2015

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 76/2015

18.3.2015

Úrskurður nr. 76/2015

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2015, miðvikudaginn 18. mars, er tekið fyrir mál nr. 295/2013; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 24. október 2013, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuáranna 2005, 2006, 2007, 2008 og 2009.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Skil á efnislega röngum skattframtölum. Vanframtaldar tekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir gjaldárin 2006 til og með 2010 vegna tekjuáranna  2005 til og með 2009 með því að vanframtelja tekjur fengnar frá erlendu félagi í hennar eigu um kr. 11.897.876 gjaldárið 2006, um kr. 8.580.011 gjaldárið 2007, um kr. 7.950.572 gjaldárið 2008, um kr. 1.903.082 gjaldárið 2009 og um kr. 4.258.506 gjaldárið 2010.

Leiddi háttsemi A til ákvörðunar lægri stofns til fjármagnstekjuskatts hennar en vera bar vegna framangreindra tekjuára og þar með ákvörðunar lægri fjármagnstekjuskatts svo sem hér greinir: 

Tekjuár

Vanframtalinn stofn til fjármagns

tekjuskatts, kr.

Hækkun fjármagns-tekjuskatts

vegna viðbótar vanframtalins stofns, kr.          

Hækkun fjármagnstekjuskatts í töflunni er reiknuð á grundvelli úrskurðarorða í úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 21. ágúst 2013, um endurákvörðun opinberra gjalda A vegna tekjuáranna 2005 til og með 2009.

Álag á vantalinn stofn

til fjármagns-tekjuskatts, kr.

Fjármagnstekju-skattur

af álagi á vantalinn

stofn, kr.

2005 11.897.876 1.189.787 2.974.469 297.447
2006 8.580.011 858.001 2.145.003 214.500
2007 7.950.572 795.057 1.987.643 198.764
2008 1.903.082 190.308 475.771 47.577
2009 4.258.506 638.776 1.064.512 159.677
Samtals kr. 34.590.047 3.671.929 8.647.398 917.965

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. c-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum.

Við endurákvörðun stofns til A til fjármagnstekjuskatts vegna tekjuáranna 2005 til og með 2009, sem framkvæmd var með úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 21. ágúst 2013, um endurákvörðun opinberra gjalda hennar vegna greindra tekjuára á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins, hefur A verð gert að sæta álagningu fjármagnstekjuskatts á álag á vanframtalda skattstofna samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, eins og tilgreint er í töflunni hér að ofan, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Varðar framanrakin háttsemi A sekt samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt,  með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 24. október 2013, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 28. október 2013, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hún vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hennar og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Með bréfi, dags. 31. janúar 2014, hefur umboðsmaður gjaldanda lagt fram vörn í máli þessu. Þar er þess krafist að gjaldanda verði ekki gerð sekt í málinu og að málskostnaður gjaldanda verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Í bréfi umboðsmanns gjaldanda eru málavextir raktir. Byggir umboðsmaður gjaldanda í fyrsta lagi á því að hugsanleg brot gjaldanda vegna tekjuáranna 2005 og 2006 séu fyrnd, sbr. 8. mgr. 110. gr., sbr. 109. gr., laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, enda hafi óeðlilegar tafir verið á rekstri málsins. Hafi málið dregist í 19 mánuði frá því að gjaldandi kom á framfæri sjónarmiðum sínum í tilefni af fyrirhugaðri ákvörðun um refsimeðferð og þar til skattrannsóknarstjóri tilkynnti gjaldanda að málið hefði verið sent yfirskattanefnd til sektarmeðferðar. Vísar umboðsmaður til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 111/2003 þar sem fram komi að við mat á því hvað teljist eðlilegt eða óeðlilegt í skilningi fyrrnefnds lagaákvæðis skuli líta til þess hvort meint brot hafi verið umfangsmikil eða hvort rannsókn hafi seinkað vegna þess að gögn hafi vantað. Í tilviki gjaldanda hafi öll gögn legið fyrir áður en gjaldandi gaf skýrslu um málið og málið hafi verið einfalt, enda hefði skattrannsóknarstjóri ríkisins aðeins þurft 39 mínútur til að taka skýrslu af gjaldanda. Í öðru lagi byggir umboðsmaður á því að ómálefnaleg sjónarmið hafi legið að baki ákvörðun skattrannsóknarstjóra ríkisins um að senda mál gjaldanda til sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd. Sé gjaldandi látinn gjalda fyrir það hve ósátt embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi verið við ákvörðun ríkisskattstjóra um að fallast á að um fjármagnstekjur hafi verið að ræða en ekki launatekjur í endurákvörðunarþætti málsins. Í þriðja lagi byggir umboðsmaður gjaldanda á því að málsmeðferð hafi verið þeim annmörkum háð að sektarkrafa byggi á gögnum sem gjaldandi hafi ekki átt kost á að tjá sig um við rannsókn málsins og að eiginleg rannsókn embættisins hafi ekki verið lokið með skýrslunni heldur eftir framhaldsrannsókn að fengnu bréfi gjaldanda í mars 2012. Hafi skattrannsóknarstjóra ríkisins borið að leggja fram öll gögn og allar útskýringar í skýrslu sinni og hafi embættið engar heimildir til að leggja fram ný sönnunargögn á þessu stigi málsins. Í fjórða lagi er byggt á því að ósannað sé með öllu að „óútskýrð lækkun eigin fjár“ árin 2006 og 2007 hafi fallið til gjaldanda, en skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi byggt á því að engum öðrum hafi verið til að dreifa í þessu sambandi. Ekkert bendi til þess að gjaldandi hafi fengið þessa fjármuni greidda. Fyrir liggi að útgreiðslur til gjaldanda hafi verið færðar sem krafa í bókhaldi X en ekki sem „óskýrð lækkun“ og ætti þannig að vera óumdeilt að lækka beri niðurstöðutölu skattrannsóknarstjóra ríkisins um sem nemi þeirri fjárhæð við mat á skattandlagi, hvað þá við refsiákvörðun. Í fimmta lagi byggir umboðsmaður gjaldanda á því að umræddar tekjur hafi fallið til árið 2004 eða fyrr, hafi þær yfir höfuð verið vanframtaldar. Miðað við þær forsendur sem skattyfirvöld hafi lagt upp með hefði verið eðlilegt að gerð yrði grein fyrir því hvernig fjármunafærslum X hefði verið háttað frá upphafi til enda. Hefði það gefið betri mynd af þróun efnahagsreiknings félagsins í stað þess að geta í eyður síðari tíma. Virðist skattyfirvöld vera ráðþrota um hvenær meintar tekjur hafi fallið til og geri því ráð fyrir að þær hafi fallið til eftir það tímamark sem þeim sé heimilt að byggja kröfur sínar á, sbr. 97. gr. laga nr. 90/2003. Í sjötta lagi er byggt á því að stofnverð X hafi numið 44.591.903 kr. en ekki 34.774.454 kr., sbr. meðfylgjandi gögn. Hafi niðurfært stofnverð samkvæmt þessu því verið vantalið um 9.817.449 kr. og sé því 30.435.398 kr. en ekki 20.617.949 kr. eins og miðað sé við í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins. Í sjöunda lagi sé því svo alfarið hafnað að gjaldandi hafi talið ranglega fram til skatts. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins dragi ekkert fram um huglæga afstöðu gjaldanda og uppfyllir rannsóknin því ekki skilyrði til þess að gjaldanda sé refsað vegna hugsanlegra meintra vankanta á framtalsgerð, sbr. til hliðsjónar ákvæði 17. gr. reglugerðar nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna. Meðfylgjandi bréfi umboðsmanns gjaldanda voru tímaskýrslur umboðsmanns og afrit af reikningi frá lögmannsstofu tilnefnds verjanda gjaldanda og tilgreinir umboðsmaður að kostnaðar gjaldanda vegna málsins sé samtals 1.252.804 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti vegna vinnu umboðsmanns og tilnefnds verjanda gjaldanda við málið.  

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 24. október 2013, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Umboðsmaður gjaldanda hefur lagt fram vörn í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á skattskilum gjaldanda vegna tekjuáranna 2005 til og með 2009, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 22. febrúar 2012. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 22. ágúst 2011. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 12. október 2011. Var rannsókn í máli gjaldanda byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutöku þessa, svo og var byggt á skattframtölum gjaldanda og ársreikningum X fyrir árin 2002 til og með 2009. Með bréfi, dags. 14. desember 2011, sendi skattrannsóknarstjóri ríkisins gjaldanda skýrslu embættisins, dags. sama dag, sem þá lá fyrir um rannsókn þess á máli gjaldanda, og var henni veittur kostur á að koma að athugasemdum við skýrsluna. Með bréfi, dags. 17. janúar 2012, bárust andmæli frá tilnefndum verjanda gjaldanda. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 22. febrúar 2012, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar þar sem tekið var fram að framkomin andmæli þættu ekki gefa tilefni til breytinga á skýrslunni.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 22. febrúar 2012, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á skattskilum skattaðila eru eftirfarandi:

·1  Staðin hafa verið skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir tekjuárin 2005 til og með 2009.

·2  Í 28. gr. samnings milli lýðveldisins Íslands og Stórhertogadæmisins Lúxemborgar til að komast hjá tvísköttun og koma í veg fyrir undanskot frá skattlagningu á tekjur og eignir kemur fram að samningurinn skuli ekki taka til eignarhaldsfélaga (sociétés holding) í merkingu sérstakra laga í Lúxemborg, nú lög (loi) frá 31. júlí 1929 og tilskipun (arrété grand-ducal) frá 17. desember 1938, né til fyrirtækja sem svipuð fjármálaráðgjöf gildir um í Lúxemborg. Ennfremur kemur fram að samningurinn skuli ekki heldur taka til tekna sem aðili heimilisfastur á Íslandi fær frá slíkum félögum né til hluta eða annarra réttinda sem slíkur aðili á í þeim.

·3  Greiðslur, sem tilgreindar eru á skattframtölum skattaðila sem arðgreiðslur frá X á rannsóknartímabilinu, eru byggðar á fjárhæðum úttekta skattaðila á greiðslukorti. Engin gögn hafa verið lögð fram til staðfestingar á því að um arðgreiðslur sé að ræða til skattaðila frá X Við rannsókn skattrannsóknarstjóra hefur ekkert komið fram sem sýnir fram á að greiðslur til skattaðila uppfylli skilyrði til þess að teljast arður í skilningi skattalaga og verður því að ætla að um hafi verið að ræða tekjur, sem falli undir ákvæði A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og upphafsákvæði 7. gr. laganna.

·4  Á skattframtali 2010, vegna tekjuársins 2009, eignfærði skattaðili innstæðu á bankareikningi í Z í Lúxemborg. Ennfremur tilgreindi skattaðili á sama framtali eign í ríkisbréfum. Þessar eignir voru yfirfærðar til skattaðila í árslok 2009 við slit X. Þá gerði skattaðili ennfremur grein fyrir hagnaði af sölu hlutabréfa í X.

·5  Í 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, kemur fram að sé félagi slitið án þess að um sameiningu félaga sé að ræða skuli teljast til arðs úthlutun við félagsslit sem er umfram kaupverð bréfanna. Í framangreindu ákvæði er vísað til félaga sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, þ.e. skráð hlutafélög og einkahlutafélög, svo og samlagshlutafélög.

·6  Sú fjárhæð, sem hefði átt að renna til skattaðila á rannsóknartímabilinu, miðað við fyrirliggjandi ársreikninga X, enda engum öðrum til að dreifa, er ekki í samræmi við þær fjárhæðir sem skattaðili taldi fram sem tekjur frá félaginu. Það er mat skattrannsóknarstjóra að skattaðili hafi vanframtalið tekjur frá X. Skattrannsóknarstjóri telur að hér sé um að ræða tekjur skattaðila, sem falli undir ákvæði 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.“

Samkvæmt tölulegum niðurstöðum skýrslunnar, sem gerð var grein fyrir í töflu í niðurstöðukafla skýrslunnar, voru vantaldar tekjur gjaldanda miðað við ársreikninga X taldar nema samtals 34.590.047 kr. Nánar tiltekið væri þar um að ræða fjármuni X við slit félagsins 100.542.218 kr. að frádregnum framtöldum tekjum gjaldanda frá félaginu á rannsóknartímabilinu að fjárhæð 45.334.222 kr. og stofnverði hlutabréfa í félaginu að fjárhæð 20.617.949 kr.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103 gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 1. mars 2012. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af boðunarbréfi ríkisskattstjóra til gjaldanda, dags. 28. maí 2013, sbr. andmæli umboðsmanns gjaldanda af því tilefni með bréfi, dags. 18. júní 2013, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldanda gjaldárin 2006 til og með 2010 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 21. ágúst 2013. Í úrskurðinum byggði ríkisskattstjóri á því að gjaldandi hefði vantalið stofn sinn til fjármagnstekjuskatts með því að gera ekki grein fyrir skattskyldum fjármagnstekjum frá X, sbr. 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. ennfremur 4. mgr. 11. gr. sömu laga, og hækkaði ríkisskattstjóri stofn gjaldanda til fjármagnstekjuskatts um 11.897.876 kr. gjaldárið 2006, 8.580.011 kr. gjaldárið 2007, 7.950.572 kr. gjaldárið 2008, 1.903.082 kr. gjaldárið 2009 og um 4.258.506 kr. gjaldárið 2010. Þá bætti ríkisskattstjóri 25% álagi á vanframtalinn stofn gjaldanda til fjármagnstekjuskatts samkvæmt heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

Úrskurði ríkisskattstjóra var skotið til yfirskattanefndar með kæru umboðsmanns gjaldanda, dags. 18. nóvember 2013, þar sem gerð var krafa um að úrskurður ríkisskattstjóra yrði felldur úr gildi, en til vara að álag yrði fellt niður. Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 318/2014, sem kveðinn var upp 31. desember 2014, var fallist á aðalkröfu kæranda og hin kærða endurákvörðun felld úr gildi. Í úrskurði yfirskattanefndar var byggt á því að lagafyrirmæla um boðun fyrirhugaðra breytinga í 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, hafði ekki verið gætt áður en ríkisskattstjóri hratt breytingum sínum í framkvæmd hvað varðar gjaldárin 2006, 2007, 2008 og 2009 og yrði því að fella úrskurð ríkisskattstjóra úr gildi hvað þau ár varðaði. Var tekið fram að þær greiðslur sem gjaldandi hefði talið fram sem arð í skattframtölum sínum þessi ár hefðu einungis byggt á fjárhæðum úttekta gjaldanda á erlendu greiðslukorti, en engar upplýsingar lægju fyrir í málinu um notkun greiðslukortsins á árinu 2009 eða um greiðslur X til gjaldanda á því ári. Hefði ríkisskattstjóri, þrátt fyrir tilvísun til 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, aðeins byggt á því að frekari greiðslur hlytu að hafa runnið til kæranda frá félaginu en taldar hefðu verið fram í skattframtölum hennar. Var ekki talið að sýnt hefði verið fram á af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og ríkisskattstjóra að arðgreiðslur frá X hefðu verið vanframtaldar í skattframtali gjaldanda árið 2010. Þá hefði ekki verið lagður viðhlítandi grundvöllur að ákvörðun arðstekna vegna úthlutunar við slit hins erlenda félags á árinu 2009 umfram það sem gjaldandi hefði talið fram í skattframtali sínu árið 2010, enda væri ákvörðun ríkisskattstjóra naumast byggð á slíkum forsendum. Þótti ekki efni til annars en að fella úr gildi hina kærðu breytingu á skattframtali gjaldanda árið 2010, en tekið fram að ekki væri tekin efnisleg afstaða til ágreiningsefna málsins umfram það sem leiddi af umfjöllun um framangreind atriði í úrskurðinum.

3. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er því slegið föstu að tekjur, sem tilgreindar hafi verið sem arðgreiðslur frá X í skattframtölum gjaldanda, hafi verið tekjur sem falli undir ákvæði A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og upphafsákvæði 7. gr. laganna. Í úrskurði ríkisskattstjóra frá 21. ágúst 2013, um endurákvörðun opinberra gjalda gjaldanda, var byggt á því að um tekjur af hlutareign gjaldanda í X væri að ræða og væru þær tekjur skattskyldar hjá gjaldanda samkvæmt 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Í greinargerð skattrannsóknarstjóra með kröfugerð embættisins til yfirskattanefndar, dags. 24. október 2013, kemur fram að sektarkrafa skattrannsóknarstjóra byggi á því að í málinu sé um að ræða tekjur sem skattskyldar hafi verið samkvæmt C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, án þess þó að vísað sé til ákveðins töluliðar ákvæðisins í þessu sambandi. Verður að telja að við framsetningu kröfugerðar um sektarákvörðun á hendur gjaldanda á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi verið nauðsynlegt að fjalla með skýrari hætti um lagagrundvöll málsins, enda verður að telja að verulega þýðingu hafi um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda að skýr mörk séu lögð af hálfu rannsóknaraðila um meint refsiverð brot og hvernig talið sé að huglægum refsiskilyrðum sé háttað um þau. Er þetta og mikilsvert með tilliti til andmælaréttar gjaldanda og varna hans í tilefni af sektarkröfu. Þessa þykir ekki hafa verið gætt í máli þessu að því er varðar álitaefni um skattalega meðferð þeirra greiðslna sem hér um ræðir.

Samkvæmt því sem að framan greinir var endurákvörðun ríkisskattstjóra, að því er varðar gjaldárin 2006, 2007, 2008 og 2009, felld úr gildi með ofangreindum úrskurði yfirskattanefndar nr. 318/2014 á þeim grundvelli að andmælaréttar hafði ekki verið gætt. Þá var endurákvörðun ríkisskattstjóra hvað varðar gjaldárið 2010 felld úr gildi með því að ekki hefði verið sýnt fram á að arðgreiðslur hefðu verið vantaldar í skattframtali gjaldanda greint ár. Með hliðsjón af því sem að framan greinir hefur efnislegur ágreiningur málsins ekki verið leiddur til lykta um annað en það sem fram kemur í úrskurði yfirskattanefndar varðandi gjaldárið 2010. Eins og mál gjaldanda liggur fyrir samkvæmt framansögðu og með vísan til þess sem fyrr segir um framsetningu kröfugerðar skattrannsóknarstjóra ríkisins þykir rétt að vísa sektarkröfu skattrannsóknarstjóra frá yfirskattanefnd.

Umboðsmaður gjaldanda hefur gert kröfu um að gjaldanda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Með hliðsjón af framlögðum gögnum um kostnað gjaldanda af málinu og með vísan til lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, þykir málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði hæfilega ákveðinn 150.000 kr.

Úrskurðarorð:

Sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er vísað frá yfirskattanefnd. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 150.000 kr.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum