2016

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 135/2016

22.6.2016

Úrskurður nr. 135/2016

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2016, miðvikudaginn 22. júní, er tekið fyrir mál nr. 131/2015; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 20. maí 2015, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuáranna 2006 og 2007.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Skil á efnislega röngum skattframtölum. Vanframtaldar tekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2007 og 2008, vegna tekjuáranna 2006 og 2007, með því að hafa vanframtalið tekjur sínar, samtals að fjárhæð kr. 19.605.809. Tekjurnar eru til komnar vegna starfa A fyrir X hf., kt. [...], og Z ehf., kt. [...].

Leiddi háttsemi A til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofna hans en vera bar vegna gjaldáranna 2007 og 2008, vegna tekjuáranna 2006 og 2007, og þar með ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars, svo sem hér greinir:

Reiknaður tekjuskattur og útsvar

Tekjuár Vanframtaldar tekjur, kr. Tekjuskattur, kr. Útsvar, kr.
2006 843.618 200.359                Vanframtaldar tekjur kr. 843.618 * 23,75% = kr. 200.359. 109.923 Kr. 843.618 * 13,03% = kr. 109.923.
2007 18.762.191 4.268.398                Vanframtaldar tekjur kr. 18.762.191 * 22,75% = kr. 4.268.398. 2.444.713 Kr. 18.762.191 * 13,03% = kr. 2.444.713.
Samtals kr. 19.605.809 4.468.757 2.554.636

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. 1. tölul. A. liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. gr. og 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum.

Við væntanlega endurákvörðun skattstofna opinberra gjalda skattaðila vegna tekjuáranna 2006 og 2007 mun A að líkum verða gert að sæta álagningu tekjuskatts og útsvars á álag á vanframtalda skattstofna samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 20. maí 2015, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 21. maí 2015, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Að ósk umboðsmanns gjaldanda var viðbótarfrestur veittur til að leggja fram vörn í málinu. Var sá frestur að lokum veittur til 9. maí 2016, sbr. bréf yfirskattanefndar, dags. 8. apríl 2016.

Með bréfi, dags. 7. maí 2016, hefur gjaldandi lagt fram vörn í málinu. Í bréfinu er krafist sýknu af hálfu gjaldanda. Til vara er gerð krafa um að beitt verði vægustu sekt sem lög leyfi. Þá er þess krafist að gjaldanda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Í bréfinu er sett fram sérstök krafa um að meðferð málsins verði frestað fyrir yfirskattanefnd. Kröfu þessari til stuðnings er rakið að fyrir Mannréttindadómstól Evrópu sé til meðferðar mál gegn íslenska ríkinu er snúi að beitingu bæði álags og fésektar í sama máli, en beðið sé niðurstöðu dómstólsins. Fyrir liggi að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi frestað sambærilegum málum að eigin frumkvæði vegna þessa málareksturs og sé þess því krafist að máli gjaldanda verði frestað þar til niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í greindu máli liggi fyrir. Röksemdir til stuðnings sýknukröfu gjaldanda eru að hluta til af sama meiði, en byggt er á því að ekki fái staðist að refsa tvisvar fyrir sama brot (ne bis in idem), enda hafi gjaldanda þegar verið gert að sæta álagi með úrskurði ríkisskattstjóra. Þessu til stuðnings vísar umboðsmaður gjaldanda til dóms héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. desember 2008 í máli S-953/2008, dóms Héraðsdóms Reykjaness frá 5. júní 2014 í máli S-111/2014, ákvörðunar Evrópudómstólsins frá 26. febrúar 2013 í máli C-617/10 og tveggja dóma Mannréttindadómstóls Evrópu frá 20. maí 2014. Þá er því ennfremur haldið fram að saknæmisskilyrði séu ekki uppfyllt í tilviki gjaldanda. Að því er varðar úttektir í reiðufé sé framburður gjaldanda í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins á sama veg og framburður B, þ.e. að gjaldandi hafi tekið út fjármuni að beiðni B og afhent honum til greiðslu á útgerðarkostnaði. Varðandi greiðslur inn á bankareikning á S séu framburðir gjaldanda og B ennfremur samhljóða um að um greiðslu kostnaðar vegna náms hafi verið að ræða, en kostnaður þessi sé frádráttarbær hjá vinnuveitanda og eigi gjaldandi rétt á frádrætti samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, sbr. einnig A-lið 30. gr. sömu laga. Vísar umboðsmaður gjaldanda í þessu sambandi til úrskurða yfirskattanefndar nr. 128/1997 og 268/1999 og álits Umboðsmanns Alþingis nr. 1435/1995. Þá er ennfremur byggt á því að gjaldanda verði ekki gerð sekt á þeim grundvelli að um vantaldar launagreiðslur hafi verið ræða þar sem gjaldandi hafi ekki verið starfsmaður Y heldur eingöngu starfsmaður X hf. Í niðurlagi bréfsins er þess farið á leit, verði ekki fallist á sýknu, að beitt verði lægstu sekt sem lög leyfa. Til stuðnings er vísað til 70. og 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ólögfestra sjónarmiða um refsilækkun og refsimildun, sem og ólögfestra reglna um saknæmisstig, eins og segir í bréfinu. Þá er boðað að málskostnaðarreikningur verði sendur síðar.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 20. maí 2015, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem hann hafi staðið skil á röngum skattframtölum árin 2007 og 2008 með því að vanrækja að telja fram í umræddum skattframtölum tekjur frá Y tekjuárin 2006 og 2007. Gjaldandi hefur lagt fram athugasemdir sínar í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á skattskilum gjaldanda vegna tekjuáranna 2006 og 2007, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 12. júní 2014. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 12. desember 2012. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins dagana 22. febrúar 2013, 6. júní 2013 og 2. júlí 2013, en skýrslur voru einnig teknar af B og C dagana 30. janúar 2013 og 5. og 16. apríl 2013 vegna málsins. Var rannsókn í máli gjaldanda einkum byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutökur þessar, auk þess sem byggt var á skattframtölum gjaldanda, gögnum frá skattyfirvöldum á S, upplýsingum frá fjármálastofnunum, upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda, gögnum frá X hf. (áður W hf.) og gögnum frá Almenna lífeyrissjóðnum. Með bréfi, dags. 19. nóvember 2013, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, dags. sama dag, sem þá lá fyrir, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Hinn 17. desember 2013 lagði umboðsmaður gjaldanda fram bréflegar athugasemdir við skýrsluna. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman lokaskýrslu sína um rannsókn á máli gjaldanda, dags. 12. júní 2014, sem var samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar þar sem tekið var fram að framkomin andmæli þættu ekki gefa tilefni til breytinga á skýrslunni.

Í skýrslunni voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á skattskilum og tekjum skattaðila eru:

·1   Staðið hafa verið skil á skattframtölum vegna tekjuáranna 2006 og 2007.

·2   Greiðslur þær og peningaúttektir sem skattaðili fær frá Y á árunum 2006, 2007 og í janúar 2008 eru launatekjur.

·3   Skattaðili hefur vantalið launatekjur sínar á skattframtölum vegna tekjuáranna 2006 og 2007.

·4   Skattaðili gerir ekki grein fyrir bankareikningi sínum á S á skattframtölum tekjuáranna 2006 og 2007.

·5   Framkvæmd var lífeyrissjóðsgreiðsla vegna skattaðila til Almenna lífeyrissjóðsins árið 2007.

·6   Skattframtöl skattaðila vegna tekjuáranna 2006 og 2007 eru efnislega röng.“

Samkvæmt tölulegum niðurstöðum skýrslunnar, sem gerð var grein fyrir í töflu í niðurstöðukafla skýrslunnar, voru vantaldar tekjur gjaldanda taldar nema 843.618 kr. árið 2006 og 18.762.191 kr. árið 2007, eða samtals 19.605.809 kr.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103 gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 16. júní 2014. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af boðunarbréfi ríkisskattstjóra til gjaldanda, dags. 14. apríl 2015, sbr. og fyrra boðunarbréf embættisins, dags. 12. september 2014, og andmælabréf gjaldanda, dags. 19. september 2014, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldanda gjaldárin 2007 og 2008 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 6. júlí 2015. Samkvæmt úrskurðinum hækkaði tekjuskatts- og útsvarsstofn gjaldanda um 843.618 kr. gjaldárið 2007 og um 18.762.191 kr. gjaldárið 2008. Í úrskurðinum kom fram að um væri að ræða vantaldar launatekjur gjaldanda frá erlendu félagi, Y, vegna starfa hans fyrir X hf. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi á vanframtalinn skattstofn gjaldanda samkvæmt heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

Gjaldandi skaut úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun til yfirskattanefndar með kæru, dags. 5. október 2015. Samkvæmt kærunni var þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra yrði felldur úr gildi og til vara að hækkun skattstofna yrði lækkuð verulega. Til þrautavara var þess krafist að álagsbeiting yrði felld niður. Þá var gerð krafa um að gjaldanda yrði ákvarðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 58/2016, sem kveðinn var upp 30. mars 2016, var kröfum gjaldanda hafnað.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 12. júní 2014, að gjaldandi hafi staðið skil á skattframtölum vegna tekjuáranna 2006 og 2007. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins kaus gjaldandi að tjá sig ekki um skattframtal og fylgigögn vegna tekjuársins 2006, en sagðist aðspurður telja að skattframtal vegna ársins 2007 gæfi rétta mynd af tekjum hans, eignum og skuldum. Í skýrslunni var rakið að gjaldandi hefði fengið greiðslur frá Y á tilgreindan bankareikning hans á S. Nánar tiltekið væri um að ræða greiðslur að fjárhæð 843.618 kr. (EUR 10.000) hinn 20. mars 2006, 1.774.996 kr. (EUR 20.000) hinn 23. mars 2007 og 2.463.670 kr. (EUR 25.644) hinn 29. janúar 2008. Þá hefði gjaldandi tekið út peninga í reiðufé af gjaldeyrisreikningi Y að fjárhæð 1.985.100 kr. (USD 30.450) hinn 23. mars 2007, 1.844.700 kr. (USD 30.450) hinn 5. júlí 2007, 1.814.100 kr. (USD 30.450) hinn 9. október 2007, 1.794.300 kr. (USD 30.450) hinn 15. október 2007, 2.576.322 kr. (EUR 30.450) hinn 23. október 2007, 2.599.059 kr. (EUR 30.450) hinn 26. október 2007 og 1.909.944 kr. (EUR 20.000) hinn 29. janúar 2008 eða samtals 18.762.191 kr. Við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins vildi gjaldandi aðspurður ekki tjá sig um greiðslur inn á bankareikning hans á árinu 2006. Þá var gjaldandi spurður út í framangreindar úttektir af gjaldeyrisreikningi Y. Sagði gjaldandi að hann hefði verið beðinn um að taka gjaldeyri út úr bankanum og afhenda B, fyrirsvarsmanni X hf., peningana. Hefðu fjármunirnir verið notaðir í rekstri X hf., m.a. til að gera upp við birgja. Aðspurður um greiðslur inn á bankareikning sinn á S á árunum 2007 og 2008 sagði gjaldandi að hann hefði farið til S í [...]nám og að um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar hefði verið að ræða í því sambandi. Jafnframt sagði gjaldandi að hann hefði verið beðinn um að hætta við að fara í nám árið 2007 og að greiðsla frá Y á árinu 2008 hefði verið til að bæta honum upp að hann hefði ekki komist í námið. Við skýrslutökurnar var lagður fyrir gjaldanda tölvupóstur sem bar með sér að hafa verið sendur frá netfangi gjaldanda til B hinn 29. janúar 2008. Engin efnislína var í póstinum, en meðfylgjandi mun hafa verið excel-skjal með heitinu „A2004 2007 eftir br.xls“. Samkvæmt gögnum málsins var í því skjali að finna yfirlit um laun gjaldanda hjá X hf. vegna áranna 2004 til og með 2007 og – að því er skattrannsóknarstjóri ríkisins taldi – upplýsingar um raunveruleg laun gjaldanda hjá félaginu. Sagðist gjaldandi ekki kannast við tölvupóstinn eða viðskiptayfirlitin þrátt fyrir að þau hefðu verið send frá hans netfangi.

Við skýrslutöku af B, fyrirsvarsmanni X hf., sem fram fór 5. apríl 2013, var B spurður út í skjölin „[...] 2006.xls“ og „[...] 2007.xls“. Sagði B það geta verið að hann hefði búið þetta til, en hann myndi ekki hvað þetta væri og það væri ekkert sérstakt fyrir hann að tjá sig um. Aðspurður um úttektir af gjaldeyrisreikningi Y sagði B líklegt að þetta hefði tengst sjómönnum. Hann hefði þurft að nota seðla, m.a. til að greiða Rússum sem hefðu sumir hverjir ekki getað opnað bankareikninga. Þá sagði B greiðslur til S tengjast námskeiðum sem gjaldandi hefði tekið þar. Við skýrslutökur af, C fyrirsvarsmanni X hf., dagana 4. desember 2012 og 16. apríl 2013, neitaði C að tjá sig um nokkuð er tengdist Y.

Var það niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins að greiðslur frá Y inn á bankareikning gjaldanda á S á árunum 2006, 2007 og 2008 og úttektir hans í reiðufé af gjaldeyrisreikningi Y á árunum 2007 og 2008 væru vantaldar launatekjur gjaldanda vegna starfa hans hjá X hf. tekjuárin 2006 og 2007. Næmu vantaldar launatekjur gjaldanda samkvæmt þessu samtals 19.605.809 kr. greind ár.

4. Af hálfu gjaldanda er þess krafist að yfirskattanefnd fresti því að taka mál gjaldanda til meðferðar þar til Mannréttindadómstóll Evrópu hafi úrskurðað í tilgreindu máli skattaðila sem gert hafi verið að sæta bæði álagi og sekt í sama máli, en fyrir liggi að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi frestað sambærilegum málum að eigin frumkvæði þar til niðurstaða í umræddu máli liggi fyrir. Að því er kröfu þessa varðar skal tekið fram að umræddur dómur Mannréttindadómstólsins liggur ekki fyrir og verður ekki ráðið af dagskrá dómstólsins að svo verði í bráð. Við svo búið þykir ekki tækt að fresta því að taka mál gjaldanda til meðferðar. Til hliðsjónar og vegna skírskotunar gjaldanda til meðferðar mála hjá Héraðsdómi Reykjavíkur skal vísað til dóms þess dómstóls frá 20. apríl 2016 í máli nr. [...].

5. Til stuðnings kröfu sinni um að sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins verði hafnað vísar umboðsmaður gjaldanda m.a. til þess að vegna ákvæða 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu verði gjaldanda, sem gert hafi verið að sæta álagi á vantalda skattstofna samkvæmt þargreindum ákvæðum skattalaga, ekki gerð refsing samkvæmt refsiákvæðum sömu laga vegna sömu háttsemi. Hvað þessa viðbáru varðar skal tekið fram að í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands hefur það ekki verið talið fara í bága við bann við endurtekinni málsmeðferð að manni, sem sætt hefur álagsbeitingu vegna vantalins skattstofns, sé síðan í öðru máli gerð refsing vegna brots á viðkomandi skattalögum, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar frá 11. júní 2015 í máli nr. 550/2014. Verður málinu því ekki vísað frá yfirskattanefnd á þessum grundvelli.

6. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu fékk gjaldandi greiddar inn á bankareikning sinn á S 843.618 kr. á árinu 2006, 1.774.996 kr. á árinu 2007 og 2.463.670 kr. í byrjun árs 2008 frá Y. Þá tók gjaldandi samtals 12.613.581 kr. út af gjaldeyrisreikningi Y á árinu 2007 og 1.909.944 kr. í byrjun árs 2008. Til skýringar á þessum úttektum er komið fram af hálfu gjaldanda að yfirmaður hans hjá X hf., B, hafi beðið hann um taka umrædda fjármuni út af gjaldeyrisreikningi Y og afhenda sér. Hafi B síðan notað féð til að greiða reikninga, m.a. sjómönnum, en ekki hafi verið um neina launauppbót til handa gjaldanda að ræða. Þá er því haldið fram af hálfu gjaldanda, að því er varðar greiðslur inn á bankareikning hans á S, að um endurgreiðslur útlagðs kostnaðar vegna [...]náms á vegum vinnuveitanda gjaldanda hafi verið að ræða. Af hálfu gjaldanda hafa, þrátt fyrir ærið tilefni, ekki komið fram gögn í málinu sem renna stoðum undir þessar skýringar hans. Þar á meðal hefur gjaldandi engin gögn lagt fram um meint [...]nám eða greiðslur sínar af slíku tilefni þrátt fyrir áskoranir þar um af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Eins og fram kemur í úrskurði yfirskattanefndar nr. [...] í kærumáli gjaldanda vegna endurákvörðunar ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum gjaldanda gjaldárin 2007 og 2008 verður raunar að skilja svör gjaldanda við skýrslutöku 2. júlí 2013 þannig að greiðslur inn á bankareikning hans hafi ekki einvörðungu verið vegna námskostnaðar, enda hafi hann að beiðni vinnuveitanda síns horfið frá fyrirætlun um að fara á tungumálanámskeið á árinu 2007. Hins vegar hafi gjaldandi farið á námskeið á árunum 2006 og 2009. Gjaldandi vildi þó ekki svara spurningum varðandi tekjuárið 2006.

Svo sem rakið hefur verið liggur fyrir í málinu excel-skjalið „A2004 2007 eftir br.xls“, sem sent var frá netfangi gjaldanda á netfang B, fyrirsvarsmanns X hf., en í skjalinu eru sérstakar blaðsíður (sheet) vegna áranna 2004 til og með 2007, sbr. fskj. 4.1-4.6 með rannsóknarskýrslu, þar sem rakin eru „viðskipti“ á umræddum árum. Á yfirlitum vegna áranna 2006 og 2007 í excel-skjali þessu er dálkur merktur „Skv. L kerfi“ með fjárhæðum sem stemma við uppgefin laun gjaldanda hjá X hf. Þá eru tveir dálkar merktir annars vegar „Samt.“ og hins vegar „Á að vera“ með hærri fjárhæðum. Er mismunurinn færður kredit í yfirlitunum. Þá eru í skjalinu dálkur með vísitölu og fara fjárhæðir, sem augljóslega eru launafjárhæðir, hækkandi í samræmi við hana. Jafnframt eru færðar kreditmegin í yfirliti vegna ársins 2007 tvær færslur, dagsettar 31. maí 2007, að fjárhæð 5.000.000 kr. og 5.461.698 kr. með skýringunum „Launauppbót“ og „Launauppbót 6 mánuðir“. Í yfirliti vegna ársins 2007 eru jafnframt færslur sem koma heim og saman við úttektir gjaldanda af gjaldeyrisreikningi Y á því ári. Í yfirlitum vegna áranna 2006 og 2007 er einnig að finna tvær greiðslur merktar „Gr. til S“ sem stemma við greiðslur inn á bankareikning gjaldanda á S á árunum 2006 og 2007, en sams konar færslur er einnig að finna í excel-skjölunum „[...] 2006.xls“ og „[...] 2007.xls“ sem aflað var hjá vinnuveitanda gjaldanda, X hf. Ennfremur gefur að finna í fyrstnefnda excel-skjalinu yfirlit um uppgjör vegna ársins 2007, að því er best verður séð, með stöðunni EUR 45.644, að frádregnum EUR 20.000, eða samtals EUR 25.644, en í þessu sambandi skal þess getið að gjaldandi tók EUR 20.000 út af gjaldeyrisreikningi Y hinn 29. janúar 2008 og fékk EUR 25.644 greiddar inn á bankareikning sinn á S sama dag.

Þrátt fyrir að gjaldandi hafi ekki viljað kannast við umrætt excel-skjal „A2004 2007 eftir br.xls“, þykir enginn vafi vera á því að yfirlit sem þar er að finna varði gjaldanda, þ.e. beri með sér upplýsingar um launakjör hans hjá X hf., og að mismunur sem þar kemur fram á „Skv. L kerfi“ og „Á að vera“ sé leiddur fram sem inneign gjaldanda hjá X hf. ásamt fyrrgreindum færslum vegna launauppbótar. Í þessu ljósi verður að telja að skýringar gjaldanda um að úttektir af gjaldeyrisreikningi Y hafi verið vegna vinnuveitanda hans fái ekki staðist. Um þetta má einnig vísa til niðurstöðu í úrskurði yfirskattanefndar nr. [...] í kærumáli gjaldanda, en þar er rakið að skýringar gjaldanda um að hann hafi tekið umrædda fjármuni út af gjaldeyrisreikningunum til að afhenda B vegna greiðslu á útgerðarkostnaði séu ekki samrýmanlegar því að B hafi verið staddur erlendis þegar úttektir fór fram síðari hluta október 2007. Vegna umfjöllunar gjaldanda um úttektir í þágu vinnuveitanda hans í fyrrgreindu skyni skal tekið fram að út af fyrir sig eru ekki efni til að draga í efa að um slíkar úttektir kunni að hafa verið að ræða, svo sem B hefur og borið um, en ljóst þykir að það geti ekki átt við um úttektir í þeim tilvikum sem í máli þessu greinir.

Eins og fram er komið var fjallað um rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins, sem liggur til grundvallar sektarkröfu embættisins í máli þessu, í úrskurði yfirskattanefndar nr. [...] vegna kæru gjaldanda yfir endurákvörðun ríkisskattstjóra sem jafnframt byggði á skattrannsókninni. Var viðbárum gjaldanda, hinum sömu og fram eru færðar til varnar í þessu máli, hafnað og talið að skattleggja bæri sem laun hjá gjaldanda umræddar greiðslur inn á bankareikning hans á S og úttektir af gjaldeyrisreikningi Y að fjárhæð 843.618 kr. árið 2006 og 18.762.191 kr. árið 2007. Tekið skal undir athugasemdir í bréfi umboðsmanns gjaldanda til yfirskattanefndar, dags. 7. maí 2016, þess efnis að munur sé á sönnunaraðstöðu í skattamáli annars vegar og sakamáli hins vegar, sbr. m.a. sjónarmið í H 1998:268. Í tilviki gjaldanda verður hins vegar ekki talið að nein sú óvissa sé uppi um tekjufjárhæðir að efni séu til annars en að byggja fullum fetum á rannsóknarniðurstöðum skattrannsóknarstjóra. Hvað snertir meintan kostnað vegna tungumálanáms gjaldanda, sem helst kynni að vera ástæða til að huga að í þessu sambandi, hvað sem líður álitaefnum um að þau útgjöld hefðu verið í þágu launagreiðanda gjaldanda, er bæði til þess að líta að með öllu er óljóst hvort gjaldandi hafi yfirleitt lagt stund á slíkt nám á þeim tíma sem hér skiptir máli og hver námskostnaður hafi þá verið, en ljóst er að fjárhæðir sem gjaldandi tiltekur fá með engu móti staðist. Er því enginn grundvöllur til að taka tillit til þessa atriðis með áætlaðri fjárhæð. Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að neitt hafi komið fram sem gefur tilefni til annars en að byggja á niðurstöðu í skýrslu skattrannsóknarstjóra um fjárhæð vantalinna tekna gjaldanda og að umræddar tekjur gjaldanda hafi verið launatekjur hans. Vegna athugasemdar gjaldanda um að hann hafi ekki verið starfsmaður Y skal tekið fram að byggt er á því í málinu að umræddar tekjur séu vegna vinnu gjaldanda fyrir X hf., sbr. einnig niðurstöðu í úrskurði yfirskattanefndar nr. [...].

Fullsannað þykir samkvæmt því sem að framan er rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins að gjaldandi, A, hafi ekki gert grein fyrir skattskyldum tekjum samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 að fjárhæð 843.618 kr. í skattframtali árið 2007 og 18.762.191 kr. í skattframtali árið 2008. Eins og atvikum málsins er háttað samkvæmt framansögðu verður talið að fullnægt sé í tilviki gjaldanda þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 109. gr. laga nr. 90/2003. Hinar röngu upplýsingar í skattframtölum gjaldanda leiddu til lægri álagningar opinberra gjalda hans en vera bar gjaldárin 2007 og 2008, svo sem rakið er í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins, þannig að brot gjaldanda varða við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995.

Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektarfjárhæðar er til þess að líta að langur tími er liðinn frá því að gjaldandi framdi brot sitt, en dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldanda verði um kennt. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 9.000.000 kr. til ríkissjóðs og 5.200.000 kr. til bæjarsjóðs Kópavogsbæjar.

7. Umboðsmaður gjaldanda hefur gert kröfu um að gjaldanda verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum máls þessa þykja ekki vera til staðar lagaskilyrði til þess að ákvarða gjaldanda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 9.000.000 kr. til ríkissjóðs og 5.200.000 kr. til bæjarsjóðs Kópavogsbæjar. Málskostnaðarkröfu gjaldanda er hafnað.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum