. þá kröfu að gjaldanda yrði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hann hefði sem fyrirsvarsmaður X ehf. vanrækt að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna félagsins greiðslutímabilin maí 2006 til og með desember 2007 að fjárhæð samtals 4.486.548 kr. Þá var gerð krafa um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, vegna vangreidds virðisaukaskatts uppgjörstímabilin nóvember–desember 2006 og janúar–febrúar til og með nóvember–desember 2007 að fjárhæð samtals 3.042.314 kr. Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. febrúar 2009, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins. Með bréfi, dags. 31. mars 2009, lagði gjaldandi fram vörn í málinu. Þar var vísað til þess að með bréfi til skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 19. maí 2008, hefði gjaldandi samþykkt niðurstöðu rannsóknar embættisins og óskað eftir því að málið yrði sent til yfirskattanefndar ásamt skýringum sínum. Þá rakti gjaldandi að hann hefði barist við skattskuldir í tíu til fimmtán ár. Með mikilli baráttu og smá heppni hefði gjaldanda tekist að koma skuld, sem einu sinni hefði verið rúmar tíu milljónir króna, niður í tvær milljónir. Gjaldandi væri í viðræðum við viðskiptabanka sinn um aðstoð við að gera upp það sem eftir stæði og sæi fram á að verða skuldlaus við tollstjóra í fyrsta skipti í langleiðina 15 ár. Í ljósi nýsamþykktra laga um greiðsluaðlögun vegna erfiðra skulda svo og mjög svo aukins skilnings í samfélaginu og hjá stjórnvöldum á því að það væri engum til hagsbóta að halda fólki í skuldafangelsi svo árum og áratugum skipti væri það von gjaldanda að yfirskattanefnd tæki við ákvörðun sína tillit til þess að hann hefði alla tíð reynt að greiða skuldir sínar í stað þess að fela sig á bak við gjaldþrot eða flýja land eins og margir gerðu.

Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 111/2010 var gjaldanda gerð sekt að fjárhæð 6.600.000 kr. á þeim grundvelli að hann hefði sem fyrirsvarsmaður X ehf. vanrækt með saknæmum hætti að standa skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda af launum starfsmanna félagsins greiðslutímabilin maí til og með desember 2006 og janúar til og með nóvember 2007 að fjárhæð samtals 4.055.383 kr. og á virðisaukaskatti að fjárhæð 3.014.282 kr. uppgjörstímabilin nóvember-desember 2006 og janúar-febrúar til og með september-október 2007. Voru brot gjaldanda talin varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 42/1995.

Í forsendum úrskurðar yfirskattanefndar voru m.a. raktar fyrirliggjandi upplýsingar um greiðslur X ehf. til innheimtumanns ríkissjóðs vegna staðgreiðslu, virðisaukaskatts og opinberra gjalda frá því að skuldir vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts, sem málið tók til, byrjuðu að myndast 15. júní 2006. Fram kom að samkvæmt málsgögnum hefðu alls verið greiddar 988.697 kr. á tímabilinu 15. júní 2006 til og með 9. febrúar 2009 vegna höfuðstóls skilaskyldrar staðgreiðslu X ehf. og 1.211.843 kr. vegna höfuðstóls virðisaukaskatts félagsins. Að því leyti sem um var að ræða greiðslur vegna greiðslu- og uppgjörstímabila sem málið tók til, þ.e. staðgreiðslu að fjárhæð 218.994 kr. greiðslutímabilið maí 2006 og virðisaukaskatts að fjárhæð 28.032 kr. uppgjörstímabilið nóvember-desember 2006, var talið rétt að þær kæmu til frádráttar fjárhæð vangreiddrar staðgreiðslu og virðisaukaskatts samkvæmt kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins. Í því sambandi vísaði yfirskattanefnd til úrskurðaframkvæmdar og þess að um væri að ræða greiðslur sem gjaldandi hefði staðið skil á áður en málið var sent yfirskattanefnd til meðferðar. Samkvæmt því var í málinu byggt á vangreiddri staðgreiðslu að fjárhæð 4.055.383 kr. og vangreiddum virðisaukaskatti að fjárhæð 3.014.282 kr.

Þá var í úrskurðinum gerð grein fyrir greiðslum X ehf. á fyrrgreindu tímabili, sem innheimtumaður ríkissjóðs hefði ráðstafað til greiðslu dráttarvaxta, álags og kostnaðar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts, svo og voru raktar greiðslur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna opinberra gjalda X ehf., þ.m.t. tryggingagjalds. Kom fram að samtals væri hér um að ræða greiðslur að fjárhæð 3.581.120 kr. sem líta mætti til við ákvörðun sektarfjárhæðar, svo sem nánar var rakið. Kom fram að við mat á þýðingu þeirra fyrir sektarákvörðun þætti rétt að skipta þeim hluta innborgana, sem ráðstafað hefði verið til greiðslu opinberra gjalda X ehf., í hlutfalli við fjárhæðir vangoldinnar staðgreiðslu og virðisaukaskatts. Innborganir vegna staðgreiðslu opinberra gjalda teldust þá nema 1.865.423 kr. og innborganir vegna virðisaukaskatts 1.715.697 kr.

Þá sagði í forsendum úrskurðarins:

„Eins og lög nr. 45/1987 og nr. 50/1988 hljóða eftir breytingar, sem á þeim voru gerðar með lögum nr. 42/1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem vanrækt var greiðsla á, þó að teknu tilliti til álags. Samkvæmt breytingu á greindum lögum með lögum nr. 134/2005 eiga fésektarákvæði þessi þó ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindri staðgreiðslu eða virðisaukaskatti samkvæmt skilagrein staðgreiðslu eða virðisaukaskattsskýrslu, enda hafi verið gerð skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar. Í tilviki gjaldanda er til þess að líta að skilagreinar staðgreiðslu og virðisaukaskattsskýrslur X ehf. liggja fyrir vegna allra tímabila staðgreiðslu og virðisaukaskatts sem málið varðar, þótt skil þeirra hafi dregist nokkuð, og eru fjárhæðir í málinu byggðar á þeim. Sem fyrr segir verður lagt til grundvallar að greiðslur til innheimtumanns ríkissjóðs, sem hér beri að líta til, hafi numið 1.865.423 kr. vegna staðgreiðslu og 1.715.697 kr. vegna virðisaukaskatts. Að teknu tilliti til innborgunar á höfuðstól svarar fyrrnefnda fjárhæðin til vangreiddrar staðgreiðslu X ehf. vegna fyrstu fimm greiðslutímabila staðgreiðslu sem sektarkrafa tekur til og verulegs hluta fjárhæðar sjötta tímabilsins. Greiðslur vegna virðisaukaskatts svara með sama hætti til vangreidds virðisaukaskatts félagsins fyrstu tveggja uppgjörstímabila sem málið varðar og verulegs hluta fjárhæðar þriðja tímabilsins. Samkvæmt þessu og í samræmi við greinda dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. fyrrgreinda dóma frá 30. mars 2006, verður því talið að sú undantekning frá fésektarlágmarki, sem mælt er fyrir um í lögum nr. 134/2005, taki til staðgreiðslu opinberra gjalda að fjárhæð 1.996.463 kr. greiðslutímabilin maí, júní, júlí, ágúst, september og október 2006 og til virðisaukaskatts að fjárhæð 1.765.100 kr. uppgjörstímabilin nóvember-desember 2006 og janúar-febrúar og mars-apríl 2007. Ekki liggur annað fyrir en að vangreiðsla á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti vegna annarra tímabila hafi fyrst og fremst stafað af erfiðleikum í rekstri X ehf. og ekkert er komið fram um að gjaldandi hafi persónulega notið nokkurs hags af brotinu. Hins vegar varðar mál þetta vanskil á staðgreiðslu og virðisaukaskatti að ekki óverulegri fjárhæð og vegna alllangs tímabils. Að þessu virtu og með vísan til greindrar dómaframkvæmdar verður því ekki talið að skilyrði um miklar málsbætur, sbr. ákvæði laga nr. 134/2005, eigi hér við. Því teljast lágmarksákvæði í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 gilda um vanskil staðgreiðslu að fjárhæð 2.058.920 kr. og virðisaukaskatts að fjárhæð 1.249.182 kr.“

III.

Í beiðni umboðsmanns gjaldanda um endurupptöku málsins, dags. 29. nóvember 2010, sbr. einnig bréf, dags. 16. febrúar 2011, er sem fyrr segir gerð sú krafa að yfirskattanefnd taki mál gjaldanda, A, til nýrrar meðferðar þannig að honum verði ekki gerð sekt í málinu eða áður ákvörðuð sekt lækkuð. Í endurupptökubeiðni umboðsmanns gjaldanda, dags. 29. nóvember 2010, er tekið fram að gjaldandi hafi verið eigandi og stjórnarmaður X ehf. Bú félagsins hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 20. desember 2007 og hafi skiptum lokið 11. nóvember 2010. Þá segir m.a.:

„Þegar ofannefnt félag var tekið til gjaldþrotaskipta var það í rekstri, með tekjur af verkefnum og útistandandi kröfur sem námu um 5 milljónum króna. Þá átti félagið lausafé og bifreið. Í því skyni að lækka þá skuld, sem félagið var í við innheimtumann ríkissjóðs, vegna afdreginnar staðgreiðslu og virðisaukaskatts, keypti [gjaldandi] lausafé og bifreiðina af félaginu. Fyrir hið selda greiddi [gjaldandi] eins mikið og hann gat, óháð verðmæti, í þeirri von að sem mest yrði greitt inn á skuld félagsins við innheimtumann ríkissjóðs.

[Gjaldandi] mætti í skýrslutöku hjá skiptastjóra og gerði grein fyrir stöðu félagsins, útistandandi kröfum og vilja til að kaupa bifreið og lausafé af þrotabúinu. Viðskiptin gengu snurðulaust fyrir sig og sömuleiðis innheimta útistandandi krafna. Gera má ráð fyrir að öllum eignum hafi verið komið í verð í síðasta lagi í lok sumars 2008.

Eignir búsins námu samtals kr. 7.243.185,-. Þremur kröfum var lýst í búið og var innheimtumaður ríkissjóðs með langstærstu kröfuna, samtals kr. 11.834.044,- (heildarvanskil skv. úrskurði yfirskattanefndar var kr. 5.353.906,- vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og kr. 3.657.731,- vegna virðisaukaskatts). Aðrir kröfuhafar voru Y, sem lýsti forgangskröfu að fjárhæð kr. 1.202.400,- og Z ehf., sem lýsti almennri kröfu að fjárhæð 48.000,-. Þá var af eignum búsins greiddur skiptakostnaður sem nam samtals kr. 2.088.064,-. Samkvæmt frumvarpi skiptastjóra dags. 20. október 2010 voru kr. 3.661.101,- greiddar til innheimtumanns ríkissjóðs vegna vanskila á staðgreiðslu og virðisaukaskatti.

Í úrskurði þeim er beiðni þessi lýtur að er sektarfjárhæð miðuð við vanskil staðgreiðslu opinberra gjalda að fjárhæð kr. 2.058.920,- og virðisaukaskatts að fjárhæð kr. 1.249.182,- eða samtals kr. 3.308.102,-. Hafði þá verið tekið tillit til innborgana félagsins eftir að skuldir byrjuðu að myndast.

...

Er ákvörðun Yfirskattanefndar var tekin vógu þungt þær greiðslur sem félagið hafði greitt til innheimtumanns ríkissjóðs vegna þeirra fjárhæða sem ekki hafði verið staðið skil á á gjalddaga. Lágmarksákvæði 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 voru talin gilda um vanskil samtals að fjárhæð kr. 3.308.102,-. Frá því ákvörðunin var tekin hafa fyrrnefndar innborganir tvöfaldast og greidd hefur verið hærri fjárhæð en lágmarksákvæði voru talin gilda um.

Að ofangreindu virtu telur [gjaldandi] að skilyrði endurupptöku málsins séu fyrir hendi þannig að taka megi beiðni þessa til greina.“

Í endurupptökubeiðni umboðsmanns gjaldanda er jafnframt gerð grein fyrir efnahag gjaldanda og aðstæðum að öðru leyti.

Með bréfi, dags. 16. febrúar 2011, hefur umboðsmaður gjaldanda áréttað beiðni um endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 111/2010. Í bréfinu segir m.a.:

„Meðfylgjandi eru frekari upplýsingar um að eftir endurskoðun skiptastjóra á þóknun sinni skv. frumvarpi til úthlutunar dags. 20. október 2010 ákvað skiptastjóri að leiðrétta úthlutun til Tollstjórans í Reykjavík vegna kröfulýsingar í þb. X ehf. Auk þeirra 3.661.101 kr. sem greiddar voru þann 17. nóvember 2010 voru greiddar 708.603 kr. í endurúthlutun þann 12. desember 2010. Samtals hefur Tollstjórinn í Reykjavík fengið greiddar 4.369.704 kr. eftir uppkvaðningu úrskurðar í máli 111/2010 þann 14.4.2010.

[Gjaldandi] var sektaður um 6.600.000 kr. fyrir vanskil X ehf. samtals að fjárhæð 3.308.102 kr. Ljóst er að skattaðilinn hefur að fullu gert upp öll vanskil við tollstjóra og ber að líta til þess að það náðist eingöngu vegna vinnu [gjaldanda] fyrir skattaðila (skiptastjóri tók við útistandandi kröfum að fjárhæð um 4,6 milljónir króna) auk þess sem hann greiddi allt sem hann gat inn í þrotabúið fyrir eignir þess.

Ég leyfi mér að gera þá kröfu að [gjaldanda] verði ekki gerð sérstök refsing vegna vanskila í rekstri skattaðilans í ljósi einstaks greiðsluvilja, vinnusemi [gjaldanda] sem olli greiðslugetu skattaðilans. Þá er einnig vísað til þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi eru í þessu máli. Verði ekki fallist á framangreint er þess krafist að [gjaldanda] verði gerð lægsta möguleg refsing sem lög leyfa. Í öllum tilvikum er þess krafist að málskostnaður [gjaldanda] vegna endurupptöku og gagnaöflunar fyrir Yfirskattanefnd, 476.000 kr., verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992.“

IV.

Mál þetta varðar beiðni samkvæmt bréfi umboðsmanns gjaldanda, dags. 29. nóvember 2010, um endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 111/2010 sem kveðinn var upp hinn 14. apríl 2010 vegna kröfu skattrannsóknarstjóra um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda vegna meintra brota á skattalögum. Með úrskurði þessum var gjaldanda gerð sekt á þeim grundvelli að hann hefði sem fyrirsvarsmaður X ehf. vanrækt með saknæmum hætti að standa skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda af launum starfsmanna félagsins greiðslutímabilin maí 2006 til og með desember 2007 og virðisaukaskatti uppgjörstímabilin nóvember–desember 2006 og janúar–febrúar til og með nóvember–desember 2007. Voru brot gjaldanda talin varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Af hálfu umboðsmanns gjaldanda er vísað til þess að með úthlutunum úr þrotabúi X ehf. 17. nóvember 2010 og 12. desember 2010 hafi verið gerð skil á vangreiddri staðgreiðslu og virðisaukaskatti sem legið hafi til grundvallar sektarákvörðun í máli gjaldanda. Kemur fram að gjaldandi hafi átt hlut að þeirri niðurstöðu með því að stuðla að innheimtu viðskiptakrafna og með kaupum eigna af þrotabúinu. Verður að skilja rökstuðning umboðsmanns gjaldanda þannig að eignir þessar hafi gjaldandi keypt á yfirverði, beinlínis í því skyni að sem hæst greiðsla fengist upp í kröfu innheimtumanns ríkissjóðs. Þá er því haldið fram að öllum eignum þrotabúsins hafi verið komið í verð í síðasta lagi haustið 2008. Er krafa umboðsmanns gjaldanda í beiðni hans um endurupptöku byggð á því að líta beri til greiðslna þessara við ákvörðun um fjárhæð sektar á hendur gjaldanda, eftir atvikum þannig að gjaldanda verði ekki gerð sekt í málinu.

Í II. kafla hér að framan er gerð nánari grein fyrir máli gjaldanda sem lauk með úrskurði yfirskattanefndar nr. 111/2010 og forsendur úrskurðarins teknar upp orðrétt að hluta. Eins og þar kemur fram leit yfirskattanefnd með tvennum hætti til greiðslna X ehf. til innheimtumanns ríkissjóðs sem inntar voru af hendi frá því að skattskuldir félagsins, sem kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins laut að, fóru að myndast og þar til mál gjaldanda var lagt fyrir yfirskattanefnd. Annars vegar voru fjárhæðir vangreiddra gjalda samkvæmt kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins lækkaðar sem nam innborgunum einkahlutafélagsins á höfuðstól staðgreiðslu og virðisaukaskatts vegna greiðslu- og uppgjörstímabila sem málið tók til. Hins vegar var við ákvörðun sektarfjárhæðar tekið tillit til innborgana félagsins sem innheimtumaður ríkissjóðs hefði ráðstafað til greiðslu álags og dráttarvaxta vegna staðgreiðslu og virðisaukaskatts svo og var með sama hætti tekið tillit til greiðslna félagsins vegna opinberra gjalda þess, þ.m.t. tryggingagjalds. Tekið skal fram að í úrskurðaframkvæmd hefur jafnframt verið tekið tillit til þess við sektarákvörðun hafi umtalsverðar fjárhæðir verið inntar af hendi vegna vangreiddra skatta eftir að mál til ákvörðunar skattsektar hefur verið sent yfirskattanefnd, enda þótt þær greiðslur hafi ekki haft sömu þýðingu og greiðslur sem inntar eru af hendi fyrir greint tímamark. Af eðli máls leiðir að í þessu sambandi verður ekki litið til greiðslna eftir að málsmeðferð fyrir yfirskattanefnd er lokið.

Greiðslur til innheimtumanns ríkissjóðs, sem vísað er til í endurupptökubeiðni, samtals að fjárhæð 4.369.704 kr., voru inntar af hendi 17. nóvember og 12. desember 2010 eða rúmlega hálfu ári eftir að úrskurður yfirskattanefndar var kveðinn upp í máli gjaldanda hinn 14. apríl 2010. Eftir því sem umboðsmaður gjaldanda hefur gert grein fyrir voru þessir fjármunir hins vegar til reiðu í fórum þrotabús X ehf. þegar um haustið 2008. Verður að skilja röksemdir umboðsmannsins þannig að skiptalok hafi dregist úr hömlu sem hafi valdið því að greiðslur hafi ekki borist innheimtumanni fyrr en að gengnum úrskurði yfirskattanefndar í máli gjaldanda. Eins og fram er komið var bú X ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 20. desember 2007, en skiptum lauk 11. nóvember 2010. Samkvæmt úthlutunargerð í búinu, sem er meðal málsgagna, var ekki um aðrar eignir að ræða í búinu en inneign á bankareikningum og andvirði seldra eigna, svo og voru kröfuhafar einungis þrír. Verður ekki annað séð en að um tiltölulega einföld búskipti hafi verið að ræða. Að þessu virtu og með vísan til fram kominna skýringa í endurupptökubeiðni verður byggt á því að unnt hefði verið að greiða umtalsverða fjárhæð upp í skattskuldir X ehf. mun fyrr en gert var, að nokkru leyti vegna atbeina gjaldanda, ef ekki hefði komið til sú aðstaða sem umboðsmaður gjaldanda hefur gert grein fyrir. Þegar litið er til þess hvenær skiptalok urðu í raun þykir þó ekki unnt að líta svo á að reikna hefði mátt með greiðslum þessum áður en mál gjaldanda var sent yfirskattanefnd til meðferðar hinn 11. febrúar 2009.

Með endurupptökubeiðni umboðsmanns gjaldanda þykir hafa verið gerð gleggri grein fyrir atvikum máls þessa en lágu fyrir yfirskattanefnd við uppkvaðningu úrskurðar nr. 111/2010, enda var ekkert vikið að innborgunum til innheimtumanns ríkissjóðs í greinargerð umboðsmanns gjaldanda í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Fram komnar upplýsingar gefa ekki tilefni til þess að taka mál gjaldanda til nýrrar meðferðar með tilliti til refsiábyrgðar vegna þeirra brota sem framin voru í rekstri X ehf. á árunum 2006 og 2007. Á hinn bóginn verður talið rétt, eins og málið liggur fyrir, að taka tillit til fyrrgreindra greiðslna frá þrotabúi X ehf. við ákvörðun sektarfjárhæðar, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Því er mál gjaldanda endurupptekið að því er varðar ákvörðun sektarfjárhæðar. Með vísan til þess sem rakið er að framan um umræddar greiðslur og að virtum málsatvikum að öðru leyti þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 3.300.000 kr. til ríkissjóðs.

Umboðsmaður gjaldanda hefur gert kröfu um að gjaldanda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Þegar litið er til þess hvernig mál þetta ber að þykja ekki vera til staðar lagaskilyrði til þess að ákvarða gjaldanda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Úrskurðarorð:

Fallist er á endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 111/2010. Sekt gjaldanda, A, lækkar úr 6.600.000 kr. í 3.300.000 kr. Málskostnaðarkröfu gjaldanda er hafnað.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum