Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 002/2008

8.5.2008

Ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 - endurupptaka máls

8. maí 2008
T-Ákv. 08-002

Í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.) er kveðið á um að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Hafi mál verið kært til æðra stjórnvalds áður en óskað er eftir endurupptöku þess, ber lægra settu stjórnvaldi að vísa málinu frá. Hafi lægra sett stjórnvald aftur á móti fallist á endurupptöku máls þegar mál er kært til æðra stjórnvalds, ber því stjórnvaldi að vísa málinu frá.

Borið hefur á því að aðili máls (kærandi) hafi snúið sér til skattstjóra með ný gögn í kærufresti til yfirskattanefndar og skattstjóri framsent gögnin sem kæru til nefndarinnar. Afstaða yfirskattanefndar varðandi þessi tilvik er almennt sú að skattstjóra hafi verið rétt og skylt að líta á erindið sem endurupptökubeiðni á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. ssl., sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar nr. 225/2001, 277/2002, 372/2002, 42/2003 og 58/2006.

Skattstjóra ber í tilvikum sem þessum að taka afstöðu til beiðnar um endurupptöku sem til hans er beint og byggja endurákvörðun á þeim gögnum/upplýsingum sem frá gjaldanda koma. Réttur til endurupptöku samkvæmt 24. gr. ssl. er háður því að þær röngu eða ófullnægjandi upplýsingar eða gögn sem byggt var á, hafi haft þýðingu við ákvörðun málsins. Upplýsingar um atvik sem litlu eða engu máli skiptu við úrlausn þess nægja þannig ekki til þess að réttur til endurupptöku samkvæmt framangreindu ákvæði sé fyrir hendi.

Þá er rétt að taka fram að breytt atvik geta ennfremur leitt til þess að rétt sé að endurupptaka mál. Almennur frestur til að fara fram á endurupptöku er þrír mánuðir og verður lengstur eitt ár frá því að ákvörðun var tekin. Hægt er að víkja frá þessu tímamarki ef veigamiklar ástæður mæla með því.

Synji skattstjóri beiðni um endurupptöku úrskurðar hefur það í för með sér að úrskurðurinn stendur óhaggaður. Synjunin sem slík sætir ekki kæru. Er það óháð því hvort óskað er endurupptöku innan kærufrests eða eftir að kærufrestur til æðra stjórnvalds er liðinn. Þegar óskað er endurupptöku máls innan kærufrests rofnar kærufresturinn, sbr. 4. mgr. 27. gr. ssl. Synji skattstjóri beiðni um endurupptöku í kærufresti til yfirskattanefndar heldur sá kærufrestur áfram að líða en framlengist um umþóttunartíma þess skattstjóra sem endurupptökubeiðni var beint til, frá og með þeim tímapunkti sem sú ákvörðun er tilkynnt aðila.

Samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, getur ríkisskattstjóri breytt ákvörðun skattstjóra um skattstofn eða skattálagningu samkvæmt þeim lögum og öðrum lögum um skatta og gjöld. Í ákvæði þetta verður vart lagður sá skilningur að í því felist sjálfstæð heimild til að kæra ákvarðanir skattstjóra, hvort heldur synjun skattstjóra um endurupptöku máls eða efnisákvarðanir um skattstofn eða skattálagningu, heldur er um það að ræða að ríkisskattstjóra sé heimilt að eigin frumkvæði, eða samkvæmt beiðni aðila máls, að taka almennar ákvarðanir skattstjóra til endurskoðunar og eftir atvikum breyta þeim telji hann ástæðu til, sbr. þó ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Til áréttingar þykir mega benda á að ákvarðanir skattstjóra um skatta og gjöld eru kæranlegar til yfirskattanefndar og því á málsskot til ríkisskattstjóra ekki við og breytir það engu hér um, þótt brugðið hafi verið á þann millileik að óska eftir endurupptöku máls hjá þeim skattstjóra, sem stóð að hinni kæranlegu frumákvörðun.

Með bréfi þessu er bréf ríkisskattstjóra, dagsett 27. september 2007 (tilv. T-ákv. 00-23), fellt úr gildi.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum