2012

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 392/2012

11.6.2012

Úrskurður nr. 392/2012                                                                  

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2012, mánudaginn 11. júní, er tekið fyrir mál nr. 157/2011; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Sverrir Örn Björnsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 28. apríl 2011, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, beggja með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2006 og 2007.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A, sem stjórnarmanni, framkvæmdastjóra og daglegum stjórnanda og prókúruhafa X ehf. (nú þrotabú), er gefið að sök eftirfarandi:

1. Vanræksla á skilum á skattframtölum og fylgigögnum þeirra. Vanframtaldar rekstrartekjur. Möguleg rekstrargjöld. 

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að standa skil á skattframtölum ásamt fylgigögnum þeirra, fyrir hönd skattaðila, til skattstjórans í Reykjavík vegna álagningar opinberra gjalda, gjaldárin 2007 og 2008, vegna rekstraráranna 2006 og 2007. Með því vanrækti hann að gera grein fyrir rekstrartekjum skattaðila að fjárhæð kr. 2.008.492 vegna rekstrarársins 2006 og kr. 6.229.999 vegna rekstrarársins 2007. Möguleg rekstrargjöld námu kr. 176.454 vegna rekstrarársins 2006. Skattstjórinn í Reykjavík áætlaði tekjuskattsstofn skattaðila vegna rekstrarársins 2006 kr. 200.000 auk álags kr. 30.000 og vegna rekstrarársins 2007 kr. 500.000, auk álags kr. 75.000.

Leiddi háttsemi A til ákvörðunar lægri tekjuskattsstofns skattaðila en vera bar vegna rekstraráranna 2006 og 2007 og þar með ákvörðunar lægri tekjuskatts, svo sem hér greinir.

Rekstrarár Vanframtalinn tekjuskattsstofn Tekjuskattur 18%
2006 1.602.038             Vanframtaldar rekstrartekjur kr. 2008.492 – möguleg rekstrargjöld kr. 176.454 – áætlun skattstjóra kr. 230.000 = 1.602.038. 288.367
2007 5.654.999 Vanframtaldar rekstrartekjur kr. 6.229.999 – áætlun skattstjóra kr. 575.000 = 5.654.999. 1.017.900
Samtals kr. 7.257.037

1.306.267

 

 Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. B lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

2. Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur. Mögulegur innskattur. 

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að standa skattstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi skattaðila vegna allra uppgjörstímabila rekstrarárið 2006 og vegna uppgjörstímabilanna september–október og nóvember–desember rekstrarárið 2007. Þá stóð A skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna janúar–febrúar, mars–apríl, maí–júní og júlí–ágúst rekstrarárið 2007. Með framangreindri háttsemi vanframtaldi A skattskylda veltu og útskatt skattaðila. Samkvæmt niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 8.238.491 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 2.018.432. Mögulegur innskattur nemur samtals kr. 33.287.

Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum svo sem hér greinir:

 

Rekstrarár

 

Uppgjörstímabil

Vanframtalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur Innskattur
2006 jan. – feb. 0 0  
2006 mars – apríl 0 0  
2006 maí – júní 0 0  
2006 júlí – ágúst 49.280 12.074  
2006 sept. – okt. 70.000 17.150  
2006 nóv. – des. 1.889.212 462.858 33.287
Samtals kr.   2.008.492 492.082 33.287
2007 jan. – feb. 2.546.789 623.964  
2007 mars – apríl 401.606 98.394  
2007 maí – júní 1.255.217 307.528  
2007 júlí – ágúst 280.500 68.722  
2007 sept. – okt. 1.135.934 278.304  
2007 júlí – ágúst 609.953 149.438  
Samtals kr.   6.229.999 1.526.350  
Samtals bæði árin kr. 8.238.491 2.018.432 33.287  

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr. sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. 

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. 

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 28. apríl 2011, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 29. apríl 2011, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði þá málið endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 28. apríl 2011, er þess krafist að gjaldanda, A, verði sem fyrrum fyrirsvarsmanni X ehf. gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, vegna meintra brota hans á skattalögum í rekstri greinds einkahlutafélags. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og skattskilum X ehf. vegna rekstraráranna 2006 og 2007, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 29. apríl 2010. Rannsókn þessi hófst formlega 25. mars 2009 í framhaldi af tilkynningu frá skattstjóranum í Reykjavík um grun um skattsvik. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins dagana 26. október 2009 og 27. janúar 2010. Þá var tekin skýrsla af B, fyrrum eiganda og stjórnarmanni X ehf., dagana 25. og 27. nóvember 2009 og 15. febrúar 2010, en skýrsla var einnig tekin af C, bókara X ehf., hinn 14. desember 2009. Var rannsókn í máli gjaldanda m.a. byggð á upplýsingum sem fram komu við fyrrgreindar skýrslutökur, en einnig var byggt á hreyfingalistum fyrir árið 2006, drögum að ársreikningi árið 2006, drögum að skattframtali 2007, gögnum frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda og bankareikningum X ehf. og tengdra aðila. Með bréfum, dags. 12. mars 2010, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda og B skýrslu um rannsóknina, sem dagsett var sama dag, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Engar athugasemdir bárust og var lokaskýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 29. apríl 2010, efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 29. apríl 2010, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og skattsskilum skattaðila fyrir rekstrarárin 2006 og 2007 eru:

·1   Skattframtölum og ársreikningum hefur ekki verið skilað.

·2   Virðisaukaskattsskýrslum fyrir öll uppgjörstímabil rekstrarárið 2006 og fyrir uppgjörstímabilin september-október og nóvember-desember rekstrarárið 2007 var ekki skilað.

·3   Rangfærðum virðisaukaskattsskýrslum fyrir uppgjörstímabilum janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní og júlí-ágúst rekstrarárið 2007 var skilað.

·4   Annmarkar eru á færslu bókhalds.

·5   Engin tekjuskráningar- eða gjaldagögn hafa verið afhent.

·6   Hreyfingalisti vegna rekstrarársins 2006 var afhentur.

·7   Að mati skattrannsóknarstjóra er starfssamband A við Y ehf. launþegasamband.

·8   Skattskyld velta er vantalin.

·9   Útskattur er vantalinn.

·10 Rekstrartekjur eru vantaldar.

·11 Rekstrargjöld fyrir rekstrarárið 2006 eru kr. 176.454.

·12 Innskattur fyrir rekstrarárið 2006 er kr. 33.287.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta X ehf. væri vantalin um 2.008.492 kr. rekstrarárið 2006 og um 6.229.999 kr. rekstrarárið 2007 og útskattur um 492.082 kr. fyrra árið og um 1.526.350 kr. það síðara. Rekstrartekjur væru vantaldar um 2.008.492 kr. rekstrarárið 2006 og um 6.229.999 kr. rekstrarárið 2007. Þá var gerð grein fyrir rekstrargjöldum og innskatti umrædd ár samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál X ehf. sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 29. apríl 2010. Með bréfi, dags. 8. júní 2010, tilkynnti ríkisskattstjóri að þegar litið væri til þess að X ehf. hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta hinn 17. nóvember 2008 og félagið afskráð hinn 26. mars 2009, hefði ríkisskattstjóri ekki í hyggju að nýta sér heimild til endurákvörðunar samkvæmt fyrrgreindu ákvæði 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

3. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 29. apríl 2010, eru raktar upplýsingar varðandi starfsemi og stjórnun X ehf., m.a. á grundvelli upplýsinga sem fram komu við skýrslutökur bæði hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins og skiptastjóra í þrotabúi X ehf. Kemur fram að félag þetta hafi verið stofnað 8. ágúst 2001 með nafninu Z ehf. og voru stofnendur D og B. Hinn 10. febrúar 2006 hafi nafni félagsins verið breytt í W ehf. og varð tilgangur félagins þá miðlun fasteigna, skipa og fyrirtækja, rekstur fasteigna, rekstur leigumiðlunar, kaup og sala fasteigna, kaup og sala verðbréfa, innflutningur og útflutningur, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur. Jafnframt hafi B frá þeim tíma verið skráð stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins og gjaldandi, A, verið skráður varamaður í stjórn og prókúruhafi. Nafni félagsins hafi síðan verið breytt í X ehf. hinn 1. nóvember 2007. Frá þeim tíma og til 18. desember 2007 hafi gjaldandi verið stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi, en þá hafi E tekið við sem stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi.

Við skýrslutöku 26. október 2009 staðfesti gjaldandi að hann hefði stjórnað rekstri félagsins, en hann hefði verið verktaki við sölu fasteigna og notað félagið til þess. Af hálfu B kom fram að hún hefði eignast félagið eftir sambúðarslit, en í framhaldi af því lánað gjaldanda félagið til að stunda fasteignasölu. Kvaðst B ekkert hafa komið að félaginu á rannsóknartímabilinu. Þá kemur fram að E hafi greint skiptastjóra frá því að hún vissi ekkert um félagið og hefði verið í stjórn þess að nafninu til. F hafi greint skiptastjóra frá því að hann hefði verið stjórnarmaður félagsins frá október 2008, en áður hefði systir hans, E, verið stjórnarmaður að nafninu til. Raunverulegur stjórnandi hefði hins vegar verið A. C, bókari, upplýsti við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins að hann hefði að beiðni gjaldanda annast um skjalagerð varðandi breytingar á samþykktum X ehf. bæði í byrjun árs 2006 og um haustið 2007. Kvaðst C hafa tekið að sér bókhald og framtalsgerð fyrir félagið og eingöngu haft samskipti við gjaldanda þar að lútandi.

Rakið er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að ekki hafi verið talið fram til skatts vegna X ehf. gjaldárin 2007 og 2008 og því hafi skattstjóri áætlað tekjuskattsstofn félagsins þau gjaldár og var áætlunarfjárhæð 200.000 kr. auk álags 30.000 kr. fyrra árið og 575.000 kr. auk álags 75.000 kr. síðara árið. Við skýrslutöku 26. október 2009 sagði gjaldandi að bókari félagsins, C, hefði átt að sjá um framtalsskilin. Við skýrslutöku af C 14. desember 2009 afhenti hann drög að skattframtali félagsins árið 2007 ásamt drögum að ársreikningi fyrir rekstrarárið 2006. Kom fram af hálfu C að skattframtalinu og ársreikningnum hefði ekki verið skilað þar sem gögn hefði vantað til að ljúka framtalsgerð. Voru umrædd drög að skattframtali 2007 og ársreikningi fyrir rekstrarárið 2006 lögð fyrir gjaldanda við skýrslutöku hinn 27. janúar 2010, en gjaldandi vildi ekki tjá sig um þau og ekkert hafa í höndunum til að svara til um það hvort þau gæfu rétta mynd af rekstrinum. Kvaðst gjaldandi hafa látið C fá gögn til að vinna þessi gögn.

Jafnframt kemur fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að engum virðisaukaskattsskýrslum hafi verið skilað vegna rekstrarársins 2006 og hafi öll uppgjörstímabil verið áætluð. Hafi áætluð velta ársins 2006 verið 25.000.000 kr. og útskattur 6.125.000 kr. Þá hafi virðisaukaskattsskýrslum fyrir uppgjörstímabilin janúar-febrúar, mars-apríl og maí-júní 2007 verið skilað með símbréfi og virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið júlí-ágúst hafi verið skilað rafrænt, en í öllum tilvikum hafi engin skattskyld velta verið tilgreind, en skýrslum vegna uppgjörstímabilanna september-október og nóvember-desember 2007 hafi ekki verið skilað. Í skýrslutöku 26. október 2009 kvaðst gjaldandi ekki vita hvers vegna virðisaukaskattsskýrslum fyrir árið 2006 hafi ekki verið skilað, en bókarinn hefði átt að sjá um það. Kvaðst gjaldandi ekki kannast við þær skýrslur, sem lagðar voru fyrir hann við skýrslutökuna, en bókarinn hefði skilað þeim með veflykli sem gjaldandi hefði látið honum í té. Taldi gjaldandi skýrslurnar ekki gefa rétta mynd af veltu félagsins. Aðspurður um hvers vegna skýrslum vegna uppgjörstímabilanna september-október og nóvember-desember 2007 hefði ekki verið skilað sagði gjaldandi að á þeim tíma hefði engin starfsemi verið í raun. Þegar gjaldanda var gerð grein fyrir því að á þeim tíma hefði Y ehf. verið að leggja inn á bankareikninga X ehf., kvað gjaldandi að sig minnti að lítil starfsemi hefði verið á þeim tíma, en kannski væru greiðslurnar eitthvað uppsafnað vegna fyrri tímabila. Við skýrslutöku 27. janúar 2010 voru virðisaukaskattsskýrslur vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar, mars-apríl og maí-júní 2007 aftur lagðar fyrir gjaldanda, sem kvaðst ekki kannast við skýrslurnar, en staðfesti að þær byggðu á gögnum sem hann hefði afhent bókaranum og að skýrslurnar hefðu verið gerðar og sendar inn að hans beiðni. Gjaldandi gat ekki skýrt hvers vegna virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna september-október og nóvember-desember 2007 hefði ekki verið skilað en ítrekaði að enginn rekstur hefði verið hjá félaginu. Þá hefði gjaldandi staðið í skilnaði á þessum tíma og ekki hirt um að gera neitt sjálfur.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins kemur fram að bókhaldsgögn X ehf. hafi ekki verið afhent, en C, bókari félagsins, hafi afhent hreyfingalista fyrir rekstrarárið 2006 við skýrslutöku 14. desember 2009. Í skýrslutöku 26. október 2009 sagðist gjaldandi ekki vita hvort bókhald hefði verið fært því hann hefði ekki náð í bókarann í einhvern tíma, en gjaldandi hefði látið hann fá gögn til færslu og til að gera uppgjör. Þá sagði gjaldandi að þær tekjur sem hann hefði aflað sem fasteignasali væru einu tekjur félagsins. Kvaðst gjaldandi hafa gefið út sölureikninga sem hefðu fengist greiddir inn á reikning félagsins. Var það niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins að annmarkar hafi verið á færslu bókhalds og að hreyfingarlisti vegna rekstrarársins 2006 hafi verið afhentur, en hvorki bókhaldsgögn né tekjuskráningargögn hafi verið afhent.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er sérstakur kafli um rannsókn á starfssambandi gjaldanda og Y ehf. Er vísað til þess að við skýrslutöku af gjaldanda 26. október 2009 hafi komið fram að gjaldandi hefði verið verktaki við sölu fasteigna hjá fasteignasölunni Æ og hefði hann þurft að nota X ehf. fyrir þá starfsemi. Við skýrslutökuna hafi verið lagðar fyrir gjaldanda spurningar varðandi starfssamband hans við Y ehf. Á grundvelli svara gjaldanda sé það mat skattrannsóknarstjóra ríkisins að starfssamband gjaldanda og Y ehf. hafi verið launþegasamband, svo sem nánar er rakið í rannsóknarskýrslunni.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins tekur fram í skýrslu sinni að þrátt fyrir niðurstöðu um eðli starfssambands gjaldanda og Y ehf. hafi gjaldanda borið að standa skil á innheimtum virðisaukaskatti, sbr. 3. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988. Er í skýrslunni fjallað um rannsókn á fjárhæð rekstrartekna og skattskyldrar veltu X ehf. rekstrarárin 2006 og 2007 sem byggði á yfirliti yfir hreyfingar á bankareikningi X ehf. og bankareikningi gjaldanda, svo og innsendum launamiðum Y ehf. vegna X ehf. Á grundvelli þessara gagna er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins gerð grein fyrir rekstrartekjum og skattskyldri veltu X ehf. að fjárhæð 2.008.492 kr. rekstrarárið 2006 og 6.229.999 kr. rekstrarárið 2007 og að skattskyld velta og rekstrartekjur séu vantaldar um þær fjárhæðir. Samkvæmt þessu hafi útskattur verið vantalinn um 492.082 kr. rekstrarárið 2006 og um 1.526.350 kr. rekstrarárið 2007.

Í kafla um rannsókn á rekstrargjöldum og innskatti kemur fram að gjaldandi hefði greint frá því við skýrslutöku 26. október 2009 að ekki hafi fallið til kostnaður hjá X ehf., en hins vegar hafi fallið til kostnaður hjá Þ ehf. og kvaðst gjaldandi ætla að afhenda gögn um þann kostnað eigi síðar en 3. nóvember 2009. Engin gögn voru afhent. Samkvæmt hreyfingalista fyrir rekstrarárið 2006, sem afhentur var við skýrslutöku af bókara félagsins 14. desember 2009, eru einu rekstrargjöld félagsins vegna ársins 2006 reikningar frá bókaranum að fjárhæð 176.454 kr. Innskattur vegna reikninganna er 33.287 kr. og fellur til á uppgjörstímabilinu nóvember-desember árið 2006. Var það niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins að rekstrargjöld fyrir rekstrarárið 2006 hefðu numið 176.454 kr. og innskattur 33.287 kr.

4. Samkvæmt gögnum málsins var gjaldandi, A, varamaður í stjórn og prókúruhafi X ehf. frá febrúar 2006 til nóvember 2007 þegar hann varð stjórnarformaður og framkvæmdastjóri félagsins. Við skýrslutöku 26. október 2009 staðfesti gjaldandi að hann hefði stjórnað daglegum rekstri félagsins. Framburðir B, fyrrum eiganda og stjórnarmanns X ehf., og C, bókara félagsins, í skýrslutökum hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 25. nóvember 2009 og 14. desember 2009 þykja staðfesta að gjaldandi hafi stjórnað rekstri félagsins á rannsóknartímabilinu. Að þessu athuguðu þykir nægilega komið fram í málinu að gjaldandi hafi verið helsti fyrirsvarsmaður X ehf., áður Þ ehf., á því tímabili sem málið varðar. Sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er því réttilega beint að gjaldanda í samræmi við ákvæði 5. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Ekki hafa komið fram athugasemdir af hálfu gjaldanda í tilefni af kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins um ákvörðun sektar á hendur honum vegna meintra brota á skattalögum í rekstri X ehf. Við skýrslutökur, sem fram fóru hjá skattrannsóknarstjóra vegna rannsóknar málsins, kom fram viðurkenning gjaldanda á því að hann hefði ekki gert grein fyrir tekjum X ehf. í skattframtölum árin 2007 og 2008 og ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti tilgreind uppgjörstímabil virðisaukaskatts árin 2006 og 2007, svo og að virðisaukaskattsskýrslur vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar til og með júlí-ágúst 2007, sem bókari félagsins stóð skil á samkvæmt fyrirmælum gjaldanda, gæfu ekki rétta mynd af veltu félagsins. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Samkvæmt fyrri lið kröfugerðar skattrannsóknarstjóra ríkisins er byggt á því að gjaldandi hafi vanrækt að standa skil á skattframtölum vegna X ehf. árin 2007 og 2008. Er talið að háttsemi gjaldanda hafi leitt til álagningar lægri tekjuskatts og útsvars á félagið gjaldárin 2007 og 2008 en vera bar og gerir skattrannsóknarstjóri í kröfugerð sinni grein fyrir vanframtöldum tekjuskattsstofnum og vanálögðum tekjuskatti miðað við þargreindar forsendur. Er kröfugerðin út af fyrir sig í samræmi við niðurstöður í rannsóknarskýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um vantaldar rekstrartekjur X ehf. rekstrarárin 2006 og 2007, en þar var að öllu leyti um að ræða greiðslur frá Y ehf. vegna sölumannsstarfa gjaldanda, A. Á hitt er að líta að í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er jafnframt komist að þeirri niðurstöðu, eins og rakið er í kafla III-3 að framan, að gjaldandi hafi í raun verið launamaður hjá Y ehf. Í þeirri ályktun verður talið felast að líta beri á umræddar greiðslur frá Y ehf. sem launatekjur gjaldanda. Forsendur skattrannsóknarstjóra ríkisins um vantaldar tekjur í almennum skattskilum X ehf. og vanálagðan tekjuskatt félagsins, sem liggja til grundvallar sektarkröfu, eru ekki í samræmi við þetta.

Í úrskurði þessum verður ekki tekin afstaða til starfssambands gjaldanda og Y ehf., enda er sakarefnið ekki lagt þannig fyrir af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins að það sé nauðsynlegt. Allt að einu þykir ekki verða litið fram hjá framangreindum mótsögnum í niðurstöðum skattrannsóknarstjóra ríkisins um tilheyrslu umræddra greiðslna frá Y ehf. sem m.a. geta haft áhrif á tölulegar niðurstöður. Samkvæmt þessu voru annmarkar á rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins sem þykja vera til þess fallnir að torvelda gjaldanda að gæta réttar síns í málinu. Að svo vöxnu þykir óhjákvæmilegt að vísa þessum lið í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins frá yfirskattanefnd.

Í síðari lið kröfugerðar skattrannsóknarstjóra ríkisins er byggt á því að gjaldandi hafi vanrækt skil á virðisaukaskattsskýrslum X ehf. öll uppgjörstímabil virðisaukaskatts árið 2006 og tvö uppgjörstímabil árið 2007, og staðið skil á röngum virðisaukaskattsskýrslum vegna félagsins fjögur tímabil síðara árið. Með þessari háttsemi hafi gjaldandi vantalið skattskylda veltu um samtals 8.238.491 kr. og útskatt um 2.018.432 kr. Jafnframt kemur fram í kröfugerðinni að vanfærður mögulegur innskattur nemi 33.287 kr. Varðar þessi þáttur kröfugerðarinnar þannig vangoldinn virðisaukaskatt að fjárhæð 458.795 kr. árið 2006 og 1.526.350 kr. árið 2007. Tekið skal fram að í töflu í kröfugerðinni hefur síðasta uppgjörstímabil ársins 2007 misritast „júlí-–ágúst“ í stað „nóvember–desember“. Ekki verður talið að misritun þessi geti hafa valdið gjaldanda réttarspjöllum, enda er rétt tímabil tilgreint í meginmáli kröfugerðarinnar og málsgögnum að öðru leyti.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er tekið fram að hvað sem líði niðurstöðu rannsóknarinnar um starfssamband gjaldanda við Y ehf. hafi X ehf. borið að gera grein fyrir og standa skil á innheimtum virðisaukaskatti í ríkissjóð, sbr. 3. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988. Má skilja niðurstöður rannsóknarinnar um vantalda skattskylda veltu með hliðsjón af þessari athugasemd. Samkvæmt þessu verður ekki talið að hliðstæðir annmarkar bagi rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á virðisaukaskattsþætti málsins og um ræðir að framan varðandi tekjuskattsstofn. Tekið skal fram að þrátt fyrir viðhorf skattrannsóknarstjóra ríkisins til starfssambands gjaldanda og Y ehf., sem fram kemur í skýrslu embættisins, er ekki byggt á því í kröfugerð til yfirskattanefndar að um skyldu til skila á virðisaukaskatti fari eftir greindu ákvæði 3. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988. Er sektarkrafa reist á almennum ákvæðum um skattskyldu samkvæmt lögum nr. 50/1988 og m.a. reiknað með frádrætti innskatts af aðföngum til skattskyldrar starfsemi. Síðastgreint atriði er gjaldanda til hags frá því sem ella væri. Þykir því rétt að fjalla um málið á þeim grundvelli sem lagður er samkvæmt kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Eins og fram er komið eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins um skattskylda veltu X ehf. og innheimtan virðisaukaskatt rekstrarárin 2006 og 2007 byggðar á upplýsingum um innborganir Y ehf. á bankareikning X ehf. og á bankareikning gjaldanda, svo og á innsendum launamiðum Y ehf. vegna verktakagreiðslna til X ehf. Sölureikningar X ehf. (áður Þ ehf.) á hendur Y ehf. liggja ekki fyrir, en telja verður óumdeilt að virðisaukaskattur hafi verið tilgreindur á þeim. Samkvæmt launamiðunum námu greiðslur Y ehf. 2.500.574 kr. á árinu 2006 og 7.093.350 kr. á árinu 2007. Innborganir frá Y ehf. inn á bankareikning X ehf. námu 2.500.574 kr. árið 2006 og 6.111.853 kr. árið 2007. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 26. október 2009 var gjaldandi beðinn um að tjá sig um launamiðana og útskýra hvers vegna launamiði vegna ársins 2007 væri hærri en innborganir á bankareikningi. Gjaldandi svaraði því til að þeir hjá Y ehf. lygju ekki. Sagði gjaldandi að um væri að ræða verktakagreiðslur vegna vinnu sinnar fyrir Y ehf. Kvaðst hann ekki geta svarað því hvort þessi tala væri rétt, en taldi meiri líkur en minni á því að svo væri. Við skýrslutöku 27. janúar 2010 var lögð fyrir gjaldanda samantekt á innborgunum inn á bankareikning hans frá Y ehf. árið 2007 að fjárhæð samtals 1.644.496 kr. og kom fram í svari gjaldanda að um tekjur X ehf. væri að ræða. Samkvæmt þessu og að virtum gögnum málsins að öðru leyti þykir ekkert komið fram sem gefur tilefni til annars en að miða við þær fjárhæðir skattskyldrar veltu og innheimts virðisaukaskatts sem greinir í niðurstöðum skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins telst hafa verið leitt í ljós að ekki voru gerð skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti X ehf. í samræmi við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988 uppgjörstímabilin janúar-febrúar til og með nóvember-desember 2006 og september-október og nóvember-desember 2007 auk þess sem skattskyld velta var vantalin í virðisaukaskattsskýrslum félagsins uppgjörstímabilin janúar-febrúar til og með júlí-ágúst 2007. Gjaldandi bar sem daglegur stjórnandi og fyrirsvarsmaður X ehf. ábyrgð á því að rétt skil væru gerð á virðisaukaskattsskýrslum félagsins og virðisaukaskatti. Viðbára gjaldanda um að bókari félagsins hafi átt að sjá um skilin breytir þar engu um og getur ekki talist tæk varnarástæða í þessu sambandi. Með stoð í gögnum málsins, m.a. framburði gjaldanda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, þykir því fullsannað að gjaldandi hafi með saknæmum hætti vanrækt greinda skyldu sína. Af þessum sökum ber að ákvarða gjaldanda sekt samkvæmt 6. mgr., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, í samræmi við kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins samkvæmt 2. lið í kröfugerð embættisins.

Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektar ber að taka tillit til þess að nokkur dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldanda verði um kennt. Að þessu gættu, málsatvikum að öðru leyti og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 3.700.000 kr. til ríkissjóðs.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 3.700.000 kr. til ríkissjóðs.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum