Álagningarseðill og forsendur 2014

Á þessari síðu er að finna forsendur fyrir álagningu þeirra gjalda sem ríkisskattstjóri leggur á samkvæmt framtölum manna sem ekki stunda atvinnurekstur. Einnig forsendur fyrir ákvörðum barnabóta og vaxtabóta.

Í kaflanum Álagningarseðillinn eru skýrðar þær reglur sem gilda um uppgjör, skuldajöfnun, innheimtu og útborganir.

Forsendur fyrir álagningu tryggingagjalds, vegna eigin rekstrar, er að finna á sams konar síðu fyrir atvinnurekstur.

Forsendur álagningar

Tekjuskattsstofn

Tekjuskattsstofn er ákvarðaður samkvæmt framtali, þ.e. laun, bætur, lífeyrir, styrkir, hlunnindi og aðrar skattskyldar greiðslur, að teknu tilliti til frádráttar samkvæmt kafla 2.6 á framtali. Helstu frádráttarliðir eru iðgjald í lífeyrissjóð, frádráttur á móti dagpeningum og ökutækjastyrk og frádrættir á móti öðrum styrkjum. Ívilnun veitt af ríkisskattstjóra kemur einnig til lækkunar. Skattlagning tekna sem aflað er erlendis er mismunandi eftir löndum og ákvæðum tvísköttunarsamninga.

Útsvar er einnig lagt á tekjuskattsstofn.

Arður sem telst til launa

Arður er að jafnaði skattlagður sem fjármagnstekjur. Á því er þó þessi undantekning:

Hjá þeim sem skylt er að reikna sér endurgjald skal telja til launa 50% af arðsúthlutun að því marki sem hún er samtals umfram 20% af skattalegu bókfærðu eigin fé félagsins í lok viðmiðunarárs. Tekjurnar mynda hvorki stofn til tryggingagjalds né lífeyrisiðgjalds og teljast ekki til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar hjá greiðanda.

Arður sem telst til launa er skattlagður í miðþrepi, þ.e. ber 25,8% tekjuskatt auk útsvars.

Um skattskyldar tekjur einstaklinga er fjallað í 7. grein laga nr. 90/2003 (linkur) og um frádrátt frá tekjum er fjallað í 30. grein sömu laga.

Tekjuskattur og útsvar

Tekjuskattur

Álagning og uppgjör tekjuskatts og útsvars fer fram í lok júlí ár hvert. Tekjuskattur er á bilinu 22,9% - 31,8% af tekjuskattsstofni.

22,9% af stofni að 2.897.702 kr.
25,8% af stofni 2.897.703-8.874.108 kr. 
31,8% af stofni yfir 8.874.108 kr. 

Sé tekjuskattsstofn annars samskattaðs aðila hærri en 8.874.108 kr. skal það sem umfram er skattlagt með 25,8% skatthlutfalli, allt að helmingi þeirrar fjárhæðar sem tekjuskattsstofn þess tekjulægri er undir 8.874.108 kr., þó reiknast 25,8% skatthlutfall aldrei af hærri fjárhæð en 2.988.203 kr. við þessar aðstæður.

Frá þannig reiknuðum tekjuskatti dregst persónuafsláttur og eftir atvikum sjómannaafsláttur.

Útsvar

Útsvar er reiknað af sama stofni og er hundraðshluti þess ákvarðaður af sveitarfélögum. Útsvarsstofn skiptist hlutfallslega eftir búsetu í hverju sveitarfélagi á árinu og ákvarðast útsvar í samræmi við það. Sundurliðaðar upplýsingar um skiptingu útsvars eftir sveitarfélögum er að finna á þjónustusíðunni á skattur.is. Meðalútsvar á tekjuárinu 2013 var 14,42%.

Ef persónuafsláttur gengur ekki allur til lækkunar tekjuskatts nýtist það sem umfram er til greiðslu útsvars.

Skatthlutfall barna

Af launatekjum barna, sem ekki hafa náð 16 ára aldri á tekjuárinu, er reiknaður 4% tekjuskattur og 2% útsvar af fjárhæð sem er umfram 100.745 kr. Börn eiga ekki rétt á persónuafslætti.

Dánarbú

Fyrir mann sem lést á tekjuárinu og lætur ekki eftir sig maka, er að jafnaði aðeins skilað hefðbundnu persónuframtali og reiknast þá persónuafsláttur til dánardags. Þó getur þurft að skila skattframtali dánarbús þegar tekjur falla til eftir andlátsdag, t.d. vegna rekstrar á kennitölu hins látna, eða ef dánarbúið á eignir (er óskipt) í árslok.

Ef skila þarf framtali á öðru ári eftir andlát er notað Skattframtal dánarbús, RSK 1.03. Álagning á dánarbúið fer þá eftir þeim reglum sem gilda um lögaðila og fer fram í lok október, um leið og lagt er á aðra lögaðila.

Fjármagnstekjuskattur

Stofn til skatts á fjármagnstekjur er vaxtatekjur, arður, leigutekjur og söluhagnaður, samkvæmt 3. kafla skattframtals. Lagður er 20% tekjuskattur á allar fjármagnstekjur ársins 2013.

Frítekjumark vegna vaxtatekna er 100 þús. kr. hjá einstaklingi en 200 þús. kr. hjá samsköttuðum. Frádráttur vegna leigutekna af íbúðarhúsnæði er 30% af leigutekjum. Beri maður leigukostnað vegna íbúðar til eigin nota á sama tíma og hann hefur leigutekjur af íbúðarhúsnæði í tímabundinni útleigu, má draga leigukostnað frá leigutekjum.

Hvorki útsvar né önnur gjöld eru lögð á fjármagnstekjur. Frá reiknuðum skatti á fjármagnstekjur dragast 20/37 af þeim persónuafslætti, sem ekki hefur verið nýttur með öðrum hætti.

Auðlegðarskattar

Auðlegðarskattur

Á nettóeign einhleypings umfram 75 milljónir kr. og að 150 milljónum kr. og nettóeign samskattaðra umfram 100 milljónir kr. og að 200 milljónum kr. er lagður 1,5% auðlegðarskattur.

Á nettóeign einhleypings umfram 150 milljónir kr. og nettóeign samskattaðra umfram 200 milljónir kr. er lagður 2% auðlegðarskattur.

Viðbótarauðlegðarskattur

Stofn til viðbótarauðlegðarskatts er mismunur á nafnverði og raunvirði hlutabréfa í eigu framteljanda í lok árs 2012.

Ef raunvirði bréfanna er hærra en það nafnverð sem talið var fram í framtali 2013, myndar mismunurinn stofn að því marki sem hann, að viðbættum auðlegðarskattsstofni fyrra árs, er umfram 75.000.000 kr. hjá einhleypingi eða 100.000.000 kr. hjá samsköttuðum og ber 1,5% skatt. Það sem er umfram 150.000.000 kr. hjá einhleypingi eða 200.000.000 kr. hjá samsköttuðum ber 2% skatt. Við útreikninginn er miðað við fjölskyldustöðuna skv. framtali 2013.

Önnur gjöld

Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra

Gjaldið er 9.911 kr. á hvern mann og lagt á þá sem eru með tekjuskattsstofn umfram 1.559.003 kr.

Undanþegnir gjaldinu eru þeir sem eru 70 ára og eldri í árslok 2013, svo og elli- og örorkulífeyrisþegar sem dvelja á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Útvarpsgjald

Gjaldið er 19.400 kr. á hvern mann og lagt á þá sem eru með tekjuskattsstofn umfram 1.559.003 kr.

Undanþegnir gjaldinu eru þeir sem eru 70 ára og eldri í árslok 2013, svo og elli- og örorkulífeyrisþegar sem dvelja á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Slysatrygging við heimilisstörf

Iðgjald vegna slysatryggingar við heimilisstörf er 450 kr. og er lagt á þá sem óska eftir slysatryggingu. Sjá um trygginguna á vef Sjúkratrygginga Íslands.

Skattafsláttur

Persónuafsláttur

Persónuafsláttur í álagningu 2014 er 581.820 kr.

Persónuafsláttur er fyrst dreginn frá reiknuðum tekjuskatti. Óráðstafaður persónuafsláttur gengur síðan til greiðslu á útsvari og þar á eftir til greiðslu auðlegðarskatts. Þegar um samskattaða einstaklinga er að ræða er þeim hluta persónuafsláttarins, sem enn er óráðstafað, bætt við persónuafslátt maka. Af því sem þá kann að vera óráðstafað ganga 20/37 til greiðslu skatts á fjármagnstekjur, en fellur að öðru leyti niður.

Sjómannaafsláttur

Sjómannaafsláttur á árinu 2013 var 246 kr. á dag. Sjómannaafsláttur er dreginn frá reiknuðum tekjuskatti á undan persónuafslætti. Hann getur mestur orðið jafnhár reiknuðum tekjuskatti af launum fyrir sjómannsstörf. Sjómannaafsláttur sem ekki nýtist á móti tekjuskatti fellur niður.

Vaxtabætur

Þeir sem greiða vaxtagjöld af lánum, sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, eiga rétt á vaxtabótum.

Vaxtagjöld til útreiknings vaxtabóta er sú fjárhæð sem lægst er af a), b) og c):

a.       Vaxtagjöld samkvæmt reit um 87 og/eða 166 á framtali.
b.      7% af eftirstöðvum skulda samkvæmt reit um 41, 45 eða 167 á framtali.
c.       Hámark vaxtagjalda. Hjá einhleypingi er það 800.000 kr., hjá einstæðu foreldri 1.000.000 kr. og hjá hjónum, sambúðarfólki eða pari í staðfestri samvist 1.200.000 kr.

Frá vaxtagjöldum samkvæmt framansögðu eru dregin 8,5% af tekjum. Hjá hjónum, sambúðarfólki eða pari í staðfestri samvist er miðað við samanlagðar tekjur beggja. Mismunurinn er vaxtabætur sem eru skertar hlutfallslega fari eignir að frádregnum skuldum fram úr:

 • 4.000.000 kr. hjá einhleypingi eða einstæðu foreldri uns þær falla niður við 60% hærri mörk eða 6.400.000 kr.
 • 6.500.000 kr. hjá hjónum, sambúðarfólki eða pari í staðfestri samvist uns þær falla niður við 60% hærri mörk eða 10.400.000 kr.

Hámark vaxtabóta fyrir einhleyping er 400.000 kr., fyrir einstætt foreldri 500.000 kr. og fyrir hjón, sambúðarfólk eða par í staðfestri samvist 600.000 kr.

Vaxtabætur sem eru lægri en 5.000 kr. á mann falla niður.

Fyrirfram ákvarðaðar vaxtabætur

Endanleg fjárhæð vaxtabóta er byggð á framtali og ákvörðuð við álagningu. Á innheimtuseðli hafa fyrirfram ákvarðaðar vaxtabætur verið dregnar frá endanlegri fjárhæð.

Fyrirfram ákvarðaðar vaxtabætur vegna vaxtagjalda á árinu 2014 koma ekki fram á álagningarseðli 2014.

Barnabætur

Barnabætur eru greiddar framfærendum barna innan 18 ára aldurs, sem heimilisföst eru hér á landi. Þær eru greiddar í fyrsta sinn árið eftir að barn fæðist og í síðasta sinn árið sem 18 ára aldri er náð.

Fjárhæðir barnabóta eru sem hér segir:

Hjón og sambúðarfólk:

Með fyrsta barni                                                       167.564   kr.
Með hverju barni umfram eitt                                   199.455   kr.

Einstæðir foreldrar:

Með fyrsta barni                                                       279.087   kr.
Með hverju barni umfram eitt                                   286.288   kr.

Barnabætur eru skertar með hliðsjón af tekjum framfæranda umfram 4.800.000 kr. hjá hjónum, sambúðarfólki eða pari í staðfestri samvist og 2.400.000 kr. hjá einstæðu foreldri. Skerðingin er 3% af tekjum umfram mörkin ef um er að ræða eitt barn, 5% ef þau eru tvö og 7% ef þau eru þrjú eða fleiri.

Viðbót vegna barna yngri en 7 ára

Með hverju barni yngra en 7 ára eru að auki greiddar 100.000 kr. Skerðingarhlutfall vegna viðbótarinnar eru 3% með hverju barni.

Barnabótum er aðeins skuldajafnað á móti ofgreiddum barnabótum.

Barnabætur sem eru lægri en 2.000 kr. á hvern framfæranda falla niður.

Fyrirfram ákvarðaðar barnabætur

Endanleg fjárhæð barnabóta er byggð á framtali og ákvörðuð við álagningu. Á innheimtuseðli hafa fyrirfram ákvarðaðar barnabætur verið dregnar frá endanlegri fjárhæð.

Álagningarseðillinn

Skattseðillinn, sem gjaldendur fá að lokinni álagningu, er tvískiptur.

 • Álagningarseðill, sem sýnir gjaldstofna og álögð gjöld.
 • Innheimtuseðill, sem sýnir greiðslustöðu og yfirlit greiddrar staðgreiðslu.

Staðgreiðsluyfirlit

Á innheimtuseðli eru birtar upplýsingar um innborgaða staðgreiðslu, sundurliðað eftir launagreiðendum. Ef upplýsingum ber ekki saman við launaseðla er launamönnum bent á að snúa sér til launagreiðanda varðandi leiðréttingu. Sé afdregin staðgreiðsla ekki leiðrétt þannig, geta menn snúið sér til ríkisskattstjóra með umsókn um leiðréttingu. Afrit af launaseðlum þurfa að fylgja slíkri umsókn.

Gjöld í staðgreiðslu

Staðgreiðsla er bráðabirgðagreiðsla opinberra gjalda á tekjuári. Við uppgjör staðgreiðslu á móti álögðum tekjuskatti og útsvari getur komið fram mismunur, þ. e. inneign eða skuld. Sama gildir um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og staðgreiðslu tryggingagjalds og fjársýsluskatts.

Af launum og öðrum staðgreiðsluskyldum tekjum var á árinu 2013 reiknuð 37,32%, 40,22% eða 46,22% staðgreiðsla, sem fer eftir því í hvaða tekjuskattsþrepi tekjurnar lenda, en útsvar í staðgreiðslu var miðað við landsmeðaltal (14,42%). Í álagningu er útsvar mismunandi eftir sveitarfélögum.

Af arði og staðgreiðsluskyldum vaxtatekjum var reiknuð 20% staðgreiðsla vegna skatts á fjármagnstekjur 2013.

Það sem myndar inneign

Þegar gjaldandi á inneign til útborgunar, eftir álagningu, stafar það oftast af ákvörðun vaxtabóta og barnabóta. Inneign getur einnig myndast vegna ofgreiddrar staðgreiðslu. Það sem helst getur orsakað það er:

 • Persónuafsláttur hefur ekki verið nýttur við staðgreiðslu.
 • Ríkisskattstjóri hefur veitt ívilnun til lækkunar á tekjuskattsstofni.
 • Staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts sem greidd hefur verið af vaxtatekjum undir frítekjumarki vaxtatekna.
 • Frádráttur er færður á skattframtal vegna ökutækjastyrks og dagpeninga sem staðgreiðsla hefur verið greidd af.
 • Iðgjöld vegna viðbótar lífeyrissparnaðar hafa ekki verið dregin frá stofni til útreiknings staðgreiðslu, en koma til frádráttar við álagningu.
 • Útsvar í sveitarfélagi framteljanda er lægra en landsmeðaltal (14,42%).
 • Ofgreitt tryggingagjald eða fjársýsluskattur.

Það sem myndar skuld

Þegar gjaldandi stendur í skuld, eftir álagningu, eru það einkum 4 þættir sem skýra skuldina.

Í fyrsta lagi stafar hún af gjöldum sem lögð eru á hann og standa utan við staðgreiðslukerfið. Gjöldin eru þessi:

 • Útvarpsgjald.
 • Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra.
 • Slysatrygging vegna heimilisstarfa.
 • Auðlegðarskattar
 • Búnaðargjald.
 • Tryggingagjald og fjársýsluskattur utan staðgreiðslu.

Í öðru lagi getur skuld myndast ef fyrirfram ákvarðaðar barnabætur eða vaxtabætur reynast hærri en endanlega ákvarðaðar bætur.

Í þriðja lagi getur skuld myndast þegar afdregin staðgreiðsla er lægri en endanleg álögð gjöld, en það gerist í neðangreindum tilvikum:

 • Útsvar í sveitarfélagi framteljanda er hærra en landsmeðaltal (14,42%).
 • Persónuafsláttur hefur verið ofnýttur við staðgreiðslu.
 • Launagreiðandi hefur ekki staðið skil á afdreginni staðgreiðslu.
 • Fjármagnstekjuskatti hefur ekki verið skilað af öllum arði og vaxtatekjum.
 • Tryggingagjald eða fjársýsluskattur hefur verið vanreiknað í staðgreiðslu.

Í fjórða lagi getur skuld myndast vegna skattskyldra tekna, sem ekki var skylt að skila staðgreiðslu af, sem t.d. eru:

 • Leigutekjur.
 • Söluhagnaður.
 • Hagnaðar af eigin atvinnurekstri. 

Skuldajöfnuður – ráðstöfun inneigna

Mismunandi reglur gilda um ráðstöfun inneigna á móti skuldum, eftir því hvort um er að ræða skatta eða bætur.

Ráðstöfun staðgreiðslu og ofgreiddrar fyrirframgreiðslu

Hjá hjónum og samsköttuðu sambúðarfólki er ofgreiddri staðgreiðslu fyrst ráðstafað til greiðslu á ógreiddu útsvari og tekjuskatti maka vegna álagningarársins.

Síðan er ofgreiddri staðgreiðslu og ofgreiddri fyrirframgreiðslu búnaðargjalds ráðstafað til greiðslu á:

 • Eldri þing- og sveitarsjóðsgjöldum.
 • Álögðum gjöldum ársins sem gjaldfalla 1. ágúst eða fyrr.
 • Eftirstöðvum tryggingagjalds og vanskilum á staðgreiðslu.
 • Eldri þing- og sveitarsjóðsgjöldum maka.
 • Öðrum gjaldföllnum sköttum.
 • Öðrum sköttum og gjöldum.

Ofgreiddri staðgreiðslu er ráðstafað upp í ofgreiddar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði og ofgreiddar húsaleigubætur frá sveitarfélögum.

Ráðstöfun barnabóta og vaxtabóta

Frá vaxtabótum og barnabótum eru dregnar fyrirfram ákvarðaðar vaxtabætur og barnabætur. Barnabótum, sem þá standa eftir, er ráðstafað á móti ofgreiddum barnabótum og skipt á tvo gjalddaga, 1. ágúst og 1. nóvember. Vaxtabætur koma til útborgunar 1. ágúst. Vaxtabótum sem koma til útborgunar 1. ágúst er ráðstafað til greiðslu á:

 • Eldri þing- og sveitarsjóðsgjöldum.
 • Álögðum gjöldum ársins sem gjaldfalla 1. ágúst eða fyrr.
 • Eftirstöðvum tryggingagjalds.
 • Kröfum að utan.
 • Vangreiddum þing- og sveitarsjóðsgjöldum maka.
 • Virðisaukaskatti og bifreiðagjöldum.
 • Ofgreiddum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og Atvinnuleysistryggingasjóði.
 • Ofgreiddum húsaleigubótum frá sveitarfélögum.
 • Vangreiddum meðlögum hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga. 

Inneignarvextir, álag og dráttarvextir

Á mismun staðgreiðslu og álagningar er reiknað 2,5% álag. Gildir það bæði um inneignir vegna ofgreiddrar staðgreiðslu og um skuldir vegna ógreidds tekjuskatts, útsvars og skatts á fjármagnstekjur.

Á mismun (skuld) staðgreiðslu og álagningar tryggingagjalds og fjársýsluskatts reiknast dráttarvextir frá gjalddaga, sé greitt eftir eindaga hvers tímabils.

Á ofgreidda staðgreiðslu tryggingagjalds og fjársýsluskatts eru reiknaðir inneignarvextir. 

Inneign, gjalddagar, kærufrestur

Ríkisskattstjóri veitir nánari upplýsingar um álagningu opinberra gjalda og staðgreiðsluskil.

Innheimtumenn ríkissjóðs, sýslumenn utan Reykjavíkur og Tollstjóri, veita nánari upplýsingar um greiðslustöðu, útborgun inneigna og innheimtu skulda.

Inneign 1. ágúst

Inneign er ekki send í ávísun. Lagt er inn á bankareikning gjaldanda ef upplýsingar um reikning eru fyrir hendi hjá skattyfirvöldum, innheimtumanni, ráðstöfunarskrá banka og sparisjóða eða launaskrá Fjársýslu ríkisins. Aðrar inneignir eru greiddar út hjá innheimtumönnum ríkissjóðs. Upplýsingar um greiðslu inneigna koma fram á innheimtuseðli.

Inneign sem myndast að loknum skuldajöfnuði er greidd þannig:

 • Barnabætur eru greiddar út 1. ágúst og 1. nóvember.
 • Aðrar inneignir eru greiddar út 1. ágúst.

Inneign 1. ágúst er greidd út þrátt fyrir ógreidda álagningu ársins sem gjaldfellur 1. september og síðar.

Gjalddagar eftirstöðva

Eftirstöðvum álagðra gjalda (og fyrirframgreiðslu búnaðargjalds) er jafnað á fimm gjalddaga, 1. ágúst - 1. desember. Þó er útvarpsgjaldi jafnað á þrjá gjalddaga, 1. ágúst, 1. september og 1. október. Gjalddagaskipting miðast þó við að ekki sé til innheimtu lægri fjárhæð en 2.000 kr. á hverjum gjalddaga.

Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, slysatryggingagjald vegna heimilisstarfa og ofgreiddar barnabætur, vaxtabætur og tryggingagjald/fjársýsluskattur utan staðgreiðslu gjaldfalla 1. ágúst.

Vangreiðsla á hluta gjalda veldur því að öll gjöld á gjaldárinu falla í eindaga mánuði eftir gjalddagann, þó ekki fyrr en mánuði eftir að álagningu er lokið.

Ógreiddur tekjuskattur af reiknuðu endurgjaldi manna, sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur, er fallinn í gjalddaga fyrir 1. ágúst. Sama gildir um ógreitt en staðgreiðsluskylt tryggingagjald/fjársýsluskatt og ógreidda fyrirframgreiðslu búnaðargjalds.

Innborgun gengur fyrst til lækkunar á elstu skuld.

Skyldur launagreiðanda

Launagreiðanda ber að halda eftir af launum starfsmanns fjárhæð, sem nægir til greiðslu opinberra gjalda hans, þó aldrei hærri fjárhæð að meðtalinni staðgreiðslu en sem nemur 75% af heildarlaunagreiðslu hverju sinni. Ágreining um afdrátt af launum má bera undir viðkomandi innheimtumann ríkissjóðs. Ákvörðun hans er kæranleg til fjármálaráðuneytis.

Greiðsluseðlar

Ef fjárhæð (skuld) á gjalddaga er 2.000 kr. eða hærri eru greiðsluseðlar sendir gjaldendum vegna hvers gjalddaga 1. ágúst - 1. desember. Greiðsluseðlar eru sendir til þeirra gjaldenda sem ekki eru merktir ákveðnum launagreiðendum hjá innheimtumönnum ríkissjóðs.

Kærufrestur

Frestur til að kæra álagningu opinberra gjalda, þ.m.t. tryggingagjalds, er 30 dagar talið frá dagsetningu auglýsingar ríkisskattstjóra um að álagningu sé lokið. Unnt er að senda kæru rafrænt á þjónustusíðu, skattur.is.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum