2019

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 59/2019 í máli nr. 180/2018, kveðinn upp 27. mars 2019

27.3.2019

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2019, miðvikudaginn 27. mars, er tekið fyrir mál nr. 180/2018; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 23. nóvember 2018, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, fyrir brot á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, beggja með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2014 og 2015.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A, sem fyrrum stjórnarmanni, framkvæmdastjóra og prókúruhafa X ehf. (nú afskráð), er gefið að sök eftirfarandi:

1. Skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin og offramtalin skattskyld velta og útskattur.

A er gefið að sök að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, að hafa staðið skattyfirvöldum skil á, fyrir hönd X ehf., efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörs-tímabilanna maí-júní og september-október rekstrarárið 2014 og mars-apríl og september-október rekstrarárið 2015 þar sem skattskyld velta og útskattur var vanframtalin og vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar, mars-apríl, júlí-ágúst og nóvember-desember rekstrarárið 2014 og janúar-febrúar rekstrarárið 2015 þar sem skattskyld velta og útskattur var offramtalin. Með framangreindri háttsemi vanframtaldi A, fyrir hönd X ehf., skattskylda veltu og útskatt vegna uppgjörstímabilanna maí-júní og september-október rekstrarárið 2014 og mars-apríl og september-október rekstrarárið 2015. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 15.949.145 og offramtalin skattskyld velta kr. 7.457.321. Vanframtalinn útskattur nemur samtals kr. 4.006.783 og offramtalinn útskattur kr. 1.899.820.

Sundurliðast van- og offramtalin skattskyld velta, útskattur, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum svo sem hér greinir:

Rekstrarár Uppgjörstímabil Van- og offramtalin skattskyld velta Van- og offramtalinn útskattur
2014 jan.– feb. -1.694.179 -432.016
2014 mars – apríl -2.629.482 -670.518
2014 maí – júní 119.850 30.562
2014 júlí – ágúst -2.995.855 -763.943
2014 sept. – okt. 11.812.785 3.012.259
2014 nóv. – des. -17.955 -4.579
Samtals kr. 4.595.164 1.171.765
2015 jan. – feb. -119.850 -28.764
2015 mars – apríl 119.850 28.764
2015 maí – júní 0 0
2015 júlí – ágúst 0 0
2015 sept. – okt. 3.896.660 935.198
Samtals kr. 3.896.660 935.198
Samtals bæði árin kr. 8.491.824 2.106.963

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr., 1. mgr. 16. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Varðar framangreind háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

2. Vangoldin afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna. Vanræksla á afhendingu skilagreina á lögmæltum tíma.

A er gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil, fyrir hönd skattaðila, á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna X ehf. (nú afskráð) vegna greiðslutímabilanna apríl til og með desember rekstrarárið 2014 og mars til og með september rekstrarárið 2015. Þá var staðgreiðsluskilagreinum fyrir öll framangreind greiðslutímabil ekki skilað á lögmæltum tíma. Nemur vangoldin afdregin staðgreiðsla vegna umræddra tímabila samtals kr. 1.711.236 auk álags, dráttarvaxta og kostnaðar og að teknu tilliti til krafna vegna vangreiddra launa sem lýst var í þrotabú skattaðila og afdreginnar staðgreiðslu af launum A.

Fjárhæðin sundurliðast svo sem hér greinir:

Rekstrarár Greiðslu-tímabil Vangoldin skilaskyld staðgreiðsla skv. bókhaldi og skilagreinum Afdregin staðgreiðsla af launum A Afdregin staðgreiðsla af vangreiddum launum Vangoldin skilaskyld staðgreiðsla
2014 apríl 116.260 63.473 52.787
2014 maí 157.652 12.975 144.677
2014 júní 146.702 0 146.702
2014 júlí 46.146 0 46.146
2014 ágúst 252.118 0 252.118
2014 september 287.299 25.950 261.349
2014 október 203.927 63.473 140.454
2014 nóvember 157.208 78.604 78.604
2014 desember 269.408 134.704 134.704 0
Samtals kr. 1.636.720 379.179 134.704 1.122.835
2015 mars 263.392 131.696 131.696 0
2015 apríl 214.699 90.341 90.341 34.017
2015 maí 323.476 0 127.545 195.931
2015 júní 246.768 90.341 90.341 66.086
2015 júlí 275.589 80.422 80.422 114.745
2015 ágúst 244.384 0 90.341 154.043
2015 september 47.158 0 23.579 23.579
Samtals kr. 1.615.466 392.800 634.265 588.401
Samtals bæði árin kr. 3.252.186 771.979 768.969 1.711.236

Það er mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að framangreindu hafi A komið til leiðar með saknæmum hætti, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi A brjóta í bága við ákvæði 1. og 2. mgr. 20. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, sbr. aðalreglur 1.-3. gr., 1. tl. 5. gr., 1. mgr. 7. gr. og 1. og 3. mgr. 8. gr. þeirra laga.

Framangreind háttsemi varðar A sekt samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 23. nóvember 2018, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 11. janúar 2019, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Var bréf þetta birt gjaldanda eftir ákvæðum b-liðar 1. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, í framhaldi af því að hann vitjaði ekki ábyrgðarbréfs nefndarinnar, dags. 27. nóvember 2018, um sama efni. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 23. nóvember 2018, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem hann hafi sem fyrirsvarsmaður X ehf., vanrækt að standa skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna félagsins tiltekin greiðslutímabil árin 2014 og 2015 og vantalið skattskylda veltu og virðisaukaskatt í virðisaukaskattsskýrslum félagsins þau uppgjörstímabil árin 2014 og 2015 sem greinir í bréfinu. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf hinn 27. júní 2017 rannsókn á skattskilum X ehf. er beindist að skilum félagsins á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtum virðisaukaskatti vegna rekstraráranna 2014 og 2015. Skráður tilgangur X ehf. á þessu tímabili var viðhald húsnæðis, eignaumsýsla og annar skyldur rekstur. Samkvæmt gögnum málsins var bú X ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 18. nóvember 2015 og lauk skiptum 8. september 2017. Var félagið afskráð 15. september 2017. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins dagana 7. september 2017 og 13. febrúar 2018. Með bréfi, dags. 5. apríl 2018, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina sem þá lá fyrir, dags. sama dag, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Athugasemdir bárust skattrannsóknarstjóra ríkisins með tölvupósti frá tilnefndum verjanda gjaldanda hinn 19. apríl 2018. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 22. maí 2018, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar þar sem tekið var fram að framkomin andmæli þættu ekki gefa tilefni til breytinga á skýrslunni.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 22. maí 2018, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra eru:

· Staðið hefur verið skil á staðgreiðsluskilagreinum vegna apríl til og með desember 2014 og mars til og með september 2015.

· Ekki eru gerðar athugasemdir við virðisaukaskattsskýrslur vegna tímabilanna maí-júní og júlí-ágúst 2015.

· Skattskyld velta og útskattur er oftalin á virðisaukaskattsskýrslum vegna tímabilanna janúar-febrúar, mars-apríl, júlí-ágúst og nóvember-desember 2014 og janúar-febrúar 2015.

· Staðið hefur verið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum vegna tímabilanna maí-júní og september-október 2014 og mars-apríl og september-október 2015 með því að vantelja skattskylda veltu og útskatt á skýrslum vegna þessara tímabila.

· Bókhaldsgögn skattaðila virðast bera með sér að bókhaldið hafi verið fært.

· Fyrirliggjandi eru upplýsingar úr launabókhaldi og upplýsingar úr bókhaldi um skattskylda veltu og útskatt en að öðru leyti hafa ekki fengist afhentar upplýsingar úr bókhaldi skattaðila.

· Númeraröð sölureikninga er samfelld.

· Skattskyld velta og útskattur eru vanframtalin vegna þess tímabils sem til rannsóknar er.

· Ekki eru gerðar athugasemdir við innskatt skattaðila sem tilgreindur er á virðisaukaskattsskýrslum skattaðila.

· Fyrirsvarsmaður skattaðila, A, stóð ekki skil á staðgreiðslu opinberra gjalda innan lögboðins frests til ríkissjóðs fyrir tímabilin apríl til og með desember 2014 og mars til og með september 2015.

· Staðgreiðsluskilagreinum fyrir þau tímabil sem hér um ræðir var ekki skilað á lögmæltum tíma.

· A sagði að staðgreiðslunni hefði ekki verið skilað á lögmæltum tíma þar sem að þeir hefðu lent í verulegum erfiðleikum vegna þess að þrír aðilar greiddu ekki. Hann sagði að fé hefði farið í laun.

· A sagði að engin sérstök ákvörðun hefði verið tekin um að skila ekki staðgreiðslunni til ríkissjóðs.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta X ehf. væri vantalin um 4.595.164 kr. (útskattur 1.171.765 kr.) rekstrarárið 2014 og um 3.896.660 kr. (útskattur 935.198 kr.) rekstrarárið 2015. Þá nemi staðgreiðsla opinberra gjalda til greiðslu samkvæmt bókhaldi félagsins 2.483.215 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu opinberra gjalda af vangreiddum launum.

3. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 22. maí 2018, kemur fram að gjaldandi hafi verið stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi X ehf. þann tíma sem málið varðar. Að því er varðar skattskilagögn kemur fram að staðgreiðsluskilagreinum hafi verið skilað fyrir greiðslutímabilin apríl til og með desember 2014 og mars til og með september 2015 og að virðisaukaskattsskýrslum X ehf. hafi verið skilað fyrir þau uppgjörstímabil sem hafi verið til rannsóknar. Þá kemur fram í skýrslunni að fyrirliggjandi séu 60 sölureikningar sem gefnir hafi verið út í nafni X ehf. Hafi sölureikningarnir verið færðir í bókhald félagsins og sé númeraröð þeirra samfelld.

Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að rannsókn embættisins á staðgreiðsluskilum X ehf. hafi falist í því að bera fjárhæðir afdreginnar staðgreiðslu samkvæmt bókhaldi og staðgreiðsluskilagreinum og sundurliðunum félagsins saman við greiðslur þess til innheimtumanns ríkissjóðs. Í skýrslunni er gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu rannsóknarinnar að fyrirsvarsmaður X ehf. hafi ekki staðið skil innan lögboðins frests á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna félagsins greiðslutímabilin apríl til og með desember 2014 og mars til og með september 2015, samtals að fjárhæð 3.252.186 kr. Fram kemur að vangreidd afdregin staðgreiðsla af launum fyrirsvarsmanns félagsins, A, nemi samtals 771.979 kr. þau tímabil sem hér um ræðir. Þá nemi staðgreiðsla að vangreiddum launum samtals 768.969 kr. Ennfremur er rakið að vanrækt hafi verið að standa skil á skilagreinum staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma öll framangreind greiðslutímabil.

Í kafla um rannsókn á skattskyldri veltu og útskatti X ehf. kemur fram að fyrirliggjandi sölureikningar X ehf. hafi verið lagðir fyrir gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Sagði gjaldandi að tiltekið bókhaldsþjónustufyrirtæki hefði annast gerð sölureikninga fyrir félagið en svo hefði gjaldandi tekið við því hlutverki. Hefðu sölureikningar verið greiddir að fullu nema sölureikningar sem gefnir hefðu verið út á Z ehf., Y, Þ ehf. og B. Er tekið fram í skýrslunni að í gögnum málsins finnist ekki neinir sölureikningar sem gefnir hafi verið út á Z ehf. eða aðila tengda því félagi. Þá hafi einn sölureikningur verið gefinn út á Y og hafi gjaldandi staðfest við skýrslutöku 13. febrúar 2018 að sölureikningurinn hafi verið greiddur. Hvað Þ ehf. snertir hafi einn sölureikningur verið gefinn út á félagið og sé hann að fjárhæð 29.835.735 kr. og dagsettur 15. október 2014. Samkvæmt stefnu X ehf. á hendur Þ ehf. til greiðslu eftirstöðva sölureikningsins hafi 14.500.000 kr. verið greiddar á framkvæmdartímanum vegna verksins. Þá liggi fyrir samkomulag milli þrotabús X ehf. og Þ ehf. um greiðslu 5.000.000 kr. vegna eftirstöðva sölureikningsins en í tölulegum niðurstöðum skýrslunnar miði skattrannsóknarstjóri ríkisins við 14.500.000 kr., þ.e. skattskylda veltu 11.553.785 kr. (útskattur 2.946.215 kr.). Að því er varði sölureikning að fjárhæð 1.823.731 kr., sem gefinn hafi verið út á B, kemur fram að B hafi greitt samtals 2.595.582 kr. á tímabilinu 19. júní 2015 til og með 11. september 2015 eða 771.851 kr. meira en sölureikningurinn hljóði á um. Teljist sölureikningurinn hafa verið greiddur að fullu og sé hann því hluti af tölulegum niðurstöðum skýrslunnar. Í niðurlagi kaflans er rakið að samkvæmt innsendum virðisaukaskattsskýrslum hafi skattskyld velta X ehf. verið tilgreind 14.121.040 kr. (útskattur 3.600.867 kr.) rekstrarárið 2014 og 3.370.344 kr. (útskattur 808.882 kr.) rekstrarárið 2015, en samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi skattskyld velta verið 18.716.204 kr. (útskattur 4.772.632 kr.) fyrra árið og 7.267.004 kr. (útskattur 1.744.080 kr.) seinna árið. Hafi skattskyld velta því verið vantalin um 4.595.164 kr. (útskattur 1.171.765 kr.) rekstrarárið 2014 og um 3.896.660 kr. (útskattur 935.198 kr.) rekstartímabilið janúar til og með október 2015.

Í kafla um rannsókn á innskatti X ehf. kemur fram að skattrannsóknarstjóri ríkisins geri ekki athugasemdir við innskatt sem tilgreindur sé á virðisaukaskattsskýrslum félagsins.

4. Samkvæmt gögnum málsins var gjaldandi, A, stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi X ehf. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 7. september 2017 sagðist gjaldandi hafa annast daglegan rekstur og fjármál félagsins. Sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er því réttilega beint að gjaldanda í samræmi við ákvæði 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 42/1995.

Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda m.a. samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 40. gr. laga nr. 50/1988, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. áður 45. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er tvíþætt. Í fyrsta lagi er þess krafist að gjaldanda verði gerð sekt á þeim grundvelli að gjaldandi hafi sem fyrirsvarsmaður X ehf. vanrækt að standa skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda félagsins greiðslutímabilin apríl til og með desember 2014 og mars til og með september 2015 samkvæmt innsendum staðgreiðsluskilagreinum félagsins, en gjaldandi hafi jafnframt vanrækt að standa skil á skilagreinum þessum á lögmæltum tíma.

Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, er refsivert ef launagreiðandi innir ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum borið að halda eftir. Samkvæmt fortakslausum ákvæðum nefndra laga og með stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 27. febrúar 1997 (H 1997:789), 25. september 1997 (H 1997:2446), 14. janúar 1999 (H 1999:79), 18. febrúar 1999 (H 1999:544 og 550), 10. júní 1999 (H 1999:2645) og 30. mars 2000 (H 2000:1422), geta fyrirsvarsmenn lögaðila unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt.

Til grundvallar niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð vangreiddrar staðgreiðslu opinberra gjalda X ehf. árin 2014 og 2015 liggur bókhald félagsins og staðgreiðsluskilagreinar sem gjaldandi hefur staðfest að varði rekstur þess, sbr. skýrslutöku af gjaldanda 27. mars 2017, þar sem ekki var vefengt að gögnin gæfu rétta mynd af rekstrinum. Af hálfu gjaldanda hafa engar athugasemdir verið gerðar við niðurstöður í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Verður samkvæmt þessu byggt á því að staðgreiðsla opinberra gjalda, sem gjaldanda bar að standa skil á vegna X ehf., hafi numið þeirri fjárhæð sem greinir í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, enda þykir ekkert hafa komið fram sem gefur tilefni til annars. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra í þessum þætti málsins er byggð á niðurstöðum í skýrslu embættisins að öðru leyti en því að ekki er gerð krafa um ákvörðun sektar vegna staðgreiðslu að fjárhæð 771.979 kr. af launum gjaldanda og staðgreiðslu að fjárhæð 768.969 kr. af vangreiddum launum, svo sem gerð er grein fyrir í kröfugerð.

Samkvæmt því sem að framan er rakið og gögnum málsins að öðru leyti var afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda vegna launamanna X ehf. greiðslutímabilin apríl til og með desember 2014 og mars til og með september 2015, samtals að fjárhæð 1.711.236 kr., ekki greidd til innheimtumanns ríkissjóðs á tilskildum tíma, sbr. 1. og 2. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987. Af hálfu gjaldanda hefur komið fram að erfiðleikar í rekstri einkahlutafélagsins hafi valdið þeim vanskilum á staðgreiðslu opinberra gjalda sem í málinu greinir. Af þessu tilefni skal tekið fram að ekki telst tæk varnarástæða að fé hafi ekki verið til í rekstri félagsins til að standa skil á umræddum gjöldum, sbr. m.a. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar Íslands frá 30. mars 2000 (H 2000:1422).

Með vísan til þess sem rakið hefur verið telst fullnægt þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995. Ber að ákvarða gjaldanda, A, sekt samkvæmt þessum lagaákvæðum vegna vanrækslu á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda í rekstri X ehf.

Í annan stað er sektarkrafa skattrannsóknarstjóra byggð á því að gjaldandi hafi sem fyrirsvarsmaður X ehf. staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum félagsins uppgjörstímabilin maí-júní og september-október 2014 og mars-apríl og september-október 2015. Vegna þessarar vanrækslu hafi skattskyld velta vegna þessara tímabila verið vantalin um samtals 8.491.824 kr. og útskattur um 2.106.963 kr. að teknu tilliti til greiðslna á virðisaukaskatti samkvæmt innsendum virðisaukaskattsskýrslum félagsins.

Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins og í andmælabréfi tilnefnds verjanda hans vegna frumskýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins var því borið við af hálfu gjaldanda að ekki hefðu allir sölureikningar X ehf. fengist greiddir og nefndi gjaldandi í þessu sambandi sölureikninga sem gefnir hefðu verið út á Z ehf., Y, Þ ehf. og B. Í kafla III-3 hér að framan eru niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins að því er viðbárur þessar varðar raktar, en þar kemur fram að ekki hafi fundist sölureikningar útgefnir á Z ehf. eða aðila tengda því fyrirtæki, að sölureikningar á hendur Y og B hafi verið greiddir að fullu og að í tilviki Þ ehf. miði skattrannsóknarstjóri við þá fjárhæð sem fullvíst er að greidd hafi verið vegna sölureikningsins, þ.e. 14.500.000 kr., en skattrannsóknarstjóri taki í því sambandi mið af stefnu félagsins á hendur Þ ehf. til greiðslu eftirstöðva sölureikningsins. Sem fyrr segir hefur gjaldandi ekki látið málið til sín taka fyrir yfirskattanefnd og hafa því engar frekari athugasemdir komið fram af hálfu gjaldanda um þennan þátt rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins. Þykja gögn málsins ekki gefa tilefni til annars en að byggja á því að virðisaukaskattur, sem gjaldanda bar að standa skil á vegna X ehf., hafi numið þeirri fjárhæð sem greinir í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins telst hafa verið leitt í ljós að innsendar virðisaukaskattsskýrslur X ehf. vegna uppgjörstímabilanna maí-júní og september-október 2014 og mars-apríl og september-október 2015 hafi verið rangar og að ekki voru gerð skil á virðisaukaskatti félagsins í samræmi við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988. Nemur fjárhæð vangoldins virðisaukaskatts samkvæmt framansögðu 2.106.963 kr. Gjaldandi bar sem daglegur stjórnandi og fyrirsvarsmaður X ehf. ábyrgð á því að rétt skil væru gerð á virðisaukaskattsskýrslum félagsins og virðisaukaskatti. Með stoð í gögnum málsins, m.a. framburði gjaldanda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, þykir því fullsannað að gjaldandi hafi með saknæmum hætti vanrækt greinda skyldu sína. Af þessum sökum ber að ákvarða gjaldanda sekt samkvæmt 6. mgr., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, vanrækt var greiðsla á eða endurgreidd var um of. Við ákvörðun sektar ber að taka tillit til álags samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 7.600.000 kr. til ríkissjóðs.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 7.600.000 kr. til ríkissjóðs.


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum