Yfirlýsing ársreikningaskrár vegna birtingar upplýsinga sbr. ákvæði 8. gr. flokkunarreglugerðar Evrópusambandsins

18.1.2024

Með lögum nr. 25/2023, um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar, voru ákvæði flokkunarreglugerðar Evrópusambandsins nr. 2020/852 (EU Taxonomy) og reglugerð nr. 2019/2088 (SFDR) innleidd í íslenskan rétt.

Ákvæði 8. gr. flokkunarreglugerðarinnar varðar upplýsinga sem fyrirtæki skulu birta í yfirliti yfir ófjárhagslegar upplýsingar sem skal fylgja með skýrslu stjórnar. Ákvæði framangreindrar 8. gr. flokkunarreglugerðarinnar eru nánar útfærð í framseldri reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/2178, sem öðlaðist gildi hér á landi með reglugerð ráðherra nr. 10/2024.

Notkun sniðmáta 

Ekki er hægt að gera kröfu til þess að íslensk fyrirtæki birti upplýsingar í samræmi við kröfur sem eru settar fram í reglugerðum, tilskipunum eða öðrum gerðum Evrópusambandsins sem ekki hafa verið innleiddar hér á landi og eru ekki hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þrátt fyrir það vill ársreikningaskrá benda á að birta þarf allar þær línur sem eiga að birtast samkvæmt viðeigandi sniðmáti sem finna má í viðaukum við framselda reglugerð (ESB) 2021/2178, burtséð frá því hvort vísað sé til gerða Evrópusambandsins sem ekki hafa verið innleiddar í íslenskan rétt. Í slíkum tilvikum þarf að vísa til skýringaliðar þar sem fram kemur að viðeigandi liður innihaldi tilvísun í gerð sem ekki hefur verið innleidd í íslenskan rétt og því sé ekki hægt að birta umræddar upplýsingar. Dæmi um slíkt er tilskipun 2010/31/ESB um orkunýtingu bygginga en Íslandi hefur tímabundna undanþágu frá gildissviði framangreindri tilskipun, að því gefnu að undanþágan taki til tilskipunarinnar í heild sinni.

Sérstök undanþága fyrirtækja á fjármálamarkaði

Ársreikningaskrá hefur fallist á að veita fyrirtækjum á fjármálamarkaði takmarkaða undanþágu frá birtingu upplýsinga í viðeigandi sniðmátum fyrir fjármálafyrirtæki að því marki sem ekki eru til staðar viðeigandi og/eða áreiðanlegar upplýsingar. Í slíkum tilvikum skal setja athugasemd við viðeigandi sniðmát. Dæmi um slíkt eru upplýsingar sem afleiddar eru úr ársreikningum fyrirtækja og lúta að lánasöfnum lánastofnana.


Áskrift að IFRS tilkynningum

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum