Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 002/2011

21.1.2011

Skattlagning arðs sem er umfram 20% af skattalegu bókfærðu eigin fé

21. janúar 2011 T-Ákv. 11-002

Ríkisskattstjóri vísar til fyrirspurnar yðar, dags. 7. desember 2010, er varðar túlkun á ákvæðum tekjuskattslaga nr 90/2003, að því er varðar arðgreiðslur. Fram kemur að umbjóðandi fyrirspyrjanda hyggist láta af störfum í árslok 2010 sem framkvæmdastjóri í hlutafélagi þar sem hann hefur stöðu ráðandi aðila. Viðkomandi félagi hafi vegnað ágætlega og megi vænta þess að greiddur verði út arður á árinu 2011. Þegar ákvörðun um arðsúthlutun verði tekin verði umbjóðandi fyrirspyrjanda ekki starfandi fyrir félagið. Hann muni þó hugsanlega setjast í stjórn félagsins. Þá segir:

„Af stöðu viðkomandi einstaklings eftir ofangreind starfslok verður því ekki séð að honum beri að reikna sér til tekna sem laun, skv. 1. tl. A-liðar 7. gr. TE, 50% af heimiluðum úthlutuðum arði, ef arðsúthlutun félagsins, samkvæmt ákvörðun aðalfundar 2011, verður samtals umfram 20% af skattalegu bókfærðu eigin fé þess í árslok viðmiðunarárs, sbr. 11. gr. laga nr. 90/2003 um tekju- og eignarskatt (sic).“

Óskað er eftir viðhorfi ríkisskattstjóra til framangreindrar túlkunar.

Í tilefni af fyrirspurn tekur ríkisskattstjóri eftirfarandi fram:

Tilvitnaðri reglu 11. gr. var bætt við lögin með 3. gr. laga nr. 128/2009, um tekjuöflun ríkisins. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 128/2009 kemur m.a. fram að því er varðar umrædda breytingu að mikil fjölgun hafi orðið á einkahlutafélögum á undanförnum árum. Brögð hafi verið að því að launagreiðslum til ráðandi aðila hafi verið haldið í lágmarki á sama tíma og greiddur hafi verið verulegur arður úr félögunum. Þessi aðferð við úttekt úr rekstri hafi skapað óeðlilegt misræmi í skattlagningu heildartekna á milli rekstrarforma svo sem nánar er rakið. Af þessum sökum sé lögð til einföld breyting á skattlagningu á úthlutuðum heimilum arði ef úthlutunin fari yfir tiltekin mörk, þ.e. samtals yfir 20% af skattalegu bókfærðu eigin fé viðkomandi félags. Við þær aðstæður teljist það sem umfram er til helminga sem laun og arður, þegar móttakandi hans beri stöðu sinnar vegna að reikna sér endurgjald í samræmi við 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr., sbr. 58. gr. laga nr. 90/2003.

Við beitingu á framangreindu ákvæði verður, að mati ríkisskattstjóra, að líta til tilgangs þess og þeirra aðstæðna sem því er ætlað að bregðast við. Leiðir það m.a. til þess að líta ber heildstætt á atvik máls hverju sinni. Í ákvæðinu kemur fram að úrslitum ráði hvort aðila ber skylda til að reikna sér endurgjald. Í engu er vikið að því sérstaklega hvort eingöngu sé gerð krafa um að sú skylda sé fyrir hendi þegar ákvörðun um arðsúthlutun er tekin, hvorki í ákvæðinu sem slíku né í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 128/2009. Sé litið til tilgangs með reglunni eins og honum er líst skv. framansögðu, er að mati ríkisskattstjóra, ljóst að ekki nægir að líta einungis til þess tímamarks sem ákvörðun um úthlutun er tekin, heldur beri að líta heildstætt á stöðu hlutaðeigandi manns á því ári, en ekki verður lesið úr ákvæðinu að jafnframt beri að líta til þess tíma sem arðsúthlutun miðast við, þ.e. undanfarandi ár. Af framansögðu leiðir að sé skylda til að reikna sér endurgjald fyrir hendi innan þess árs sem ákvörðun um úthlutun er tekin verður að leiða að því líkum að reglan í 3. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, eigi almennt við.

Við ákvörðun þess hvort manni sem situr í stjórn félags í sinni eigu ber að reikna sér endurgjald ber að leggja mat á það hvort hann teljist vinna við reksturinn í skilningi 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 4. mgr. 58. gr. laganna. Á það ber að líta að félagsstjórn og framkvæmdastjóri fara saman með stjórn félags og bera báðir aðilar ábyrgð á rekstrinum. Reglur löggjafar um hlutafélög endurspegla það mikilvæga hlutverk sem felst í starfi þeirra sem sitja í stjórnum félaga. Þó verður ekki framhjá því litið að í einhverjum tilvikum sitja menn í stjórn félags án þess að fara með stjórn félagsins í raun eða koma að ákvarðanatöku um daglegan rekstur að öðru leyti þrátt fyrir þá ábyrgð sem á þeim hvílir og ekki verður undan vikist. Við slíkar aðstæður verður ekki séð að skylda til að reikna sér endurgjald sé almennt fyrir hendi. Sé hlutaðeigandi hins vegar starfandi stjórnarmaður ber hann að telja sér til tekna eðlilegt endurgjald vegna þeirrar vinnu er hann innir af hendi fyrir félagið. Í framfærðum forsendum er í engu vikið að því hvernig málum er háttað að þessu leyti og því ekki unnt að svara því hvort um sé að ræða skyldu til að reikna endurgjald vegna stjórnarsetu viðkomandi og þar með hvort fara skuli með arðsúthlutun eftir ákvæði 3. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum