Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 001/2013

1.6.2013

Rökstutt álit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA)

10. apríl 2013
T-ákv. 13-001

I.
Almennt

Ríkisskattstjóri vísar til fréttatilkynningar frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sem dagsett er þann 11. apríl 2014 þar sem segir:

Ísland verður að heimila starfsmannaleigum frá öðrum EES-ríkjum að veita þjónustu sína hér á landi án þess að setja það skilyrði að þær verði að stofnsetja sig á Íslandi. Þetta er niðurstaða rökstudds álits Eftirlitsstofnunar EFTA.“

Síðar í segir í fréttatilkynningunni:

ESA telur að málið geti verið leyst með því að innleiða tilkynningarkerfi í stað skilyrðis um stofnsetningu en slíkt kerfi myndi mæta þörfum skattyfirvalda varðandi upplýsingar um erlenda launagreiðendur, starfsmenn þeirra og innheimtu skatta.“

Rökstudda álitið telst lokaaðvörun til Íslands, sem fær tvo mánuði til að gera viðeigandi ráðstafanir. Af framangreindu tilefni ritaði  fjármála- og efnahagsráðuneytið ríkisskattstjóra bréf, sem dagsett er þann 17. apríl 2013, þar sem beint er eftirfarandi tilmælum til ríkisskattstjóra:

Beinir ráðuneytið þeim tilmælum til embættis ríkisskattstjóra að gerðar verði ráðstafanir sem miða að því að tryggja það að erlendar starfsmannaleigur geti staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda án þess að stofnsetja sig hér á landi. Í því samhengi mætti kanna þann möguleika að skrá erlendu starfsmannaleigurnar á utangarðsskrá fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra. Þá þykir rétt að taka til skoðunar þá tillögu ESA að innleiða tilkynningarkerfi í stað skilyrðis um stofnsetningu en ESA telur að slíkt kerfi myndi mæta þörfum skattyfirvalda varðandi upplýsingar um erlenda launagreiðendur, starfsmenn þeirra og innheimtu skatta. Ráðuneytið vill með bréfi þessu kanna afstöðu ríkisskattstjóra til þess hvort til greina komi að kynna breytta framkvæmd með ákvarðandi bréfi. Æskilegt er að einhver niðurstaða varðandi framkvæmd liggi fyrir áður en til árlegs fundar með ESA kemur.“

II.
Heimild til að starfrækja starfsmannaleigu

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 139/2005, um starfsmannaleigur, með síðari breytingum skal hver sá sem vill veita starfsmannaleiguþjónustu hér á landi tilkynna um það til Vinnumálastofnunar, sem halda skal skrá yfir þá sem hafa tilkynnt sig. Þá segir að lögunum að í tilkynningu til Vinnumálastofnunar skuli koma fram nafn fyrirtækis, kennitala og heimilisfang ásamt nafni fyrirsvarsmanns þess, kennitala hans og heimilisfang. Hafi starfsmannaleigan aftur á móti staðfestu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða í EFTA-ríki skuli koma fram upplýsingar um staðfestu fyrirtækis í heimaríki og nafn fyrirsvarsmanns fyrirtækis, heimilisfang í heimaríki og virðisaukaskattsnúmer eða önnur sambærileg heimild um starfsemina sem sýni fram á að fyrirtækið starfi löglega sem starfsmannaleiga í heimaríkinu samkvæmt lögum þess ríkis. Þá er tekið fram að starfsmannaleigum sem ekki hafi staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu eða í EFTA-ríki sé óheimilt að veita hér þjónustu án staðfestu nema samningar sem Ísland á aðild að heimili slíkt.

Samkvæmt framangreindu er ekki gerð krafa um staðfestu hér á landi eigi starfsmannaleiga heimilisfesti innan Evrópska efnahagssvæðisins eða í EFTA-ríki.

III.
Skráning í fyrirtækjaskrá

Samkvæmt lögum nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá, skal halda skrá; fyrirtækjaskrá um einstaklinga, félög og aðra aðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi hér á landi. Ríkisskattstjóri starfrækir fyrirtækjaskrá og annast útgáfu á kennitölum til annarra en einstaklinga.

Í skýringu við 2. gr., laganna, sem tiltekur hvaða aðila skuli skrá segir:

Í 2. gr. er kveðið á um hvaða fyrirtæki og aðila eigi að skrá í fyrirtækjaskrá. Megináherslan er lögð á að grunnupplýsingum sé safnað saman og þeim viðhaldið um þá aðila er stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi ásamt þeim sem hafa með höndum opinbera umsýslu, þannig að upplýsingar þessar séu aðgengilegar fyrir almenning, viðskiptalífið og stjórnvöld.“

Í 5. gr. laganna er kveðið á um tilkynningarskyldu þeirra aðila, sem falla undir 2. gr. eða óska skráningar eða ríkisskattstjóri telur ástæðu til færa í fyrirtækjaskrá, sbr. 5. tölul. 2. gr.

Meginreglan er sú að alla atvinnustarfsemi skuli skrá, en meginmarkmiðið með skráningu og flokkun atvinnustarfsemi er að auðvelda opinbera hagskýrslugerð og að unnt sé að framfylgja því eftirliti, sem öll starfsemi í landinu skal hlíta með einum eða öðrum hætti.

Fyrirkomulag skráningar ræðst m.a. af því, hvort skrá skuli starfsemi á kennitölu einstaklings eða félags. Skráning verður þannig ekki framkvæmd, nema sá sem færa skal á skrána hafi fyrir kennitölu, þ.e. einkvæmt auðkennisnúmer, eða hún verði sérstaklega gefin út á grundvelli stofnunar félags eða annars skráningartilefnis. Kennitala, þ.e. einkvæmt auðkennisnúmer hins skráða, er síðan forsenda fyrir skráningu þeirrar starfsemi sem rekin er í nafni hins skráða í aðrar skrár, s.s. launagreiðendaskrá, virðisaukaskattskrá og aðrar þær skrár sem varða skattlagningu eða opinbert eftirlit með starfsemi viðkomandi einstaklinga eða lögaðila.

Svo sem fram hefur komið heimilast starfsmannaleigum, sem hafa staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu eða í EFTA- ríki að reka hér á landi starfsmannaleigu, enda hafi verið sýnt fram á með fullnægjandi hætti að grundvallarskilyrði séu uppfyllt, þ.e. staðfesta og starfræksla starfsmannaleigu í heimaríki. Í 4. mgr. 2. gr. laga nr. 139/2005 kemur fram að öðrum en þeim sem eru á skrá hjá Vinnumálastofnun sé óheimilt að veita starfsmannaleiguþjónustu hér á landi.

Samkvæmt 9. gr. síðast tilvitnaðra laga skal Vinnumálastofnun hafa eftirlit með framkvæmd laganna og eru ákvarðanir stofnunarinnar kæranlegar til ráðuneytis. Í 4. mgr. 4. gr. kemur fram að Vinnumálastofnun sé heimilt að afhenda viðeigandi stjórnvöldum, einkum skattyfirvöldum, o.fl. upplýsingar, skv. 1.-4. tölul. 1. mgr. og 3. mgr. 4. gr.

Samkvæmt framansögðu er forsenda skráningar starfsmannaleigu í fyrirtækjaskrá og útgáfa kennitölu sú að Vinnumálastofnun hafi fallist á skráningu viðkomandi einstakling eða lögaðila, skv. 2. gr. laga 139/2005.

Að uppfylltu framangreindu skilyrði yrði starfsmannaleiga skráð á grundvelli 5. tölul. 2. gr. laga nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá, þ.e. ekki á opinbera skrá heldur aukaskrá, þar sem hvorki væri um að ræða stofnsetningu, né skráningu dótturfélags eða útibús erlends hlutafélags vegna starfsemi hér á landi, enda væri einungis um að ræða tímabundna þjónustu, sem veitt væri frá starfstöð starfsmannaleigu, sem hefur staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu eða í EFTA- ríki.

Í 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá koma fram þau atriði sem skrá skal og eru þau eftirfarandi:

  1. Heiti
  2. Kennitölu
  3. Heimilisfang
  4. Rekstrar- eða félagsform
  5. Stofndag
  6. Nafn, lögheimili og kennitölu forráðamanna
  7. Atvinnugreinanúmer skv. atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands
  8. Slit félags
  9. Önnur þau atriði sem skylt er að skrá um starfsemi félaga og fyrirtækja skv. lögum eða nauðsynlegt eða hagkvæmt þykir að skrá vegna hagsmuna opinberra aðila eða miðlunar upplýsinga til opinberra aðila, fyrirtækja og almennings.        

IV.
Niðurstaða

Samkvæmt framansögðu geta erlendar starfsmannaleigur sem hafa staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu, í EFTA-ríki eða á Færeyjum fengið útgefna kennitölu hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra að uppfylltu því skilyrði að Vinnumálastofnun hafi fallist á skráningu viðkomandi starfsmannaleigu skv. lögum nr. 139/2005, um starfsmannaleigur.  Þá þurfa allar upplýsingar sem kveðið er á um í 1.-7. og 9. tölul. 4. gr. laga nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá, að liggja fyrir.

Þegar kennitala hefur verið gefin út sbr. framangreint getur viðkomandi starfsmannaleiga skráð sig á launagreiðendaskrá í samræmi við ákvæði 19. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

 

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum