2016

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 249/2016

23.11.2016

Úrskurður nr. 249/2016 


ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2016, miðvikudaginn 23. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 181/2015; beiðni A, kt. [...], um endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 46/2014. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 2. september 2015, hefur gjaldandi farið þess á leit við yfirskattanefnd að nefndin endurupptaki úrskurð sinn nr. 46/2014, sem kveðinn var upp 26. febrúar 2014, vegna kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda vegna meintra brota á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Með nefndum úrskurði var gjaldanda gert að sæta sekt að fjárhæð 1.500.000 kr. samkvæmt greindum lögum vegna vanrækslu á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts í rekstri X ehf., kt. [...]. Af hálfu gjaldanda er þess krafist, með vísan til dóms héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. [...], að yfirskattanefnd taki mál gjaldanda til nýrrar meðferðar og hafni sektarkröfu á hendur honum.

II.

Tildrög málsins eru þau að skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf 15. mars 2012 rannsókn á skattskilum X ehf. er beindist að skilum félagsins á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda félagsins árin 2009 og 2010. Vegna rannsóknarinnar var hinn 23. mars 2012 tekin skýrsla af gjaldanda, en skýrslur voru einnig teknar af B, C og D, vegna málsins. Með bréfum, dags. 17. apríl 2012, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda, B, C, D og skiptastjóra þrotabús X ehf. skýrslu um rannsóknina sem þá lá fyrir, dags. 16. apríl 2012, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar. Að fengnum athugasemdum tilnefnds verjanda gjaldanda, dags. 4. maí 2012, og athugasemdum tilnefnds verjanda C, dags. 11. apríl 2012, tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 14. maí 2012, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar þar sem tekið var fram að framkomin andmæli þættu ekki gefa tilefni til breytinga frá upphaflegri skýrslu.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 30. janúar 2013, gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins þá kröfu að gjaldanda, D, B og C yrði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, vegna vangoldinnar skilaskyldrar staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna X ehf. tiltekin greiðslutímabil árin 2009 og 2010 og vegna vangreidds virðisaukaskatts félagsins tilgreind uppgjörstímabil árið 2009. Nánar tiltekið var þess krafist að gjaldanda, sem skráðum framkvæmdastjóra X ehf. frá 1. september 2009 til og með 15. desember 2009, yrði ákvörðuð sekt vegna vangoldinnar staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna félagsins að fjárhæð samtals 3.593.396 kr. greiðslutímabilin ágúst, september, október og nóvember 2009, og vegna vangreidds virðisaukaskatts að fjárhæð samtals 3.753.046 kr. uppgjörstímabilin júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2009. Þá var þess með sama hætti krafist að D, sem skráðum framkvæmdastjóra og prókúruhafa félagsins frá 1. nóvember 2008 til og með 1. september 2009, yrði gerð sekt vegna vangoldinnar skilaskyldrar staðgreiðslu að fjárhæð 215.349 kr. greiðslutímabilið júlí 2009; að B, sem stjórnarmanni og prókúruhafa félagsins frá 1. nóvember 2008 til og með 11. janúar 2010, yrði gerð sekt vegna vangoldinnar skilaskyldrar staðgreiðslu að fjárhæð samtals 5.522.484 kr. greiðslutímabilin júlí, ágúst, september, október, nóvember og desember 2009 og vegna vangreidds virðisaukaskatts að fjárhæð samtals 3.753.046 kr. uppgjörstímabilin júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2009; og að C, sem framkvæmdastjóra og prókúruhafa félagsins frá 15. desember 2009 til og með 11. janúar 2010 og sem framkvæmdastjóra, stjórnarmanni og prókúruhafa frá 11. janúar 2010 til og með 8. mars 2010, yrði gerð sekt vegna vangoldinnar skilaskyldrar staðgreiðslu að fjárhæð samtals 1.250.238 kr. greiðslutímabilin desember 2009 og janúar 2010 og vegna vangreidds virðisaukaskatts að fjárhæð 379.403 kr. uppgjörstímabilið nóvember-desember 2009.

Með bréfum yfirskattanefndar, dags. 1. febrúar 2013, var fyrrgreindum aðilum veitt færi á að skila vörn í tilefni af kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins. Með bréfi, dags. 19. mars 2013, lagði gjaldandi fram vörn í málinu, sbr. viðbótarrökstuðning í bréfi, dags. 28. janúar 2014. Var þess krafist af hálfu gjaldanda að honum yrði ekki gerð sekt og til vara að honum yrði ákveðin vægasta refsing sem lög leyfðu, auk þess sem gjaldandi gerði kröfu um ákvörðun málskostnaðar. Þá lagði C fram vörn í málinu með bréfi, dags. 30. apríl 2013. Athugasemdir voru ekki gerðar af hálfu D og B.

Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 46/2014 var fyrrgreindum aðilum gerð sekt að fjárhæð 9.100.000 kr., en með tiltekinni skiptingu milli þeirra þannig að sekt gjaldanda var ákvörðuð 1.500.000 kr., sekt D var ákvörðuð 200.000 kr., sekt C var ákvörðuð 1.500.000 kr. og sekt B var ákvörðuð 5.900.000 kr. Byggði sektarákvörðun á hendur gjaldanda á því að hann hefði sem skráður framkvæmdastjóri X ehf. frá 1. september 2009 til og með 15. desember 2009 vanrækt með saknæmum hætti að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda að fjárhæð 3.593.396 kr. og virðisaukaskatti að fjárhæð 3.753.046 kr. Voru brot aðila talin varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 42/1995. Var tekið fram í úrskurðinum að brot gjaldanda hefðu fyrst og fremst falist í saknæmum eftirlitsskorti með rekstri X ehf. og væri litið til þeirra aðstæðna við skiptingu sektarfjárhæðar milli aðila. Um þetta var í úrskurðinum vísað til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 242/1999 og nr. 413/2011.

III.

Í endurupptökubeiðni gjaldanda, dags. 2. september 2015, kemur fram að í ljósi dóms héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. [...] sé þess óskað með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að mál gjaldanda verði endurupptekið þannig að sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins verði hafnað. Í beiðninni er rakið að í greindum dómi héraðsdóms Reykjavíkur hafi framkvæmdastjóri einkahlutafélags verið sýknaður í refsimáli þar sem sannað hafi þótt að viðkomandi aðili hafi ekki starfað sem eiginlegur framkvæmdastjóri, en nákvæmlega sömu sjónarmið eigi við um gjaldanda.

IV.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 14. september 2015, var þess óskað að skattrannsóknarstjóri ríkisins léti í ljós afstöðu sína til endurupptökubeiðni gjaldanda.

Í svarbréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 2. nóvember 2015, kemur fram að til rökstuðnings kröfu sinni um sekt á hendur gjaldanda hefði skattrannsóknarstjóri haft til hliðsjónar niðurstöðu dóms Hæstaréttar Íslands frá 19. janúar 2012 í máli nr. 413/2011 þar sem fram komi að ekki verði litið framhjá þeim skyldum sem að lögum hvíli á skráðum framkvæmdastjóra einkahlutafélags. Hefði skattrannsóknarstjóri í greinargerð sinni talið að gjaldandi hefði vegna skráningar sinnar sem framkvæmdastjóri X ehf. borið ábyrgð á því að nægilegt eftirlit væri með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins, þar á meðal staðgreiðslu- og virðisaukaskattsskilum þess, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Teldi skattrannsóknarstjóri því að gjaldandi bæri ábyrgð á vanskilum skattaðila á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og á innheimtum virðisaukaskatti vegna þess tímaskeiðs sem hann var skráður framkvæmdastjóri X ehf. Í bréfinu gerir skattrannsóknarstjóri grein fyrir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 og rekur að fjöldi dóma hafi gengið á þá leið að sú skylda hvíli á skráðum framkvæmdastjóra að annast um daglegan rekstur félags, þar á meðal að hafa nægilegt eftirlit með staðgreiðslu- og virðisaukaskattsskilum. Um þetta vísar skattrannsóknarstjóri til dóms Hæstaréttar Íslands frá 17. desember 2013 í máli nr. 379/2013. Þá hafi dómi héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. [...], sem gjaldandi vísi til í endurupptökubeiðni sinni, verið áfrýjað til Hæstaréttar og bíði endanlegrar niðurstöðu þar. 

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 3. nóvember 2015, var gjaldanda sent afrit af bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 2. nóvember 2015, og honum gefinn kostur á að leggja fram athugasemdir af því tilefni.

Með tölvupósti, sem barst yfirskattanefnd 4. nóvember 2015, óskaði umboðsmaður gjaldanda eftir því að meðferð málsins fyrir yfirskattanefnd yrði frestað þar til niðurstaða Hæstaréttar í máli því sem endað hefði með dómi héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...] lægi fyrir. Með tölvupósti yfirskattanefndar, sem sendur var sama dag, var fallist á að fresta meðferð málsins þar til dómur í áðurnefndu máli lægi fyrir.

Með tölvupósti 27. október 2016 hefur umboðsmaður gjaldanda lagt fram athugasemdir af hálfu gjaldanda. Í tölvupóstinum kemur fram að niðurstaða dóms héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. [...] um sýknu skráðs framkvæmdastjóra einkahlutafélags hafi verið staðfest af Hæstarétti Íslands. Þá liggi fyrir í máli gjaldanda að nafngreindur stjórnarmaður og prókúruhafi, sem og annar nafngreindur prókúruhafi, hafi borið ábyrgð á rekstri X ehf. en ekki gjaldandi. Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 46/2014 komi fram að þáttur gjaldanda hefði eingöngu falist í saknæmum eftirlitsskorti með rekstrinum og sé óumdeilt að hann hefði ekki borið ábyrgð á rekstri X ehf. Væri ítrekað að gjaldandi hefði eingöngu verið óbreyttur starfsmaður félagsins og ekki verið skráður prókúruhafi. Hefði gjaldandi því ekki getað framkvæmt greiðslur til að koma opinberum gjöldum í skil jafnvel þótt hann hefði kosið að gera svo. 

V.

Mál þetta varðar beiðni samkvæmt bréfi umboðsmanns gjaldanda, dags. 2. september 2015, um endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 46/2014, sem kveðinn var upp hinn 26. febrúar 2014 vegna kröfu skattrannsóknarstjóra um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda og þriggja annarra einstaklinga vegna meintra brota á skattalögum. Með úrskurði þessum var gjaldanda gerð sekt að fjárhæð 1.500.000 kr. á þeim grundvelli að hann hefði sem skráður framkvæmdastjóri X ehf. frá 1. september 2009 til og með 15. desember 2009 vanrækt með saknæmum hætti að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna félagsins greiðslutímabilin ágúst, september, október og nóvember 2009 og vanrækt skil á innheimtum virðisaukaskatti uppgjörstímabilin júlí-ágúst og september-október 2009. Voru brot gjaldanda talin varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 42/1995.

Eins og fram kemur í úrskurði yfirskattanefndar nr. 46/2014 bar gjaldandi því við við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 23. mars 2012 að hann hefði upphaflega verið ráðinn sem smiður hjá X ehf. og starfað sem slíkur. Sagði gjaldandi að yfirmaður hans, D, og reyndar einnig C, hefðu beðið hann um að vera skráðan framkvæmdastjóra félagsins tímabundið til þess að auka líkurnar á því að fá stórt verk í Y. Hafi honum verið sagt að þetta ætti að vera í einn til tvo mánuði, en síðan hafi það dregist og á endanum hafi honum verið sagt upp störfum. Sagði gjaldandi að á þessum tíma hefði D séð um rekstur félagsins og að D og C hefðu séð um fjármálin. Við skýrslutökuna gat gjaldandi hvorki tjáð sig um staðgreiðsluskilagreinar og virðisaukaskattsskýrslur, sem bornar voru undir hann, né fjárhæð skuldar staðgreiðslu og virðisaukaskatts í málinu. Að því er varðar aðkomu gjaldanda að rekstri X ehf. fékk framburður gjaldanda stoð í framburði annarra starfsmanna félagsins við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Við skýrslutöku af B, sem fram fór 22. mars 2012, sagði B að gjaldandi hefði ekkert komið að rekstri félagsins. Hið sama kom fram við skýrslutöku af C 23. mars 2012. Við skýrslutöku af D 29. mars 2012 sagði D að gjaldandi hefði bara verið „smiður úti í bæ“. Hefði gjaldandi verið beðinn um að vera skráður framkvæmdastjóri á tímabili og að honum hefði verið talin trú um að engin áhætta væri fólgin í því, en á þessum tíma hefði C séð um rekstur félagsins.

Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 46/2014 kemur fram að ekki þyki ástæða til að draga í efa ástæður þess að gjaldandi var skráður framkvæmdastjóri X ehf. greint tímabil. Þætti það þó ekki fá breytt því að sem skráður framkvæmdastjóri X ehf. hefði gjaldandi borið ábyrgð á daglegum rekstri félagsins, þar á meðal fjárreiðum, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og verið til þess bær að taka ákvörðun um hvaða kröfur á hendur félaginu skyldu greiddar og hverjar ekki. Um þetta er til hliðsjónar í úrskurðinum vísað til dóma Hæstaréttar Íslands frá 14. október 1999 í málinu nr. 242/1999, frá 14. janúar 2010 í málinu nr. 447/2009 og frá 19. janúar 2012 í málinu nr. 413/2011, þar sem menn, sem skráðir voru framkvæmdastjórar einkahlutafélaga, voru taldir bera refsiábyrgð vegna brota gegn lögum nr. 45/1987 og nr. 50/1988, þótt sýnt þætti að þeir hefðu ekki gegnt því starfi nema að nafninu til. Samkvæmt framansögðu teldist gjaldandi hafa borið ábyrgð á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts X ehf. frá 1. september 2009 til og með 15. desember 2009. Var gjaldanda sem fyrr segir, og að teknu tilliti til álags samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, ákvörðuð sekt að fjárhæð 1.500.000 kr. vegna brota á skattalögum í rekstri X ehf. greint tímabil. Var tekið fram í niðurlagi úrskurðarins að líta yrði til þess við skiptingu sektarfjárhæðar milli fyrirsvarsmanna félagsins, sbr. m.a. sjónarmið í dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 242/1999 og nr. 413/2011, að brot gjaldanda fælust fyrst og fremst í saknæmum eftirlitsskorti með rekstrinum. 

Með dómi Hæstaréttar Íslands 27. október 2016 í máli nr. 321/2015 staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur frá 25. mars 2015 í máli nr. [...] um sýknu skráðs framkvæmdastjóra einkahlutafélags af kröfu ákæruvaldsins um refsingu vegna vanrækslu á skilum skilagreina og afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda einkahlutafélagsins tilgreind greiðslutímabil, enda væri upplýst að ákærða í málinu hefði ekki haft með höndum daglegan rekstur félagsins og fyrir væri að fara í málinu öðrum skráðum fyrirsvarsmanni sem sýnt þætti að hefði borið ábyrgð á rekstrinum greint tímabil. Var tekið fram í dóminum að við þessar aðstæður væru ekki efni til að gera greinarmun á stöðu stjórnarmanns og framkvæmdastjóra. Tekið skal fram í tilefni af niðurstöðu úrskurðar yfirskattanefndar nr. 46/2014 í máli gjaldanda og forsendum fyrir niðurstöðu úrskurðarins, sem raktar hafa verið, að ekki verður annað séð en að með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar hafi rétturinn horfið frá fyrri réttarframkvæmd að því er varðar skýlausa ábyrgð framkvæmdastjóra hlutafélags/einkahlutafélags á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts í rekstri slíkra félaga. 

Með hliðsjón af niðurstöðu í greindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 321/2015, og því sem liggur fyrir um aðkomu gjaldanda að rekstri X ehf., er fallist á endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar nr. 46/2014, að því er varðar gjaldanda, A. Að framangreindu virtu og með hliðsjón af atvikum málsins er sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur gjaldanda hafnað.

Umboðsmaður gjaldanda hefur gert kröfu um að gjaldanda verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998. Var krafa þessa efnis upphaflega borin fram með bréfi, dags. 19. mars 2013, og því fyrir gildistöku starfsreglna yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar frá 21. nóvember 2014. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða gjaldanda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Af hálfu gjaldanda hafa hvorki verið lagðir fram reikningar um útlagðan kostnað hans vegna meðferðar málsins né gefnar neinar upplýsingar með öðrum hætti um ætlaðan kostnað, en gera verður þó ráð fyrir því að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 100.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar nr. 46/2014 að því er varðar gjaldanda, A. Sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur gjaldanda er hafnað. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákvarðast 100.000 kr.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum