2015

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 240/2015

2.9.2015

Úrskurður nr. 240/2015

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2015, miðvikudaginn 2. september, er tekið fyrir mál nr. 334/2014; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 15. desember 2014, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, allra með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2009, 2010 og 2011.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

A er gefið að sök eftirfarandi:

1. Skil á efnislega röngum skattframtölum. Vanframtaldar rekstrartekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2010, 2011 og 2012, vegna rekstraráranna 2009, 2010 og 2011, með því að vanrækja að gera grein fyrir rekstrartekjum sínum sem til eru komnar vegna sjálfstæðrar starfsemi A sem fólgin var í framleiðslu plastkeralda og plastviðgerðum.

Framangreind háttsemi leiddi til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofna hans umrædd gjaldár og þar með til ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars en vera bar. Fjárhæðir sem um ræðir koma fram í eftirfarandi töflu:

Reiknaður tekjuskattur og útsvar

 

Rekstrarár

Vanframtalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn

 

Tekjuskattur af vanfrt. stofni

 

Útsvar af

vanfrt. stofni

2009 2.126.323                 Vanframtaldar rekstrartekjur kr. 3.988.427 – möguleg rekstrargjöld 1.862.104 kr.= 2.126.323 kr. 404.245                 (2.126.323 kr. * 24,10%) – 108.199 kr. = 404.245 kr., þ.e. hækkun tekjuskatts vanframtalinna tekna að frádregnum persónufrádrætti sem ekki gengur á móti tekjuskatti af áður fram töldum tekjum. 282.376                 2.126.323 kr. * 13,28% = 281.952 kr., þ.e. hækkun útsvars vegna vanframtalinna tekna.
2010 3.062.500                 Vanframtaldar rekstrartekjur 5.067.638 kr. – möguleg rekstrargjöld 2.005.138 kr. = 3.062.500 kr. 726.343                 (2.400.000 kr. – 1.850.126 kr.) * 24,10% + (3.062.500 kr. – 549.874 kr.) *27%, 33%) – 84.586 = 726.343 kr., þ.e. 24,10% tekjuskattur af þeim hluta vantalinna tekna sem rými er fyrir í lægsta skattþrepi + 27,00% tekjuskattur af afgangi viðbótarinnar, en til frádráttar sá hluti persónufrádráttar sem ekki hefur gengið móti tekjuskatti af framtöldum tekjum. 406.700                 3.062.500 kr. * 13,28% = 406.700 kr., þ.e. hækkun útsvars vegna vanframtalinna tekna.
2011 1.402.077                 Vanframtaldar tekjur nema samkvæmt niðurstöðu skýrslu skattrannsóknarstjóra 5.537.994 kr. en möguleg rekstrargjöld kr. 2.036.149 kr., þ.e. nettótekjur nema 3.501.845 kr. Frá þeim er dreginn tekjuskatts- og útsvarsstofn samkvæmt áætlun er A sætti við álagningu gjaldárið 2012, þ.e. stofn að fjárhæð 1.900.000 kr. að viðbættum álagi, 199.768 kr. , alls 2.099.768 kr. Því nemur hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns frá álagningu vegna niðurstaðna í skýrslu skattrannsóknarstjóra 1.402.077 kr. 254.392                Af síðastgreindri viðbót, 1.402.077 kr., skattleggjast 413.032 kr. í 1. þrepi (þ.e. heildarfjárhæð í 1. þrepi að frádregnum stofni samkvæmt áætlun, 2.512.800 kr. – 2.099.768 kr. = 413.032 kr. ) en afgangurinn í 2. þrepi (1.402.077 kr. – 413.032 kr. = 989.045 kr.) Til frádráttar kemur sá hluti persónuafsláttar sem ekki hefur gengið upp í tekjuskatt af stofni samkvæmt áætlun, 96.366 kr. Tekjuskattur vegna hækkunar stofns frá álagningu á grundvelli niðurstaðna skýrslu skattrannsóknarstjóra nemur því: 413.032 * 22,90% + 989.045kr. * 25,80% - 96.399 = 254.392 kr. 203.021                 1.402.077 * 14,48% = 203.021 kr., þ.e. hækkun útsvars vegna vanframtalinna tekna.
Samtals öll árin kr. 6.590.900 1.384.980 892.097

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. B. lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. gr. og 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, hvorra tveggja með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

2. Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að standa skattyfirvöldum skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi sinnar, sem fólst í framleiðslu plastkeralda og plastviðgerðum, vegna uppgjörstímabila rekstrarárin 2009 til og með 2011. Nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 14.594.059 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 3.656.202. Mögulegur innskattur nemur samtals kr. 1.502.292. Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur svo sem hér greinir: 

 

Rekstrarár

 

Uppgjörstímabil

Vanframtalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur Mögulegur innskattur
2009 jan. – feb. 255.020 62.480 62.920
2009 mars – apríl 481.928 118.072 98.062
2009 maí – júní 1.444.746 353.963 179.034
2009 júlí – ágúst 630.986 154.591 44.823
2009 sept. – okt. 772.535 189.271 71.387
2009 nóv. – des. 403.213 98.787 17.365
Samtals kr.   3.988.427 977.164 473.592
2010 jan. – feb. 299.920 76.480 97.554
2010 mars – apríl 1.143.710 291.646 120.056
2010 maí – júní 1.537.952 366.779 108.026
2010 júlí – ágúst 1.059.861 270.264 74.613
2010 sept. – okt. 468.088 119.362 41.116
2010 nóv. – des. 558.108 142.317 69.944
Samtals kr.   5.067.638 1.266.849 511.310
2011 jan. – feb. 448.920 114.475 74.534
2011 mars – apríl 630.961 160.895 71.686
2011 maí – júní 1.561.952 398.298 135.550
2011 júlí – ágúst 1.360.704 346.979 101.365
2011 sept. – okt. 829.681 211.569 121.436
2011 nóv. – des. 705.777 179.973 12.819
Samtals kr.   5.537.994 1.412.189 517.390
Samtals öll árin kr.   14.594.059 3.656.202 1.502.292

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði, 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr. sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Við endurákvörðun skattstofna vegna rekstraráranna 2009, 2010 og 2011 hefur A verið gert að sæta álagningu skatts á álag á vanframtalinn skattstofn skv. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, kr. 591.812 Tekjuskattur og útsvar af 25% álagi á vantalinn stofn rekstarárin 2009 og 2010 og af 15% álagi á þann hluta vantalins stofns rekstrarárið 2011 sem grundvallast á niðurstöðum rannsóknar skattrannsóknarstjóra. og álagi vegna vangreidds virðisaukaskatts skv. 27. gr. laga nr. 50/1998, um virðisaukaskatt kr. 213.452 er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 15. desember 2014, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 4. febrúar 2015, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Var bréf þetta birt gjaldanda eftir ákvæðum b-liðar 1. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, í framhaldi af því að hann vitjaði ekki ábyrgðarbréfs nefndarinnar, dags. 17. desember 2014, um sama efni. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 15. desember 2014, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda vegna rekstraráranna 2009, 2010 og 2011, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 20. desember 2013. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hófst formlega hinn 16. ágúst 2013 og beindist að skattskilum gjaldanda vegna sjálfstæðrar starfsemi hans við trefjaplastframleiðslu og plastviðgerðir á rannsóknartímabilinu. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins dagana 1. nóvember 2013 og 25. nóvember 2013. Þá var skýrsla tekin af B, föður gjaldanda, hinn 31. október 2013 vegna málsins. Var rannsóknin einkum byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutökur þessar, bókhaldsgögnum, upplýsingum frá fjármálastofnunum og upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda. Með bréfi, dags. 5. desember 2013, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, sem þá lá fyrir, dags. sama dag, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Athugasemdir voru ekki gerðar af hálfu gjaldanda. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 20. desember 2013, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 20. desember 2013, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og skattskilum skattaðila fyrir rekstrarárin 2009 til og með 2011 eru: 

·1  Skattaðila bar að standa skil á skattframtölum.

·2  Skattaðila bar að skrá sig á virðisaukaskattsskrá.

·3  Skattaðila bar að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum.

·4  Bókhald hefur ekki verið fært.

·5  Skattskyld velta og útskattur eru vanframtalin.

·6  Rekstrartekjur eru vantaldar.

·7  Möguleg rekstrargjöld eru kr. 5.903.391.

·8  Mögulegur innskattur er kr. 1.502.292.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta gjaldanda væri vantalin um 3.988.427 kr. rekstrarárið 2009, 5.067.638 kr. rekstrarárið 2010 og 5.537.994 kr. rekstrarárið 2011. Þá næmi mögulegur innskattur samtals 1.502.292 kr. greind ár.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 20. desember 2013. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af bréfi til gjaldanda, dags. 11. febrúar 2014, sem gjaldandi svaraði ekki, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldanda gjaldárin 2010, 2011 og 2012 og virðisaukaskatt árin 2009, 2010 og 2011 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 13. mars 2014. Breytingar ríkisskattstjóra vörðuðu í fyrsta lagi endurákvörðun virðisaukaskatts gjaldanda öll uppgjörstímabil rekstraráranna 2009, 2010 og 2011. Var skattskyld velta gjaldanda ákvörðuð 3.988.428 kr. rekstrarárið 2009 (útskattur 977.165 kr.), 5.067.639 kr. rekstrarárið 2010 (útskattur 1.292.247 kr.) og 5.537.995 kr. rekstrarárið 2011 (útskattur 1.412.189 kr.). Á vangreiddan virðisaukaskatt bætti ríkisskattstjóri álagi samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, að fjárhæð 45.879 kr. fyrsta árið, 78.094 kr. annað árið og 89.479 kr. þriðja árið. Í öðru lagi endurákvarðaði ríkisskattstjóri tekjuskatt og útsvar gjaldanda gjaldárin 2010, 2011 og 2012. Hækkaði tekjuskatts- og útsvarsstofn gjaldanda um 2.126.323 kr. gjaldárið 2010, eða úr 1.652.562 kr. í 3.778.885 kr., um 3.062.500 kr. gjaldárið 2011, eða úr 1.850.126 kr. í 4.912.626 kr., og um 1.981.975 kr. gjaldárið 2012, eða úr 1.900.000 kr. í 3.881.975 kr. vegna vanframtalinna tekna gjaldanda. Á vantalda skattstofna gjaldanda bætti ríkisskattstjóri 25% álagi samkvæmt heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 og nam álag 531.851 kr. fyrsta árið, 765.625 kr. annað árið og 297.296 kr. þriðja árið. Gjaldandi nýtti sér ekki heimilaðar málskotsleiðir vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 20. desember 2013, að gjaldandi hafi staðið skil á skattframtölum árin 2010, 2011 og 2012 vegna tekjuáranna 2009, 2010 og 2011, en að bókhald hafi ekki verið fært. Þá kemur fram að gjaldandi hafi ekki verið með opið virðisaukaskattsnúmer á þeim árum sem voru til rannsóknar og því ekki skilað inn virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabila árin 2009, 2010 og 2011. Fyrirliggjandi séu samtals 57 sölureikningar vegna starfsemi gjaldanda. Sölureikningarnir séu fyrirframnúmeraðir, merktir nafninu „PLAST X“; heimilisfangi, símanúmerum og kennitölu B (föður gjaldanda) og virðisaukaskattsnúmeri sem hafi verið lokað. Númeraröð sölureikninga sé samfelld og á bilinu 244-300, en sölureikningar nr. 274, 289, 298 og 300 séu ónotaðir.

Við skýrslutöku af gjaldanda hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 1. nóvember 2013 voru lagðir fyrir gjaldanda sölureikningar útgefnir á árunum 2009 til og með 2011, ásamt samantekt skattrannsóknarstjóra ríkisins á þeim. Kannaðist gjaldandi við sölureikningana og taldi hann þá hafa verið greidda. Kvaðst gjaldandi hafa gert handskrifuðu reikningana, en sagði föður sinn hafa gert þá vélrituðu. Þá var lögð fyrir gjaldanda samantekt á innborgunum inn á bankareikning hans nr. [...] ásamt viðskiptakvittunum vegna innborgana á seðlum, en enga sölureikninga var að finna vegna þessara innborgana. Kvaðst gjaldandi ekki geta útskýrt hvers vegna ekki hafi alltaf verið gefnir út sölureikningar vegna starfseminnar. Við skýrslutökuna staðfesti gjaldandi að fjölmargar af þeim innborgunum, sem bornar voru undir hann, væru vegna rekstrarins. Við skýrslutöku hinn 25. nóvember 2013 var gjaldandi spurður að því hvernig rekstrinum hefði verið háttað og sagði gjaldandi að hann og faðir hans hefðu verið saman í rekstrinum og að þeir hefðu jöfnum höndum aflað verkefna. Sagði gjaldandi að hann hefði fengið ávinninginn af rekstrinum til jafns á við föður sinn. Við skýrslutökuna voru upplýsingar um þá aðila sem greiddu með greiðslukortum lagðar fyrir gjaldanda. Sagði gjaldandi greiðslu frá C tengjast föður sínum persónulega, en hún væri sambýliskona hans. Var gjaldanda gefinn frestur til að skýra nánar aðrar greiðslukortagreiðslur, en frekari skýringar voru ekki gefnar af hálfu gjaldanda. Gjaldandi afhenti skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 2. desember 2013 skýringar við nokkrar innborganir og tók skattrannsóknarstjóri tillit til þessara skýringa gjaldanda í niðurstöðum rannsóknarskýrslu sinnar.

Við skýrslutöku af B, föður gjaldanda, hinn 31. október 2013, sagði B að hann hefði verið með sjálfstæðan rekstur á rannsóknartímabilinu ásamt gjaldanda, sem væri sonur sinn. Sagði B að mismun tekna og kostnaðar hefði verið skipt jafnt á milli þeirra. Við skýrslutökuna var lögð fyrir B samantekt á innborgunum á bankareikningi hans nr. [...], en enga sölureikninga var að finna vegna þessara innborgana. Sagðist B ekki geta skýrt hvers vegna sölureikningar hefðu ekki alltaf verið gefnir út, en sagði að trassaskap væri um að kenna. Sagði B flestar innborganirnar vera vegna starfseminnar, en við rannsóknina kom í ljós að nokkrar innborganir reyndust tengjast B persónulega og var tekið tillit til þess í niðurstöðum skýrslunnar.

Í niðurlagi umfjöllunar skattrannsóknarstjóra ríkisins um rekstrartekjur og skattskylda veltu gjaldanda kemur fram það mat embættisins að gjaldandi og B, faðir hans, hafi verið saman með sjálfstæða starfsemi og borið jafna ábyrgð á henni. Væru skattskyld velta og útskattur gjaldanda því helmingur af heildarveltu og útskatti starfseminnar rekstrarárin 2009 til og með 2011 og væri skattskyld velta gjaldanda því vantalin um 14.594.059 kr. og útskattur um 3.656.202 kr.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er sérstaklega fjallað um rannsókn á rekstrargjöldum og innskatti. Voru gjaldagögn að fjárhæð 8.842.746 kr. (innskattur 2.250.474 kr.) vegna starfseminnar umrædd rekstrarár lögð fyrir gjaldanda við skýrslutöku og sagði gjaldandi gjöldin og innskattinn vera vegna starfseminnar, en fram kom að gjaldandi hefði afhent möppu með frekari gögnum um rekstrarkostnað sama dag. Með hliðsjón af þessum viðbótargögnum taldi skattrannsóknarstjóri að  rekstrargjöld vegna starfseminnar næmu 11.811.074 kr. og innskattur 3.003.854 kr. Var það mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, með vísan til fyrrgreindrar niðurstöðu um skiptingu ábyrgðar vegna starfseminnar, að helmingur rekstrarkostnaðar og innskatts þessa væri vegna gjaldanda. Næmu möguleg rekstrargjöld gjaldanda því 5.903.391 kr. og mögulegur innskattur 1.502.292 kr.

4. Telja verður að leitt hafi verið í ljós með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi hafi haft með höndum sjálfstæða starfsemi við trefjaplastframleiðslu og plastviðgerðir á árunum 2009, 2010 og 2011, en ekki gert grein fyrir tekjum sínum af þeirri starfsemi í skattframtölum árin 2010, 2011 og 2012, svo og að hann hafi ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti vegna seldrar þjónustu á árunum 2009, 2010 og 2011. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Eins og fram er komið byggja tölulegar niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins á rekstrartekjum og skattskyldri veltu gjaldanda og föður hans rekstrarárin 2009, 2010 og 2011 á útgefnum sölureikningum þeirra, upplýsingum um innborganir inn á bankareikning gjaldanda nr. [...], upplýsingum um innborganir inn á bankareikning föður gjaldanda nr. [...] og upplýsingum um greiðslukortagreiðslur, sbr. fskj. 14.1-14.7 með skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Á þessum grundvelli er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins gerð grein fyrir vantöldum rekstrartekjum og vantalinni skattskyldri veltu að fjárhæð 3.988.427 kr. rekstrarárið 2009, 5.067.638 kr. rekstrarárið 2010 og 5.537.994 kr. rekstrarárið 2011. Eru fjárhæðir þessar helmingur af rekstrartekjum og skattskyldri veltu af starfsemi gjaldanda og föður hans, en sem fyrr segir var það niðurstaða skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi og faðir hans hefðu staðið sameiginlega að þeim atvinnurekstri sem um ræðir og skipt ávinningnum jafnt á milli sín, og bæru því hvor um sig ábyrgð á helmingi vangoldins virðisaukaskatts og vanframtalinna tekna af rekstrinum. Við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins dagana 1. nóvember 2013 og 25. nóvember 2013 staðfesti gjaldandi að fyrirliggjandi sölureikningar væru vegna starfseminnar og taldi gjaldandi að þeir hefðu fengist greiddir. Þá kom fram viðurkenning af hálfu gjaldanda við skýrslutökuna að fjölmargar innborganir væru vegna rekstrarins, en tekið var tillit til skýringa gjaldanda vegna nokkurra innborgana og einnar greiðslukortafærslu í niðurstöðum skattrannsóknarstjóra ríkisins. Aðrar innborganir og greiðslukortagreiðslur hafa ekki verið skýrðar af hálfu gjaldanda. Gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Samkvæmt þessu og að virtum gögnum málsins að öðru leyti þykir ekkert komið fram sem gefur tilefni til annars en að miða við fjárhæðir rekstrartekna og skattskyldrar veltu samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Þá hefur ekkert komið fram sem gefur tilefni til þess að ætla að rekstrarkostnaður og innskattur hafi numið hærri fjárhæðum en greinir í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins þykir bera að fallast á ályktun skattrannsóknarstjóra ríkisins um að gjaldandi hafi með saknæmum hætti staðið skil á efnislega röngum skattframtölum árin 2010, 2011 og 2012 með því að vanrækja að telja fram tekjur af atvinnurekstri sínum eða sjálfstæðri starfsemi með fyrrgreindum fjárhæðum sem skattskyldar voru samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 19. gr. og 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Telst vanálagður tekjuskattur nema 404.245 kr. gjaldárið 2010, 726.343 kr. gjaldárið 2011 og 254.392 kr. gjaldárið 2012. Vanálagt útsvar nam 282.376 kr. fyrsta árið, 406.700 kr. annað árið og 203.021 kr. þriðja árið. Hinar röngu upplýsingar í skattframtölum gjaldanda gjaldárin 2010, 2011 og 2012 leiddu til lægri álagningar opinberra gjalda hans en vera bar umrædd gjaldár, svo sem greinir í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins, þannig að brot gjaldanda varða við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Þá þykir fullsannað með stoð í gögnum málsins að gjaldandi, sem skyldur var til þess að standa skil á virðisaukaskatti, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hafi vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum öll uppgjörstímabil áranna 2009, 2010 og 2011 og þannig vanrækt að gera grein fyrir virðisaukaskatti til greiðslu samtals að fjárhæð 2.153.910 kr. umrædd uppgjörstímabil, sbr. sundurliðun í kröfubréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins. Varðar þetta gjaldanda sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektar ber að taka tillit til skatts af álagi samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003 svo og álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 6.700.000 kr. til ríkissjóðs og 1.700.000 kr. til bæjarsjóðs Akraneskaupstaðar.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 6.700.000 kr. til ríkissjóðs og 1.700.000 kr. til bæjarsjóðs Akraneskaupstaðar.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum