2015

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 154/2015

20.5.2015

Úrskurður nr. 154/2015

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2015, miðvikudaginn 20. maí, er tekið fyrir mál nr. 259.1/2014; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

úrskurður:

I.

Með bréfi, dags. 16. september 2014, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, beggja með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2011, 2012 og 2013.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

B, sem skráðum stjórnarmanni og prókúruhafa skattaðila, X ehf., (nú þrotabú) frá 7. október 2010 til og með 12. febrúar 2013, og A, sem skráðum stjórnarmanni, framkvæmdastjóra og prókúruhafa skattaðila frá 12. febrúar 2013, er gefið að sök eftirfarandi:

1. Vangoldin afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna. Vanræksla á afhendingu skilagreina á lögmæltum tíma.

B er gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna X ehf. (nú þrotabú) vegna greiðslutímabilanna febrúar til og með desember 2012. Hið sama er A gefið að sök vegna greiðslutímabilanna janúar til og með maí 2013. Þá er B gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á skilagreinum, vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, vegna greiðslutímabilanna mars, maí, júní og júlí 2012 á lögmæltum tíma. Hið sama er A gefið að sök vegna greiðslutímabilsins janúar 2013. Sundurliðast fjárhæðir vegna vangoldinnar afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda eins og hér greinir:

Rekstrarár Greiðslutímabil Vangoldin staðgreiðsla samkvæmt skilagreinum, kr. Afdregin staðgreiðsla af launum B, kr.
2012 febrúar 1.005.320 156.145
2012 mars 795.935 156.145
2012 apríl 492.168 156.145
2012 maí 376.584 164.257
2012 júní 393.359 184.292
2012 júlí 476.234 184.292
2012 ágúst 545.162 184.292
2012 september 394.288 156.145
2012 október 396.833 197.896
2012 nóvember 550.922 220.031
2012 desember 481.359 197.896
Samtals kr.   5.908.164 1.957.536
2013 janúar 437.219 137.850
2013 febrúar 437.219 137.850
2013 mars 469.115 188.045
2013 apríl 652.795 238.796
2013 maí 143.382    -
Samtals   2.139.730 702.541
Samtals bæði árin kr. 8.047.894 2.660.077

Í töflunni hér að neðan eru sundurgreindar eftir greiðslutímabilum þær fjárhæðir vangoldinnar staðgreiðslu sem fyrirsvarsmenn skattaðila eru taldir bera ábyrgð á, að teknu tilliti til staðgreiðslu af launum B.

Rekstrarár Greiðslutímabil Vangoldin staðgreiðsla samkvæmt skilagreinum, kr. Ábyrgð B, kr. Ábyrgð A, kr.
2012 febrúar 1.005.320 849.175  
2012 mars 795.935 639.790  
2012 apríl 492.168 336.023  
2012 maí 376.584 212.327  
2012 júní 393.359 209.067  
2012 júlí 476.234 291.942  
2012 ágúst 545.162 360.870  
2012 september 394.288 238.143  
2012 október 396.833 198.937  
2012 nóvember 550.922 330.891  
2012 desember 481.359 283.463  
Samtals kr.   5.908.164 3.950.628  
2013 janúar 437.219   437.219
2013 febrúar 437.219   437.219
2013 mars 469.115   469.115
2013 apríl 652.795   652.795
2013 maí 143.382   143.382
Samtals   2.139.730   2.139.730
Samtals bæði árin kr. 8.047.894 3.950.628 2.139.730

Það er mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að ofangreindu hafi B og A komið til leiðar með saknæmum hætti, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi B og A brjóta í bága við ákvæði 1. og 2. mgr. 20. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, sbr. aðalreglur 1.-3. gr., 1. tl. 5. gr., 1. mgr. 7. gr. og 1. og 3. mgr. 8. gr. þeirra laga.

Framangreind háttsemi varðar B og A sekt samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum.

2. Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur.

B er gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti, sem innheimtur var í rekstri X ehf. (nú þrotabú), vegna uppgjörstímabilanna nóvember–desember 2011 og mars–apríl og maí–júní 2012. Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna framangreindra uppgjörstímabila nemur samtals kr. 1.236.803. Fjárhæðin sundurliðast svo sem hér greinir: 

Rekstrarár Uppgjörstímabil Vangoldinn virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs, kr.
2011 nóv. – des. 1.094.793
Samtals kr.   1.094.793
2012 mars – apríl 97.454
2012 maí – júní 44.556
Samtals kr.   142.010
Samtals bæði árin kr. 1.236.803

Það er mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að framangreindu hafi B komið til leiðar með saknæmum hætti, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi B brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Framangreind háttsemi varðar B sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að B og A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 16. september 2014, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 25. september 2014, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um það hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Var bréf til gjaldanda, A, endursent yfirskattanefnd með því að gjaldandi þekktist ekki á skráðu heimilisfangi. Var reynt að koma fram birtingu fyrir gjaldanda eftir ákvæðum b-liðar 1. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, með bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. október 2014, en birting tókst ekki.

III.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 16. september 2014, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með því að hann hafi sem fyrrum fyrirsvarsmaður X ehf., nú þrotabú, vanrækt að standa skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna félagsins greiðslutímabilin janúar til og með maí 2013.

Með sama bréfi hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist ákvörðunar sektar á hendur B vegna vanrækslu á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna X ehf. greiðslutímabilin febrúar til og með desember 2012 og vanrækslu á skilum á virðisaukaskatti uppgjörstímabilin nóvember-desember 2011 og mars-apríl og maí-júní 2012. Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er í þessu sambandi gengið út frá því að gjaldandi, A, beri ábyrgð á skattskilum X ehf. sem skráður fyrirsvarsmaður félagsins frá og með 12. febrúar 2013. Hins vegar beri B ábyrgð á skattskilum X ehf. sem skráður fyrirsvarsmaður félagsins fyrir það tímamark. Þar sem mál B varðar að öllu leyti önnur greiðslutímabil en mál gjaldanda, A, verður sá þáttur sektarkröfunnar er varðar B tekinn til úrlausnar sérstaklega í öðrum úrskurði yfirskattanefndar.

Sú regla kemur fram í 4. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. samsvarandi ákvæði 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að skattrannsóknarstjóri ríkisins getur vísað máli til opinberrar rannsóknar af sjálfsdáðum, svo og eftir ósk sökunauts ef hann vill eigi hlíta því að mál verði afgreitt af yfirskattanefnd samkvæmt framangreindum ákvæðum. Ákvæði þessi ber að skilja svo að skattrannsóknarstjóri ríkisins geti ekki vísað máli til sektarmeðferðar fyrir yfirskattanefnd nema málið hafi áður verið borið undir gjaldanda og hann hafi gefið skattrannsóknarstjóra til kynna á sannanlegan hátt að hann mæli því ekki í gegn að málið hljóti sektarmeðferð fyrir yfirskattanefnd. Þar sem afstaða gjaldanda, A, til meðferðar málsins fyrir yfirskattanefnd liggur ekki fyrir eru ekki skilyrði til þess að fjalla um málið hvað hann varðar fyrir yfirskattanefnd og er sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur gjaldanda, A, því vísað frá.

Þessi niðurstaða breytir engu um heimild skattrannsóknarstjóra ríkisins til þess að ákveða af sjálfsdáðum hvort efni séu til að vísa máli gjaldanda til opinberrar rannsóknar og almennrar sakamálameðferðar fyrir dómstólum.

Úrskurðarorð:

Sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur gjaldanda, A, er vísað frá yfirskattanefnd. 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum